Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 412  —  101. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um skráningu einstaklinga.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Þór Gunnsteinsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Hildi Valborgu Steinarsdóttur og Ævar Ísberg frá ríkisskattstjóra, Margréti Hauksdóttur, Ingu Helgu Sveinsdóttur og Björgu Finnbogadóttur frá Þjóðskrá Íslands, Vigdísi Häsler frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Heiðrúnu Björk Gísladóttir frá Samtökum atvinnulífsins og Hrafnhildi Arnkelsdóttur og Anton Örn Karlsson frá Hagstofu Íslands auk Helgu Þórhallsdóttur og Steinunnar Birnu Magnúsdóttur frá Persónuvernd.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Hagstofu Íslands, Hveragerðisbæ, Persónuvernd, Reykjavíkurborg, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Tryggingastofnun ríkisins og Þjóðskrá Íslands.
    Frumvarp þetta felur í sér tillögu að nýjum heildarlögum um skráningu einstaklinga og kemur í stað laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962. Frumvarpi þessu er sérstaklega ætlað að færa almannaskráningar í nútímalegt horf til samræmis við samfélags- og tæknibreytingar.

Persónuvernd (5. gr.).
    Í umsögn Persónuverndar um frumvarpið barst ábending þess efnis að Þjóðskrá Íslands hefði ekki málefnalegar ástæður til þess að vinna með upplýsingar um þjóðernislegan uppruna en eðlilegra væri að nota ríkisfang og fæðingarland. Meiri hlutinn tekur undir ábendinguna og leggur til að hugtakið þjóðerni falli brott úr upptalningu 5. gr. og í staðinn komi ríkisfang og fæðingarland. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að trúarbrögð falli brott úr 5. gr. og í stað þeirra komi skráning í trú- og lífsskoðunarfélög.
    Meiri hlutinn leggur til að fyrirsögn greinarinnar verði breytt í Vinnsla persónuupplýsinga í samræmi við umsögn Persónuverndar enda lýsi það betur innihaldi hennar.

Skráningarupplýsingar í þjóðskrá (6. gr.).
    Þjóðskrá Íslands benti á við meðferð málsins að þegar frumvarpið hefði verið unnið hefði horfið úr upptalningu í 1. mgr. 6. gr. að í þjóðskrá væru skráðar upplýsingar um fæðingarstað og tekur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið undir að rétt sé að bæta fæðingarstað við upptalninguna.
    Í 2. mgr. 6. gr. er kveðið á um heimild Þjóðskrár Íslands til að skrá aðrar upplýsingar en fram koma í frumvarpinu vegna sérstakra verkefna, hagsmuna hins opinbera eða alþjóðlegra skuldbindinga. Hagstofa Íslands bendir á að stofnunin sinni opinberri hagskýrslugerð sem sé gríðarlega mikilvæg fyrir marga þætti samfélagsins. Meiri hlutinn leggur því til í samræmi við umsögnina og afstöðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að við 2. mgr. 6. gr. verði bætt heimild til skráningar upplýsinga vegna hagskýrslugerðar.

Kerfiskennitala – sérstök skráning (11. gr.).
    Samband íslenskra sveitarfélaga benti á við meðferð málsins að í umfjöllun í greinargerð um 11. gr. frumvarpsins væru nefnd dæmi um opinbera aðila sem gætu haft milligöngu um skráningu kerfiskennitölu. Ekki væri getið um hlutverk sveitarfélaga sem að mati sambandsins teldust til opinberra stjórnvalda. Meiri hlutinn tekur undir með sambandinu og bendir á að sveitarfélög teljast til þeirra opinberu aðila sem taldir eru upp í 11. gr.
    Persónuvernd benti á í umsögn sinni að við setningu reglugerðar á grundvelli 11. gr. þyrfti að kveða skýrt á um hvaða persónuupplýsingar væru skráðar við útgáfu kerfiskennitölu. Meiri hlutinn tekur undir með Persónuvernd og hvetur til þess að við vinnslu reglugerðar verði gætt skýrleika, meðalhófs og þess að ekki séu skráðar frekari upplýsingar en nauðsynlegt er.

Miðlun þjóðskrár (12. gr.).
    Við meðferð málsins fjallaði nefndin um efni 12. gr. en nokkrir umsagnaraðilar bentu á nauðsyn þess að hafa heimild til ákveðinnar meðferðar upplýsinga úr þjóðskrá. Ríkisskattstjóri benti á að embættið byggði skattgrunnskrá sína á afriti af þjóðskrá sem fjallað er um í 5. mgr. 12. gr. Meiri hlutinn telur að reglugerðir þær sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 12. gr. um að Þjóðskrá Íslands geti miðlað eða veitt miðlurum leyfi til að annast miðlun þjóðskrár og veitt undanþágur frá banni við heildarafhendingu þjóðskrár séu fullnægjandi til þess að ríkisskattstjóri og aðrir opinberir aðilar geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Enn fremur mun fyrirhuguð reglugerð fara í opið samráð samkvæmt upplýsingum sem nefndinni bárust við meðferð málsins auk þess sem sérstaklega verður haft samráð við stóra hagsmunaaðila á borð við ríkisskattstjóra. Meiri hlutinn telur því ekki ástæðu til að geta sérstaklega um það í ákvæðinu hvaða aðilum verði heimilt að nota þjóðskrá á annan hátt en þar segir.
    Í samræmi við umsögn Persónuverndar telur meiri hlutinn að í ljósi þess eftirlitshlutverks sem Persónuvernd er falið í lögum verði Þjóðskrá Íslands ekki falið eftirlit með lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga á þann hátt sem gert er ráð fyrir í greinargerð með frumvarpinu. Meiri hlutinn áréttar að Þjóðskrá Íslands hefur eftirlit með miðlun þjóðskrár en Persónuvernd fer með eftirlit með því að skilyrði persónuverndar séu uppfyllt í samræmi við lögbundið hlutverk sitt. Meiri hlutinn telur því ekki ástæðu til að gera breytingar á þeim hluta 12. gr. sem kveður á um eftirlit með miðlun þjóðskrár.

Vernd skráðra einstaklinga gegn afhendingu upplýsinga (14. gr.).
    Ríkisskattstjóri benti á að æskilegt væri að þeir sem njóta verndar skv. 14. gr. yrðu sérstaklega merktir í skránni svo að hægt yrði að greina á milli þeirra og þeirra sem eru óstaðsettir í hús. Meiri hlutinn telur að sérstakar merkingar auki skilvirkni og falli vel að markmiðum um persónuvernd og hvetur til að slíkar merkingar verði viðhafðar.

Gjaldtaka, kostnaður og fjármögnun Þjóðskrár Íslands.
    Við meðferð málsins var allmikið fjallað um ákvæði um gjaldtöku, kostnað við rekstur og fjármögnun Þjóðskrár. Að því er snertir gjaldtökuheimild í 19. gr. bentu Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Samtök fjármálafyrirtækja á að nauðsynlegt væri að skýrt yrði hvernig tekjum í formi þjónustugjalda yrði ráðstafað. Nefndinni bárust ítarlegar upplýsingar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um þau sjónarmið sem höfð voru til hliðsjónar þegar gjaldtökuákvæðið var samið. Þar kom fram að stuðst hefði verið við sambærileg ákvæði annarra laga, lögskýringargögn, dóma Hæstaréttar og leiðbeiningar fjármála- og efnahagsráðuneytisins auk þess sem sérstök hliðsjón hefði verið höfð af gjaldtökuákvæði laga um Samgöngustofu sem Ríkisendurskoðun fjallaði um og taldi styðjast við skýrar forsendur. Meiri hlutinn telur ákvæði um gjaldtökuheimildir samræmast þeim kröfum sem gerðar eru um skýrleika slíkra ákvæða.
    Í 20. gr. frumvarpsins kemur fram að Þjóðskrá Íslands og Tryggingastofnun standi straum af árlegum kostnaði við rekstur þjóðskrár. Meiri hlutinn bendir á að aðrar ráðstafanir gætu hentað betur því að fyrirhugað er samkvæmt greinargerð með frumvarpinu að setja á fót vinnuhóp í því skyni að greina samfélagslegan ávinning af því að upplýsingar úr þjóðskrá og öðrum grunnskrám stofnunarinnar verði gjaldfrjálsar. Meiri hlutinn telur brýnt að gerð verði úttekt á því hvaða fyrirkomulag sé best til þess fallið að fjármagna stofnunina, þ.e. hvort fjármögnun skuli byggð eingöngu á fjárlögum, gjaldtöku eða hvoru tveggja. Þar sem slík úttekt hefur ekki farið fram telur meiri hlutinn ekki tímabært að gera breytingar á ákvæðum frumvarpsins er varða gjaldtöku og rekstur stofnunarinnar.
    Þá var við meðferð málsins nokkuð rætt um 3. mgr. 21. gr. sem kveður á um að sveitarfélög eigi rétt á gjaldfrjálsri íbúaskrá árlega. Sú gjaldtaka var sérstaklega rædd með hliðsjón af þeirri skyldu sem lögð er á sveitarfélög í 3. mgr. 17. gr. að yfirfara íbúaskrá sína eigi sjaldnar en þrisvar á ári. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið sveitarfélaganna um að þau skuli fá gjaldfrjáls eintök til að sinna lögbundnu hlutverki sínu og leggur það til.

Afhending upplýsinga til Hagstofu Íslands.
    Hagstofan lagði til í umsögn sinni að efni 3. málsl. 2. mgr. 21. gr. yrði útvíkkað á þann veg að símanúmerum og tölvupóstföngum yrði bætt við upptalninguna á þeim upplýsingum sem Þjóðskrá Íslands léti Hagstofunni í té um þátttakendur í úrtaksrannsóknum hennar. Í ljósi þess að Þjóðskrá Íslands safnar almennt ekki framangreindum upplýsingum þrátt fyrir að stundum séu þær skráðar leggur meiri hlutinn til að í ákvæðinu verði mælt fyrir um að Þjóðskrá Íslands skuli aðstoða Hagstofu Íslands eftir föngum við að finna upplýsingar um þátttakendur í úrtaksrannsóknum hennar enda eru upplýsingarnar skráðar í þjóðskrá. Meiri hlutinn telur að framangreind breyting stuðli að því að Hagstofa Íslands geti sem best sinnt hlutverki sínu án þess að kvaðir séu lagðar á Þjóðskrá Íslands sem stofnunin getur ekki uppfyllt.

Flutningur ákvæða úr lögum nr. 90/2018.
    Fram kom ábending frá Persónuvernd þess efnis að í lögum nr. 90/2018 væri kveðið á um ýmsar sérreglur um tiltekin svið, m.a. um bannskrá Þjóðskrár Íslands. Sum þessara ákvæða ættu frekar heima í sérlögum en hefðu þó verið höfð í lögum um persónuvernd meðan ekki var ljóst hvort þau yrðu fest annars staðar í lög í því skyni að koma í veg fyrir lagalegt tómarúm og lakari réttarvernd. Betur færi á því að sérákvæði sem þessi yrðu tiltekin í sérlögum á borð við lög um skráningu einstaklinga. Meiri hlutinn leggur því til í samráði við Persónuvernd að 2. og 3. mgr. 21. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga verði felldar úr lögunum og efni þeirra, eftir því sem við á, fært í 3. mgr. 15. gr. laga um skráningu einstaklinga.
    Þá leggur meiri hlutinn til að hugtakinu úrtaksaðili verði bætt við orðskýringar 4. gr. og að 2. mgr. 16. gr. verði felld brott þar sem hún er efnislega samhljóða g-lið 1. mgr. 19. gr. Loks eru lagðar til tæknilegar lagfæringar.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Andrés Ingi Jónsson, Guðmundur Andri Thorsson og Jón Steindór Valdimarsson skrifa undir nefndarálit þetta með fyrirvara um þá þætti frumvarpsins sem snúa að skráningu trúar- og lífsskoðana.

Alþingi, 5. nóvember 2019.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Andrés Ingi Jónsson,
með fyrirvara.
Anna Kolbrún Árnadóttir.
Birgir Ármannsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Guðmundur Andri Thorsson,
með fyrirvara.
Hjálmar Bogi Hafliðason. Jón Steindór Valdimarsson,
með fyrirvara.