Ferill 125. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 418  —  125. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, með síðari breytingum (gildissvið).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Eggert Þórðarson ríkisendurskoðanda og Guðrúnu Jenný Jónsdóttur frá Ríkisendurskoðun og Þórhall Vilhjálmsson og Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur frá skrifstofu Alþingis.
    Nefndinni bárust umsagnir frá endurskoðendaráði og Ríkisendurskoðun.
    Með samþykkt laga um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019, var gerð sú breyting að endurskoðun skyldi aðeins fara fram í endurskoðunarfyrirtækjum sem endurskoðendum varð skylt að stofna félag um. Í kjölfarið var velt upp því álitamáli hvort endurskoðendur sem starfa hjá Ríkisendurskoðun gætu sinnt endurskoðunarstörfum nema í gegnum félag sem Ríkisendurskoðun eða viðkomandi starfsmenn myndu reka. Frumvarp þetta miðar að því að taka af allan vafa um að ríkisendurskoðandi geti framfylgt lögbundnum skyldum sínum án þess að það sé gert í sérstöku félagi.
    Í umsögn endurskoðendaráðs kom fram að á endurskoðendum sem starfa hjá Ríkisendurskoðun hvíli skylda að starfa samkvæmt formlegu gæðakerfi, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga um endurskoðendur og endurskoðun. Benti endurskoðendaráð á að í ljósi ákvæða frumvarpsins væri ef til vill ástæða til að kveða sérstaklega á um það hver beri ábyrgð á gæðakerfi Ríkisendurskoðunar, en í 3. málsl. 1. mgr. 18. gr. laganna segir að stjórn endurskoðunarfyrirtækis skuli bera ábyrgð á gæðakerfinu.
    Að mati nefndarinnar er ekki þörf á að kveða sérstaklega á um hver beri ábyrgð á gæðakerfi Ríkisendurskoðunar en það er í höndum ríkisendurskoðanda að ábyrgjast þau gæðakerfi sem Ríkisendurskoðun starfar eftir, sbr. lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði  samþykkt óbreytt.

Alþingi, 6. nóvember 2019.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
form.
Þorsteinn Sæmundsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Brynjar Níelsson. Hjálmar Bogi Hafliðason. Jón Steindór Valdimarsson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Óli Björn Kárason. Þórarinn Ingi Pétursson.