Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 419  —  237. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ásmundur Friðriksson um þvagleggi.


     1.      Hvers vegna tóku Sjúkratryggingar Íslands þvagleggi af nýjustu gerð af lista yfir þá sem eru niðurgreiddir fyrir notendur?
    Í sameiginlegum útboðum á vegum hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala bjóða seljendur fjölda nýjustu gerða þvagleggja frá mismunandi framleiðendum. Útboð miða að því að ná samningum við þá seljendur sem bjóða þvagleggi sem best standast kröfur hvað varðar gæði, verð og eiginleika sem sóst er eftir hverju sinni. Þeir þvagleggir sem samið er um eru niðurgreiddir fyrir notendur. Þar sem ekki er vísað til ákveðinnar gerðar þvagleggja í spurningunni er ekki hægt að svara því hvaða ástæður réðu því að ekki var samið um viðkomandi þvagleggi. Tekið skal fram að Sjúkratryggingar Íslands bjóða nýjustu gerðir þvagleggja frá nokkrum seljendum.

     2.      Hversu margir hafa leyfi fyrir notkun þvagleggja og hversu margir þeirra notuðu leggi af nýjustu gerð áður en þeir voru teknir af lista Sjúkratrygginga?
    Hjálpartækjamiðstöð hefur nú samþykkt að niðurgreiða einnota þvagleggi fyrir 481 einstakling. Þar sem ekki kemur fram í seinni hluta spurningarinnar hvaða tegundar og seljanda vísað er til er ekki mögulegt að svara þeim hluta spurningarinnar. Með nýjum samningum geta notendur eins og áður valið milli nokkurra gerða frá mismunandi seljendum. Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. eru í boði þvagleggir af nýjustu gerð frá nokkrum seljendum.

     3.      Hversu margar beiðnir um undanþágu fyrir þessum leggjum hafa borist í ár og hversu margar hafa verið samþykktar?
    Ekki er mögulegt að veita svör vegna einstakra tegunda þvagleggja, sbr. það sem fram kemur í fyrri svörum. Sótt hefur verið um undanþágur vegna greiðsluþátttöku þvagleggja utan samninga fyrir 63 einstaklinga. Þegar hafa 43 þessara umsókna verið samþykktar og eru þvagleggir sem um ræðir frá fjórum seljendum. Afgreiðslu 20 umsókna hefur verið frestað meðan beðið er sérhæfðs mats frá göngudeild þvagfæra á Landspítala varðandi þörf fyrir undanþágu. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir verða umsóknirnar afgreiddar.

     4.      Voru notendur hafðir með í ráðum þegar ákveðið var hvaða úrval af þvagleggjum þyrfti að vera í boði?
    Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands og Landspítali stóðu sameiginlega að útboði þvagleggja og veitti sérhæft fagfólk á göngudeild þvagfæra á Landspítala ráðgjöf meðan á útboðsferli stóð. Telja forsvarsmenn hjálpartækjamiðstöðvar að þar sem viðkomandi fagfólk þekkir mjög vel vanda notenda þvagleggja sé þetta góð leið til að velja í samræmi við þarfir og væntingar þeirra. Nefnd sem í eiga sæti sérfræðingar í þvagfæravandamálum, þvagfæraskurðlæknar og sérhæfðir hjúkrunarfræðingar veitir ráðgjöf við endanlegt mat og val á þvagleggjum. Hjúkrunarfræðingar sem sæti eiga í nefndinni vinna náið með notendum og þekkja því vel þarfir og sjónarmið þeirra varðandi þvagleggi. Þegar seljendur bjóða nýja þvagleggi eru þeir prófaðir um nokkurn tíma á starfstöðvum sérfræðinga sem koma að valinu. Þannig eru ákvarðanir um val þvagleggja sem niðurgreiða skal byggðar á ítarlegu mati. Hjálpartækjamiðstöðin mun taka til skoðunar hvort ástæða sé til að kalla sérstaklega eftir sjónarmiðum notenda með beinum hætti í framtíðinni.

     5.      Hversu mikið hefur sparast með því að bjóða ekki lengur upp á þvagleggi af nýjustu gerð?
    Þar sem ekki er vísað til ákveðinnar gerðar þvagleggja hjá tilteknum seljanda er ekki hægt að svara fyrirspurninni út frá tiltekinni tegund. Útgjöld vegna þvagleggja lækkuðu um 20% frá fyrri samningum með gerð þeirra samninga sem nú eru í gildi. Samanburðartímabilið er janúar–ágúst 2018 og 2019. Samkvæmt upplýsingum frá hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands ræðst lækkunin af breytingum á eftirfarandi þáttum, vöruúrvali, magni, gengi, innkaupalandi og tilboðsverðum. Aftur er minnt á að í núgildandi samningum standa notendum til boða nýjustu gerðir af þvagleggjum frá nokkrum framleiðendum.