Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 420  —  232. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar.

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson og Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur frá skrifstofu Alþingis.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og Þjóðskjalasafni Íslands.
    Í umsögn Þjóðskjalasafns Íslands segir að útgáfa á dómum og skjölum Yfirréttarins sé mikilvægt skref í að gera heimildir þess dómstóls aðgengilegri en nú er. Skjöl Yfirréttarins geyma ekki eingöngu heimildir um réttarsögu landsins heldur einnig um sögu lands og þjóðar þar sem dómar Yfirréttarins endurspegla viðhorf og ástand landsmála um langt árabil. Nefndin tekur undir þetta sjónarmið og telur við hæfi að Alþingi minnist aldarafmælis Hæstaréttar Íslands í ljósi þess hlutverks sem Alþingi hefur gegnt í dómstólasögu landsins. Útgáfa á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi mun auðvelda rannsóknir á sögu landsins og heimildagildi slíks efnis er ótvírætt.
    Í umsögn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns er lagt til að í stað þess að gefa út dóma og skjöl Yfirréttarins á Íslandi á prenti, sé lagt til að gerður verði gagnagrunnur og vefsíða sem skuli vera opin öllum. Með því geti almenningur og rannsakendur auðveldlega nálgast efnið, leitað í því, lesið og prentað út ef þörf krefur. Nefndin tekur undir það sjónarmið að dómar og skjöl Yfirréttarins skuli einnig geymd í rafrænum tölvulæsilegum gagnagrunni sem verði handhægur og aðgengilegur öllum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði  samþykkt.

Alþingi, 6. nóvember 2019.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
form
Þorsteinn Sæmundsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Brynjar Níelsson. Hjálmar Bogi Hafliðason. Jón Steindór Valdimarsson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Óli Björn Kárason. Þórarinn Ingi Pétursson.