Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 425  —  360. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um menntagátt.


Flm.: Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Helgi Hrafn Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að setja á fót rafrænt umsóknarferli á sameiginlegu vefsvæði, svonefnda menntagátt, fyrir nám í ríkisreknum háskólum. Ráðherra feli starfshópi að útfæra menntagáttina með það að sjónarmiði að innan hennar hafi umsækjendur aðgengi upplýsingum um hvaða námsbrautir standi þeim til boða og þeim verði kleift að sækja um mismunandi námsbrautir eða skóla og raða umsóknum í forgangsröð. Þá kanni starfshópurinn hvort gera megi úrbætur á menntagátt fyrir framhaldsskóla og jafnframt hvernig best væri að útfæra sameiginlega menntagátt fyrir umsóknir um nám í framhalds- og háskóla. Mennta- og menningarmálaráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í september 2020.

Greinargerð.

    Tillögu þessari er fyrst og fremst ætlað að vera til hagræðingar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið, ríkisrekna háskóla, framhaldsskóla og nemendur. Núverandi kerfi býður upp á að umsækjendur geti sent margar umsóknir beint til háskólanna sem veldur því að erfitt er fyrir skólana að áætla nemendafjölda og gera ráðstafanir út frá fjölda. Jafnframt geta umsækjendur lent í því að komast ekki að í því námi sem þeir sóttu um og verða of seinir til að sækja um aðra námsbraut eða nám í öðrum skóla. Þá mundi menntagátt stuðla að gagnsæi þar sem hægt yrði að kynna sér framboð og eftirspurn í ákveðna skóla og námsbrautir.
    Rafræn umsóknarkerfi fyrir nám á framhalds- og háskólastigi eru í mismunandi myndum í nágrannalöndunum, m.a. í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Hollandi. Í Danmörku fara allar umsóknir um námsvist í framhalds- og háskóla í gegnum rafrænt umsóknarform á sameiginlegu vefsvæði. Umsækjendur þurfa að kynna sér skólana og þær námsbrautir sem þeir bjóða upp á áður en sótt er um en þær upplýsingar er að finna á sérstökum vef danska barna- og menntamálaráðuneytisins. Það er mat flutningsmanna að danska kerfið geti verið góð fyrirmynd að íslenskri menntagátt.
    Á vef Menntamálastofnunar er rafræn umsóknarsíða, þ.e. menntagátt, þar sem nemendur geta innritað sig í framhaldsskóla og raðað möguleikunum í forgangsröð. Þar er að finna upplýsingar um innritun í framhaldsskóla auk lista yfir skóla sem bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi. Hér er lagt til að starfshópnum verði falið að fara yfir það umsóknarferli í því tilliti að athuga hvort úrbóta sé þörf og einnig að útbúa svipað kerfi fyrir háskólana og leita leiða til að tengja þessi tvö kerfi saman.
    Þrátt fyrir að tilkoma menntagáttar mundi hafa í för með sér töluverðar breytingar á núverandi ferli umsókna í háskóla er það mat flutningsmanna að menntagátt yrði til mikilla hagsbóta. Menntagátt mundi auka yfirsýn nemenda yfir námsframboð sem og yfirsýn skóla yfir nemendafjölda sem mundi leiða til aukins fyrirsjáanleika og auðvelda þannig rekstur skólanna til muna.