Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 430  —  4. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, með síðari breytingum (skatthlutfall).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Ingu Torfadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Lárus Blöndal og Jón Gunnar Jónsson frá Bankasýslu ríkisins og Katrínu Júlíusdóttur og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bankasýslu ríkisins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins og Vilhjálmi Bjarnasyni.
    Samkvæmt gildandi lögum nemur sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki 0,376% af heildarskuldum skattskylds aðila umfram 50 milljarða kr. í lok tekjuárs. Með frumvarpinu er lagt til að skatthlutfallið lækki í 0,145% í fjórum skrefum þannig að skatthlutfallið verði 0,318% við álagningu árið 2021, 0,261% við álagningu 2022, 0,203% við álagningu 2023 og loks 0,145% við álagningu 2024 og síðar.
    Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út á síðasta ári voru sértækir skattar og gjöld á banka hér á landi borin saman við samsvarandi álögur í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Hollandi, Írlandi og Bretlandi. Samanburðurinn leiddi í ljós að sértækir skattar og gjöld eru mun hærri hér á landi en í nágrannalöndunum. Á Íslandi nema slíkar álögur 0,55% af meðalstöðu eigna að frádregnu eftirlitsgjaldi og gjaldi til umboðsmanns skuldara. Þetta hlutfall er á bilinu 0,05% til 0,11% í samanburðarlöndunum.
    Meiri hlutinn bendir á að verulegur munur á sértækum sköttum og opinberum gjöldum hefur neikvæð áhrif á samkeppnishæfni íslenskra fjármálafyrirtækja. Skert samkeppnisstaða íslenskra banka kemur fyrst og síðast við lítil og meðalstór fyrirtæki sem eiga þess ekki kost að leita fjármögnunar hjá erlendum bönkum eða afla áhættufjár á markaði. Þá skekkir sértæk skattheimta innbyrðis samkeppnisstöðu á íslenskum lánamarkaði þar sem aðeins hluti lánveitenda þarf að greiða skattinn.
    Eftirfarandi mynd er að finna á bls. 163 í hvítbókinni:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
    Í umfjöllun um skattinn sem nú er lagt er til að verði lækkaður er mikilvægt að horfa til þess að lagðir eru tveir aðrir sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki, annars vegar 5,5% fjársýsluskattur á launagreiðslur fjármálafyrirtækja og hins vegar 6% sérstakur fjársýsluskattur sem reiknast af hagnaði fjármálafyrirtækja umfram 1 milljarð kr.
    Eignarhald ríkisins á fjármálamarkaði hér á landi er það umfangsmesta í Evrópu og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stefnt sé að því að leita leiða til að draga úr eignarhaldinu. Þó sé ljóst að ríkissjóður verði leiðandi fjárfestir í a.m.k. einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.
    Í umsögn Bankasýslu ríkisins er vakin athygli á því hvaða áhrif óbreytt skattlagning hefur á verðmæti eignarhluta ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum en stofnunin hefur unnið að undirbúningi fyrir sölu á eignarhlutum ríkisins í samræmi við lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í umsögninni segir m.a.: „Meginreglur skv. lögunum við sölumeðferð eru opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni en með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Að mati stofnunarinnar er það mjög mikilvægt, út frá sjónarmiðum umsýslu- og eigandahlutverksins, að opinbert gjaldaumhverfi fjármálafyrirtækja sé stöðugt og fyrirsjáanlegt um töluverðan tíma. Miklar og örar breytingar á skattaumhverfi stuðla ekki að trausti og trúverðugleika fjármálamarkaðarins og geta haft neikvæð áhrif á eftirspurn og markaðsverð, sem íslenska ríkið getur mögulega fengið fyrir eignarhluti sína í fjármálafyrirtækjum, ef og þegar til sölu kemur.“
    Samkvæmt mati Bankasýslunnar mun verðmæti eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka aukast um nær 44 milljarða kr. ef sérstakur skattur verður lækkaður í 0,145% af heildarskuldum líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir, sbr. eftirfarandi mynd frá Bankasýslunni:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að unnið verði að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda. Ljóst er að heimili og fyrirtæki greiða a.m.k. stóran hluta sértæka bankaskattsins í formi hærri útlánavaxta og lægri innlánsvaxta. Meiri hlutinn leggur áherslu á að fylgt verði eftir að fyrirhuguð lækkun sérstaka bankaskattsins í þrepum skili sér í hagstæðari vaxtakjörum fyrirtækja og heimila, auki þar með ráðstöfunartekjur almennings og ýti undir fjárfestingu og nýsköpun.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 7. nóvember 2019.


Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson,
frsm.
Bryndís Haraldsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.