Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 435  —  101. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um skráningu einstaklinga.

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar telur að frumvarpið sé almennt til bóta og töluverð framför frá núgildandi lögum. Sérstaklega fagnar minni hlutinn tilkomu strangari og skýrari takmarkana um miðlun upplýsinga úr þjóðskrá. Þá er fyrirhuguðu fyrirkomulagi sérstaklega fagnað sem felur í sér rétt hins almenna borgara til að fá upplýsingar um hver flettir honum upp í þjóðskrá og hvenær, eins og lýst er í greinargerð.

Vernd skráðra einstaklinga.
    Minni hlutinn telur að fyrirkomulag þjóðskrár á Íslandi hafi frá upphafi verið vafasamt og hafi orðið enn vafasamara eftir því sem upplýsingatækni hefur fleygt fram. Skráning einstaklinga er óvefengjanlega gagnleg en hvort tveggja til málefnalegra og ómálefnalegra afskipta af einkahögum almennra borgara. Sem dæmi þurfa einstaklingar að gefa upp til opinberrar uppflettingar sinn reglulega samastað, þ.e. lögheimili sitt. Þrátt fyrir að augljóst sé hvaða áhrif slík opinber skráning getur haft á persónulegt öryggi fólks hefur það almennt verið talið sjálfsagt í íslensku samfélagi að hið opinbera haldi skrá yfir þessar viðkvæmu og persónulegu upplýsingar til almennrar uppflettingar. Minni hlutinn fagnar því að í 14. gr. frumvarpsins felist heimild til sérstakrar verndar skráðra einstaklinga um að nafni og/eða lögheimili eða aðsetri þeirra og nánustu fjölskyldu verði ekki miðlað úr þjóðskrá.
    Minni hlutinn telur fagnaðarefni að slík vernd sé lögfest en gerir þó athugasemd við að verndin gegn uppflettingum um lögheimili og samastað sé háð þeim þröngu skilyrðum sem kveðið er á um í frumvarpinu en slík vernd fæst eingöngu ef ríkar ástæður eru fyrir hendi. Er hinum skráða enn fremur gert að færa fram sérstök rök fyrir þörf slíkrar verndar og, eftir atvikum, að leggja fram gögn því til stuðnings. Minni hlutinn telur þessi skilyrði vera réttlætanleg varðandi uppflettingu á nafni en ekki vegna uppflettinga á lögheimili eða samastað. Síðarnefndu upplýsingarnar varða bæði persónulega hagi og öryggi hins skráða og hlýtur viðkomandi að eiga að hafa fullt forræði yfir því hvort slíkum gögnum sé miðlað og þá til hverra. Þá telur minni hlutinn ástæðu til að skoða hvort yfirhöfuð sé ástæða til að skrá lögheimili að því gefnu að yfirvöld hafi heimildir að lögum til að hafa samband við einstaklinga í ýmsum opinberum tilgangi og til að gæta að réttindum og skyldum þeirra gagnvart yfirvöldum.
    Í ljósi framangreinds leggur minni hlutinn til breytingu þess efnis að vernd hins skráða gagnvart miðlun lögheimilis eða aðseturs hans og náinnar fjölskyldur standi einstaklingum til boða á grundvelli þeirra eigin ákvörðunar án þeirra þröngu skilyrða sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Trúar- og lífsskoðanir.
    Í 15. tölul. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins er tilgreint að í þjóðskrá sé skráð hvert gjöld til skráðra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga skuli renna. Orðalagið gefur til kynna að hér sé gerð tilraun til að sýna því virðingu að skráning trúar- og lífsskoðana fólks höggvi nærri viðkvæmum réttindum einstaklinga og má því lesa úr textanum að ekki sé um að ræða skráningu á upplýsingum um skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög heldur einungis hvert hluti skattgreiðslna skuli renna. Minni hlutinn telur augljóst að hér sé um að ræða tilraun til að beina kastljósinu frá skráningu viðkvæmra persónuupplýsinga með lagatæknilegu orðalagi sem sé samt sem áður ómálefnaleg. Enn fremur kveður 5. gr. frumvarpsins m.a. á um að Þjóðskrá Íslands sé heimil vinnsla upplýsinga um trúarbrögð hins skráða. Í nefndaráliti meiri hlutans er lögð til breyting á því orðalagi sem er örlítið til bóta en felur þó áfram í sér skráningu á sömu upplýsingum sem í langflestum tilfellum má gera ráð fyrir að sé skráning á trúarsannfæringu einstaklinga með öllum þeim annmörkum sem slík skráning felur í sér.
    Á ríkjandi tímum þar sem stjórnmálamenn hérlendis og erlendis ala á umburðarleysi og ótta við trúarlega minnihlutahópa í því skyni að réttlæta útskúfun og annan ágang á réttindi þeirra telur minni hlutinn ótækt að ríkið safni saman og haldi skrá yfir jafnviðkvæmar persónuupplýsingar og trúar- og lífsskoðanir. Einhver þau óhugnanlegustu voðaverk mannkynssögunnar sem framin hafa verið voru framin með aðstoð slíkrar skráningar og sömuleiðis grundvölluð á sams konar andúð á trúarlegum minnihlutahópum og nú verður sífellt algengari. Valdamesti stjórnmálamaður heims, forseti Bandaríkjanna, hefur beinlínis kallað eftir því að einstaklingum sem tilheyri ákveðnum trúarlegum minnihlutahópi verði alfarið meinað að koma til Bandaríkjanna og þrátt fyrir að slíkt sé á skjön við stjórnarskrá Bandaríkjanna hefur hann reynt sitt ýtrasta til að fylgja þeirri hugmynd eftir. Hérlendis hefur þjóðkjörinn þingmaður opinberlega kallað eftir að einstaklingar sem tilheyri ákveðnum trúarlegum minnihlutahópi verði sérstaklega rannsakaðir fyrir það eitt að tilheyra þeim hópi. Þá snerust borgarstjórakosningar fyrir nokkrum árum að miklu leyti um hvort heimila ætti framangreindum hópi að byggja tilbeiðsluhús þrátt fyrir að slíkt hljóti að ganga þvert á allar hugmyndir um jafnræði að lögum og þar af leiðandi lýðræðisfyrirkomulagið sjálft.
    Eina réttlætingin fyrir skráningu trúarbragða einstaklinga hérlendis er sú að enn er til staðar hið löngu úrelta og fullkomlega óeðlilega samband ríkis og kirkju sem er m.a. útfært í sömuleiðis löngu úreltri innheimtu sóknargjalda. Engar aðrar ástæður hafa verið gefnar fyrir því að þessar viðkvæmu persónuupplýsingar séu yfirhöfuð skráðar en skráning þeirra hlýtur að krefjast ríkra almannahagsmuna. Þeir veigalitlu fjárhagslegu hagsmunir einstakra félagasamtaka um að ríkið innheimti félagsgjöld fyrir þeirra hönd frekar en þau sjálf geta varla talist til svo ríkra almannahagsmuna að þeir réttlæti svo viðamikla söfnun á viðkvæmum persónuupplýsingum.
    Í ljósi þess hvernig upplýsingar um skráningu einstaklinga í trú- og lífsskoðunarfélög hafa verið misnotaðar við framkvæmd sumra mestu voðaverka mannkynssögunnar og með það til hliðsjónar hve ómálefnaleg og ónauðsynleg ástæða söfnunarinnar er getur minni hlutinn ekki stutt söfnun slíkra upplýsinga. Þar sem slík skráning er þó enn nauðsynleg til að framfylgja lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, leggur minni hlutinn til ákvæði til bráðabirgða sem heimilar fyrrnefnda skráningu til 1. janúar 2021 eða í því tilviki að lög um sóknargjöld o.fl. verði felld brott.

Gjaldtaka.
    Minni hlutinn tekur undir sjónarmið þeirra umsagnaraðila sem gagnrýna gjaldtöku vegna notkunar gagna úr þjóðskrá. Minni hlutinn telur sérstaklega að sveitarfélög og opinberar stofnanir ættu að hafa gjaldfrjálsan aðgang að þeim gögnum sem nauðsynleg eru til að þau geti innt lögbundið hlutverk sitt af hendi. Meiri hlutinn kemur að einhverju leyti til móts við þær athugasemdir og styður minni hlutinn þær tillögur en hefði viljað ganga lengra.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu sé áformað að setja á fót vinnuhóp til að greina samfélagslegan ávinning af því að gera upplýsingar úr þjóðskrá og grunnskrám stofnunarinnar gjaldfrjálsar. Í ljósi þess leggur minni hlutinn ekki til breytingar á frumvarpinu hvað það varðar.

Fjármögnun Þjóðskrár Íslands.
    Í 20. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli standa straum af árlegum kostnaði við rekstur þjóðskrár að 1/ 10 hluta en ríkissjóður að 9/ 10 hlutum. Enginn rökstuðningur liggur að baki fyrirkomulaginu og hefur Tryggingastofnun bent á að hún hafi enga stjórn á því hvernig fjárútlátum sé hagað hjá Þjóðskrá Íslands og er því sett í þá ankannalegu stöðu að bera ábyrgð á fjárútlátum sem hún hefur engin völd til að breyta.
    Ólíkt öðrum æskilegum breytingum á fjármögnun og gjaldtöku sem krefjast nánari skoðunar telur minni hlutinn ekkert því til fyrirstöðu að leggja til afnám þessa fyrirkomulags. Þær breytingar sem gera þyrfti á fjárlögum í kjölfarið virðast einfaldar en að því leyti sem þær gætu orðið flóknari ætti sú greining að fara fram í umræðu um frumvarp til fjárlaga. Hvað varðar frumvarpið sem hér er til umfjöllunar er augljóst hverju þarf að breyta og hvernig. Minni hlutinn leggur til að 20. gr. frumvarpsins falli brott og þar með einnig 1. mgr. 21. gr.

Sérsniðin hugbúnaðargerð.
    Í gegnum árin hefur þörf á kostnaðarsamri hugbúnaðargerð staðið í vegi fyrir ýmsum breytingum, t.d. breytingum á skráningu kyns og breytingum á lögum um mannanöfn. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að loksins verði mögulegt að ráðast í mikilvægar uppfærslur á tölvukerfum Þjóðskrár Íslands þannig að mikill kostnaður við sérsmíði hugbúnaðar standi ekki í vegi fyrir vilja löggjafans.
    Minni hlutinn telur þó rétt að taka fram að þegar hugbúnaðarþróun er fjármögnuð með almannafé eigi sá hugbúnaður að vera í eigu ríkisins eða einstakra stofnana þess en jafnframt að vera gefinn út opinberlega með opnu leyfi (e. open source). Á fundi nefndarinnar kom fram að sérsniðinn hugbúnaður sem fyrirséð er að verði framleiddur í kjölfar lagasetningarinnar verði í eigu Þjóðskrár Íslands og er það vel. Minni hlutinn beinir því til ráðuneytisins að tryggja að sá hugbúnaður verði einnig gefinn út opinberlega með opnu leyfi.

Lokaorð.
    Þrátt fyrir að minni hlutinn vilji ganga lengra en meiri hlutinn til að ná fram þeim góðu markmiðum sem frumvarpinu er ætlað styður minni hlutinn samt sem áður breytingartillögur meiri hlutans og frumvarpið í heild sinni, enda breytingarnar ótvírætt til bóta miðað við núverandi ástand. Minni hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til en einnig með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      15. tölul. 1. mgr. 6. gr. falli brott.
     2.      1. mgr. 14. gr. orðist svo:
                      Þjóðskrá Íslands getur heimilað að upplýsingum um lögheimili eða aðsetur einstaklings og nánustu fjölskyldu hans verði ekki miðlað úr þjóðskrá sendi einstaklingur beiðni þess efnis til Þjóðskrár Íslands. Enn fremur getur Þjóðskrá Íslands, ef ríkar ástæð ur eru fyrir hendi, heimilað einstaklingi sem með rökstuddum hætti óskar eftir því, og eftir atvikum með framlagningu gagna þar um, að upplýsingum um nafn hans verði ekki miðlað úr þjóðskrá.
     3.      20. gr. falli brott.
     4.      1. mgr. 21. gr. falli brott.
     5.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Skráning upplýsinga um hvert gjöld til skráðra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga skuli renna er heimil til 1. janúar 2021 eða í því tilviki að lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, verði felld brott.

Alþingi, 8. nóvember 2019.

Helgi Hrafn Gunnarsson.