Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
2. uppprentun.

Þingskjal 448  —  1. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Umrætt fjárlagafrumvarp er hið þriðja í röðinni hjá núverandi ríkisstjórn og sem fyrr einkennist frumvarpið af skammsýni og brostnum loforðum. Og sem fyrr eru flestir umsagnaraðilar mjög gagnrýnir á frumvarpið og á það ekki síst við um þá aðila sem starfa í velferðar-, verkalýðs- og skólamálum.

Tíu vondar fréttir í fjárlagafrumvarpinu.
     1.      Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskólinn og Háskólinn á Akureyri fá nánast sömu raunupphæð og í fyrra. Hjá framhaldsskólum er beinlínis lækkun á heildarfjármagni milli ára. Eina stórsóknin í menntamálum virðist vera í yfirlýsingum ráðherrans.
     2.      Þrátt fyrir augljósa þörf hjá Landspítalanum vill ríkisstjórnin ná auknum fjármunum „úr“ heilbrigðiskerfinu með aðhaldi. Á meðan standa yfir „umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir á Landspítalanum“ að sögn forstjóra spítalans. Þá ríkir ófremdarástand á bráðamóttökunni og fjöldi eldri borgara „býr“ á spítalanum vegna skorts á úrræðum.
     3.      Afnám krónu á móti krónu gagnvart öryrkjum er ekki fjármagnað í frumvarpinu. Enn eru öryrkjar því látnir bíða eftir réttlætinu sem Katrín Jakobsdóttir sagði í stjórnarandstöðu að þeir mættu alls ekki gera. Aldraðir fá ekkert sérstakt framlag umfram það sem er vegna fjölgunar í þeirra hópi og er rekstur nýrra hjúkrunarrýma ekki fjármagnaður til framtíðar. Þriðja árið í röð er rekstrarfé hjúkrunarrýma skert af hálfu ríkisins með aðhaldskröfu.
     4.      Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar er lækkuð um tæp 30%. Framlög til Tækniþróunarsjóðs, Innviðasjóðs, Lýðheilsusjóðs, Sprotasjóðs, Rannsóknasjóðs, Markáætlunar á sviði vísinda og tækni og Jafnréttissjóðs lækka.
     5.      Þessi ríkisstjórn leggur einnig til lækkun til hjálpartækja, lækkun til endurhæfingarþjónustu og lækkun til verndaðra vinnustaða og lækkun til vinnusamninga öryrkja.
     6.      Framlög til persónuverndar, skattrannsóknarstjóra, Ríkisendurskoðunar og almennrar löggæslu lækka. Færri lögreglumenn eru nú en fyrir tíu árum þrátt fyrir fimmföldun ferðamanna og íbúafjölgun á tímabilinu.
     7.      Einungis er gert ráð fyrir að opinberir starfsmenn fái 3% launahækkun sem þýðir kjararýrnun til opinberra starfsmanna ef verðbólga fer yfir 3%.
     8.      Veiðileyfagjöldin lækka enn meira á næsta ári en síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum hefur veiðileyfagjaldið lækkað um meira en helming og verður 5 milljarðar kr. Samkvæmt lögum eiga veiðileyfagjöld m.a. að mæta kostnaði sem ríkið verður fyrir vegna greinarinnar, svo sem vegna eftirlits, rannsókna og stjórnunar. Nú vill svo til að kostnaður hins opinbera er 5,1 milljarður kr. eða hærri en það sem veiðileyfagjöldin verða. Veiðileyfagjaldið er því orðið það lágt að það nær ekki einu sinni að dekka kostnað skattgreiðenda af þjónustu hins opinbera við sjálfa atvinnugreinina. Gjaldið sem útgerðarmenn þurfa að greiða fyrir aðgang að þessari auðlind, sem þeir eiga ekki heldur þjóðin samkvæmt lögum, er orðið að engu. Í raun eiga skattgreiðendur nú að borga með stórútgerðinni. Með þessari breytingu verður veiðileyfagjaldið orðið lægra en tóbaksgjaldið. Stangveiðimenn greiddu svipaða upphæð fyrir veiðileyfi í vötnum og ám og það sem útgerðarmenn þurfa að greiða á næsta ári fyrir aðgang að einum bestu fiskimiðum jarðar.
                  Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að frá árinu 2010 hafa arðgreiðslur til útgerðarmanna verið um 100 milljarðar kr. Og þá hefur hagur sjávarútvegsins (aukið eigið fé og arðgreiðslur) vænkast um 450 milljarða kr. á einum áratug. Því til viðbótar sjáum við að 1% landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% landsmanna og yfir 40% af nýjum auði sem hefur myndast á Íslandi síðan 2010 hefur endað hjá ríkustu 10% landsmanna. Stór hluti af þessu fólki er stórútgerðarmenn.
     9.      Umhverfismál fá aðeins 2% af fjárlögum. Þegar 98% fjárlaga fara í annað má velta fyrir sér hversu ofarlega umhverfismálin eru. Skógræktin fær lækkun á milli ára.
     10.      Þá er sérstök aðhaldskrafa á sjúkrahús, öldrunarstofnanir og skóla.

Hvorki efnahagslegur né félagslegur stöðugleiki.
    Nú þegar samdráttur er hafinn í hagkerfinu er enn brýnna en áður að vel sé gætt að innviðum samfélagsins og jöfnuði. 1. minni hluti hefur áður bent á að hlutverk stjórnvalda sé að tryggja bæði efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Þetta fjárlagafrumvarp tryggir því miður hvorugt. Ríkisstjórnin ætlar hvorki að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins né í nauðsynlega tekjuöflun fyrir hið opinbera sem kemur niður á velferðarkerfi okkar allra.
    Miklu máli skiptir að stjórn á ríkisfjármálum sé ábyrg á sama tíma og þörf fyrir opinbera fjárfestingu er uppfyllt. Nú þegar hægt hefur á í efnahagslífinu duga tekjur ríkissjóðs ekki til að fjármagna núverandi útgjöld. Þess vegna er ætíð nauðsynlegt að líta á bæði gjaldahlið frumvarpsins og tekjuhliðina og á það benti Samfylkingin ítrekað við fyrri fjárlagagerð þessa kjörtímabils. Ljóst er að fjárlagafrumvarpið felur ekki í sér þá framtíðarsýn sem Íslendingar hafa kallað eftir. Þá eru ýmis gjöld sem almenningur er látinn greiða hækkuð og kemur það auðvitað verst niður á þeim sem minnst hafa.

Breytingartillögur Samfylkingarinnar.
    Samfylkingin leggur til breytingartillögur við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020 upp á 20 milljarða kr. Við leggjum til breytingar til að gera fjárlögin framsæknari. Tillögurnar snúa annars vegar að því að sækja fram; á sviði menntunar, nýsköpunar og í loftslagsmálum. Hins vegar snúa þær að því að verja velferð almennings; barnafjölskyldur, heilbrigðisþjónustu og þá sem standa höllum fæti.

Framtíðarsamfélag: Breytingartillögur upp á 10 milljarða kr. til að sækja fram á sviði menntunar, nýsköpunar og loftslagsbreytinga.
     1.      Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum: 4 milljarðar kr.
     2.      Menntun: 3 milljarðar kr.
                  a.      Háskólar (m.a. HÍ, LHÍ, HR, Bifröst og HA) 2 milljarðar kr.
                  b.      Framhaldsskólar 1 milljarður kr.
     3.      Rannsóknir og þróun: 1 milljarður kr. Áhersla á Tækniþróunarsjóð, Rannsóknasjóð og Innviðasjóð.
     4.      Nýsköpun og skapandi greinar: 1 milljarður kr.
                  a.      Endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja um 700 millj. kr.
                  b.      Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar um 300 millj. kr.
     5.      Almenningssamgöngur: 1 milljarður kr.

Velferðarsamfélag: Breytingartillögur upp á 10 milljarða kr. til að verja velferðina.
     6.      Barnafjölskyldur: 2 milljarðar kr.
                  a.      Helmingi meiri aukning í barnabætur.
                  b.      Lengingu fæðingarorlofs flýtt.
     7.      Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri: 2 milljarðar kr.
     8.      Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni: 600 millj. kr.
     9.      Hjúkrunarheimili: 800 millj. kr.
     10.      Málefni aldraðra: 2 milljarðar kr.
     11.      Málefni öryrkja: 2 milljarðar kr.
     12.      Löggæsla: 400 millj. kr. Þessi upphæð er jafnhá og fyrirhugaður niðurskurður ríkisstjórnarinnar til almennrar löggæslu.
     13.      Framlög til SÁÁ: 200 millj. kr. Til að eyða biðlistum sem hafa aldrei verið lengri.
    Séu viðbótarútgjöld af tillögum 1. minni hluta dregin saman eru heildaráhrifin á ríkissjóð 20 milljarðar kr. sem hægt er að fjármagna með betri nýtingu tekjustofna ríkisins og annarri forgangsröðun í skattamálum. Hins vegar er augljóst að 1. minni hluti er hér með ekki að leggja fram fullmótað fjárlagafrumvarp eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert. Þess vegna vill 1. minni hluti leggja áherslu á að hefði Samfylkingin verið í ríkisstjórn hefði fjármögnun annarra og fleiri verkefna komið til greina. Þá hefði tekjugrunnur ríkisins verið styrktur samhliða slíkri útgjaldaaukningu.
    Breytingartillögur meiri hlutans, sem að langstærstum hluta koma frá ráðherrum, eru hins vegar mikil vonbrigði. Eftir umfangsmikla vinnu fjárlaganefndar eru litlar breytingar gerðar og sumar hverjar eru skref aftur á bak frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram í haust.

Vanræksla félagslegra innviða.
    Fyrsti minni hluti sér ástæðu til að taka undir umsögn ASÍ sem gagnrýnir þróun opinberra fjármála á undanförnum árum og að fjármál hins opinbera tryggi ekki félagslegan stöðugleika hér á landi. ASÍ hefur í því samhengi áður varað við veikingu nauðsynlegra tekjustofna og vanrækslu félagslegra innviða.
    Þá vill 1. minni hluti gera þessi fyrri orð Alþýðusambands Íslands að sínum: „ASÍ hefur verið í hópi þeirra sem gagnrýnt hafa fjármálastefnuna og ítrekað bent á að áætlanir í opinberum fjármálum hafi á síðustu árum byggt á mjög hagfelldum forsendum um efnahagsþróun og treyst hefur verið á tímabundna aukningu tekna í uppsveiflu. Lítið hefur þannig mátt út af bregða til þess að áætlanir stæðust ekki og tekjur dygðu ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld. Í ljósi þessa hefur ASÍ einnig verið gagnrýnið á að í uppgangi síðustu ára hafi tekjustofnar verið veiktir um of t.d. með afnámi auðlegðarskatts og lækkun veiðigjalda auk þess sem látið hefur verið hjá líða að sækja auknar tekjur t.a.m. til ferðaþjónustunnar. Afleiðingar þessarar stefnu birtast með skýrum hætti í fjármálaáætlun og frumvarpi til fjárlaga fyrir komandi ár þar sem beitt er aðhaldsaðgerðum og takmörkun á launabótum sem í reynd leiðir til raunlækkunar á fjárframlögum sem stofnanir munu að óbreyttu þurfa að mæta með aðhaldi í rekstri og/eða niðurskurði á þjónustu. Slíkar aðgerðir munu hafa mest áhrif í viðkvæmri starfsemi heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar. ASÍ ítrekar því gagnrýni sína á að opinber grunnþjónusta sé nýtt sem hagstjórnartæki til að jafna sveiflur í ríkisrekstrinum. Slíkt samrýmist ekki hugmyndum um ábyrga hagstjórn og félagslegar framfarir.“
    Áhugavert er að gert er ráð fyrir að samneyslan minnki næstu fimm árin þrátt fyrir hækkandi aldur þjóðarinnar og fyrirheit um innviðauppbyggingu með aukinni opinberri neyslu.

Brostnar forsendur.
    Sem fyrr eru forsendur fjárlagafrumvarpsins í litlu samræmi við raunveruleikann. T.d. hljóðaði áhættumat sem var gert í upphafi þessa árs upp á 9 milljarða kr. gjöld umfram fjárveitingar fyrir núgildandi ár. Hins vegar hafa skilgreindir áhættuþættir nú verið hækkaðir um 22 milljarða kr. og eru nú áætlaðir 31 milljarður kr. umfram fjárveitingar.
    Forsendur fjárlagafrumvarpsins eru því afar veikar að mati 1. minni hluta. Einnig er það mat mjög margra umsagnaraðila. Gert er ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar, talsverðum hagvexti strax á næsta ári, svipuðu atvinnuleysi, óbreyttu olíuverði og lágri verðbólgu svo að eitthvað sé nefnt.
    Undanfarið ár hefur gengi krónunnar lækkað um 10–12% sem til lengri tíma þýðir um 4–6% verðbólgu. 10% gengisfall þýðir 10% verðhækkun á innfluttum vörum, sem er um þriðjungur af heildarútgjöldum, en um ¾ hlutar af innflutningi koma frá Evrópu. Gengi krónunnar hefur bein áhrif á verðlag og verðbólgu, vexti, hagvöxt, einkaneyslu, skatttekjur o.s.frv.
    Hagvaxtarspár byggjast að miklu leyti á einkaneyslu og ef frekari breytingar verða á henni, sem margt bendir til að gerist, hefur það víðtæk áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Fyrsti minni hluti lýsir sérstökum áhyggjum af auknu atvinnuleysi en minnir á þær aðgerðir sem vinstri stjórnin síðasta greip til til að bregðast við atvinnuleysi en þá voru skólarnir m.a. opnaðir gagnvart þessum hópi.

Mikill eignaójöfnuður.
    Enn á ný virðist ríkisstjórnin ekki vera tilbúin að ráðast gegn þeim mikla eignaójöfnuði sem ógnar stöðugleika, m.a. á vinnumarkaði. Núverandi staða kallar á aðgerðir í átt að réttlæti og jafnari tækifærum. Ísland er langneðst allra Norðurlanda á lista Oxfam þegar kemur að aðgerðum gegn ójöfnuði.
    Um 1% landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% landsmanna og 5% landsmanna eiga um 41% allra hreinna eigna en hin 95% eiga um 59%. Auður 1% ríkustu landsmanna hefur aukist um 353 milljarða kr. frá árslokum 2010, eða um 78%. Frá árinu 2010 hefur eigið fé ríkasta 0,1% landsmanna aukist um tæpa 100 milljarða kr., eða 68%.
    Alls þénaði ríkasta 1% landsmanna 35% af öllum fjármagnstekjum sem runnu til einstaklinga í fyrra. Rúmur helmingur allra fjármagnstekna sem urðu til á Íslandi í fyrra fóru til ríkustu 5% landsmanna. Um 43% af nýjum auði frá árinu 2010 hefur endað hjá ríkustu 10% landsmanna.
    Vert er að minnast þess að hlutabréf sem eru að langstærstum hluta í eigu hinna ríku eru skráð á nafnvirði en ekki markaðsvirði og því er auður hinna ríku vanmetinn.
    Tíu eignamestu einstaklingar landsins eiga tæplega þriðjung alls eigin fjár í íslenskum félögum sem er í höndum einstaklinga.
    Í skýrslu hagdeildar ASÍ sem gefin var út haustið 2017 var skattbyrði launafólks rakin frá árinu 1998. Meginniðurstaða skýrslunnar sem birtist í umsögn ASÍ um fjárlagafrumvarpið var sú að skattbyrði flestra hópa á vinnumarkaði hefði aukist á tímabilinu en langmest þó hjá lágtekjuhópum.
    Þróunina mætti rekja til þriggja atriða; í fyrsta lagi til misgengis í þróun launa og persónuafsláttar þar sem uppbygging kerfisins leiðir til sjálfvirkrar aukningar skattbyrði þegar laun hækka umfram verðlag, í öðru lagi til aukinna skerðinga og veikingar vaxtabótakerfisins og í þriðja lagi til aukinna skerðinga barnabótakerfisins. Þessi þróun hefur ekki verið óvænt og hafa félagshyggjuflokkar og verkalýðshreyfingin um langt skeið bent á hana.
    Samfylkingin hefur lagt fram tillögur við sex síðustu fjárlög til að snúa þessari þróun við, en tillögurnar hafa allar verið felldar.

Kjararýrnun til opinberra starfsmanna.
    Hugur þessarar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins undir forustu Katrínar Jakobsdóttur til ríkisstarfsmanna kom vel fram í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram. Þar stóð svart á hvítu að einungis var gert ráð fyrir að opinberir starfsmenn fengju 3% launahækkun. Á sama tíma gerði þetta sama fjárlagafrumvarp þegar það var lagt fram ráð fyrir hærri verðbólgu en þessi 3% eru. Fjárlagafrumvarpið hefði því þýtt beinlínis kjararýrnun til opinberra starfsmanna. BHM og BSRB mótmæla þessari kjararýrnun kröftuglega í sínum umsögnum.
    Til viðbótar berast fréttir um ótrúlega háar launahækkanir ríkisforstjóra sem í sumum tilvikum nema 30–80% á tveimur árum. Sum þessara launa hækkuðu um heil kennaralaun á mánuði við síðustu hækkun.
    Nýtt launakerfi tók gildi um áramótin en það hafði í för með sér að tveir af hverjum þremur ríkisforstjórum hækkuðu í launum, um allt að 27% í sumum tilvikum. Við síðustu launahækkun voru stjórnendur og ráðuneytin (ráðherrarnir) beinlínis beðin um athugasemdir en við það hækkuðu laun ríkisforstjóranna enn meira. Þetta gerist á vakt Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Og þetta gerist þrátt fyrir breytingar á kjararáði sem stjórnarliðar stæra sig af að hafa gert.
    Hvernig stendur á því að stjórnvöld standa að hækkun launa ríkisforstjóra um 30–80% á sama tíma og kennarar, sjúkraliðar, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, lögreglumenn, tollverðir og þroskaþjálfar eiga að fá 3% launahækkun?
    Nýverið slitnaði upp úr kjaraviðræðum ríkis og BSRB og lýsir það vel afstöðu stjórnvalda til þessara lykilstétta hins opinbera. Formaður BSRB sagði meira að segja að þetta sýndi að „ríkið [hefði] ekki verið í kjarasamningsviðræðum af heilum hug“ sem eru stór orð. Í BSRB eru á þriðja tug þúsunda opinberra starfsmanna og þar af 2/ 3 konur. BSRB er ekki aðeins stærstu heildarsamtök opinberra starfsmanna heldur einnig stærsta verkalýðssamband kvenna hérlendis.
    Þá segir í umsögn ASÍ: „Áformaðar eru verulegar breytingar á tekjuskattskerfi einstaklinga til að mæta loforðum stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sl. vor. Tekið verði upp 3 þriggja þrepa tekjuskattskerfi með nýju lágtekjuþrepi sem taki gildi í tveimur áföngum á árunum 2020 og 2021. Þannig er áætlað að þriðjungur breytinganna taki gildi á árinu 2020 og tveir þriðju 2021. ASÍ mótmælir því harðlega að ekki standi til að efna loforð um skattalækkanir til handa tekjulægstu hópum samfélagsins fyrr en núgildandi kjarasamningstímabil er hálfnað. Fyrir liggur að skattbyrði þessa hóps hefur aukist langt umfram aðra á síðustu árum og loforð um leiðréttingu þar á vógu þungt við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði síðastliðið vor.“

Öryrkjar enn skildir eftir.
    „Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir.“ Þetta er bein tilvitnun í umsögn Öryrkjabandalagsins um fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar. Öryrkjar eru hópur sem hefur allt of lengi verið vanræktur af stjórnvöldum. Því miður verður lítil breyting þar á með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
    Eingöngu er gert ráð fyrir 3,5% hækkun á grunnframfærslu öryrkja sem er lægri en hækkun launavísitölu og er litlu hærri en sjálf verðbólguspáin. Samkvæmt því eiga öryrkjar að vera á eftir öðrum hópum.
    Öryrkjar eru hópur sem alþingismenn ákveða launin hjá. Nú stefnir í að örorkulífeyrir verði 90.000 kr. lægri á mánuði en lágmarkslaun. Það er meira en milljón á ári. Helmingur öryrkja er með tekjur undir 270 þús. kr. fyrir skatt og 70% öryrkja með tekjur undir 300 þús. kr. fyrir skatt.
    Til viðbótar er afnám krónu á móti krónu ekki enn fjármagnað.
    Þessi ríkisstjórn leggur einnig til lækkun til réttindagæslu fatlaðra, lækkun til hjálpartækja, lækkun til endurhæfingarþjónustu, lækkun til verndaðra vinnustaða og lækkun til vinnusamninga öryrkja. Vert er að minnast þess þegar ríkisstjórnarflokkarnir beinlínis lækkuðu fyrirhugaða fjármuni til öryrkja milli umræðna um fjárlagafrumvarpið í fyrra og við fjármálastefnuna á síðasta þingi.
    Afskaplega mikilvægt er að öryrkjar og aldraðir fái sambærilegar launahækkanir og aðrir hópar fengu í svokölluðu lífskjarasamningum. Það er tómt mál að tala um kjarasamning kenndan við lífskjör án þess að stórir hópar öryrkja og aldraða séu teknir með. Unnið er að breytingum til að bæta hér úr og er vonandi að meiri hluti þingsins geti stutt slíkar breytingar sem eru bæði sanngjarnar og eðlilegar.

Aldraðir afgangsstærð.
    Aukin fjárveiting til aldraðra er að mestu vegna fjölgunar í þeim hópi en enn vantar talsverða fjármuni í þann málaflokk svo að vel megi við una.
    Að mati Félags eldri borgara ná einungis 26% lífeyrisþega 300 þús. kr. lágmarkslaunum og sér hver maður að hér er verk að vinna. Í fyrra sögðu forsvarsmenn eldri borgara á fundi fjárlaganefndar að þeir hefðu „aldrei séð jafnlágar tölur fyrir þennan hóp í samfélaginu“. 1. minni hluti lýsir sérstökum áhyggjum af fátækt meðal eldri borgara.
    Gagnvart ellilífeyrisþegum hefur sú leið verið farin undanfarin ár að hækka heimilisuppbót til þeirra sem búa einir umtalsvert umfram almenna hækkun ellilífeyris. Sú leið hefur aukið muninn á lífeyri þeirra ellilífeyrisþega sem búa einir og þeirra sem eru í sambúð. Segja má að með þessu séu teknar upp tekjutengingar vegna maka að nýju í breyttu formi.
    Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), sem mörg hver þjónusta eldri borgara og reka hjúkrunarheimili, hafa verið mjög harðorð vegna fjárlagafrumvarpa þessarar ríkisstjórnar. Meira að segja töldu þau í fyrra að ef ekki yrði bætt í neyddust sum hjúkrunarheimili til að skerða gæði matar handa eldri borgurum, svo sem á sunnudögum og jólum.
    SFV hafa nú miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem er uppi varðandi fjárframlög til aðildarfélaga samtakanna eins og kynnt hefur verið í erindum sem samtökin hafa sent til að mynda alþingismönnum. Hjúkrunarheimili og dagdvalir geta ekki endalaust setið eftir í forgangsröðun fjármuna í heilbrigðiskerfinu segja samtökin í umsögn sinni um þetta fjárlagafrumvarp.
    Rekstur hjúkrunarheimila á landsbyggðinni er afar þungur. Það kemur m.a. til af því að ómögulegt er að ná fram þeirri stærðarhagkvæmni sem næst með þeim fjölda rúma sem alla jafna þekkist á höfuðborgarsvæðinu.
    Stefna heilbrigðisráðuneytisins er að efla beri heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað þjónustuþega. Það kemur því á óvart að ekki séu lagðir auknir fjármunir til þessarar þjónustu á heilbrigðisstofnunum úti á landi, einkum þegar litið er til þess að framboð á ýmissi annarri heilbrigðisþjónustu er takmarkaðra á mörgum stöðum á landsbyggðinni eins og segir í umsögn heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

Barnabætur eiga ekki að vera fátækrastyrkur.
    Umbæturnar í velferðarmálum, svo sem lenging fæðingarorlofs (um einn mánuð) og örlítil hækkun barnabóta (hækkunin nemur 0,1% af fjárlögunum og finnst ríkisstjórnin það vera vel í lagt), eru tilkomnar vegna aðgerða aðila vinnumarkaðarins en ekki vegna frumkvæðis stjórnarflokkanna. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa beinlínis ítrekað fellt tillögur Samfylkingarinnar um slíkar aðgerðir. Barnabætur byrja að skerðast við 325 þús. kr. laun sem verða að teljast vera lág laun og er það skrýtin pólitík að stæra sig af því eins og ríkisstjórnarflokkarnir gera.
    Það er einfaldlega þjóðarskömm hversu mörg börn búa við óviðunandi aðstæður á Íslandi en talið er að allt að sex þúsund börn líði skort í okkar ríka samfélagi. Tekjur heimila, bæði laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Vanda láglaunafólks og einnig fólks með meðaltekjur mætti þó mæta með almennum hætti með því að hækka barnabætur og auka húsnæðisstuðning. Þrátt fyrir það hefur barnabótakerfið fengið að grotna niður undanfarin ár sem er afskaplega miður í ljósi þess að barnabætur eru mjög góð leið til að aðstoða ungar fjölskyldur í landinu.
    Það sem virðist jákvætt er að ríkisstjórnarflokkarnir eru loksins sammála Samfylkingunni um að barnabætur eigi ekki að skerðast við upphæð sem er langt undir lágmarkslaunum. Hins vegar hafa ríkisstjórnarflokkarnir ítrekað fellt tillögu frá Samfylkingunni um breytingu þar á. Á móti virðist sem skerðingar aukist hjá millitekjuhópum en að mati 1. minni hluta er barnabótakerfið enn fjársvelt enda hefur ¼ hluti dottið úr því kerfi undanfarin ár vegna skerðinga. Barnabætur hafa á liðnum árum rýrnað mikið að raunvirði.
    Til samræmis við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga síðastliðið vor gerir frumvarpið ráð fyrir hækkun á skerðingarmörkum barnabóta úr 300 þús. kr. í 325 þús. kr. á mánuði. Frumvarpið gerir hins vegar ekki ráð fyrir að grunnfjárhæðir barnabóta hækki sem þýðir að grunnbætur rýrna að raungildi og einungis þeir foreldrar sem hafa tekjur yfir 325 þús. kr. á mánuði fá hækkun barnabóta. Ekki er lögð til hækkun á hámarksfjárhæðum bótanna, né efri skerðingarmörkum, og ekki dregið úr bröttum tekjutengingum.
    Þrátt fyrir fyrirhugaðar breytingar á barnabótum staðfestir BHM að enn eru barnabætur ekkert annað en fátækrastyrkur. Í ljósi þess að mikið hefur dregið úr útgjöldum til barnabóta á síðustu árum ætti að vera nægt svigrúm til að hækka grunnfjárhæðir án þess að hækka skerðingarprósentur á móti.
    Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (sem fæst m.a. við greiningar hjá börnum með einhverfu, ofvirkni o.s.frv.) fær sömu raunfjármuni og í fyrra þrátt fyrir að biðtími sé allt að tvö ár eftir þessari lykilþjónustu.

Húsnæðismálin á hakanum.
    Þrátt fyrir ummæli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins um að húsnæðismálin séu lykillinn að samkomulagi í komandi kjarasamningum helst heildarfjárhæð vegna húsnæðisstuðnings nánast óbreytt milli ára.
    ASÍ segir: „Sérstaka athygli vekur því að þrátt fyrir mikla umræðu um hlutverk stjórnvalda á húsnæðismarkaði og fyrirheit um víðtækar aðgerðir í húsnæðismálum m.a. í kjölfar skýrslu átakshóps forsætisráðherra um húsnæðismál og yfirlýsingar stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga, gerir frumvarpið ráð fyrir að húsnæðisstuðningur fari lækkandi að raunvirði milli ára og áætlanir gera ráð fyrir að svo verði áfram.“
    Árið 2020 verða vaxtabætur einungis 3,4 milljarðar kr. sem er minna en til stóð að hafa þær árið 2018 þegar þær áttu að nema 4 milljörðum kr.
    Fyrsti minni hluti minnir á að helmingurinn af þeim sem áður fengu vaxtabætur er nú dottinn úr vaxtabótakerfinu. Þegar Samfylkingin var síðast í ríkisstjórn setti hún 100 milljarða kr. í vaxtabætur og barnabætur á kjörtímabilinu sem er mun hærri fjárhæð en sú sem sitjandi ríkisstjórn setur í málaflokkinn.
    Í heild hefur húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið rýrnað að raungildi um ríflega 70% frá árinu 2013 og heimilum sem fengu vaxtabætur fækkaði um tæplega 19.000 milli áranna 2013 og 2017.
    Þá hafa bótafjárhæðir (hámarksbætur) verið óbreyttar frá árinu 2010 en þær hækkuðu um 5% í fyrra. Til samanburðar má nefna að verðlag hefur frá árinu 2010 hækkað um 30% og launavísitala um 83%. Þetta gerir það að verkum að kerfið styður við sífellt færri heimili. Tekjulágt barnafólk sem á lítið eigið fé í húsnæði sínu (20%) fær nú lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið.
    Á leigumarkaði búa um 50 þúsund manns og af þeim eru tekjulágir og ungt fólk í meiri hluta. Leigjendur eru því síður í aðstöðu til að kaupa fasteign og sitja fastir í fátæktargildru á óstöðugum leigumarkaði.
    BSRB leggur á það áherslu að húsnæðisstuðningur verði jafnaður óháð búsetuformi þannig að leigjendur fái sambærilegan stuðning í formi húsnæðisbóta og eigendur fá í formi vaxtabóta.
    Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að einnig þurfi að auka stuðning þegar kemur að framboði á húsnæði með stofnframlögum.

Ekki gleyma fæðingarstyrknum.
    Fyrsti minni hluti vekur athygli á nauðsyn þess að lengja fæðingarorlof um meira en einn mánuð eins og til stendur. Einnig þarf að hækka tekjuþakið svo að markmiðinu um aukið jafnrétti á vinnumarkaði verði mætt með betri hætti. Einnig þarf að huga sérstaklega að hækkun svokallaðs fæðingarstyrks gagnvart þeim foreldrum sem eru í námi eða utan vinnumarkaðarins. Samfylkingin hefur lagt slíkt fram en það hefur verið fellt eins og aðrar góðar tillögur okkar.
    Umönnunarbilið, tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst í tryggt dagvistunarúrræði, hefur neikvæð áhrif á tekjumöguleika fjölskyldna og hefur verulega neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Samkvæmt skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði eru það að meginstefnu mæður sem axla ábyrgð á umönnun barna sinna á þessu tímabili og því má áætla að þær séu að meðaltali fjórfalt til fimmfalt lengur frá vinnumarkaði í kjölfar barneigna en feður.

Háskólarnir sviknir aftur og framhaldsskólar fá lækkun.
    Við stöndum frammi fyrir samfélagsbreytingum á næstu áratugum þar sem allt bendir til þess að atvinnulíf muni taka stakkaskiptum. Með aukinni sjálfvirknivæðingu og gervigreind hverfa mörg störf, önnur lifa og ný verða til. Eina raunhæfa leiðin til að mæta þessari áskorun er að efla skólastarf og aðlaga það nýjum veruleika.
    Þegar litið er til menntamála í fjárlagafrumvarpinu er vandséð að hafin sé stórsókn í þeim málaflokki eins og ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu. Í því samhengi er vert að nefna að samkvæmt gögnum Hagstofunnar eru um 40 þúsund manns á vinnumarkaði sem hafa eingöngu grunnmenntun.
    Háskólarnir fá enn minna fé en lofað var í stjórnarsáttmálanum samkvæmt fjármálaáætlun og samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Stefnt er að því í stjórnarsáttmála að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 og meðaltali Norðurlanda árið 2025. Ef takast ætti að ná meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 þyrfti að auka framlög um 3–3,5 milljarða kr. til háskólastigsins á næstu árum. Til þess að ná meðaltali Norðurlanda þyrfti háskólastigið að fá um það bil 11 milljarða kr. aukningu. Fjármálaáætlun 2019–2023 gerði ráð fyrir um 2,1 milljarða kr. viðbót næstu fimm árin til háskólastigsins í heild sinni.
Það liggur því í augum uppi að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að standa við þau loforð að háskólar á Íslandi nái meðaltali OECD-ríkjanna eða Norðurlanda á tímabilinu.
    Lífvísindasetur Háskóla Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við óbreytt framlög til samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs frá árinu 2016. Fjárframlög til Rannsóknasjóðs voru 2.470 millj. kr. árið 2016 og hafa haldist óbreytt á milli ára en nú ber svo við að í núverandi frumvarpi er gert ráð fyrir lækkun frá fyrra ári. Framlög til sjóðanna hafa hvorki fylgt launa-né verðlagsþróun frá árinu 2016. Takmörkuð framlög til Rannsóknasjóðs draga mjög úr grunnrannsóknum í lífvísindum og hafa bein áhrif á nýsköpun og atvinnulífið.
    Það veldur Viðskiptaráði í sinni umsögn vonbrigðum að sjá ekki endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar aukast þar sem slíkar endurgreiðslur skapa hvata til nýsköpunar og geta laðað til landsins öflug fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni.
    Framhaldsskólarnir fá meira að segja lækkun á framlögum á milli ára. 1. minni hluti spyr eins og aðrir: Hvar er stórsóknin í menntamálum? Þeir fjármunir sem spöruðust við styttingu framhaldsskólans virðast ekki einu sinni halda.
    Kennarasamband Íslands hefur áður bent á að framhaldsskólastigið sé enn ekki búið að jafna sig á langvarandi og alvarlegu fjársvelti. Sú viðbót sem kemur til skólastigsins er ekki nægileg til að bregðast við þeim vanda. Þá kemur skýrt fram að fjárlagafrumvarpið ber ekki þess merki að hér sé á ferðinni stórsókn í menntamálum eins og ríkisstjórnarflokkarnir þreytast seint á að tala um.
    Eftirfarandi framhaldsskólar munu fá raunlækkun á fjármunum á milli ára (en lækkun getur verið enn meiri þegar tekið er tillit til greiddrar leigu þeirra):
     a.      Menntaskólinn í Reykjavík.
     b.      Fjölbrautaskólinn í Breiðholti.
     c.      Menntaskólinn á Akureyri.
     d.      Menntaskólinn í Kópavogi.
     e.      Menntaskólinn á Egilsstöðum.
     f.      Menntaskólinn á Laugarvatni.
     g.      Flensborgarskólinn.
     h.      Fjölbrautaskóli Suðurlands.
     i.      Verkmenntaskólinn á Austurlandi.
     j.      Verkmenntaskólinn á Akureyri.
     k.      Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu.
     l.      Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ.
    Þá er afar brýn nauðsyn að huga sérstaklega að eflingu starfs- og iðnnáms hér á landi. Það nægir ekki einungis að ræða slíkt heldur þarf að leggjast í beinar aðgerðir og jafnvel hugarfarsbreytingu gagnvart slíku námi.

Risaniðurskurður í kvikmyndagerð.

    Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er upphæðin sem er áætluð í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar skorin niður um umtalsverðar upphæðir eða um tæplega 30%. Þessi áhersla stjórnvalda er ótrúlega skammsýn og í raun vitlaus. Samtök iðnaðarins (SI) og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) komu á framfæri alvarlegum athugasemdum við þessa staðreynd.
    Kvikmynda- og sjónvarpsgerð skiptir Ísland miklu máli og hver króna sem hið opinbera setur í þann geira skilar sér margfalt til baka. Við síðustu fjárlagagerð lagði Samfylkingin til breytingartillögu um aukna fjármuni í svokallaðan sjónvarpssjóð. Sú tillaga var felld af öllum þingmönnum Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.
    Ef Ísland og Íslendingar eru þekktir úti í hinum stóra heimi fyrir eitthvað þá er það einstök náttúrufegurð og menningarafrek. Menningarafrekin voru fyrst á sviði bókmennta, en núna eru þau helst á sviði tónlistar og sjónvarpsefnis.
    Það er því bæði góð hagfræði og góð pólitík að styðja betur við menningarstarfsemi á borð við sjónvarps- og kvikmyndagerð. Verði þetta ekki lagfært segja bæði SI og SÍK að kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi verði fyrir miklu höggi.

Heilbrigðismálin í vanda.
    Fyrsti minni hluti telur mikla þörf á að styðja vel við alhliða uppbyggingu á hinu opinbera heilbrigðiskerfi sem þarf sárlega á því að halda eftir hrunið sem lék samfélagið grátt. Þá vill 1. minni hluti huga sérstaklega að mönnun og álagi á starfsfólk innan heilbrigðiskerfisins.
    Langstærstan hluta aukins fjár til heilbrigðismála að frátöldum launa- og verðlagshækkunum má rekja til framkvæmda við nýjan Landspítala.
    Halli Landspítalans í ár stefndi að öllu óbreyttu í rúma 4 milljarða kr. að mati forsvarsmanna spítalans. Í þessu sambandi leyfir 1. minni hluti sér að rifja upp að Landspítalinn taldi að vantaði 87 milljarða kr. næstu fimm ár miðað við fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Þegar vantar 87 milljarða kr. er ekki hægt að tala um stórsókn eða björgun heilbrigðiskerfisins.
    Ósamið er við þorra starfsfólks í heilbrigðisþjónustu en aðhaldsaðgerðir í formi lægri launabóta á árunum 2020–2022 munu koma verst niður á heilbrigðis- og velferðarþjónustunni sem þegar er víða undirmönnuð. Að auki glíma sjúkrahúsin enn við vanda vegna vangreiddra launabóta í kjölfar kjarasamninga frá árinu 2015 sem hafa umtalsverð áhrif á reksturinn. Óásættanlegt er að fjármagna eigi kjarabætur til heilbrigðisstarfsmanna með niðurskurði á þjónustu og auknu álagi á starfsfólk.
    Sérstaklega mikilvægt er að hafa í huga að þegar þjónusta dregst saman hjá heilbrigðisstofnunum landsins þá eykst álagið á Landspítalanum sem tekur að sjálfsögðu við því sem aðrir geta ekki sinnt.
    Almenn sjúkrahúsþjónusta á heilbrigðisstofnunum landsins á einnig að sæta niðurskurði að mati ASÍ. Með frumvarpinu er vegið að sjúkrahúsþjónustu við landsmenn og álag á útkeyrt starfsfólk aukið enn frekar. BSRB lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu hins opinbera heilbrigðiskerfis.
    Enn er þörf á að styrkja rekstur heilbrigðisstofnana úti á landi að lágmarki um 800–900 millj. kr. á ári eins og talað var um á fundi fjárlaganefndar árið 2017 til þess að þær geti sinnt þeirri þjónustu sem til er ætlast.
    Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (sjúkrahúsþjónustan) fær raunlækkun milli ára. Heilbrigðisstofnun Norðurlands (sjúkrahúsþjónustan) fær raunlækkun milli ára. Fjárskortur í rekstri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er einnig mikill og viðvarandi. Frá sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi hefur vöxtur í starfseminni verið fordæmalaus, um tugi prósenta á hverju ári. Þá hafa aðrar heilbrigðisstofnanir úti á landi einnig lýst yfir áhyggjum af sinni stöðu.
    Fjárhagsstaða margra aðildarfélaga innan SFV, svo sem hjúkrunarheimila, er nú þegar orðin alvarleg. Í því sambandi er sérstök ástæða til að minnast á SÁÁ sem glímir við langa biðlista og vantar aukið fjármagn frá hinu opinbera.
    Þá vill 1. minni hluti sérstaklega vekja athygli á brýnni þörf á auknu fjármagni til Samtakanna '78 en þau vinna ómetanlegt starf. Nú er staðan þannig að hugsanlega munu samtökin neyðast til að rukka fyrir ráðgjöf sína sem væri mikið áhyggjuefni.
    Fyrsti minni hluti lýsir miklum áhyggjum af stöðu geðheilbrigðismála og kallar eftir aðgerðum þar sem unnið verði gegn þunglyndi og fíknisjúkdómum. Á tíu daga fresti fremur Íslendingur sjálfsvíg og annar Íslendingur deyr vegna ofneyslu lyfja, sömuleiðis á tíu daga fresti.

Almenn löggæsla fær lækkun á milli ára.
    Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að niðurskurður í löggæslu verði rúmlega 400 millj. kr. Færri lögreglumenn eru nú en fyrir tíu árum þrátt fyrir fimmföldun ferðamanna og íbúafjölgun á tímabilinu.

Samgöngumál og innviðir.
    Mikið ákall er víðs vegar í samfélaginu eftir uppbyggingu innviða og þjónustu við landsmenn og mikilvægt að svara því kalli. Þá er mikilvægt að fjárfesta meira í mikilvægum innviðum eins og til að mynda bættum samgöngumannvirkjum og sterkara raforkuflutningskerfi, enda er þá ekki síður verið að greiða niður skuldir, en á síðustu árum hefur orðið mikil skuldasöfnun í innviðum landsins.
    Augljóst er að þau framlög sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir til samgangna og fjarskipta nægja ekki til að mæta þeirri þörf sem fyrir er í landinu. Landshlutasamtök sveitarfélaga hafa lýst áhyggjum af ástandi vegakerfisins sem er orðið mjög bágborið. Þar kemur til að ekki hefur verið veitt nægt fé í viðhald og nýframkvæmdir og sömuleiðis hefur ekki verið brugðist við álagi vegna fjölgunar ferðamanna, einkum á ákveðnum svæðum landsins.
    Fjárfestingar í innviðum snúast um aukið öryggi og aukin lífsgæði, auk þess sem þær styðja við loftslagsmarkmið Íslands. Bættar samgöngur skila sér á ýmsan hátt til íbúa landsins. Betri og greiðari samgöngur styrkja atvinnuvegina og búsetuskilyrðin og stuðla að uppbyggingu og bættri líðan fólks á landsvæðum þar sem samgöngur eru svo slæmar að ástandið bitnar á lífsgæðum íbúa. Eitt af meginskilyrðunum fyrir búsetu um allt land er að fjarskipti séu í góðu lagi alls staðar. Því þarf að styrkja þá áætlun sem fyrir er í fjarskiptamálum og flýta því að kerfið virki á öllu landinu.
    Þá er mikilvægt að fjármagna frekari uppbyggingu almenningssamgangna og uppbyggingu hágæðaalmenningssamgöngukerfis. Sú framkvæmd, sem m.a. og ekki síst felur í sér að skapa sérrými fyrir akstur almenningsvagna, er forsenda þess að markmið svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins um hagkvæma uppbyggingu og hlutfallslega minnkun umferðar nái fram að ganga. Því er ljóst að gera verður ráð fyrir fjármagni til að mæta hlutdeild ríkisins í framangreindum samstarfsverkefnum vegna samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst uppbyggingu Borgarlínu. Þá ber að hafa í huga að uppbygging Borgarlínu er ekki einungis samgöngumál heldur einnig risavaxið umhverfismál.

Umhverfismálin fá ekki mikið.
    Ljóst er að umhverfismál þurfa að fá mun meiri fjármuni en hér stendur til að leggja til. Einungis 2% af fjárlögum renna til málefnasviðsins umhverfismál og því renna 98% til annars. Í því ljósi má velta fyrir sér hversu mikið forgangsmál umhverfismál eru í raun og vera hjá þessari ríkisstjórn.
    Raunaukningin í málefnasvið umhverfismála er um 1 milljarður kr. en af því eru um 60% vegna aukinna tekna endurvinnslunnar sem almenningur greiðir.
    Hækkun kolefnisgjalds er enn minni en til stóð að ráðast í áður en núverandi ríkisstjórn tók við völdum.

Persónuvernd fær lækkun.
    Persónuvernd fær lækkun milli ára í fjárlagafrumvarpinu. Samfylkingin benti á sínum tíma á að það þyrfti sérstaklega að gæta að auknum verkefnum opinberra aðila vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar.
    Fyrsti minni hluti telur að huga þurfi sérstaklega að lykileftirlitsstofnunum í landinu, svo sem Samkeppniseftirlitinu, skattrannsóknarstjóra, Fiskistofu, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Skipulagsstofnun, og tryggja að þær fái nauðsynlegt fjármagn til að sinna sínu starfi með sóma.

Bæta þarf í þróunarsamvinnu.
    Framlög til þróunarsamvinnu eru enn einungis helmingur af því sem sum nágrannaríkja Íslands verja til þessa mikilvæga málaflokks. Skemmst er að minnast þess að Ísland er 10. ríkasta land í heimi.
    Í umsögn Rauða krossins á Íslandi, SOS Barnaþorpa, Hjálparstarfs kirkjunnar og Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og Kristniboðssambandsins segir að það sé umhugsunarvert hvort upprunalega tillaga frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2020 um að lækka heildargjöld til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu samræmist stefnu stjórnvalda í málaflokknum.

Vannýtt tekjuúrræði.
    Í fjárlagafrumvarpinu eru enn vannýtt tekjuúrræði, svo sem hækkun fjármagnstekjuskatts, álagning auðlegðarskatts, auknar tekjur af erlendum ferðamönnum og aukin auðlindagjöld. Yfirlit yfir þessi tekjuúrræði má finna hér á eftir.
    Í skýrslu hagdeildar ASÍ frá árinu 2013 um lífskjör á Norðurlöndum var m.a. bent á að skattar á hæstu tekjur séu lægstir á Íslandi af Norðurlöndunum. Einnig er vert að gagnrýna að við endurskoðun á skattkerfinu sé ekki horft til skatta á arðgreiðslur og aðrar fjármagnstekjur og auðlegð í samhengi við skattlagningu launatekna. Aðhald er ekki einungis hugsanlegur samdráttur í gjöldum ríkisins heldur getur aukið aðhald einnig verið fólgið í betri nýtingu tekjuúrræða.
    Veiðileyfagjald næsta árs stefnir í að verða einungis 5 milljarðar kr. Upphæð veiðileyfagjalds hefur lækkað um meira en helming síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum. Veiðileyfagjöld stefna í að vera um 0,5% af tekjum ríkisins sem verður að teljast mjög sérstakt í ljósi þess að um er að ræða eina helstu sameiginlegu auðlind þjóðarinnar. Til samanburðar verður tóbaksgjaldið hærra en fyrirhugað veiðileyfagjald eða um 6 milljarðar kr.
    Einnig er áhugavert að hafa í huga að veiðigjaldi er ætlað að mæta kostnaði ríkisins vegna sjávarútvegsins, svo sem vegna rannsókna, stjórnunar og eftirlits. Sá kostnaður ríkisins sem verður vegna greinarinnar er 5,1 milljarður kr. Dugar því veiðileyfagjaldið ekki einungis fyrir þeim kostnaði sem skattgreiðendur verða fyrir vegna atvinnugreinarinnar.
    Íslenskur sjávarútvegur hagnaðist um 340 milljarða kr. á sjö árum (2009–2016). Slík upphæð er hærri en það sem allt heilbrigðiskerfið kostar (240 milljarðar kr.) og er um þriðjungur af ríkisútgjöldum eins árs.
    Arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja hafa numið tæpum 100 milljörðum kr. frá árinu 2010. Hagur sjávarútvegs (aukið eigið fé) hefur vænkast um tæpa 450 milljarða kr. frá bankahruni.
    Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja var 55 milljarðar kr. árið 2016 og nam hagnaður eins fyrirtækis (Samherja) um 86 milljörðum kr. á sex árum en hluti af því er vegna starfsemi erlendis. Útborgaður arður til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja fyrir þrjú ár (2013–2015) var 40 milljarðar kr. og var arðurinn fyrir sex ár (2010–2016) 66 milljarðar kr. Heildareignir sjávarútvegsins voru um 620 milljarðar kr. 2017 og hefur bókfært eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja aukist um 300 milljarða kr. frá hruni.
    Takmarkað framboð auðlinda getur gert eigendum þeirra kleift að njóta arðsemi sem er umfram það sem gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum með sambærilega áhættu. Hagræn renta er skilgreind sem greiðslur til framleiðsluþátta, svo sem fjármagns og vinnuafls, umfram fórnarkostnað. Umframarðsemi er oft nefnd auðlindarenta (e. resource rent).
    Þrátt fyrir að Íslendingar séu í 180. sæti meðal þjóða heims að því er snertir fólksfjölda eru Íslendingar 19. mesta sjávarútvegsþjóð í heimi. Auðvitað skiptir miklu máli að sjávarútvegur búi við stöðugt og gott rekstrarumhverfi en hins vegar er alveg ljóst að greinin ætti að greiða meira til þjóðarinnar fyrir afnot af auðlind sem þjóðin á.
    Á sama tíma og berast fréttir af miklum hagnaði og arðgreiðslum til fáeinna stórútgerðarmanna hafa veiðileyfagjöldin verið að lækka. Það er ljóst að stórútgerðarmenn þurfa ekki að fara í mikla kjaradeilu við þessa ríkisstjórn eins og ljósmæður þurftu að gera og mörg verkalýðsfélög munu gera á næstunni.
    Fjármagnstekjuskattur hefur skilað minna í ríkiskassann en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Sem dæmi um hvað fjármagnstekjuskatturinn á vel við þá sem hæstar tekjur hafa má nefna að einungis 2% fjölskyldna greiddu fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar af hlutabréfum. 98% greiddu þennan hluta ekki enda tekur frítekjumark til minni viðskipta. Fjármagnstekjuskattur er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Í þessu sambandi er rétt að minna á að auðlegðarskatturinn var um 11 milljarðar kr. á verðlagi ársins 2014. Þá stendur enn til að lækka bankaskattinn um 8 milljarða kr. á næstu árum sem verður að teljast sérkennileg forgangsröðun.
    Mjög mikilvægt er að koma sér saman um auknar tekjur af erlendum ferðamönnum en fjölmargar hugmyndir hafa heyrst af slíku í áranna rás. Þótt blikur séu á lofti í ferðaþjónustu er greinin samt enn stærsta atvinnugrein landsins þegar litið er til hlutfalls af landsframleiðslu og þótt vöxtur greinarinnar minnki er hún stór og aflögufær. Hins vegar þarf að taka af skarið með gjaldtöku enda þarf greinin aðlögunartíma ef gjaldtaka verður aukin.
    Undanfarin ár hafa verið ár glataðra tækifæra þegar kemur að auknum tekjum af erlendum ferðamönnum. 1. minni hluti minnir á að erlendir ferðamenn nýta sér sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, rétt eins og sjávarútvegs- og orkufyrirtækin gera, fyrst og fremst náttúru landsins og menningu þess. Hins vegar er lækkun tryggingagjalds jákvæð enda löngu tímabær og skiptir máli fyrir ýmis fyrirtæki, ekki síst á sviði nýsköpunar.
    Þá er jákvætt að bæta þriðja tekjuskattsþrepinu við en betur má ef duga skal. Hafa ber í huga að persónuafsláttur væri 78 þús. kr. á mánuði hefði hann þróast í takt við launaþróun undanfarinna ára en hann er um 56 þús. kr.
    Fyrsti minni hluti tekur undir þær kröfur að sveitarfélögin fái auknar tekjur af ferðaþjónustu og hefur í því sambandi einkum verið horft til gistináttaskatts sem er um 1,3 milljarðar kr. Í stjórnarsáttmála kemur fram að tekjur af gistináttaskatti skuli færast yfir til sveitarfélaga og það verði gert í tengslum við endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga, án þess að því sé nánar lýst. Í umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018 var hins vegar nokkuð dregið í land og talað um að flutningur gistináttaskatts yrði skoðaður. Rétt er að hafa samráð við sveitarfélög um hvernig þessum fjármunum verði skipt.
    Samfylkingin hefur áður lagt til á Alþingi að gistináttaskattur rynni til sveitarfélaganna en ríkisstjórnarflokkarnir felldu þá tillögu án þess að blikna.
    Hugsanlegar nýjar tekjur ríkisins miðað við fjárlagafrumvarpið eru þessar:
     1.      Aukin auðlindagjöld.
     2.      Hækkun fjármagnstekjuskatts.
     3.      Hækkun kolefnisgjalds.
     4.      Tekjutengdur auðlegðarskattur.
     5.      Afnám samnýtingar skattþrepa.
     6.      Hert skatteftirlit, sér í lagi vegna skattaskjóla.
    Sé einungis litið til fyrrgreindra hugmynda um auknar tekjur ríkisins væri hægt að auka ríkistekjur a.m.k. um 20 milljarða kr. umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þannig væri hægt að fjármagna nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins.
    Til lengri tíma væri einnig hægt að huga að auknum arðgreiðslum úr bönkunum til að mæta einskiptisaðgerðum stjórnvalda og falla frá lækkun bankaskatts en sú fyrirhugaða aðgerð ríkisstjórnarinnar kostar um 8 milljarða kr.
    Eignaójöfnuður er mikill á Íslandi og ljóst að fjölmargir geta lagt meira af mörkum til sameiginlegrar uppbyggingar innviða í landinu. Er hægt að líta bæði til hærri fjármagnstekjuskatts og innleiðingar tekjutengds auðlegðarskatts í þeim efnum.
    Fyrsti minni hluti vill einnig árétta að afar mikilvægt er að arðurinn af auðlindum landsins nýtist til að bæta lífskjör landsmanna og standa undir fjármögnun öflugs velferðarkerfis. Þar þarf að horfa sérstaklega til þess að ríkið innheimti sanngjarna auðlindarentu í sjávarútvegi og orkuvinnslu og innheimti tekjur af ferðamönnum, bæði til þess að standa undir uppbyggingu við ferðamannastaði og öðrum kostnaði vegna komu þeirra, svo sem í heilbrigðiskerfinu, við löggæslu og björgunarstörf og í viðhaldi vega.
    Til að tryggja sanngjarnan arð af auðlindunum verður t.d. að horfa til aukins arðs af fiskveiðiauðlindinni og til álagningar nýrra raforku- eða umhverfisskatta og sömuleiðis að auka tekjur af erlendum ferðamönnum. Arðurinn ætti að ganga til sveitarfélaga, í sóknaráætlanir og til heilbrigðiskerfisins og annarrar innviðauppbyggingar sem nýtist landsmönnum öllum.

Sala bankanna.
    Í fjárlagafrumvarpinu er heimild til að selja bankana til einkaaðila. Hér hefur mönnum verið tíðrætt um þá áhættu sem ríkið og þar af leiðandi skattgreiðendur búa við með því að eiga hlut í fjármálafyrirtækjum. 1. minni hluti vill hins vegar snúa þessu við hér og líta á þá áhættu sem almenningur býr við þegar einkaaðilar reka nánast allt bankakerfið. Það tók einkarekið bankakerfi einungis fjögur ár að keyra hér allt í kaf síðast, í heimssögulegt þrot þar sem tapið varð nánast helmingurinn af allri Marshallaðstoð Bandaríkjanna til allra ríkja Evrópu eftir gjöreyðingarstríð. Það er sömuleiðis afar fróðlegt að sjá að hinn einkarekni Arion banki virðist eiga í talsvert meiri erfiðleikum heldur en hinir tveir ríkisreknu bankarnir, en Arion birti nýverið afkomuviðvörun.
    Auðvitað munu einkaaðilar gegna hlutverki á fjármálamarkaði en ættum við ekki kannski að líta á fjármálamarkaðinn eins og við lítum á önnur innviðakerfi sem ríkið kemur að. En að ríkið eigi að eiga einungis einn þriðja af einum þriðja fjármálamarkaðarins, eins og þessi ríkisstjórn vill, sýnir hverra hagsmuna hún gætir. Í ljósi þess að einungis rúm tíu ár eru síðan hér var fullkomið hrun í einkareknu bankakerfi veltir 1. minni hluti fyrir sér af hverju liggi svona á að einkavæða bankana. Getur verið að það eigi að tryggja ákveðnum aðilum bankana?

Hópar skildir eftir og sviknir.
    Barnafólk, milli- og lágtekjufólk, sjúklingar og skólafólk, aldraðir og öryrkjar og í raun þorri almennings er illa svikinn af þessu fjárlagafrumvarpi. Þá eru tekjumöguleikar hins opinbera illa nýttir og bitnar það á nauðsynlegri uppbyggingu innviða í samfélaginu. Fjárlagafrumvarpið svarar engan veginn kalli landsmanna um frekari fjárfestingu í meginstoðum samfélagsins og er órafjarri því sem stjórnarflokkarnir lofuðu í kosningunum og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 11. nóvember 2019.

Ágúst Ólafur Ágústsson.