Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 460  —  370. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að draga úr kerfisáhættu og stuðla að fjármálastöðugleika og í því skyni bæta verðbréfauppgjör og gera ríkari kröfur til starfsemi verðbréfamiðstöðva.

2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um starfsemi innlendra og erlendra verðbréfamiðstöðva hér á landi, reikningsstofnanir, uppgjör og rafræna útgáfu fjármálagerninga og skráningu eignarréttinda yfir þeim.
    Rafræn útgáfa fjármálagerninga og skráning eignarréttinda yfir þeim með þeim réttaráhrifum sem kveðið er á um í lögum þessum er einungis heimil verðbréfamiðstöð sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum þessum.

3. gr.

Lögfesting.

    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 frá 23. júlí 2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar og um breytingu á tilskipunum 98/26/EB og 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 236/2012 , sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 25 frá 28. mars 2019, bls. 255–326, skulu hafa lagagildi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019 frá 8. febrúar 2019, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019 frá 8. febrúar 2019 er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 17 frá 28. febrúar 2019, bls. 8–10.

4. gr.

Skilgreiningar.

    Í lögum þessum er merking eftirtalinna hugtaka sem hér segir:
     1.      Rafbréf: Fjármálagerningur sem er rafrænt skráður í verðbréfamiðstöð.
     2.      Eignarskráning: Skráning réttinda yfir rafbréfum í verðbréfamiðstöð.
     3.      Verðbréfamiðstöð: Hlutafélag sem starfrækir verðbréfauppgjörskerfi skv. 3. lið A-þáttar viðaukans við reglugerð (ESB) nr. 909/2014 og veitir a.m.k. eina aðra kjarnaþjónustu af þeim sem taldar eru upp í A-þætti viðaukans og annast eignarskráningu rafbréfa.
     4.      Reikningsstofnun: Félag eða stofnun sem hefur milligöngu um eignarskráningu á rafbréfum og er þátttakandi í verðbréfamiðstöð.

5. gr.

Lögbært stjórnvald.

    Fjármálaeftirlitið er lögbært stjórnvald hér á landi samkvæmt ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 909/2014.
    Seðlabanki Íslands er viðeigandi yfirvald í skilningi ákvæða sömu reglugerðar.

II. KAFLI

Þátttakendur í verðbréfamiðstöðvum.

6. gr.

Þátttakendur í verðbréfamiðstöðvum.

    Eftirtaldir aðilar geta verið þátttakendur í verðbréfamiðstöðvum:
     1.      Seðlabanki Íslands og aðrir seðlabankar á Evrópska efnahagssvæðinu,
     2.      verðbréfamiðstöðvar með starfsleyfi eða viðurkenningu samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 909/2014,
     3.      miðlægir mótaðilar með starfsleyfi eða viðurkenningu samkvæmt lögum um afleiðuviðskipti,
     4.      lánastofnanir, eins og þær eru skilgreindar í lögum um fjármálafyrirtæki,
     5.      fjármálafyrirtæki eins og þau eru skilgreind í lögum um fjármálafyrirtæki,
     6.      rekstrarfélög verðbréfasjóða eins og þau er skilgreind í lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.
    Aðilar skv. 1. mgr. skulu gera aðildarsamning við verðbréfamiðstöð og er það skilyrði þess að þeir hafi heimild til milligöngu um eignarskráningu og aðgang að verðbréfamiðstöðinni.

III. KAFLI

Veðtrygging vegna greiðsluuppgjörs.

7. gr.

Veðtrygging vegna greiðsluuppgjörs.

    Seðlabanka Íslands er samkvæmt samningi við reikningsstofnun heimil veðtrygging í rafbréfum reikningsstofnunar til tryggingar á fullnaðaruppgjöri greiðslna í greiðslukerfum, sem viðurkennd eru af ráðherra skv. 3. gr. laga um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, nr. 90/1999, og skal skrá veðréttindin skv. IV. kafla. Hafi reikningsstofnun ekki uppfyllt skyldur sínar innan þess frests sem ákveðinn er í gildandi reglum um viðskipti samkvæmt þessari grein er Seðlabankanum heimilt að innleysa þegar í stað þau rafbréf sem standa til tryggingar hlutaðeigandi greiðsluuppgjöri. Seðlabankinn setur nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari grein.

IV. KAFLI

Réttaráhrif skráningar o.fl.

8. gr.

Eignarskráning í verðbréfamiðstöð.

    Réttindi að rafbréfum skal skrá í verðbréfamiðstöð ef þau eiga að njóta réttarverndar gegn fullnustugerðum og ráðstöfunum með samningi. Óheimilt er að gefa út viðskiptabréf fyrir skráðum réttindum samkvæmt rafbréfi eða framselja þau og eru slík viðskipti ógild.
    Eignarskráning rafbréfs í verðbréfamiðstöð veitir skráðum eiganda þess lögformlega heimild fyrir þeim réttindum sem hann er skráður eigandi að og skal jafngilda skilríkjum um eignarrétt að rafbréfinu gagnvart útgefanda.
    Forgangsröð ósamrýmanlegra réttinda ræðst af því hvenær skráning reikningsstofnunar í kerfi verðbréfamiðstöðvar er framkvæmd.
    Réttaráhrif eignarskráningarinnar teljast vera frá þeirri stundu sem skráningin hefur átt sér stað hjá verðbréfamiðstöð.
    Reikningsstofnun er skylt án tafar að framkvæma skráningu í kerfi verðbréfamiðstöðvar, enda framvísi viðkomandi aðili viðhlítandi gögnum um grundvöll beiðninnar. Fyrir það er þeim heimilt að ákvarða hæfilega þóknun sem birt skal í gjaldskrá á vefsvæði reikningsstofnananna.
    Greiðsla afborgunar og vaxta inn á reikning til eignarskráðs rétthafa hefur sama gildi gagnvart skuldara og áritun á skuldabréf.

9. gr.

Tilkynningar til rétthafa um skráningu réttinda.

    Reikningsstofnun, ein eða fleiri eftir því sem við getur átt, skal tilkynna öllum rétthöfum sérhverja skráningu réttinda sem hún hefur haft milligöngu um. Einnig skal hún tilkynna ef vandkvæði eru á skráningu þeirra. Breytingu og afmáningu réttinda ber reikningsstofnunum að tilkynna rétthöfum á sama hátt eftir því sem við getur átt.
    Rétthafar skráðra réttinda og reikningsstofnanir geta óskað eftir því á grundvelli reglna sem verðbréfamiðstöð setur að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins, að tilkynningar til þeirra séu sendar með jöfnu millibili, svo og afþakkað að hluta til eða öllu leyti að þeim verði sendar tilkynningar um breytingar á réttindum. Samkomulag um hvaða háttur skuli hafður á tilkynningum skal skrá á reikning hlutaðeigandi rétthafa.

10. gr.

Áhrif eignarskráningar á þriðja mann.

    Eftir að eignarskráning hefur átt sér stað í verðbréfamiðstöð verða réttindi grandlauss framsalshafa ekki vefengd. Við eignarskráningu í verðbréfamiðstöð glatast þó ekki mótbárur sem lúta að meiri háttar nauðung eða fölsun.

11. gr.

Stofnun réttinda yfir rafbréfum.

    Um stofnun réttinda yfir rafbréfum fer að öðru leyti en greinir í lögum þessum eftir almennum reglum laga.

12. gr.

Mistök við skráningu.

    Hafi reikningsstofnun í verðbréfamiðstöð orðið þess áskynja að mistök hafi orðið í tengslum við skráningu, þá skal hún leiðrétta mistökin. Ef mistök þarf að leiðrétta eftir að uppgjör fer fram ber reikningsstofnun að upplýsa þá sem málið varðar um leiðréttinguna eins fljótt og auðið er.

13. gr.

Afmáning réttinda.

    Verðbréfamiðstöð er heimilt að afmá réttindi sem augljóslega eru ekki lengur til staðar.
    Telji verðbréfamiðstöð að á reikningi séu skráð réttindi sem telja má að hafi ekki lengur þýðingu eða um er að ræða réttindi sem eru 20 ára gömul eða eldri og sem telja verður að séu sannanlega úr gildi fallin eða sannanlega hefur enginn rétthafi fundist að réttindunum getur hún birt innköllun í Lögbirtingablaði til þeirra sem telja sig eiga rétt til hinna skráðu réttinda og skal innköllunarfrestur vera þrír mánuðir. Jafnframt ber verðbréfamiðstöð að birta innköllunina á vefsvæði sínu. Hafi enginn gefið sig fram áður en innköllunarfrestur er liðinn skal verðbréfamiðstöðin afmá réttindin.
    Í reglugerð ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd 2. mgr.

14. gr.

Áhrif eignarskráningar á áþreifanlegan fjármálagerning.

    Ef eignarréttindi yfir fjármálagerningi eru eignarskráð í verðbréfamiðstöð skal ógilda hinn áþreifanlega fjármálagerning. Í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 31. gr., skal kveða nánar á um tilhögun innköllunar og eignarskráningu samkvæmt ákvæði þessu. Að uppfylltum skilyrðum um innköllun skv. 13. gr. og að lokinni yfirfærslu og eignarskráningu í verðbréfamiðstöð er hinn áþreifanlegi fjármálagerningur ógildur.

15. gr.

Upplýsingar um skráða eigendur fjármálagerninga.

    Verðbréfamiðstöð skal veita hlutafélögum aðgang að upplýsingum í verðbréfamiðstöð um skráða eigendur hlutabréfa í viðkomandi hlutafélagi sem þar er eignarskráð. Hið sama gildir um aðgang rekstrarfélaga verðbréfasjóða að upplýsingum um eigendur hlutdeildarskírteina og hluta í sjóðum í rekstri.

V. KAFLI

Reikningsyfirlit.

16. gr.

Reikningsyfirlit yfir rafbréf.

    Á verðbréfareikning í verðbréfamiðstöð skal eignarskrá rafbréf reikningseiganda. Á hvern reikning skal skrá reikningsstofnun sem hefur heimild til skráningar á reikninginn í kerfi verðbréfamiðstöðvar. Reikningsstofnun er heimilt að annast safnskráningu á verðbréfareikning í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti. Ef verðbréfareikningur er safnreikningur skal hann auðkenndur sem slíkur. Óski reikningseigandi eftir því skal verðbréfamiðstöð senda honum reikningsyfirlit um þau réttindi sem þar eru skráð á hann.
    Reikningsyfirlit skulu gefin út með jöfnu millibili fyrir eigendur rafbréfa. Á reikningsyfirliti skal koma fram yfirlit um þau rafbréf sem viðkomandi reikningseigandi er skráður eigandi að við dagsetningu yfirlitsins. Samsvarandi yfirlit skulu gefin út til eiganda takmarkaðra eignarréttinda yfir rafbréfi. Reikningsstofnun er heimilt að senda skráðum rétthafa aukareikningsyfirlit, óski hann eftir því.

VI. KAFLI

Tilkynningar- og þagnarskylda, vernd starfsmanna og birting ákvarðana Fjármálaeftirlitsins.

17. gr.

Þagnarskylda.

    Stjórnarmenn verðbréfamiðstöðvar, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.

18. gr.

Tilkynningar um brot í starfsemi verðbréfamiðstöðvar.

    Verðbréfamiðstöð skal hafa ferla til að taka við og fylgja eftir tilkynningum starfsmanna hennar um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um starfsemi verðbréfamiðstöðvarinnar. Ferlarnir skulu vera aðskildir frá öðrum ferlum innan fyrirtækisins.
    Einstaklingur sem tekur við tilkynningum skv. 1. mgr. og sér um vinnslu þeirra skal vera sjálfstæður í störfum sínum og skal tryggt að hann hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir til að afla gagna og upplýsinga sem honum eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum.
    Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd 1. og 2. mgr., þ.m.t. um viðtöku og vinnslu tilkynninga.

19. gr.

Vernd starfsmanna vegna tilkynningar um brot í starfsemi verðbréfamiðstöðvar.

    Þeir sem taka við tilkynningum skv. 18. gr. og sjá um vinnslu þeirra eru bundnir þagnarskyldu um persónugreinanlegar upplýsingar sem koma fram í tilkynningunum. Þagnarskyldan gildir gagnvart öðrum starfsmönnum fyrirtækisins og einnig utanaðkomandi aðilum. Þó er heimilt að miðla upplýsingum sem lúta þagnarskyldu til Fjármálaeftirlitsins og til lögreglu.
    Verðbréfamiðstöð skal vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot skv. 18. gr. gegn því að hann sæti misrétti sem rekja má til tilkynningar hans. Sama gildir um tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins skv. 13. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    Ef verðbréfamiðstöð brýtur gegn skyldu sinni skv. 2. mgr. skal hún greiða starfsmanni skaðabætur samkvæmt almennum reglum. Þetta tekur bæði til beins fjártjóns og miska.
    Skyldur og réttindi samkvæmt þessari grein eru ófrávíkjanleg og óheimilt er að takmarka þau í ráðningarsamningi á milli starfsmanns og fyrirtækis.

20. gr.

Opinber birting ákvarðana Fjármálaeftirlitsins um beitingu stjórnsýsluviðurlaga.

    Fjármálaeftirlitið skal birta á vef sínum án ástæðulausrar tafar sérhverja ákvörðun um að leggja á stjórnsýsluviðurlög eða beita annarri ráðstöfun á grundvelli brota á þessum lögum í samræmi við ákvæði 62. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014.

VII. KAFLI

Skaðabætur.

21. gr.

Ábyrgð verðbréfamiðstöðvar.

    Verðbréfamiðstöð ber skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem rakið verður til starfsemi hennar í tengslum við eignarskráningu, breytingar eða afmáningu réttinda á verðbréfareikningi í miðstöðinni þrátt fyrir að saknæmri háttsemi sé ekki til að dreifa. Bótaábyrgð nær þó hvorki til tjóns vegna glataðra viðskiptatækifæra né til tjóns vegna óviðráðanlegra ytri atvika (force majeure).
    Hafi tjónþoli af ásetningi eða gáleysi átt þátt í því að tjón varð er heimilt að lækka eða fella niður skaðabætur til hans.
    Samanlagðar skaðabætur fyrir tjón vegna sama tjónsatburðar geta ekki orðið hærri en 700 millj. kr.

22. gr.

Ábyrgð reikningsstofnunar.

    Reikningsstofnun ber skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem rakið verður til starfsemi hennar í tengslum við skráningu í kerfi verðbréfamiðstöðvar, breytingar eða afmáningu réttinda á verðbréfareikningi í verðbréfamiðstöðinni, svo og úttektum af slíkum reikningi, þrátt fyrir að orsök tjónsins verði rakin til óhappaatvika.
    Hafi tjónþoli af ásetningi eða gáleysi átt þátt í því að tjón varð er heimilt að lækka eða fella niður skaðabætur til hans.

23. gr.

Sameiginleg ábyrgð verðbréfamiðstöðvar og reikningsstofnunar.

    Þegar tjón má rekja til starfsemi verðbréfamiðstöðvar eða reikningsstofnunar, sbr. 21. og 22. gr., en ekki liggur ljóst fyrir hvor aðilanna ber ábyrgð á tjóninu, er heimilt að stefna þeim sameiginlega (in solidum) til greiðslu skaðabóta. Um endurkröfu milli stefndu fer samkvæmt almennum reglum.

VIII. KAFLI

Eftirlit og viðurlög.

24. gr.

Eftirlit og starfsleyfi.

    Fjármálaeftirlitið veitir verðbréfamiðstöð starfsleyfi í samræmi við ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 og annast eftirlit með verðbréfamiðstöðvum með staðfestu á Íslandi sem leyfisskyldar eru samkvæmt lögum þessum.
    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 sem og að farið sé að lögum þessum, reglum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, svo og öðrum fyrirmælum sem um starfsemina gilda. Fjármálaeftirlitinu er heimill aðgangur að öllum gögnum og upplýsingum um starfsemi samkvæmt lögum þessum sem það telur nauðsynleg til að sinna eftirlitinu. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum samkvæmt þessari grein.
    Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer að öðru leyti samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

25. gr.

Tilkynningarskylda í tilviki samruna, skiptingar eða eignaryfirfærslu ráðandi hlutar í verðbréfamiðstöð.

    Verðbréfamiðstöð skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef hún hyggst selja hluta af starfsemi sinni eins og henni er lýst í viðauka A við reglugerð (ESB) nr. 909/2014 eða ef á að sameina eða skipta upp félaginu. Breytingin getur ekki komið til framkvæmda fyrr en þremur mánuðum eftir að Fjármálaeftirlitinu berst tilkynningin.
    Verðbréfamiðstöð skal enn fremur tilkynna Fjármálaeftirlitinu skriflega um ákvörðun um að stofna dótturfélag eða útibú erlendis áður en til stofnunar kemur.

26. gr.

Hæfi til að fara með yfirráð í verðbréfamiðstöð og atkvæðisréttur á hluthafafundi.

    Hluthafi sem er beint eða óbeint í aðstöðu til að hafa yfirráð yfir stjórnun verðbréfamiðstöðvar skal leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins. Sé hluthafi í verðbréfamiðstöð eða einstaklingar sem eru beint eða óbeint í aðstöðu til að hafa yfirráð yfir stjórnun verðbréfamiðstöðvar ekki hæfir til að tryggja trausta og varfærna stjórnun verðbréfamiðstöðvarinnar eða hefur ekki upplýst verðbréfamiðstöðina eða Fjármálaeftirlitið um kaup sín á hlut í verðbréfamiðstöðinni, er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ákveða að slíkum hluthafa sé óheimilt að neyta atkvæðisréttar sem fylgir hlutnum á hluthafafundi í verðbréfamiðstöð.

27. gr.

Stjórn og framkvæmdastjóri verðbréfamiðstöðvar.

    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða, hafa gott orðspor og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um gjaldeyrismál, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu hafa yfir að ráða nægjanlegri þekkingu og reynslu sem nýtist í starfi og vera fjárhagslega sjálfstæðir. Starfsmönnum verðbréfamiðstöðvar er ekki heimilt að sitja í stjórn viðkomandi verðbréfamiðstöðvar.
    Samsetning stjórnar verðbréfamiðstöðvar skal vera með þeim hætti að stjórnin búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að skilja þá starfsemi sem verðbréfamiðstöðin stundar.
    Verðbréfamiðstöð skal verja fullnægjandi fjármunum og mannafla til þess að kynna starfsemi verðbréfamiðstöðvarinnar fyrir stjórnarmanni og tryggja að hann hljóti viðeigandi þjálfun til stjórnarsetunnar.
    Verðbréfamiðstöð skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn og framkvæmdastjóra og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum greinar þessarar sé fullnægt.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri þurfa á hverjum tíma að uppfylla hæfisskilyrði þessarar greinar og reglna settra skv. 11. tölul. 1. mgr. 32. gr. Fjármálaeftirlitið getur á hverjum tíma tekið hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra til sérstakrar skoðunar.

28. gr.

Önnur störf stjórnarmanna.

    Stjórnarmenn skulu verja fullnægjandi tíma í störf sín í þágu starfsemi verðbréfamiðstöðvarinnar. Við mat á því hvað stjórnarmenn mega eiga sæti í mörgum stjórnum samhliða því að sitja í stjórn verðbréfamiðstöðvarinnar, skal hafa hliðsjón af aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig og eðli, umfangi og því hversu flókin starfsemi verðbréfamiðstöðvarinnar er. Stjórnarmenn verðbréfamiðstöðvar mega einungis sinna þeim lögmannsstörfum fyrir aðra verðbréfamiðstöð sem ekki geta valdið hættu á hagsmunaárekstrum á milli félaganna tveggja eða á fjármálamarkaði. Hyggist stjórnarmaður taka að sér lögmannsstörf fyrir aðra verðbréfamiðstöð skal hann fá skriflegt samþykki stjórnar verðbréfamiðstöðvarinnar sem hann er stjórnarmaður í fyrir því að hann megi taka að sér umrætt starf, tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfið sem hann hyggst taka að sér og upplýsa Fjármálaeftirlitið um eðli starfsins og umfang þess. Stjórnarmaður ber sönnunarbyrði um að lögmannsstarf sem hann tekur að sér fyrir aðra verðbréfamiðstöð brjóti ekki gegn ákvæði þessu. Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá stjórnarmanni í því skyni að meta hvort brotið hafi verið gegn ákvæðinu.
    Stjórnarseta skv. 1. mgr. skal háð því að hún skapi ekki, að mati Fjármálaeftirlitsins, hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði. Í þessu sambandi skal m.a. horft til eignarhalds aðila og tengsla félagsins sem um ræðir við aðra aðila á fjármálamarkaði, svo og hvort tengslin geti skaðað heilbrigðan og traustan rekstur verðbréfamiðstöðvarinnar.

29. gr.

Stjórnvaldssektir og stjórnsýsluviðurlög.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 909/2014:
     1.      16., 25. og 54. gr. um að stunda þá þjónustustarfsemi sem sett er fram í A-, B- og C-þáttum viðaukans við reglugerðina án þess að hafa fullnægjandi starfsleyfi,
     2.      b-lið 1. mgr. 20. og b-lið 1. mgr. 57. gr. um að útvega starfsleyfi með því að gefa rangar yfirlýsingar eða með öðrum ólögmætum hætti,
     3.      1. mgr. 47. gr. um að verðbréfamiðstöð efni ekki eiginfjárkröfu,
     4.      26.–30. gr. um að verðbréfamiðstöð fari ekki að skipulagskröfum,
     5.      32.–35. gr. um að verðbréfamiðstöð fari ekki að reglum um viðskiptahætti,
     6.      37.–41.gr. um að fara ekki að kröfum um verðbréfamiðstöðvarþjónustu,
     7.      43.–47. gr. um að verðbréfamiðstöð fari ekki að varnfærniskröfum,
     8.      48. gr. um að ekki sé farið að kröfum um samtengingar verðbréfamiðstöðva,
     9.      49.–53. gr. um ómaklega synjun verðbréfamiðstöðva á að veita mismunandi tegundir aðgangs,
     10.      3. mgr. 59. gr. um að tilnefndar lánastofnanir fari ekki að sértækum varfærniskröfum sem tengjast útlánaáhættu,
     11.      4. mgr. 59. gr. um að tilnefndar lánastofnanir fari ekki að sértækum varfærniskröfum sem tengjast lausafjáráhættu,
    Fjármálaeftirlitið getur jafnframt lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæði 1. mgr. 17. gr. um þagnarskyldu.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beina fyrirmælum til hvers þess sem ber ábyrgð á broti um að hætta framferðinu og endurtaka það ekki.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að afturkalla starfsleyfi sem veitt er skv. 16. gr. eða 54. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 í samræmi við 20. gr. eða 57. gr. sömu reglugerðar.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að banna tímabundið eða varanlega, fyrir endurtekin alvarleg brot, að nokkur stjórnarmaður stofnunarinnar eða hver annar einstaklingur sem talinn er ábyrgur, sinni stjórnunarstörfum innan stofnunarinnar.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 700 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 2,8 milljarða kr. en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.
    Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal m.a. tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:
     a.      alvarleika brots,
     b.      hvað brotið hefur staðið lengi,
     c.      ábyrgðar hins brotlega einstaklings eða lögaðila,
     d.      fjárhagsstöðu hins brotlega,
     e.      ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
     f.      hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,
     g.      hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
     h.      samstarfsvilja hins brotlega,
     i.      fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.
    Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af Fjármálaeftirlitinu og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnsýsluviðurlögum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Þrátt fyrir 5. mgr. er heimilt að ákvarða lögaðila eða einstaklingi stjórnvaldssekt sem nemur allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur af brotinu nemur.
    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Seðlabankinn setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.
    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnsýsluviðurlaga eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnsýsluviðurlög samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Sá frestur rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

30. gr.

Sektir eða fangelsi allt að tveimur árum.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 909/2014:
     1.      16., 25. og 54. gr. um að stunda þá þjónustustarfsemi sem sett er fram í A-, B- og C-þáttum viðaukans við reglugerðina án þess að hafa fullnægjandi starfsleyfi,
     2.      b-lið 1. mgr. 20. og b-lið 1. mgr. 57. gr. um að útvega starfsleyfi með því að gefa rangar yfirlýsingar eða með öðrum ólögmætum hætti,
     3.      1. mgr. 47. gr. um að verðbréfamiðstöð efni ekki eiginfjárkröfuna,
    Það varðar jafnframt sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að brjóta gegn ákvæði 1. mgr. 17. gr. um þagnarskyldu.
    Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.
    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins.
    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í sömu málsgrein.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í sömu málsgrein.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

IX. KAFLI

Stjórnvaldsfyrirmæli, gildistaka og breyting á öðrum lögum.

31. gr.

Reglugerð ráðherra.

    Í reglugerð sem ráðherra setur er m.a. heimilt að setja nánari reglur um:
     1.      grundvöll og framkvæmd eignarskráningar og skráningu reikningsstofnana í kerfi verðbréfamiðstöðvar,
     2.      skráningu takmarkaðra eignarréttinda að rafbréfum,
     3.      heimildir verðbréfamiðstöðvar til að ákvarða fyrirkomulag gjaldtöku fyrir umsýslu með rafbréf og eignarskráningu,
     4.      heimildir reikningsstofnunar til að ákvarða fyrirkomulag vegna umsýslu með rafbréf og skráningu í tengslum við þau, svo sem um gjaldtöku og vegna skráningu veðréttinda,
     5.      starfsemi útibúa hér á landi,
     6.      innköllun,
     7.      að erlendum verðbréfamiðstöðvum og erlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum, fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu og öðrum lánastofnunum en viðskiptabönkum og sparisjóðum með heimild til fjárvörslu, sem hafa heimild til að starfa hér á landi og eru undir opinberu eftirliti, sé heimilt að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð með þeim réttaráhrifum sem getið er um í IV. kafla að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins,
     8.      að verðbréfamiðstöð sé heimilt, að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins, að annast milligöngu um eignarskráningu í erlendum og innlendum verðbréfamiðstöðvum.

32. gr.

Reglur Seðlabanka Íslands.

    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um nánari framkvæmd reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 um þau atriði sem koma fram í eftirfarandi greinum hennar:
     1.      5. mgr. 6. gr. um ráðstafanir til að koma í veg fyrir uppgjörsbresti.
     2.      14.–15. mgr. 7. gr. um ráðstafanir til að takast á við uppgjörsbresti.
     3.      2.–3. mgr. 9. gr. um uppgjörsinnmiðlara.
     4.      3. mgr. 12. gr. um skilyrðin fyrir því hvaða gjaldmiðlar teljast mikilvægastir.
     5.      9.–10. mgr. 17. gr. um málsmeðferð við veitingu starfsleyfis.
     6.      4. mgr. 18. gr. um áhrif starfsleyfis.
     7.      10.–11. mgr. 22. gr. um úttekt og mat á starfsemi verðbréfamiðstöðva.
     8.      8. mgr. 24. gr. um stöðluð eyðublöð, sniðmát og verklagsreglur fyrir samvinnu á milli eftirlitsstjórnvalda.
     9.      12. mgr. 25. gr. um upplýsingar sem verðbréfamiðstöð þriðja ríkis ber að veita til að fá viðurkenningu.
     10.      8. mgr. 26. gr. um almenn ákvæði.
     11.      27. gr. um hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna.
     12.      3.–4. mgr. 29. gr. um skráahald.
     13.      5.–6. mgr. 33. gr. um kröfur vegna þátttöku.
     14.      4. mgr. 37. gr. um heilindi útgáfunnar.
     15.      7. mgr. 45. gr. um rekstraráhættu.
     16.      6. mgr. 46. gr. um fjárfestingarstefnu.
     17.      3. mgr. 47. gr. um eiginfjárkröfur.
     18.      10. mgr. 48. gr. um samtengingar verðbréfamiðstöðva.
     19.      5.–6. mgr. 49. gr. um frelsi til útgáfu hjá verðbréfamiðstöð með starfsleyfi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     20.      3.–4. mgr. 52. gr. um verklag fyrir samtengingar verðbréfamiðstöðva.
     21.      4.–5. mgr. 53. gr. um aðgang milli verðbréfamiðstöðvar og annarra markaðsinnviða.
     22.      8. mgr. 54. gr. um starfsleyfi og tilnefningu til að veita viðbótarbankaþjónustu.
     23.      7.–8. mgr. 55. gr. um málsmeðferð fyrir veitingu og synjun um starfsleyfi til að veita viðbótarbankaþjónustu.
     24.      5. mgr. 59. gr. um varfærniskröfur sem eiga við um lánastofnanir eða verðbréfamiðstöðvar sem hafa starfsleyfi til að veita viðbótarbankaþjónustu.

33. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða II í lögum þessum.

34. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999:
                  a.      Við d-lið 1. tölul. 2. gr. laganna bætist: og Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar.
                  b.      Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                      Um samstarf og upplýsingagjöf innlendra aðila, bæði gagnvart Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni og stofnunum innan Evrópska efnahagssvæðisins, fer samkvæmt ákvæðum laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
                  c.      Við 2. mgr. 3. gr. laganna bætist: og Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar.
                  d.      Við 3. málsl. 6. gr. laganna bætist: þ.e. Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni (ESMA), Evrópska kerfisáhætturáðinu (ESRB) og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
                  e.      Við 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna bætist: ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breytingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin), og ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 frá 23. júlí 2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar og um breytingu á tilskipunum 98/26/EB og 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 236/2012.
                  f.      2. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: Tilskipun 98/26/EB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 53/1999, tilskipun 2009/44/EB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010, t ilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018 og reglugerð (ESB) nr. 909/2014 var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019.
     2.      Lög um hlutafélög, nr. 2/1995: Í stað orðanna „lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa“ í 3. málsl. 2. mgr. 27. gr. laganna kemur: lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.
     3.      Lög um skortsölu og skuldatryggingar, nr. 55/2017: Á eftir tilvísuninni „bls. 575–598“ í 2. gr. laganna kemur: ásamt þeim breytingum sem leiða af reglugerð (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar og um breytingu á tilskipunum 98/26/EB og 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 236/2012, sem innleidd er með lögum um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.
     4.      Lög um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, nr. 128/2011: Í stað orðanna „lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa“ í 4. mgr. 23. gr. laganna kemur: lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Þrátt fyrir ákvæði laga þessara hefur Seðlabanki Íslands einn heimild til milligöngu um eignarskráningu verðbréfa sem falla undir c–g-lið 1. tölul. 2. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, frá þeim tíma sem varðveisla þeirra er flutt til Seðlabanka Íslands skv. 1. mgr. 5. gr. sömu laga.

II.

    Verðbréfamiðstöðvar með gild starfsleyfi við gildistöku laganna skulu sækja um þau starfsleyfi sem nauðsynleg eru samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 909/2014 innan sex mánaða frá gildistökudegi reglna Seðlabanka Íslands sem innleiða afleiddar reglugerðir sem byggja á tæknistöðlum evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar þar að lútandi, sbr. 69. gr. sömu reglugerðar. Um málsmeðferð við veitingu starfsleyfis fer eftir ákvæðum reglugerðarinnar.
    Verðbréfamiðstöð með gilt starfsleyfi við gildistöku þessara laga heldur starfsleyfi sínu og er heimilt að starfa samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, á meðan starfsleyfisumsókn er til meðferðar hjá Fjármálaeftirlitinu enda hafi starfsleyfisumsókn verið lögð fram innan þess frests sem greinir í 1. mgr.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu með aðstoð nefndar sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði hinn 4. apríl 2016. Nefndinni var m.a. falið að rýna þýðingu og undirbúa innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar í íslenskan rétt. Reglugerðin er á ensku jafnan kölluð „Central Securities Depositories Regulation“ eða CSDR.
    Í nefndinni sátu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands, Samtaka fjármálafyrirtækja, Nasdaq verðbréfamiðstöðvar og Verðbréfamiðstöðvar Íslands (áður Undirbúningsfélag um Verðbréfamiðstöð Íslands).

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í kjölfar fjármálahrunsins 2008 fór fram víðtæk endurskoðun á regluverki á fjármálamarkaði innan ESB og er CSDR hluti af þeirri endurskoðun.
    CSDR tók gildi í ESB 17. september 2014 og er fyrsta samræmda löggjöfin um starfsemi verðbréfamiðstöðva á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019 frá 8. febrúar 2019. Hana ber að leiða í lög án efnislegra breytinga í samræmi við 7. gr. EES-samningsins og lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.
    Megintilefni framlagningar frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt ákvæði reglugerðarinnar um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar. Markmið frumvarpsins eru að bæta verðbréfauppgjör, tryggja heilindi í verðbréfaútgáfu, gera ríkari kröfur til starfsemi verðbréfamiðstöðva og tryggja að íslensk löggjöf á þessu sviði sé í samræmi við gildandi rétt á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Þar sem verðbréfauppgjörskerfi sem verðbréfamiðstöðvar reka teljast til kerfislega mikilvægra innviða gegna þær mikilvægu hlutverki við að viðhalda tiltrú fjárfesta og tryggja öryggi í verðbréfaviðskiptum. Í ljósi mikilvægis starfseminnar er talið rétt að gera ríkari kröfur til verðbréfamiðstöðva. Frumvarpið á því að stuðla að auknum fjármálastöðugleika og draga úr líkum á fjármálaáföllum.
    Við innleiðingu reglugerðarinnar er farin sú leið að nota tilvísunaraðferð og vísa til birtingar reglugerðarinnar og ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar í EES-viðbæti eins og heimilt er samkvæmt lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Jafnframt er lagt til að hluti laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa haldi gildi sínu og flytjist í lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að CSDR verði innleidd en reglugerðin breytir umgjörð um starfsemi verðbréfamiðstöðva töluvert og felur í sér auknar kröfur til verðbréfamiðstöðva, uppgjörs fjármálagerninga og verðbréfauppgjörskerfa. Verðbréfamiðstöðvar bjóða þjónustu við að gefa út og varðveita rafræna fjármálagerninga. Enn fremur reka þær verðbréfauppgjörskerfi. Allar verðbréfamiðstöðvar innan EES þurfa að sækja um nýtt starfsleyfi samkvæmt CSDR. Verðbréfauppgjörskerfin sem verðbréfamiðstöðvar reka verða að standast gæðaprófun og þær kröfur sem reglugerðin gerir til þeirra til að geta fengið starfsleyfi. CSDR kveður einnig á um breytta stjórnarhætti verðbréfamiðstöðva; til að mynda þarf einn þriðji stjórnar að vera óháðir stjórnarmenn, verðbréfamiðstöð þarf sinn eigin regluvörð og skipa skal notendanefnd sem samanstendur af þeim sem njóta þjónustu verðbréfamiðstöðvarinnar. CSDR kveður einnig á um hertar eiginfjárkröfur og áhættustýringu.
    CSDR er einnig ætlað að bæta uppgjör fjármálagerninga. Allir fjármálagerningar sem reglugerðin nær til skulu vera á rafrænu formi og verður uppgjörstími innan EES samræmdur sem viðskiptadagur að viðbættum tveimur dögum.
    Verðbréfamiðstöðvum er fengin aukin ábyrgð hvað varðar að draga úr uppgjörsbrestum en þeim ber að beita sektum og uppgjörskaupum (e. buy-in) við uppgjörsbrest, vakta uppgjörsbresti og senda eftirlitsstjórnvaldi skýrslu um öll slík tilvik. Þá ber þeim að geyma færslugögn í tíu ár.
    Í CSDR er fjallað um samtengingar á milli verðbréfamiðstöðva, sem geta verið beinar eða óbeinar. Bæði útgefendur og reikningsstofnanir geta flutt fjármálagerninga á milli verðbréfamiðstöðva í gegnum samtengingar sem er til þess fallið að auka samkeppni á milli verðbréfamiðstöðva. Útgefandaverðbréfamiðstöðin (e. issuer CSD) helst þó sú sama nema afskráning eigi sér stað.
    Fjármálaeftirlitinu er gert heimilt að beita sektum og dagsektum vegna brota á lögunum.
    CSDR gerir ráð fyrir að aðildarríkin hafi nokkuð svigrúm varðandi það hvaða reglur skuli gilda að landsrétti svo fremi sem þær gangi ekki gegn ákvæðum reglugerðarinnar, svo sem varðandi eignarskráningu fjármálagerninga. CSDR hefur nokkra skörun við lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, þar sem þau gilda um starfsemi verðbréfamiðstöðva, verðbréfauppgjör, rafræna útgáfu verðbréfa og skráningu eignarréttinda yfir þeim.
    Með frumvarpinu er lagt til að tiltekin ákvæði laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, sem CSDR nær ekki til, verði færð í lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, þar á meðal ákvæði um eignarskráningu verðbréfa og þá réttarvernd sem hún felur í sér. Samhliða því er lagt til að lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa verði að öðru leyti felld brott.
    Enn fremur eru lagðar til ákveðnar útfærslur í þeim tilvikum þegar CSDR gerir ráð fyrir slíku í hverju aðildarríki fyrir sig, svo sem varðandi það hvort í löggjöf aðildarríkis skuli vera refsiákvæði vegna brota á ákvæðum reglugerðarinnar og hversu háar hámarksstjórnvaldssektir skuli vera. Þá geymir frumvarpið ákvæði um þagnarskyldu þeirra sem starfa fyrir verðbréfamiðstöðvar og reglur um skaðabótaábyrgð. Í frumvarpinu er lagt til að þessi ákvæði verði nánast óbreytt frá núgildandi lögum eftir því sem svigrúm við innleiðingu CSDR í íslenskan rétt leyfir.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpinu eru tekin upp í lög hér á landi ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu með nefnd sem skipuð var af ráðherra þann 4. apríl 2016 til að rýna þýðingu reglugerðarinnar og vinna frumvarp til innleiðingar reglugerðarinnar í íslensk lög. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands, Nasdaq verðbréfamiðstöðvar, Undirbúningsfélags Verðbréfamiðstöðvarinnar (síðar Verðbréfamiðstöðvar Íslands) og Samtaka fjármálafyrirtækja. Þá var haft samráð við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið við samningu frumvarpsins.
    Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru birt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda 14. janúar 2019 og var frestur veittur til að senda umsagnir og ábendingar til 28. janúar sama ár, sbr. mál nr. 13/2019. Ein umsögn barst frá Verðbréfamiðstöð Íslands en að hennar mati var tíminn til að skila inn umsókn um starfsleyfi of skammur ef frumvarpið yrði að lögum strax að loknu vorþingi 2019. Enn fremur var vakin athygli á því að bein eignarskráning í verðbréfamiðstöðvum hafi verið meginreglan hér og á Norðurlöndunum. Var framlagningu frumvarpsins frestað fram á haust en frumvarpið breytir ekki þeirri framkvæmd að bein eignarskráning í verðbréfamiðstöð á endanlegan eiganda er meginreglan í framkvæmd á Íslandi.
    Drög að frumvarpinu voru birt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda 11. júlí 2019 og var umsagnarfrestur veittur til 26. ágúst 2019, sbr. mál nr. 181/2019. Fresturinn var framlengdur til 29. ágúst 2019 að beiðni hagsmunaaðila. Þrjár umsagnir bárust, frá Nasdaq verðbréfamiðstöð, Verðbréfamiðstöð Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Almennt lýstu umsagnaraðilar ánægju með framlagningu frumvarpsins. Nasdaq og Samtök fjármálafyrirtækja leggjast gegn ákvæðum um skaðabótaábyrgð verðbréfamiðstöðva og reikningsstofnana. Vegna þeirrar ábendingar er rétt að benda á að þessi ákvæði byggja á lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa og eru að mestu í samræmi við norrænan rétt með þeirri undantekningu að sambærilegt ákvæði hefur verið fellt úr dönskum rétti.
    Nasdaq verðbréfamiðstöð lagði til orðalagsbreytingar á gildissviðsákvæði frumvarpsins, m.a. um að ekki þyrfti að taka fram að verðbréfamiðstöð væri óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem hún hefði starfsleyfi fyrir. Fallist var á þau sjónarmið að slíkt kæmi nægilega skýrt fram í CSDR og var ákvæðið fellt brott.
    Samtök fjármálafyrirtækja telja viðurlagaákvæði of íþyngjandi og benda á að refsirammi vegna brota á CSDR í Noregi sé eitt ár. Varðandi þá ábendingu skal áréttað að viðurlagaákvæðin í frumvarpinu eru samhljóða viðurlagaákvæðum í lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa og viðurlagaákvæðum í annarri löggjöf á fjármálamarkaði sem eru samræmd eftir heildarendurskoðun þeirra árið 2015.
    Samtök fjármálafyrirtækja gerðu athugasemd við 7. gr. frumvarpsins og telja ekki rök fyrir því að hér á landi gildi sérreglur um veðtryggingu og innlausnarrétt Seðlabanka Íslands vegna greiðsluuppgjörs. Því er til að svara að til þess að unnt sé að komast hjá uppgjörsáhættu og tryggja skilvirkt og öruggt uppgjör fjármálagerninga er nauðsynlegt að reikningsstofnanir hafi tiltekna lánsheimild til að mæta sveiflum innan dags á reikningum sínum hjá Seðlabanka Íslands og fram til þess tíma þegar reikningurinn er gerður upp og skuldastöðu eytt í lok hvers viðskiptadags. Lánsheimildin tekur bæði til venjubundins daglegs greiðsluflæðis viðkomandi þátttakanda og peningalegs hluta verðbréfauppgjörs hans. Þannig er ávallt ákvörðuð tiltekin lágmarksheimild uppgjörsstofnunar, sem nemur þeirri fjárhæð sem Seðlabanki Íslands metur að sé nauðsynleg til að hægt sé að tryggja öruggt og skilvirkt greiðsluuppgjör. Lánsheimildin getur svo verið hærri en lágmarksheimildin samkvæmt samkomulagi við Seðlabanka Íslands.
    Til að unnt sé að veita reikningsstofnunum lánsheimild er gerð sú krafa að þær leggi fram tryggingar í samræmi við gildandi reglur Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Lánsheimildir þátttakenda í greiðslukerfum Seðlabanka Íslands og þær tryggingar, sem standa þeim að baki, eru grundvallaratriði til að unnt sé að tryggja nauðsynlegt fyrirvaralaust aðgengi þátttakenda að lausu fé hvort heldur það er í þágu almennrar greiðslumiðlunar innan dags eða til að tryggja hindrunarlaust verðbréfauppgjör. Yfirdráttarheimild uppgjörsstofnana í stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands er þannig liður í því að lágmarka uppgjörsáhættu í verðbréfaviðskiptum. Seðlabankanum ber lögum samkvæmt að taka fullnægjandi tryggingar fyrir veittum yfirdráttarheimildum og gerir það með veðtöku í verðbréfum í eigu þátttakenda í stórgreiðslukerfinu. Seðlabanki Íslands þarf því að hafa úrræði til að ganga að þeim tryggingum sem lagðar eru fram í því fyrirkomulagi sem hér er lýst. Fyrirkomulag lánsheimilda og trygginga hjá Seðlabanka Íslands á sér samsvörun hjá seðlabönkum víða erlendis og telst ekki séríslenskt. Til að mynda má líta til verðbréfauppgjörs sem fer fram í gegnum T2S-kerfi Evrópska seðlabankans, þar sem hann hefur tryggingu fyrir heimildum sem veittar eru á reikningum þátttakenda í gegnum kerfið. Þær tryggingar, sem lagðar eru fram hér á landi til tryggingar öruggu og skilvirku verðbréfauppgjöri, í samræmi við núgildandi lagaákvæði og 7. gr. frumvarpsins, verða því að teljast eðlilegar.
    Verðbréfamiðstöð Íslands tók fram að umsögnin væri eingöngu bundin við samkeppnisréttarleg sjónarmið og áskildi sér rétt til að skila inn annarri umsögn síðar varðandi önnur atriði. Þá lagði Verðbréfamiðstöð Íslands áherslu á að í frumvarpinu verði markaður almennur og hlutlaus lagarammi um hvernig á að segja upp útgáfusamningi við verðbréfamiðstöð og flytja í aðra verðbréfamiðstöð. Varðandi þessa ábendingu þá gerir CSDR ráð fyrir að það sé útgefandi fjármálagerninganna sem velji verðbréfamiðstöð. Þá gera ákvæði CSDR um samtengingar ráð fyrir að verðbréfamiðstöðvar styðji við viðskipti með fjármálagerninga á fleiri en einum markaði með samtengingum sín á milli og þannig sé hægt að flytja þá frá einni verðbréfamiðstöð til annarrar. Hvað varðar samkeppnisréttarleg sjónarmið þá er nefnt í aðfararorðum CSDR að markmið reglugerðarinnar sé m.a. að auðvelda samkeppni svo ekki var talin þörf á að endurtaka þau ákvæði sérstaklega í frumvarpinu. Rétt var þó talið til að koma til móts við þessa ábendingu að bæta við umfjöllun um hvernig samtengingum á milli verðbréfamiðstöðva er ætlað að tryggja samkeppni í kaflanum um meginefni frumvarpsins.
    Samtök fjármálafyrirtækja og Nasdaq gera í umsögnum sínum athugasemd við að frumvarpið geymi í 21.–23. gr. ákvæði um skaðabótaábyrgð reikningsstofnana og verðbréfamiðstöðva. Telja þau nægilegt að almennar skaðabótareglur gildi um starfsemina. Af þessu tilefni skal bent á að ákvæðin eru samhljóða núgildandi ákvæðum um ábyrgð verðbréfamiðstöðva og reikningsstofnana í lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Voru þau upphaflega að danskri fyrirmynd og rökstudd með vísan til þess að á þeim tíma var verið að færa eignarskráningu fjármálagerninga úr pappírsformi yfir í rafrænt form. Danir hurfu þó frá þessu við setningu nýrra laga um fjármagnsmarkaði. Hin Norðurlöndin, Noregur, Svíþjóð og Finnland, hafa hins vegar kosið að halda sambærilegum ákvæðum í sinni löggjöf. Með vísan til mikilvægis þess að almennt traust ríki um eignarskráningu fjármálagerninga og í garð mikilvægra innviða á fjármálamarkaði sem hafa þýðingu fyrir fjármálastöðuleika er lagt til að umræddum ákvæðum verði haldið í lögunum.

6. Mat á áhrifum.
    Í frumvarpinu er lagt til að reglugerð ESB um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar verði tekin upp í lög á Íslandi og löggjöf Íslands verði þannig í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Verði frumvarpið að lögum munu íslensk fyrirtæki sem hafa starfsleyfi til að starfa sem verðbréfamiðstöð hafa heimild til að starfa sem slík á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Jafnframt mun erlendum verðbréfamiðstöðvum verða heimilt að starfa hérlendis að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar.
    Verði frumvarpið að lögum fær Fjármálaeftirlitið ákveðin verkefni svo sem að hafa eftirlit með starfsemi verðbréfamiðstöðva og veita þeim starfsleyfi samkvæmt reglugerðinni.
    Ávinningur af samþykkt frumvarpsins er töluverður þar sem það mun skapa traustari umgjörð um uppgjör fjármálagerninga og starfsemi verðbréfamiðstöðva sem og eftirlit með þeim, draga úr kerfisáhættu og stuðla að fjármálastöðugleika.
    Hvorki er gert ráð fyrir að þær breytingar sem í frumvarpinu felast muni hafa teljandi áhrif á skatttekjur ríkissjóðs af fjármálafyrirtækjum frá því sem nú er né á rekstrargjöld í þessum málaflokki. Frumvarpið felur þó í sér ný eftirlitsverkefni sem áætla má að samsvari 70% starfshlutfalli hjá tveimur starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins meðan farið er yfir starfsleyfisumsóknir. Að því verkefni loknu er gert ráð fyrir að aukin verkefni leiði af sér að lágmarki 25% starfshlutfall hjá tveimur starfsmönnum en CSDR kveður m.a. á um aukið eftirlit með verðbréfamiðstöðvum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Markmið laganna er að bæta verðbréfauppgjör og gera ríkari kröfur til starfsemi verðbréfamiðstöðva, samþætta lög, reglur og markaðsvenjur á evrópskum verðbréfamarkaði, með vísan til sömu markmiða og almennt hafa átt við um samræmingu löggjafar á sviði fjármálaþjónustu í Evrópu.

Um 2. gr.

    Lög þessi gilda um starfsemi verðbréfamiðstöðva og reikningsstofnana, uppgjör og rafræna útgáfu fjármálagerninga og skráningu eignarréttinda yfir þeim. Lögin og reglur settar á grundvelli þeirra gilda um alla starfsemi verðbréfamiðstöðva hér á landi, þar á meðal starfsemi á grundvelli 19. og 23. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR).
    Erlend verðbréfamiðstöð, sem hefur staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða hefur hlotið viðurkenningu Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar, getur stofnsett útibú hér á landi. Útibúinu er heimilt að stunda hverja þá starfsemi sem lög þessi taka til, enda sé hún fyrirtækinu heimil í heimaríki þess.
    Önnur málsgrein er samhljóða 2. mgr. 1. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, en með honum er lagt til að rafræn útgáfa fjármálagerninga og skráning eignarréttinda yfir þeim með þeim réttaráhrifum sem kveðið er á um í lögum þessum verði áfram einungis heimil verðbréfamiðstöð sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Í framkvæmd hafa reikningsstofnanir skráð eignarréttindi inn í kerfi verðbréfamiðstöðvar en verðbréfamiðstöð verið ábyrg fyrir því að halda heildstæða skrá yfir eignarskráningu fjármálagerninga.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019 frá 8. febrúar 2019, skuli hafa lagagildi hér á landi.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. er að finna þær skilgreiningar sem nauðsynlegar eru og stuðst er við í einstökum ákvæðum frumvarpsins.
    Í lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, hefur hugtakið rafbréf verið notað yfir framseljanlegt rafrænt eignarskráð verðbréf. Við skoðun hugtaksins og með vísan til reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) er lagt til að í stað orðsins verðbréf verði notað hugtakið fjármálagerningur, eins og það er skilgreint í lögum um verðbréfaviðskipti, sem nær til fleiri tegunda gerninga en hugtakið verðbréf, t.d. hlutdeildarskírteina sem falla utan skilgreiningarinnar á verðbréfi samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, en eru skráð í verðbréfamiðstöð. Rafbréf skilgreinist því sem rafrænt eignarskráður fjármálagerningur.
    Með eignarskráningu er átt við skráningu á réttindum til rafbréfsins í rafrænni skrá verðbréfamiðstöðvar. Slík eignarskráning veitir hinum skráða eiganda lögformlega sönnun fyrir þeim réttindum sem hann er skráður eigandi að skv. IV. kafla frumvarpsins um réttaráhrif skráningar í verðbréfamiðstöð. Í núverandi lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa er eignarskráning skilgreind sem upphafleg útgáfa rafbréfa og skráning réttinda yfir þeim. Í þessu frumvarpi er skilgreining á eignarskráningu hins vegar löguð að framkvæmdinni eins og hún fer fram í verðbréfauppgjörskerfi verðbréfamiðstöðva. Útgáfa á rafbréfum í verðbréfamiðstöð er ekki eignarskráning í sjálfu sér heldur fer fram skráning á réttindum til rafbréfsins í verðbréfauppgjörskerfi verðbréfamiðstöðva að loknu uppgjöri í kerfinu. Slíkt uppgjör getur farið fram með eða án greiðslu í gegnum kerfið, t.d. þegar um er að ræða útboð eða frumskráningu rafbréfa. Þar sem reglugerð (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) fjallar ekki um eignarskráningu eins og hún hefur verið skilgreind í íslenskum rétti hingað mun hin nýja skilgreining ná til eignarskráningar eins og hún verður framkvæmd eftir gildistöku laganna, þ.e. í gegnum verðbréfauppgjörskerfi verðbréfamiðstöðva. Eftir sem áður mun eignarskráningin veita hinum skráða eiganda rafbréfsins lögformlega sönnun fyrir þeim réttindum sem hann er skráður eigandi að. Eignarskráning er því afar þýðingarmikill löggerningur sem einungis verður heimill verðbréfamiðstöð, með milligöngu reikningsstofnana sem eru þátttakendur í verðbréfamiðstöð, en eignarskráning á sér stað samhliða uppgjöri sem verðbréfamiðstöðin framkvæmir.
    Hugtakið verðbréfamiðstöð er skilgreint eins og í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) en að auki skal verðbréfamiðstöð annast eignarskráningu rafbréfa líkt og núgildandi lög gera ráð fyrir.
    Reikningsstofnun telst vera félag eða stofnun sem hefur milligöngu um eignarskráningu á rafbréfum í verðbréfamiðstöð og er jafnframt þátttakandi í verðbréfamiðstöð eins og þátttakandi er skilgreindur 9. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, sem innleiðir f-lið 2. gr. tilskipunar 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf.

Um 5. gr.

    Samkvæmt 11. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) ber aðildaríkjum að tilgreina hvaða stjórnvald telst lögbært stjórnvald til að hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðarinnar í viðkomandi ríki. Á Íslandi verður Fjármálaeftirlitið, sem verður hluti af Seðlabanka Íslands frá og með 1. janúar 2020, lögbært stjórnvald og fer með öll þau verkefni sem reglugerðin kveður á um, þar á meðal að veita verðbréfamiðstöðvum starfsleyfi og hafa eftirlit með þeim.
    Í samræmi við 12. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) skal Seðlabanki Íslands, sem ber ábyrgð á yfirsýn með verðbréfauppgjörskerfinu sem verðbréfamiðstöðin í aðildarríkinu starfrækir, vera viðeigandi yfirvald. Markmið yfirsýnar með kerfislega mikilvægum fjármálainnviðum eru að stuðla að öryggi, virkni og hagkvæmni kjarnainnviða fjármálakerfisins og þar með fjármálastöðugleika. Kjarnareglur um innviði fjármálamarkaða (e. Principles for Financial Market Infrastructures eða PFMI) frá 2012 eru grundvöllur yfirsýnar og rekstrar kerfislega mikilvægra innviða af hálfu Seðlabanka Íslands. Kjarnareglurnar sem útgefnar eru af nefnd um greiðslu- og markaðsinnviði (e. Committee on Payments and Market Infrastructures, CPMI, áður CPSS) og Alþjóðlegu verðbréfanefndinni (e. International Organization of Securities Commissions, IOSCO) eru á lista alþjóðlega fjármálastöðugleikaráðsins (e. Financial Stability Board, FSB) yfir lykilstaðla á sviði fjármálamarkaðar sem ber, að mati ráðsins, að innleiða á öllum mörkuðum til að stuðla að fjármálastöðugleika. Er því um alþjóðlega viðurkennd tilmæli um bestu framkvæmd að ræða. Við smíði reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) var m.a. byggt á kjarnareglunum.
    Hlutverk Seðlabanka Íslands er að sjá til þess að verðbréfamiðstöðvar, í umboði uppgjörsstofnana (þátttakenda í stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands (SG-kerfi)), hafi aðgang að seðlabankafé. Afhending verðbréfa gegn greiðslu (e. DvP) í seðlabankafé lágmarkar áhættu á að seljandi afhendi verðbréf án þess að greiðsla frá kaupanda berist á sama tíma eða að kaupandi afhendi greiðslu en fái ekki verðbréf afhent. Yfirsýn Seðlabanka Íslands felst í því að tryggja rekstrarsamhæfni verðbréfauppgjörs- og millibankakerfa þannig að afhending verðbréfa gegn greiðslu sé örugg, skilvirk og hagkvæm. Jafnframt leggur Seðlabankinn áherslu á viðbúnað og álagspróf við rekstur verðbréfauppgjörs- og millibankakerfa. Í þessu sambandi er m.a. lögð áhersla á að verðbréfamiðstöðvar hagi uppbyggingu, fyrirkomulagi og áhættustýringu verðbréfauppgjörskerfa og vörslu verðbréfa samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum viðmiðunum eða kjarnareglum um innviði fjármálamarkaða. Þess ber einnig að geta að Seðlabanki Íslands er mikilvægur viðskiptavinur verðbréfamiðstöðva og þær hafa umsjón með veðsetningu vegna viðskipta til stuðnings peningastefnunni. Þá mun Seðlabanki Íslands eiga aðkomu að samþykki á tilteknum samtengingum verðbréfamiðstöðva í samræmi við ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR). Yfirsýn Seðlabanka Íslands tekur mið af framangreindu með fjármálastöðugleika að leiðarljósi.

Um 6. gr.

    Lagt er til að eftirtaldir aðilar geti orðið þátttakendur í verðbréfamiðstöð: Seðlabanki Íslands og aðrir seðlabankar á Evrópska efnahagssvæðinu, verðbréfamiðstöðvar með starfsleyfi eða viðurkenningu samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 909/2014 (CSDR), miðlægir mótaðilar með starfsleyfi eða viðurkenningu samkvæmt lögum um afleiðuviðskipti, lánastofnanir, fjármálafyrirtæki og rekstrarfélög verðbréfasjóða. Leiðir þessi tillaga af CSDR og er hún í samræmi við norskan og danskan rétt. Ákvæði 33. gr. reglugerðarinnar fjallar um kröfur vegna þátttöku í verðbréfamiðstöð.
    Fjallað er um þá sem geta orðið aðilar að verðbréfamiðstöð í 10. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, en þar er notast við hugtakið aðili að verðbréfamiðstöð. Í þessu frumvarpi er hugtakið þátttakandi hins vegar notað, sem er í samræmi við hugtakanotkun í reglugerð (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) og lög um fyrirmæli í greiðslukerfi, nr. 90/1999.
    Lagt er til í 2. mgr. 6. gr. að þátttakendum sé skylt að gera aðildarsamning við verðbréfamiðstöð og er það skilyrði fyrir því að þátttakendur geti haft milligöngu um eignarskráningu verðbréfa í verðbréfamiðstöð líkt og samkvæmt núgildandi lögum. Ákvæðið byggir á 11. gr. gildandi laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, en lagt er til að sá hluti ákvæðisins sem fjallaði um málsmeðferð þegar aðili að verðbréfamiðstöð missir starfsleyfi sitt, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða óskað hefur verið eftir nauðasamningi færist ekki í þessi lög þar sem 41. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) fjallar um hvernig bregðast skuli við í slíku tilviki.

Um 7. gr.

    Í 15. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, er bæði mælt fyrir um uppgjör verðbréfaviðskipta í íslenskum krónum og erlendum gjaldeyri. Í 1. mgr. 40. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) er uppgjöri peningahluta verðbréfaviðskipta lýst með þeim hætti að það á bæði við um viðskipti í íslenskum krónum og erlendum gjaldeyri.
    Uppgjör peningahluta verðbréfaviðskipta, eins og því er lýst í 40. gr. reglugerðarinnar, er í samræmi við núverandi framkvæmd. Með innleiðingu á nýju millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands mun framkvæmdin breytast á þann veg að verðbréfamiðstöð verður viðurkenndur uppgjörsaðili (e. Authorised Settlement Agent) og mun gera peningagreiðslur upp, fyrir hönd uppgjörsaðila, í verðbréfauppgjörskerfi sínu í gegnum reikninga sem stofnaðir eru hjá Seðlabankanum. Eftir innleiðingu á nýju millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands verður framkvæmd uppgjörs peningahluta verðbréfaviðskipta áfram í samræmi við 1. mgr. 40. gr. sömu reglugerðar. Því er lagt til að 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 15. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, færist ekki í þessi lög og að orðinu efndalok sem var í 2. málsl. 1. mgr. ákvæðisins verði breytt í orðið fullnaðaruppgjör.
    Þá er ekki talin lengur þörf á samráðsnefnd verðbréfamiðstöðva, kauphalla, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands sem lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa gera ráð fyrir þar sem ákvæðið byggir á eldra fyrirkomulagi verðbréfaviðskipta.

Um 8. gr.

    Ákvæðið er nánast samhljóða 16. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997.
    Í 1. mgr. er tekið fram að til þess að réttindi að rafbréfum njóti réttarverndar verði þau að vera eignarskráð í verðbréfamiðstöðinni. Við frumútgáfu rafbréfs er útgefandi skráður eigandi að rafbréfi en eftirfarandi framsöl njóta því aðeins réttarverndar að þau hafi öll verið tilkynnt til eignarskráningar hjá verðbréfamiðstöðinni. Hið sama gildir um önnur réttindi sem kunna að vera takmarkaðri, t.d. veðréttindi eða fjárnám. Jafnframt er skýrt tekið fram að óheimilt sé að gefa út og framselja skráð réttindi samkvæmt rafbréfi með áþreifanlegum hætti, þ.e. á pappír.
    Í 2. mgr. er einnig að finna ákvæði sem er nauðsynlegt til að gera stöðu skráðs rétthafa að rafbréfi skýra gagnvart skuldara. Þar er kveðið svo á að eignarskráning í verðbréfamiðstöð komi í stað handhafnar áþreifanlegs verðbréfs, en þetta þýðir m.a. að hafi skuldari greitt rétthafa sem skráður er samkvæmt eignarskráningu verðbréfamiðstöðvar er um að ræða fullgilda greiðslu af hans hálfu. Í 6. mgr. þessarar greinar er einnig að finna ákvæði sem tekur af tvímæli varðandi greiðslu afborgana og/eða vaxta, sjá nánar athugasemdir við þá grein.
    Í 3. mgr. er skýrt tekið fram að forgangsröð ósamrýmanlegra réttinda yfir rafbréfi ráðist af því hvenær beiðni reikningsstofnunar um skráningu þeirra berst verðbréfamiðstöð. Um röð rétthafa fer að öllu leyti eftir því hvenær réttindi eru tilkynnt, sbr. nánar um þetta atriði í 4. og 5. mgr. þessarar greinar.
    Í 4. mgr. er tekið fram að réttaráhrif skráningar teljist vera frá þeirri stundu sem skráning hefur farið fram í kerfi verðbréfamiðstöðvar.
    Í 5. mgr. er tekið fram að reikningsstofnun, sem fengið hefur beiðni um það, er skylt að skrá réttindi án tafar í kerfi verðbréfamiðstöðvar enda leggi viðkomandi aðili fram viðhlítandi gögn um grundvöll beiðninnar. Reikningsstofnanir hafa rétt og bera skyldu til að hafa milligöngu um eignarskráningu og skráningu annarra réttinda sem kunna að vera takmarkaðri, t.d. veðréttindi og fjárnám, í kerfi verðbréfamiðstöðvar. Sem dæmi má nefna að á þeim hvílir skylda til að annast þær eignarskráningar sem nauðsynlegar eru hverju sinni, t.d. vegna erfða- eða búskipta eða annarra ráðstafana sem varða réttindi yfir rafbréfum. Fyrir það er þeim heimilt að ákvarða sanngjarna og hóflega þóknun sem birt skal í gjaldskrá á vefsvæði reikningsstofnananna.
    Í 6. mgr. er tekið fram að færsla verðbréfamiðstöðvar um greiðslu afborgunar og vaxta inn á reiknings til eignarskráðs rétthafa hefur sama gildi gagnvart skuldara og áritun á skuldabréf. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 3. mgr. 20. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997.

Um 9. gr.

    Ákvæðið byggir á 18. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997.
    Reikningsstofnun skal tilkynna hlutaðeigandi aðila sem réttindi eignast samkvæmt skráningunni um hana. Hér er ekki gert ráð fyrir að verðbréfamiðstöðin taki að sér að senda rétthafa tilkynningu í hvert sinn sem skráning hefur átt sér stað á reikningi viðkomandi reikningseiganda. Þetta er m.a. gert til þess að tryggja að tilkynningar verði ekki sendar að óþörfu, en reikningsstofnun sem á í beinum viðskiptum við reikningseiganda getur betur annast þetta hlutverk. Fullnægjandi er að slíkt eigi sér stað með rafrænum hætti, til dæmis í netbanka. Rétt er þó að taka fram að skv. 16. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að einu sinni á ári sendi verðbréfamiðstöðin út reikningsyfirlit til reikningseigenda í verðbréfamiðstöðinni.
    Í 2. mgr. er tekið fram að rétthafar skráðra réttinda og reikningsstofnanir geti samið um að ekki verði sérhver tilkynning um eignarskráningu send til reikningseiganda heldur fái hann tilkynningar sendar með þeim hætti sem hann telur fullnægjandi hverju sinni. Gert er ráð fyrir því að verðbréfamiðstöðin setji um þetta nánari reglur og skulu þær háðar samþykki Fjármálaeftirlitsins. Þetta er m.a. nauðsynlegt til þess að tryggja að skilmálar reikningsstofnana að því er varðar tilkynningar um eignarskráð réttindi í verðbréfamiðstöð verði ekki of íþyngjandi fyrir reikningseigendur. Þannig gæti til dæmis reikningsstofnun ekki gert það að skilyrði fyrir stofnun reiknings að eigandi hans gangi að því að tilkynningar skuli ekki sendar nema eftir ákvörðun reikningsstofnunar. Tryggja verður einnig að reikningsstofnanir leggi t.d. ekki óeðlilega há gjöld á vissar tegundir yfirlita o.s.frv. Meginatriði er að rétthafi á að geta valið um það hversu oft reikningsstofnun sendir honum yfirlit og er stofnuninni skylt að gera reikningseiganda grein fyrir hvaða möguleikar honum standa til boða varðandi þetta atriði.

Um 10. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 19. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, fyrir utan það að hugtakið eignarskráning kemur í stað hugtaksins „lokafærsla“.
    Í þessari grein segir að eftir að eignarskráning hefur átt sér stað í verðbréfamiðstöð verði réttindi grandlauss framsalshafa ekki vefengd. Hér er átt við að fullt framsal réttinda fer fram við eignarskráningu réttindanna í verðbréfamiðstöð, enda hafi sá sem þeim hefur ráðstafað að öllu leyti heimild til þess að ráðstafa réttindunum. Eignarskráning rafbréfs í verðbréfamiðstöð skal jafngilda skilríkjum um eignarrétt að rafbréfinu gagnvart skuldara, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Þrátt fyrir ákvæði greinarinnar er kveðið svo á að fullt mark verði eftir sem áður tekið á þeirri mótbáru að samningur sé ógildur ef hann er byggður á fölsun eða meiri háttar nauðung og er hér stuðst við svipuð sjónarmið og gilda til dæmis um réttaráhrif þinglýsingar, sbr. þinglýsingalög. Í ákvæðinu er ekki að finna heimild til að meta gildar ógildingarástæður sem varða lögræðisskort en það er í samræmi við íslenskan og norrænan rétt að um verðbréf gilda ríkari reglur um traustfang.

Um 11. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 21. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997.
    Í 8. gr. frumvarpsins kemur fram sú meginregla að eigi réttindi að rafbréfi að njóta réttarverndar verður að skrá þau hjá verðbréfamiðstöð sem hlotið hefur starfsleyfi. Hafi kröfuréttindi verið gefin út á rafrænan hátt er ekki öðrum heimildum til að dreifa um tilvist réttindanna og rétthafa til þeirra en þeim sem finna má í skráningu verðbréfamiðstöðvarinnar. Það hefur hins vegar engin áhrif á lögskipti aðila sem kunna að eiga rétt til greiðslu samkvæmt rafbréfi. Í þessari grein er því ítrekað að um stofnun réttinda yfir rafbréfum fari að öðru leyti eftir almennum reglum laga.

Um 12. gr.

    Ákvæðið byggir á 22. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997.
    Í greininni er tekið fram að reikningsstofnun er skylt að leiðrétta mistök komi þau í ljós í tengslum við skráningu í verðbréfamiðstöðinni. Mistök geta átt sér stað áður en uppgjör fer fram og kunna því að vera þess eðlis að þau valdi hlutaðeigandi aðilum ekki tjóni. Ef mistök eru leiðrétt eftir að uppgjör fer fram er reikningsstofnun skylt að upplýsa þá aðila sem málið varðar um leiðréttinguna eins fljótt og auðið er.

Um 13. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 23. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997.
    Í 1. mgr. er verðbréfamiðstöð veitt heimild til þess að afmá réttindi sem eru augljóslega ekki lengur til staðar. Nefna má sem dæmi að hafi verðbréfareikningur, sem stofnaður hefur verið hjá verðbréfamiðstöðinni, aldrei verið notaður og sé þar engin rafbréf að finna væri heimilt að loka slíkum reikningi. Líta verður svo á að einungis sé heimilt að afmá réttindi sem ótvírætt og augljóslega hafa enga þýðingu. Leiki vafi á um þetta atriði ber að varðveita réttindin og verður því að styðjast við ákvæði 2. mgr. um afmáningu þeirra.
    Í 2. mgr. er um að ræða réttindi sem eru 20 ára eða eldri og hafi sannanlega enginn rétthafi fundist að þeim getur verðbréfamiðstöðin birt innköllun í Lögbirtingablaðinu. Jafnframt ber verðbréfamiðstöð að birta innköllunina á vefsvæði sínu sem er nýmæli. Innköllunarfrestur er þrír mánuðir og hafi enginn gefið sig fram að þeim tíma liðnum er heimilt að afmá réttindin.
    Í 3. mgr. er að finna heimild ráðherra til þess að setja í reglugerð nánari reglur um framkvæmd 2. mgr. um afmáningu réttinda ef þess gerist þörf.

Um 14. gr.

    Ákvæðið byggir á bráðabirgðaákvæði II í lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997. Talið er rétt að færa ákvæðið inn í meginmál laganna enda byggja lögin á þeirri meginreglu sem í ákvæðinu felst að eignarréttindi yfir fjármálagerningum skuli eignarskrá rafrænt. Að lokinni innköllun geti samsvarandi áþreifanlegur fjármálagerningur ekki haft gildi.

Um 15. gr.

    Í 15. gr. er kveðið á um að verðbréfamiðstöð skuli veita hlutafélögum aðgang að upplýsingum í verðbréfamiðstöð um skráða eigendur hlutabréfa í viðkomandi hlutafélagi sem þar er eignarskráð. Hið sama gildir um aðgang rekstrarfélaga verðbréfasjóða að upplýsingum um eigendur hlutdeildarskírteina og hluta í sjóðum í rekstri þeirra en ákvæðið kom inn í 11. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, árið 2000. Lagt er til að halda því þar sem mikilvægt er að hlutafélög og rekstrarfélög verðbréfasjóða geti fengið upplýsingar um skráða eigendur frá verðbréfamiðstöð, t.d. við boðun hluthafafundar.

Um 16. gr.

    Ákvæðið er nánast samhljóða 24. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, en í samræmi við 28. tölul. 2. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) hefur hugtakinu reikningi verið breytt í verðbréfareikning.
    Með safnskráningu er átt við heimild fjármálafyrirtækis til að varðveita fjármálagerninga í eigu viðskiptavina sinna á safnreikningi og taka við greiðslum fyrir hönd viðskiptavina sinna frá einstökum útgefendum fjármálagerninga, enda hafi fjármálafyrirtækið fengið heimild til þess frá Fjármálaeftirlitinu og samþykki frá viðskiptavininum sjálfum. Undir hugtakið safnskráning fellur það sem nefnist á ensku „nominee registration“ eða „omnibus registration“ og fellur því hvort tveggja undir reglugerð um safnskráningu og varðveislu fjármálagerninga á safnreikningi, nr. 706/2008.
    Hér á landi hafa hingað til eingöngu verið notaðir „nominee“-reikningar. „Omnibus“-fyrirkomulagið er hefðbundið safnreikningsfyrirkomulag þar sem einn aðili safnar eignum margra umbjóðenda sinna á einn reikning fyrir eitt markaðssvæði. „Nominee“ er hins vegar að mestu leyti eins nema þar getur fjöldi umbjóðenda að baki reikningum verið einn eða fleiri.

Um 17. gr.

    Ákvæðið hefur fyrirmynd í 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, um þagnarskyldu og kemur í stað 8. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, sem fjallaði einnig um þagnarskyldu. Rétt þykir að samræma ákvæði um þagnarskyldu við önnur ákvæði í lögum á fjármálamarkaði um þagnarskyldu auk þess sem 2. mgr. 8. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, nær eingöngu til þagnarskyldu aðila í hliðstæðri starfsemi við verðbréfamiðstöð en ekki allra þeirra sem veita viðtöku upplýsingum af því tagi sem 1. mgr. nær til. Því eru lagðar til úrbætur hvað þetta varðar.

Um 18. gr.

    Ákvæðið innleiðir 1. og 3. mgr. 65. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) en samkvæmt henni skulu aðildarríki krefja verðbréfamiðstöðvar um að hafa yfir viðeigandi verklagsreglum að ráða fyrir starfsfólk til að tilkynna innanhúss um raunveruleg eða hugsanlega brot á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um starfsemi verðbréfamiðstöðvarinnar eftir tiltekinni, óháðri og sjálfstæðri boðleið. Sambærilegt ákvæði er að finna í 60. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem innleiðir 71. gr. tilskipunar 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varúðareftirlits með þeim (CRD IV) sem kveður á um sömu skyldur fyrir fjármálafyrirtæki.

Um 19. gr.

    Ákvæðið innleiðir 2. mgr. 65. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) en samkvæmt henni ber verðbréfamiðstöð að vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot. Sambærilegt ákvæði er að finna í 60. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem innleiðir 71. gr. tilskipunar 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varúðareftirlits með þeim (CRD IV) sem kveður á um sömu reglur í tilviki fjármálafyrirtækja.

Um 20. gr.

    Ákvæðið innleiðir þá skyldu eftirlitsstjórnvalds sem leiðir af 62. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) en samkvæmt þeirri grein ber eftirlitsstjórnvaldi að birta án ástæðulausrar tafar sérhverja ákvörðun um að leggja á stjórnsýsluviðurlög eða beita öðrum ráðstöfunum á grundvelli brota á þessum lögum, í samræmi við ákvæði 62. gr. reglugerðarinnar.

Um 21. gr.

    Ákvæðið er nánast samhljóða 28. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997. Í þessari grein er kveðið á um skaðabótaábyrgð verðbréfamiðstöðvar vegna mistaka af hennar hálfu í tengslum við eignarskráningu, breytingar eða afmáningu réttinda í verðbréfamiðstöðinni. Ákvæðið á sér fyrirmynd í norskum og sænskum rétti.
    Brýn þörf er á því að hafa skýrar reglur sem stuðla að því að almenningur eða fyrirtæki verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni ef mistök verða í starfsemi verðbréfamiðstöðvar. Stuðla verður að því að reglur séu þannig að þær skapi fullt traust allra hlutaðeigandi aðila. Ákvæði þessarar greinar, sem og önnur ákvæði þessa kafla frumvarpsins, miða að því að starfsemin sé rekin á þeim grundvelli að almenningur þurfi ekki að óttast um öryggi fjármuna sinna.
    Að eignarskráningu í verðbréfamiðstöð koma fleiri en einn aðili þar sem um er að ræða ákveðna verkaskiptingu milli verðbréfamiðstöðvar og reikningsstofnunarinnar. Eðlilegt þykir því að ábyrgð sé skipt þannig að hvor aðili um sig beri ábyrgð á eigin mistökum sem kunna að verða við eignarskráninguna. Eins og fram kemur í ákvæðinu er ábyrgð verðbréfamiðstöðvar hlutlæg. Hún ber ekki aðeins ábyrgð á grundvelli sakarreglu heldur ber hún einnig ábyrgð á tjóni þó að orsök þess verði rakin til óhappatilvika. Reglur um skiptingu ábyrgðar milli verðbréfamiðstöðvar og reikningsstofnunar sem við er miðað í þessari grein og 22. gr. frumvarpsins leiða til þess að afmarka verður ábyrgð hvors aðila um sig. Ekki er unnt að rekja á tæmandi hátt hvernig þessari skiptingu skuli háttað, en almennt verður að líta svo á að skráning í kerfi verðbréfamiðstöðvar, svo og annar undirbúningur eignarskráningar sem fram fer í reikningsstofnun, séu á ábyrgð hennar. Um skiptingu ábyrgðar milli reikningsstofnunar og viðskiptamanna hennar fer eftir almennum reglum. Hafi útgefandi rafbréfs til dæmis tilgreint ranga vaxtaprósentu eru slík mistök á hans ábyrgð. Ef reikningsstofnun hefur við skráningu ekki skráð vaxtaprósentuna rétt, þá ber hún ábyrgð á þeim mistökum sínum.
    Úrvinnsla fyrirmæla sem reikningsstofnanir færa inn í kerfi verðbréfamiðstöðvar, skráningin og ábyrgð á því að tilkynningar sem sendar eru aftur þaðan til reikningsstofnunar séu réttar verður að telja að falli undir ábyrgðarsvið verðbréfamiðstöðvar.
    Í 2. mgr. er minnt á þá eðlilegu reglu skaðabótaréttarins að verði tjón á einhvern hátt rakið til eigin sakar tjónþola er heimilt að fella brott eða lækka skaðabætur hans.
    Í 3. mgr. er hámarksfjárhæð vegna tjóns sem rekja má til sömu mistaka af hálfu verðbréfamiðstöðvarinnar takmörkuð við 700 milljónir króna en var áður helmingur ábyrgðarsjóðs verðbréfamiðstöðvar sem lög um rafræna eignarskráningu kveða á um eða 325 milljónir króna. Reglugerð (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) tryggir nægt eigin fé verðbréfamiðstöðva með öðrum hætti en með ábyrgðarsjóði og því er ekki lengur vísað til hans. Að auki þykir tilefni til að hækka hámarksfjárhæðina, m.a. með tilliti til breytinga á verðlagi og mikilvægi þeirra hagsmuna sem ákvæðinu er ætlað að tryggja. Þá er hærri fjárhæð að auki í samræmi við norskan og sænskan rétt en samkvæmt þarlendum lögum er hámarksfjárhæðin 50 milljónir norskra og sænskra króna sem í dag eru um 700 milljónir íslenskra króna.

Um 22. gr.

    Reikningsstofnun ber samkvæmt þessari grein ábyrgð á því tjóni sem rakið verður til mistaka af hennar hálfu í tengslum við tilkynningar um skráningu, breytingu eða afmáningu réttinda á verðbréfareikningi í verðbréfamiðstöðinni. Um skiptingu ábyrgðar milli reikningsstofnunar og verðbréfamiðstöðvar skal vísað til þess sem sagt hefur verið um þetta atriði í athugasemdum við 21. gr. Reikningsstofnun ber líka ábyrgð með sama hætti og verðbréfamiðstöð ef tjón verður rakið til óhappatilviks. Ábyrgð samkvæmt þessari grein tekur til tjóns sem verður í tengslum við tilkynningar og skráningu réttinda sem eru á hennar ábyrgð. Reikningsstofnanir munu eftir sem áður bera ábyrgð að öðru leyti samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins gagnvart viðskiptamönnum sínum hafi þeir til dæmis orðið fyrir öðru tjóni en því sem tengist störfum reikningsstofnunar að eignarskráningu rafbréfs.
    Í 2. mgr. er hliðstætt ákvæði um eigin sök tjónþola og er að finna í 21. gr. frumvarpsins. Þar er gert ráð fyrir að reikningsstofnanir beri hér eftir sem hingað til ábyrgð á eigin mistökum sem verða í tengslum við framsal og skráningu réttinda til verðbréfa.

Um 23. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 24. gr.

    Í 1. og 2. mgr. segir að Fjármálaeftirlitið annist útgáfu starfsleyfis til verðbréfamiðstöðvar og eftirlit samkvæmt ákvæðum laganna. Fjármálaeftirlitið hefur einnig eftirlit með því að farið sé að reglum, reglugerðum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim.
    Í 3. mgr. er tekið fram að um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fari jafnframt samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með ákvæðinu getur Fjármálaeftirlitið einnig nýtt sér allar þær heimildir sem þar eru tilgreindar m.a. til eftirlits, athugana og aðgangs, til að gera athugasemdir og krefjast úrbóta auk þess að leggja á dagsektir eða févíti. Er það talið uppfylla kröfur 3. mgr. 11. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) um að eftirlitsstjórnvald skuli hafa nægilegar eftirlits- og rannsóknarheimildir.

Um 25. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að verðbréfamiðstöð beri að tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef hún hyggst selja hluta af starfsemi sinni eða ef á að sameina eða skipta upp félaginu. Ljóst er að slíkt fæli í sér verulega breytingu á rekstri sem eftirlitsstjórnvald verðbréfamiðstöðvarinnar verður að vera upplýst um, ekki síst til að geta metið hvort breytingarnar hafi áhrif á forsendur starfsleyfis verðbréfamiðstöðvarinnar.

Um 26. gr.

    Ákvæðið innleiðir 6. og 7. mgr. 27. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR). Því er ætlað að tryggja að eftirlitsstjórnvald getið gripið til viðeigandi úrræða séu hluthafar eða einstaklingar sem eru í aðstöðu til að hafa bein eða óbein yfirráð yfir stjórnun verðbréfamiðstöðvarinnar ekki hæfir til að tryggja trausta og varfærna stjórnun verðbréfamiðstöðvarinnar. Við mat á hæfi hluthafa verðbréfamiðstöðvar skal Fjármálaeftirlitið m.a. hafa hliðsjón af hæfisskilyrðum umsækjanda til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum, sbr. VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Um 27.–28. gr.

    Ákvæðin innleiða 1. og 4. mgr. 27. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR). Greinin á sér fyrirmynd í ákvæðum um hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja, sbr. 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem og 45. gr. tilskipunar 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID2).

Um 29. gr.

    Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) skal lögbært stjórnvald hafa nægilegar eftirlits- og rannsóknarheimildir. Jafnframt skyldar 61. gr. sömu reglugerðar aðildarríki til að tryggja að lögbær stjórnvöld þeirra geti beitt stjórnsýsluviðurlögum og öðrum ráðstöfunum, sem við eiga í aðstæðunum sem skilgreindar eru í 63. gr. sömu reglugerðar gagnvart hverjum þeim sem er ábyrgur fyrir brotum á ákvæðum reglugerðarinnar. Í 29. gr. frumvarpsins er því kveðið á um heimildir Fjármálaeftirlitsins til álagningar stjórnvaldssekta og stjórnsýsluviðurlaga gagnvart hverjum þeim sem brýtur lög þessi og eru í 1. mgr. tilgreind þau ákvæði reglugerðarinnar sem brot á geta varðað stjórnvaldssektum.
    Í 2. mgr. ákvæðisins segir að Fjármálaeftirlitinu sé jafnframt heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæði 1. mgr. 17. gr. um þagnarskyldu.
    Þá eru b–d-liðir 2. mgr. 63. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) innleiddir með 3.–5. mgr. ákvæðisins. Skv. 3. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beina fyrirmælum til þess sem ber ábyrgð á broti að hætta því og endurtaka ekki. Í 4. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilað að afturkalla starfsleyfi verðbréfamiðstöðvar í ákveðnum tilvikum. Loks er Fjármálaeftirlitinu heimilað í 5. mgr. að banna tímabundið eða varanlega, fyrir endurtekin alvarleg brot, að nokkur stjórnarmaður verðbréfamiðstöðvar eða annar ábyrgur einstaklingur sinni stjórnarstörfum í þágu hennar.
    Ákvæðið byggir að öðru leyti á 34. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, sem var sett með lögum um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl., nr. 58/2015, að því undanskildu að hámarksfjárhæðir stjórnvaldssekta eru hækkaðar til samræmis við reglugerð (ESB) nr. 909/2014 (CSDR).

Um 30. gr.

    Samkvæmt 61. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) hafa aðildarríkin rétt til að kveða á um og beita refsiviðurlögum vegna brota á reglugerðinni. Þá kveður 3. mgr. 63. gr. reglugerðarinnar á um að aðildarríki geti haft aðrar refsiheimildir í viðbótar við þær sem um getur í 2. mgr. 63. gr. sömu reglugerðar.
    Lagt er til að fylgja því sem núgildandi lög kveða á um hvað varðar sektir eða fangelsi allt að tveimur árum. Ákvæði 30. gr. er þannig að mestu samhljóða d–f-liðum 2. mgr. 34. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, sem voru settir með lögum um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl., nr. 58/2015. Þannig er lagt til að ákvæðin haldi sér sem er einnig í samræmi við ákvæði um viðurlög í annarri löggjöf á fjármálamarkaði. Sú nýbreytni er þó í ákvæðinu að kveðið er á um að brot gegn 16., 25. og 54. gr. reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) um að stunda þá þjónustustarfsemi sem sett er fram í A-, B- og C-þáttum viðaukans við reglugerðina án þess að hafa fullnægjandi starfsleyfi geti varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum. Að brjóta gegn b-lið 1. mgr. 20. og b-lið 1. mgr. 57. gr. um að útvega starfsleyfi með því að gefa rangar yfirlýsingar eða með öðrum ólögmætum hætti eða 1. mgr. 47. gr. reglugerðarinnar um að verðbréfamiðstöð efni ekki eiginfjárkröfuna getur einnig varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Í 2. mgr. ákvæðisins segir að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að brjóta gegn ákvæði 1. mgr. 17. gr. um þagnarskyldu.

Um 31. gr.

    Ákvæðið byggir að hluta til á 12. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, sem veitir ráðherra heimild til að setja reglugerð og ákveða nánar reglur um grundvöll og framkvæmd eignarskráningar.
    Unnt þarf að vera að setja nánari reglur um ýmis framkvæmdaratriði og tæknimál er varða eignarskráningu rafbréfa í reglugerð sem ráðherra setur. Í átta töluliðum eru talin upp þau atriði sem gert er ráð fyrir að nánari reglur verði settar um í reglugerð. Lagt er til að bætt verði við nýjum tölulið sem heimilar ráðherra að ákveða í reglugerð heimildir reikningsstofnunar til að ákvarða fyrirkomulag vegna umsýslu með rafbréf og skráningu í tengslum við þau, svo sem um gjaldtöku og um skráningu veðréttinda. Þá verður ráðherra heimilt að setja nánari reglur um starfsemi útibúa hér á landi.

Um 32. gr.

    Í greininni er lagt til að Seðlabanka Íslands verði falið að setja reglur sem fela í sér innleiðingu í íslenskan rétt á þeim reglugerðum ESB sem byggja á tæknistöðlum frá Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni (ESMA) og settar eru með lagastoð í reglugerð (ESB) nr. 909/2014 (CSDR).

Um 33. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 34. gr.

    Breytingarnar leiða af ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 909/2014 (CSDR) sem breytir nokkrum ákvæðum tilskipunar 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf sem innleidd var með lögum um fyrirmæli í greiðslukerfum. Hún breytir jafnframt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga sem innleidd var með lögum um skortsölu og skuldatryggingar. Breytingarnar leiða enn fremur af ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB um breytingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið evrópskra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði (Omnibus I) og er að hluta til innleidd hér. Enn fremur þarf að breyta tilvísun laga um hlutafélög til laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa í lög um verðbréfamiðstöðvar og verðbréfauppgjör.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Ákvæðið var í lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, og kom inn í þau með lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Í ákvæðinu er lagt til að verðbréfamiðstöðvum með gilt starfsleyfi samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, við gildistöku þessara laga verði heimilt að starfa áfram þar til umsókn þeirra um nýtt starfsleyfi á grundvelli nýju laganna hefur verið afgreidd af Fjármálaeftirlitinu, enda hafi starfsleyfisumsókn verið lögð fram innan þess frests sem greinir í 1. mgr.