Ferill 379. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 471  —  379. mál.




Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um úttekt á starfsemi Menntamálastofnunar.

Frá Hjálmari Boga Hafliðasyni, Willum Þór Þórssyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Líneik Önnu Sævarsdóttur, Silju Dögg Gunnarsdóttur, Guðmundi Andra Thorssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Helga Hrafni Gunnarssyni, Stefáni Vagni Stefánssyni og Jóni Steindóri Valdimarssyni.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi geri úttekt á Menntamálastofnun og taki saman skýrslu um starfsemi hennar.
    Í skýrslunni verði m.a. dregið fram hvernig Menntamálastofnun hafi tekist að uppfylla lögbundið hlutverk sitt og ákvæði laga um aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Greinargerð.

    Menntamálastofnun tók til starfa 1. október 2015. Samkvæmt lögum um Menntamálastofnun, nr. 91/2015, er stofnunin stjórnsýslustofnun á sviði menntamála sem stuðla skal að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið.
    Menntamálastofnun sinnir umfangsmiklum verkefnum á sviði menntamála. Þessi verkefni voru áður á hendi Námsgagnastofnunar, Námsmatsstofnunar og ráðuneytis menntamála. Stofnuninni hefur einnig verið falin umsjón með ýmsum öðrum verkefnum og má þar nefna innleiðingu Þjóðarátaks um læsi.
    Að mati flutningsmanna er rétt að nú, fjórum árum eftir að stofnunin var sett á laggirnar, verði starfsemi hennar tekin út af ríkisendurskoðanda. Í skýrslunni komi m.a. fram:
     1.      mat á árangri Menntamálastofnunar við framkvæmd laga um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla með áherslu á námsefnisgerð;
     2.      hvort starfsemi Menntamálastofnunar og verklagsreglur sem stofnunin starfar eftir séu í samræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar;
     3.      hvort framlög ríkisins til Menntamálastofnunar tryggi með fullnægjandi hætti að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu;
     4.      stuðningur mennta- og menningarmálaráðuneytis við Menntamálastofnun;
     5.      ábendingar Ríkisendurskoðunar um til hvaða aðgerða þurfi að grípa þannig að Menntamálastofnun megi sem best sinna lögbundnu hlutverki sínu svo að vönduð og málefnaleg stjórnsýsla verði tryggð í starfsemi stofnunarinnar.