Ferill 380. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 476  —  380. mál.




Fyrirspurn


til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um frumkvöðla og hugvitsfólk.

Frá Ásmundi Friðrikssyni.


     1.      Hefur ráðherra kynnt sér niðurstöður úr viðamikilli könnun sem gerð var af Umbótastofnuninni í Stokkhólmi um að einungis 20% hugmynda frumkvöðla og hugvitsfólks komi frá háskólaumhverfinu, 47% frá einstaklingum á vegum fyrirtækja og 33% frá óháðum einstaklingum? Telur ráðherra að svipuð staða sé hér á landi?
     2.      Hvernig skiptist opinber stuðningur við þessa hópa hér? Hvernig er t.d. háttað styrkveitingu ríkisins vegna nýsköpunar frjálsra félagasamtaka í ljósi þess að ráðuneytið hefur nú hafnað öllum fjárstuðningi við Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna (SFH) og Félag kvenna í nýsköpun (KVENN)?
     3.      Hver er afstaða ráðherra til „Svartrar skýrslu um nýsköpun“ sem SFH og KVENN gáfu út í apríl 2019?
     4.      Hafa konur á meðal frumkvöðla og hugvitsfólks notið sérstaks stuðnings og hvernig hefur sá stuðningur skipst á milli hópa?
     5.      Til hvaða félaga og félagasamtaka frumkvöðla og hugvitsfólks er og verður leitað til vegna þátttöku í
                  a.      stýrihópi um mótun nýsköpunarstefnu,
                  b.      Vísinda- og tækniráði,
                  c.      ráðgjafarnefnd Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands,
                  d.      stjórn eða fagráði Tækniþróunarsjóðs,
                  e.      fyrirhuguðu nýsköpunar- og frumkvöðlaráð,
                  f.      stofnsetningu fyrirhugaðs safns nýsköpunar og tækniþróunar,
                  g.      undirbúningi þeirra breytinga á Vísinda- og tækniráði, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og sjóðakerfi nýsköpunar sem boðaðar eru í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland?
     6.      Er fyrirhugað að gera þjónustusamninga við frjáls félagasamtök á sviði nýsköpunar um samfélagsverkefni verði eftir því leitað?


Skriflegt svar óskast.