Ferill 211. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 477  —  211. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um utanlandsferðir á vegum ráðuneytisins.

     1.      Hversu margar utanlandsferðir fóru árin 2016–2019:
                  a.      ráðherra,
                  b.      yfirstjórn,
                  c.      almennir starfsmenn,
                  d.      starfsmenn stofnana ráðuneytisins, sundurliðað eftir stofnunum?

    Meðfylgjandi eru töflur yfir fjölda utanlandsferða umhverfis- og auðlindaráðuneytis og stofnana þess á tímabilinu 2016–2019. Rétt er að benda á að þar sem árið 2019 er ekki liðið er fjöldi ferða á árinu 2019 einungis hluti úr ári í flestum tilvikum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Voru ferðirnar kolefnisjafnaðar?
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kolefnisjafnað alla starfsemi ráðuneytis, þ.m.t. flugferðir, fyrir árin 2016–2018. Losun ársins 2019 verður kolefnisjöfnuð þegar endanlegar niðurstöður liggja fyrir í árslok. Samkvæmt aðgerðaáætlun ráðuneytisins í umhverfismálum er gert ráð fyrir árlegri gróðursetningarferð starfsmanna til jöfnunar losunar frá starfsemi ráðuneytisins. Þess má geta að vorið 2019 var ákveðið að gróðursetja tvöfalt fleiri plöntur en þurfti til að kolefnisjafna losun ársins 2018 til samræmis við loftslagsstefnu Stjórnarráðsins en þar segir: „Stjórnarráðið mun framvegis kolefnisjafna alla losun sína og meira til.“
    Óskað var eftir upplýsingum frá stofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um kolefnisjöfnun utanlandsferða. Í svari frá Umhverfisstofnun kemur fram að stofnunin vinni í samstarfi við aðra að því að móta hvaða kröfur skuli gera til þeirra aðila sem selja stofnunum og opinberum fyrirtækjum kolefnisjöfnun. Slíkar kröfur miða m.a. að því að tryggja að raunbinding eigi sér stað. Umhverfisstofnun mun með hliðsjón af slíkum viðmiðum gera samninga um kolefnisjöfnun og þar til slík viðmið liggja fyrir mun hún gera skammtímasamninga þar að lútandi. Starfsemi Skógræktarinnar og Landgræðslunnar lýtur m.a. að kolefnisbindingu sem eðli máls samkvæmt er langt umfram losun stofnananna og því hafa þessar stofnanir ekki kolefnisjafnað ferðir sínar sérstaklega. Í svörum nokkurra stofnana kemur fram að ferðir þeirra hafi verið kolefnisjafnaðar, eins og hjá Skipulagsstofnun, stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Landmælingum Íslands. Þá kemur almennt fram í svörum stofnana að þær stefni að því að kolefnisjafna ferðir sínar.

     3.      Er til fjarfundabúnaður í ráðuneytinu eða í stofnunum sem heyra undir ráðuneytið og ef svo er, hvar?
    Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og öllum undirstofnunum þess er fjarfundabúnaður eða aðgengi að slíkum búnaði. Búnaðurinn er misjafn að gerð og er allt frá því að vera fundahugbúnaður á einstaka tölvum starfsmanna með tengingu í gegnum vefmyndavél og yfir í það að vera fastur fundabúnaður í fundarsal sem hýst getur stóra fundi með þátttöku margra, eins og er t.d. í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

     4.      Hversu margir fundir voru haldnir með fjarfundabúnaði árin 2016–2019 með aðilum í útlöndum?
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur lagt áherslu á það við starfsmenn að velja fjarfund sé þess kostur. Mörg dæmi eru um slíka fundi en ráðuneytið hefur ekki haldið sérstaklega utan um fjölda þeirra.
    Í svörum stofnana kemur fram að almennt er ekki haldið utan um fjölda funda sem haldnir eru með fjarfundabúnaði en þó eru nokkrar stofnanir sem áætla slíkan fjölda. Landmælingar Íslands telur slíka fundi vera um 20–30 á ári, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum telur þá vera um 25–30 yfir tímabilið, Skógræktin áætlar að þeir séu nokkrir tugir á ári, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar áætlar þá um 40–50 ári, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn áætlar þá um 24 á ári, hjá Skipulagsstofnun eru þetta nokkrir fundir á ári, Náttúrufræðistofnun Íslands áætlar að þetta séu 15–20 fundir árlega, hjá Úrvinnslusjóði eru þetta allmargir fundir, hjá Veðurstofu Íslands eru þetta fjöldi funda á hverju ári og hjá Íslenskum orkurannsóknum eru þetta fjölmargir fundir í hverri viku. Í svari Vatnajökulsþjóðgarðs og Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála kemur fram að engir slíkir fundir hafi verið haldnir.
    Í svari Umhverfisstofnunar kemur fram að fjarfundir með aðilum í útlöndum hafi verið alls 138 árið 2016, 155 árið 2017, 234 árið 2018 og 271 til 22. október 2019. Stofnunin beitir sér nú í erlendu samstarfi fyrir því að fjarfundum sé fjölgað á kostnað flugferða og þegar má merkja áhrif þess í ferðaáætlun stofnunarinnar og á viðbrögðum erlendra samstarfsaðila.