Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 495  —  183. mál.
Fyrirvari.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson og Ágúst Geir Ágústsson frá forsætisráðuneyti, Arnar Þór Stefánsson, lögmann Kristjáns Viðars Júlíussonar, Pál Rúnar Mikael Kristjánsson, lögmann aðstandenda Tryggva Rúnars Leifssonar, Oddgeir Einarsson, lögmann aðstandenda Sævars Ciesielski, Ragnar Aðalsteinsson, lögmann Guðjóns Skarphéðinssonar, Andra Árnason, settan ríkislögmann, Magnús Leópoldsson og Valdimar Olsen.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Arnari Þór Stefánssyni, Hafþóri Sævarssyni Ciesielski, Páli Rúnari Mikael Kristjánssyni og Ragnari Aðalsteinssyni og sameiginleg umsögn frá Magnúsi Leópoldssyni, Einari Gunnari Bollasyni og Valdimar Olsen.
    Frumvarp þetta felur í sér lagaheimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017 þar sem Kristján Viðar Júlíusson, Sævar Marinó Ciesielski og Tryggvi Rúnar Leifsson voru sýknaðir af því að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana í janúar 1974, Albert Klahn Skaftason af því að hafa tálmað rannsókn á brotinu og Guðjón Skarphéðinsson, Kristján Viðar og Sævar Marinó af því að hafa orðið Geirfinni Einarssyni að bana í nóvember 1974.

Markmið.
    Megintilgangur með framlagningu frumvarpsins er að stuðla að sáttum vegna framangreindra mála þar sem sáttumleitanir stjórnvalda í kjölfar dóms Hæstaréttar hafa ekki borið árangur og einn aðila höfðað mál fyrir héraðsdómi. Lagt er til að ráðherra verði heimilað að greiða bætur til aðila án þess að þeir fyrirgeri rétti sínum til að bera kröfur undir dómstóla. Enn fremur er lagt til að eftirlifandi makar og börn þeirra aðila sem fallnir eru frá geti tekið við greiðslu bóta. Meiri hluti nefndarinnar hefur við umfjöllun málsins lagt áherslu á að það er ekki hlutverk hennar að fjalla efnislega um dómsmálin heldur einungis að taka afstöðu til og meta efni frumvarpsins.

Nauðsyn lagasetningar.
    Meiri hlutinn fjallaði um þá sérstöðu sem málið hefur í íslenskri réttarsögu, bæði að umfangi og efni, og er vandséð að viðlíka mál geti komið upp aftur. Því til stuðnings bendir meiri hlutinn á þær samfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað á síðustu áratugum, til að mynda aukin áhersla á mannréttindi, þ.m.t. réttindi sakborninga.
    Fyrir nefndinni kom fram sjónarmið um að með framlagningu frumvarpsins væri gengið gegn þrískiptingu ríkisvaldsins, inn á verksvið dómsvaldsins. Meiri hlutinn bendir á að réttur einstaklinga til að bera mál sitt undir dómstóla er skýrt afmarkaður í stjórnarskrá og með frumvarpinu er ekki á neinn hátt verið að draga úr rétti aðila til að fara með kröfur sínar fyrir dóm. Frumvarpið lýtur einungis að heimild til að greiða bætur og er því ljóst að efni frumvarpsins er fyrst og fremst ívilnandi fyrir aðila máls. Meiri hlutinn leggur áherslu á að verði frumvarpið samþykkt njóta aðilar enn réttar til að bera mál sitt undir dómstóla til frekari bótagreiðslna. Í ljósi framangreinds og sérstöðu málsins telur meiri hlutinn að nauðsynlegt og eðlilegt sé að taka af allan vafa um að vilji stjórnvalda standi til þess að greiða aðilum máls og aðstandendum þeirra sanngjarnar bætur.
    
Réttur aðstandenda til bóta.
    Við umfjöllun um frumvarpið komu fram sjónarmið um að 2. mgr. 1. gr. væri mikilvæg í því skyni að taka af öll tvímæli um að greiða skuli bætur til eftirlifandi maka og barna. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og bendir á að bætur þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru einstaklingsbundnar og að nauðsynlegt sé að kveða á um þennan rétt þar sem vafi leikur á hver réttarstaða eftirlifandi maka og barna væri fyrir dómstólum varðandi heimild til að gera kröfur um bætur fyrir hönd látins aðila. Mikilvægt sé að kveða á um það að bæturnar sem lagðar eru til í frumvarpinu geti einnig runnið til aðstandenda til að gæta jafnræðis milli aðila.

Fjárhæð bóta.
    Við meðferð málsins komu fram ýmiss konar sjónarmið um hvaða viðmið skulu höfð til hliðsjónar við ákvörðun fjárhæðar bóta. Meiri hlutinn tekur fram að hér er hvorki um hefðbundnar bætur né ákvörðun um bætur að ræða og vísar í því sambandi til greinargerðar með frumvarpinu. Meiri hlutinn telur, sérstaklega í ljósi þess að í frumvarpinu eru ekki lagðar fram takmarkanir á réttindum aðila til bera kröfur sínar undir dómstóla, að það sé ekki hlutverk nefndarinnar að hlutast til um þau atriði sem höfð verði til viðmiðunar við ákvörðun fjárhæðar bótanna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að sú meðferð sem aðilar þurftu að þola vegna málanna verða varla bættar að fullu með fjárbótum en greiðsla þeirra sé hluti af viðurkenningu stjórnvalda á því óréttlæti sem aðilar voru beittir og þeirra áhrifa sem rangindin hafa haft.

Lokaorð.
    Meiri hlutinn telur efni frumvarpsins geta greitt fyrir því að ná sátt, að því marki sem unnt er, vegna þeirra mála sem hér eru til umfjöllunar og þeirra áhrifa sem þau hafa haft á aðila máls. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að efni frumvarpsins sé skýrlega afmarkað og taki aðeins til þeirra þátta sem nauðsynlegt sé vegna þeirrar undantekningar sem það er á almennum reglum um setningu laga. Meiri hlutinn telur að verði frumvarp þetta samþykkt feli það í sér staðfestingu á vilja stjórnvalda til að leita sátta.
    Jón Steindór Valdimarsson, Guðmundur Andri Thorsson og Helgi Hrafn Gunnarsson skrifa undir nefndarálit þetta með þeim fyrirvara að málsmeðferð stjórnvalda í sáttaferlinu, sérstaklega framlagning greinargerðar setts ríkislögmanns í umboði ríkisstjórnarinnar sem vörn í bótamáli gegn ríkinu, hafi ekki verið til þess fallin að greiða fyrir farsælli lausn og sáttum.
    Að teknu tilliti til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 14. nóvember 2019.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Andrés Ingi Jónsson Birgir Ármannsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Guðmundur Andri Thorsson,
með fyrirvara.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Hjálmar Bogi Hafliðason. Jón Steindór Valdimarsson,
með fyrirvara.