Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 502  —  4. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, með síðari breytingum (skatthlutfall).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Samkvæmt gildandi lögum nemur sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki 0,376% af heildarskuldum skattskylds aðila umfram 50 milljarða kr. í lok tekjuárs. Með frumvarpinu er lagt til að skatthlutfallið lækki í 0,145% í fjórum skrefum þannig að skatthlutfallið verði 0,318% við álagningu árið 2021, 0,261% við álagningu 2022, 0,203% við álagningu 2023 og loks 0,145% við álagningu 2024 og síðar.
    Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út á síðasta ári er lögð áhersla á að bankaskattar verði lækkaðir til að gera bankana söluvænni. Þess vegna er frumvarp þetta til umræðu á Alþingi.
    Fyrsta minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar finnst ekki tímabært að undirbúa sölu bankanna áður en almenn umræða eða stefnumótun stjórnvalda um framtíðarskipulag fjármálakerfisins hefur farið fram.
    Tryggja þarf almenningi aðgang að nauðsynlegri bankaþjónustu og að ódýrasta greiðslumiðlun sem völ er á standi öllum jafnt til boða. Bankarnir veita nauðsynlega þjónustu sem varðar okkur öll. Þeir stunda greiðslumiðlun, ávaxta sparifé og veita lán til húsnæðiskaupa eða annarra framkvæmda sem tengjast rekstri heimila og fyrirtækja. Eins og málum er nú háttað er samhliða stunduð fjárfestingarstarfsemi, stundum mjög áhættusöm, sem fjármögnuð er með sparifé almennings. Bankar í eigu ríkisins ættu að draga sig út úr þess háttar starfsemi. Það getur skapað rými fyrir samkeppni á þeim sviðum þar sem ekki er verið að nýta sparnað almennings með innstæðutryggingarábyrgð til fjármögnunar á áhættusömum fjárfestingum. Einungis aðskilnaður viðskiptabankastarfsemi sem er fjármögnuð með innlánum og fjárfestingarbankastarfsemi sem ekki er fjármögnuð með innlánum getur komið í veg fyrir að almenningur beri áhættuna af glæfralegum fjárfestingum fjármálafyrirtækja.
    Sala á eignarhlut í bönkum verður ekki til að losa ríkið undan áhættu af bönkum sem geyma innstæður viðskiptavina enda mun ríkið alltaf koma kerfislega mikilvægum bönkum til bjargar fari þeir á hausinn. Áhætta og kostnaður af fjárfestingum sem fara í súginn á að vera óskiptur hjá þeim sem stunda áhættusöm viðskipti en ekki hjá almenningi. Þess vegna þarf að skilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabönkunum á meðan ríkið er stærsti eigandi bankakerfisins.
    Fyrsti minni hluti tekur undir það sjónarmið að mjög mikilvægt sé að opinbert gjaldaumhverfi fjármálafyrirtækja sé stöðugt og fyrirsjáanlegt. Örar breytingar á skattumhverfi séu ekki æskilegar. Samfylkingin vill að framtíðarskipan bankakerfisins með aðskilnaði fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi verði fest í sessi áður en ákvarðanir um sölu hluta ríkisins í bönkunum eru teknar. Samhliða verði teknar endanlegar ákvarðanir um þá skatta sem fjármálafyrirtækjum er gert að greiða.
    Um leið og hagur almennings er ætíð hafður að leiðarljósi við stefnumótun þarf að rýna í þær tækninýjungar sem nú ryðja sér til rúms og reyna að sjá fyrir hvert þær leiða okkur. Á slíkum óvissutímum er mikilvægt að ríkið haldi stórum hlut í bankakerfinu og verji almenning fyrir því að bera kostnaðinn af áhættusækni í fjármálakerfinu. Því liggur ekki á að lækka bankaskatta svo að selja megi bankana í óbreyttri mynd.
    Fyrsti minni hluti leggst gegn þeirri breytingu á bankasköttum sem lögð er til með þessu frumvarpi.

Alþingi, 13. nóvember 2019.

Oddný G. Harðardóttir.