Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 506  —  226. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um kostnað við húsnæði landlæknisembættisins, skrifstofuhúsnæði Landspítalans og húsnæði Blóðbankans.


     1.      Hver var kostnaður við leigu á húsnæði landlæknisembættisins að Austurströnd 5 á Seltjarnarnesi frá áramótum 2010/2011 og þar til embættið flutti þaðan? Óskað er eftir upplýsingum um leiguverð á hvern fermetra og heildarleigu og sundurliðuðum rekstrarkostnaði vegna húsnæðisins.
    Greiðslur til leigusala (Neshús ehf.) frá 1. janúar 2011 til 28. febrúar 2015 námu samtals 110 millj. kr. Meðaltalsleiga á fermetra á tímabilinu var 1.692 kr. Greiðslur fyrir hita og rafmagn námu samtals 7,6 millj. kr. á tímabilinu. Eftir sameiningu Lýðheilsustöðvar og embættis landlæknis varð húsnæðið að Austurströnd 5 of lítið og ákveðið var að flytja starfsemina.

     2.      Hver var kostnaður við leigu á húsnæði landlæknisembættisins á Barónsstíg 47 frá því að embættið fékk aðsetur þar árið 2011 og þar til embættið rifti leigusamningi? Óskað er eftir upplýsingum um leiguverð á hvern fermetra og heildarleigu og sundurliðuðum rekstrarkostnaði vegna húsnæðisins.
    Greiðslur til leigusala (Álftavatn ehf.) frá 1. júní 2011 til 9. maí 2019 námu samtals 370,7 millj. kr. Greiðslur fyrir hita og rafmagn námu samtals 13,8 millj. kr. á tímabilinu.

     3.      Hver er heildarkostnaðar landlæknisembættisins vegna ætlaðrar myglu í húsnæði á Barónsstíg 47? Óskað er eftir yfirliti þar sem fram komi allur kostnaður sundurliðað eftir því hvaða aðilar eða fyrirtæki fengu greitt og fyrir hvaða þjónustu.
    Samkvæmt úttekt tveggja aðila, verkfræðistofunnar Eflu og óháðs matsmanns sem skipaður var af kærunefnd húsamála, er mygla í húsnæðinu að Barónsstíg 47. Greiðslur fyrir húsaleigu og þrif miðast við þann tíma þar til húsaleigusamningi við Álftavatn var rift.

Kostnaður vegna myglu Millj. kr.
Húsaleiga í Skógarhlíð febrúar 2018 – apríl 2019 Ríkiseignir 3,1
Þrif í Skógarhlíð Hreint ehf. 1,2
Úttektir verkfræðistofa Mannvit og Efla 5,3
Skýrsla óháðs matsmanns Brak 5,3
Sendibílakostnaður Ýmsir 3,7
Samtals 18,7


     4.      Hversu margir útistandandi reikningar eru ógreiddir af hálfu landlæknisembættisins til leigusala á Barónsstíg 47 og hver er fjárhæð þeirra?
    Leiga er ógreidd frá því að riftun var lýst yfir og áfallinn kostnaður komi til skuldajafnaðar við leigukröfu fyrir þann tíma sem leið frá því riftun var lýst yfir og þar til húsnæðið var afhent. Embætti landlæknis hefur gert kröfu um endurgreiðslu áfallins kostnaðar á hendur leigusala, að svo miklu leyti sem hann verður ekki greiddur með skuldajöfnuði.

     5.      Hver er árlegur leigukostnaður og annar rekstrarkostnaður vegna:
                  a.      Eiríksgötu 5, skrifstofuhúsnæðis Landspítalans,
                  b.      Snorrabrautar 60, húsnæðis Blóðbankans?

    Leigukostnaður vegna Eiríksgötu 5 árið 2018 var 120,2 millj. kr., ræsting var 20,8 millj. kr. og þjónusta viðhaldsdeildar var 1,7 millj. kr. Leigukostnaður vegna Snorrabrautar 60 árið 2018 var 55,9 millj. kr., ræsting var 18,4 millj. kr. og þjónusta viðhaldsdeildar var 3,3 millj. kr.