Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 507  —  250. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um umhverfis- og öryggishagsmuni Íslands á norðurslóðum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur þjóðaröryggisráð gert áætlanir um umfang umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum og framlag landsins í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði og lagt mat á kostnað samfara þeim, sbr. 2. tölul. í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland?

    Með hliðsjón af efni fyrirspurnarinnar var haft samráð við þjóðaröryggisráð við vinnslu eftirfarandi svars.
    Fyrirspurnin lýtur að afstöðu þjóðaröryggisráðs til málefnis sem Alþingi hefur falið utanríkisráðherra að annast í samstarfi við önnur hlutaðeigandi ráðuneyti, sem og sérfræðistofnanir og samtök um málefni norðurslóða, sbr. þingsályktun nr. 20/139, um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.
    Í stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem Alþingi samþykkti á árinu 2011 er m.a. fjallað um umhverfis- og öryggishagsmuni á norðurslóðum. Með samþykktinni var utanríkisráðherra falin framkvæmd og þróun stefnunnar í samstarfi við önnur hlutaðeigandi ráðuneyti, sem og sérfræðistofnanir og samtök um málefni norðurslóða og jafnframt að hafa samráð við utanríkismálanefnd og umhverfisnefnd Alþingis um útfærslu stefnunnar eftir því sem aðstæður krefðust.
    Samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð, nr. 98/2016, er ráðið samráðsvettvangur um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og þjóðaröryggismál. Ábyrgð á stjórnarframkvæmd einstakra stjórnarmálefna er varða þjóðaröryggi er því óbreytt hjá hlutaðeigandi ráðherra samkvæmt forsetaúrskurði hverju sinni.
    Þjóðaröryggisráð hefur eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis nr. 26/145, um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Í því sambandi gaf þjóðaröryggisráð út skýrslu um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar í október 2018 sem send var Alþingi með bréfi, dags. 1. nóvember sama ár. Í skýrslunni gerir utanríkisráðuneytið ítarlega grein fyrir því hvernig íslensk stjórnvöld hafa staðið að framkvæmd 2. tölul. þjóðaröryggisstefnunnar varðandi umhverfis- og öryggishagsmuni á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði. Gerð er grein fyrir því hvernig íslensk stjórnvöld hafa unnið að framkvæmd þessa áhersluþáttar þjóðaröryggisstefnunnar, þeim árangri sem náðst hefur og nauðsynlegum umbótum í þessu sambandi á næstu 12 mánuðum.
    Af framangreindu leiðir að þjóðaröryggisráð hefur ekki gert áætlanir um framkvæmd stefnu Íslands í málefnum norðurslóða að því er varðar umfang umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum, framlag landsins í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði eða lagt mat á kostnað samfara þeim, enda væri slíkt hvorki í samræmi við áðurgreint hlutverk þjóðaröryggisráðs skv. lögum nr. 98/2016 né framangreinda samþykkt Alþingis nr. 20/139, um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.
    Óski fyrirspyrjandi eftir nánari upplýsingum um málefnið, ber að beina fyrirspurn þar að lútandi til utanríkisráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.