Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 520  —  290. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um losun gróðurhúsalofttegunda frá ökutækjum og alþjóðlegar skuldbindingar.


     1.      Hver er hlutdeild ökutækja í losun gróðurhúsalofttegunda nú og hversu lítil þarf hún að vera til þess að Ísland nái markmiðum alþjóðlegra skuldbindinga sinna í loftslagsmálum?
    Hlutdeild vegasamgangna í losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi (án landnotkunar) er 21%. Hlutdeild þeirra í losun sem telst á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda (án landnotkunar og utan evrópsks viðskiptakerfis um losunarheimildir (ETS)) er 34%.
    Ísland hefur tilkynnt til Parísarsamningsins það markmið að taka þátt í sameiginlegu markmiði með ríkjum Evrópusambandsins og Noregi um 40% samdrátt í losun til ársins 2030 miðað við 1990. Á beinni ábyrgð stjórnvalda er losun frá samgöngum innan lands, landbúnaði, sjávarútvegi, meðferð úrgangs, kælimiðlum o.fl. Í þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist eru engin sérstök ákvæði eða markmið varðandi losun frá ökutækjum eða einstaka geirum. Hins vegar liggur fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda frá ökutækjum hér á landi þarf að dragast verulega saman svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar, enda er sú losun stærsti einstaki þátturinn í losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda.
    Endurskoðun aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum stendur nú yfir og miða aðgerðir þar að 40% samdrætti í losun á beinni ábyrgð stjórnvalda. Aðgerðir varðandi orkuskipti í samgöngum og breyttar ferðavenjur miða að því að losun frá vegasamgöngum verði ekki meiri en um 500.000 tonn árið 2030 til að Ísland nái markmiðum sínum. Það hvernig Ísland nær markmiðunum veltur ekki einvörðungu á losun frá ökutækjum heldur fjölmörgum öðrum þáttum

     2.      Hvað vantar upp á til þess að Ísland nái að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og hver er áætlaður kostnaður þess ef það næst ekki innan tímamarka? Ef svo fer að Ísland nær ekki að uppfylla skuldbindingarnar og þarf að standa straum af kostnaði vegna þess, hvert fara þeir fjármunir og með hvaða hætti verða þeir notaðir?
    Ísland þarf að gera upp skuldbindingar sínar á öðru skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar eftir að því lýkur í árslok 2020, en formlegt uppgjör tímabilsins verður ekki fyrr en árið 2023. Þegar umrætt uppgjör fer fram er litið til losunar Íslands á árunum 2013–2020. Flest bendir til að losunin verði meiri en skuldbindingar kveða á um. Hægt er að gera upp skuldbindingar innan Kyoto-bókunarinnar með kaupum á einingum á milli ríkja. Hægt er að kaupa einingar beint af ríkjum sem hafa losað minna en skuldbindingar þeirra kveða á um, eða einingar sem verða til vegna loftslagsvænna verkefna, einkum í þróunarríkjum. Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hver kostnaður Íslands gæti orðið því verð á einingum er breytilegt og ekki liggur fyrir hver heildarlosun verður á tímabilinu (nýjustu tölur eru frá 2017). Ráðuneytið áætlar að miðað við núverandi verðlag gæti heildarupphæðin hlaupið á nokkur hundruð milljónum króna fyrir tímabilið í heild. Það mat er sett fram með fyrirvara. Fjármunir til kaupa á einingum vegna loftslagsvænna verkefna í þróunarríkjum (svo sem byggingu orkuvera sem nota endurnýjanlega orku) eru hluti af fjármögnun umræddra verkefna og því nýtist það fjármagn til aðgerða í loftslagsmálum.
    Ef losun Íslands verður ekki innan þeirra marka sem tilkynnt hafa verið til Parísarsamningsins þarf Ísland að kaupa einingar til að standa við skuldbindingar sínar. Í sameiginlegri framkvæmd með Noregi og ESB myndi það gerast þannig að ríki sem eru yfir mörkum geta keypt einingar af ríkjum með losun undir mörkum. Íslensk stjórnvöld stefna að því að draga úr losun umfram það sem núverandi kröfur segja til um og sett hefur verið upp fjármögnuð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til að tryggja að svo verði. Margar aðgerðir eru þó ekki háðar fjármagni.
    Hafi ríki tekjur af sölu heimilda skal verja þeim til loftslagsvænna verkefna. Heimilt verður að styðja við verkefni bæði innan ESB/EES-svæðisins og utan, en upplýsingar um hvernig tekjum af sölu heimilda er varið skulu vera opinberar.