Ferill 137. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 526  —  137. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um varaaflsstöðvar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mikla olíu hafa allar varaaflsstöðvar raforku á Íslandi notað árlega síðastliðin tíu ár?
    Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun eru ekki til frumgögn um raunnotkun eldsneytis varaaflsstöðva. Hins vegar er raforkuframleiðsla slíkra stöðva skráð. Með ákveðnum skekkjumörkum er hægt að bakreikna áætlaða olíunotkun varaaflsstöðva og aðra raforkuframleiðslu sem framleidd er með eldsneyti. Við útreikning er miðað við að 0,3 lítra af dísileldsneyti þurfi til að framleiða hverja kílóvattstund. Sú tala er áætlað meðaltal fyrir allar stöðvar en hún getur verið mismunandi eftir uppsettu rafafli, viðhaldi, aldri og keyrsluálagi hverju sinni.
    Í töflu 1 eru gögn um rafmagnsframleiðslu og áætlaða eldsneytisnotkun varaaflsstöðva og annarra aflstöðva sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Aðrar aflstöðvar í töflunni eru þær sem sjá Flatey, Grímsey og Grímsstöðum á Fjöllum fyrir raforku.

Varaaflsstöðvar Aðrar aflstöðvar knúnar jarðefnaeldsneyti Samtals
kWh Lítrar kWh Lítrar kWh Lítrar
2009 1.316.033 394.810 1.037.062 311.119 2.353.095 705.929
2010 642.136 192.641 1.046.724 314.017 1.688.860 506.658
2011 1.014.175 304.253 1.089.463 326.839 2.103.638 631.091
2012 1.743.322 522.997 1.095.886 328.766 2.839.208 851.762
2013 1.613.499 484.050 1.136.556 340.967 2.750.055 825.017
2014 1.307.000 392.100 1.083.613 325.084 2.390.613 717.184
2015 2.824.507 847.352 1.072.684 321.805 3.897.191 1.169.157
2016 1.637.980 491.394 1.045.027 313.508 2.683.007 804.902
2017 1.175.057 352.517 910.299 273.090 2.085.356 625.607
2018 821.392 246.418 1.053.344 316.003 1.874.736 562.421
Samtals 14.095.101 4.228.530 10.570.658 3.171.197 24.665.759 7.399.728

     2.      Hvert hefur verið magn útblásturs frá sömu varaaflsstöðvum yfir sama tímabil?
    Stöðluð gildi um orkuinnihald og losun koltvísýrings á orkueiningu frá varaaflsstöðvum gefa niðurstöður sem birtar eru í töflu 2. Eftirfarandi tölur eru frá Orkustofnun.

Varaaflsstöðvar Aðrar aflstöðvar knúnar
jarðefnaeldsneyti
Samtals
Tonn CO2 Tonn CO2 Tonn CO2
2009 1.053 830 1.884
2010 514 838 1.352
2011 812 872 1.684
2012 1.395 877 2.273
2013 1.292 910 2.201
2014 1.046 867 1.914
2015 2.261 859 3.120
2016 1.311 837 2.148
2017 941 729 1.669
2018 657 843 1.501
Samtals 11.283 8.461 19.744
    
     3.      Kemur til álita að nýta lífdísil í stað jarðefnaeldsneytis til að keyra varaaflsstöðvarnar?
    Til þessa hefur lífdísill ekki verið notaður í stað jarðefnaeldsneytis til að keyra varaaflsstöðvar. Í þeirri vinnu sem nú stendur yfir við orkuskipti er þetta hins vegar eitt af þeim atriðum sem eru til nánari skoðunar. Það eru ákveðnir þættir sem þarf að skoða vel áður en farið er að nota lífdísil á varaaflsvélar og má þar nefna að lífdísill storknar við lægra hitastig en venjuleg dísilolía þannig að geymslutankar þyrftu að vera einangraðir og útbúnir með hitunarbúnaði til að tryggja gott flæði. Lífdísill hefur einnig talsvert styttra geymsluþol en venjuleg olía og getur tekið í sig vatn úr lofti og örveruvöxtur er meira vandamál í lífdísil en annarri olíu.

     4.      Hvaða leiðir telur ráðherra heppilegar til að draga úr olíunotkun varaaflsstöðva raforku?
    Varanlegasta leiðin til að draga úr olíunotkun varaaflsstöðva raforku er að auka raforkuframleiðslu á þeim svæðum sem eru útsett fyrir varaafli, samhliða úrbótum á flutningskerfi raforku. Sem dæmi má nefna að örugg tenging nýrra virkjana á Vestfjörðum inn á hringtengt raforkukerfi innan Vestfjarða myndi þýða mun minni keyrslu á varaafli á því svæði. Aðrar leiðir til að draga úr olíunotkun varaaflsstöðva, þ.m.t. notkun lífdísils, eru til nánari skoðunar í starfshópi ráðuneyta um orkuskipti samanber framangreint.