Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 531  —  301. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um slátrun sauðfjár og sölu afurða beint til neytenda.


     1.      Hefur ráðherra í hyggju að breyta reglum um örsláturhús og auka frelsi sauðfjárbænda til að slátra eigin lömbum og selja afurðir þeirra beint til neytenda? Telur ráðherra svigrúm innan gildandi löggjafar til þess að gera slíkar breytingar?
    Ráðherra telur mikilvægt að leita leiða til að auka verðmætasköpun hjá bændum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og að áhersla verði lögð á nýsköpun og vöruþróun til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Við skoðun á því hvaða leiðir eru færar til að gera breytingar á reglum um slátrun sem miða að því að auka tækifæri til verðmætasköpunar er mikilvægt að kanna svigrúm til þess innan gildandi regluverks um matvælaöryggi og neytendavernd og þeim alþjóðaskuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist á viðkomandi sviði.
    Að frumkvæði ráðherra hefur ráðuneytið síðustu mánuði í samráði við Matvælastofnun og Bændasamtök Íslands leitað leiða til að auka verðmætasköpun hjá bændum í tengslum við slátrun. Sérstaklega var tekin til skoðunar tillaga um svokölluð örsláturhús eða heimasláturhús. Tillagan byggir á því að bændum verði heimilt að slátra, vinna og selja neytendum milliliðalaust afurðir úr eigin bústofni. Eftir að samráð var haft við nágrannaþjóðir, svo sem Noreg, Þýskaland og Finnland, og skoðun á viðkomandi löggjöf sem gildir á sviðinu var það niðurstaðan að sú útfærsla af örsláturhúsi eða heimasláturhúsi sem var til skoðunar rúmast ekki innan löggjafarinnar og alþjóðlegar skuldbindinga Íslands. Má þar nefna að í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 854/2004 um sértækar reglur um skipulag opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu sem ætlaðar eru til manneldis, sem innleidd var hér á landi með reglugerð nr. 105/2010, er kveðið á um skoðun opinbers dýralæknis fyrir og eftir slátrun. Mikilvægt er að allar breytingar til að auka verðmætasköpun hjá bændum samrýmist framangreindum skuldbindingum.
    Í reglugerð 856/2016, um lítil matvælafyrirtæki og hefðbundin matvæli, eru sérstök ákvæði varðandi lítil sláturhús. Markmið reglugerðarinnar er m.a. að auðvelda sláturhúsum að uppfylla kröfur í hollustuhátta- og eftirlitsreglugerðum. Lítil reynsla er komin á framkvæmd reglugerðarinnar en talið er að þar geti falist ákveðin sóknarfæri til aukinnar verðmætasköpunar.
    Innan ráðuneytisins er áfram unnið að því að leita leiða til að auka verðmætasköpun bænda í samstarfi við Matvælastofnun og Bændasamtök Íslands og fylgst með þróun í nágrannaríkjunum sem miða að því að auðvelda starfsemi lítilla eða færanlegra sláturhúsa. Í því sambandi er jafnframt mikilvægt að huga að matvælaöryggi, heilbrigðiskröfum og hagsmunum neytenda.


     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þessum breytingum verði flýtt?
    Líkt og að framan greinir telur ráðuneytið að fyrirliggjandi hugmyndir um svokölluð örsláturhús eða heimasláturhús rúmist ekki innan gildandi löggjafar og alþjóðlegra skuldbindinga. Ráðherra mun áfram hafa frumkvæði að því að leitað verði leiða til að auka verðmætasköpun bænda og hvetja til nýsköpunar og þróunar á sviðinu.