Ferill 259. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 536  —  259. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um atvika- og slysaskráningu.


     1.      Hverjir af eftirtöldum aðilum skila upplýsingum um umferðarslys til Samgöngustofu:
                  a.      lögreglan,
                  b.      tryggingafélög,
                  c.      heilbrigðisstofnanir,
                  d.      björgunarsveitir,
                  e.      þjónustuaðilar, á vettvangi umferðaróhappa.
                  f.      aðrir?
    Slysaskráning Samgöngustofu byggist fyrst og fremst á lögregluskýrslum úr gagnagrunni ríkislögreglustjóra en einnig er stuðst við skýrslur frá fyrirtækinu Aðstoð og öryggi, sem er verktaki á vegum tryggingafélaganna. Skráning umferðarslysa hófst með skipulegum hætti árið 1966. Lögregluskýrslur hafa verið færðar í gagnagrunn slysaskráningarinnar með stafrænum hætti frá árinu 1998 og frá 2007 hafa öll slys verið hnitskráð. Samgöngustofa og forverar hennar hafa gefið út skýrslur um umferðarslys 1 á hverju ári um árabil.
    Í samgöngum eru flokkuð annars vegar slys þar sem verða meiðsl á fólki og hins vegar óhöpp þar sem enginn slasast. Leiða má líkur að því að umferðarslys þar sem ökutæki eiga hlut að máli séu almennt skráð.
    Landlæknisembættið safnar einnig gögnum um slys í Slysaskrá Íslands 2 en í henni eru staðlaðar upplýsingar um slys með meiðslum og upplýsingar um eignatjón í umferðaróhöppum. Nánast allar heilbrigðisstofnanir senda upplýsingar í Slysaskrá auk lögreglunnar, Vinnueftirlitsins og tryggingafélaga. Markmið Slysaskrár Íslands er að samræma skráningu slysa og veita yfirlit yfir fjölda slysa, orsakir þeirra og afleiðingar.

     2.      Telur ráðherra ástæðu til að fá fleiri aðila til að skila upplýsingum um umferðarslys en nú er gert?
    Það er mat ráðherra að mikilvægt sé að samræma skráningu umferðarslysa og samnýta gögn í ólíkum gagnagrunnum í þágu aukins umferðaröryggis að uppfylltum öllum skilyrðum um persónuvernd.
    Ljóst er að aðgangur að gagnagrunnum og tjónatölfræði tryggingafélaga og gagnagrunni heilbrigðisstofnana myndi skila miklum ávinningi. Þannig fengist skýrari mynd af afleiðingum umferðarslysa og kostnaði samfélagsins af umferðarslysum. Þá hefðu slíkar upplýsingar ómetanlegt gildi fyrir fræðslu og forvarnir og við endurbætur hættulegra staða í samgöngukerfinu.
    Meginvandinn við samnýtinguna er að gögn heilbrigðiskerfisins og tryggingafélaganna eru ekki skráð með sama hætti og hjá Samgöngustofu. Munar þar mestu um hnitsetta staðsetningu. Með samræmdri slysaskráningu og samtengdri slysaskrá mætti ná verulegum árangri. Ekki liggur fyrir hvort gögn frá öðrum aðilum en tryggingafélögum og heilbrigðisstofnunum, svo sem gögn björgunarsveita, myndu skila viðbótarávinningi en skoða þyrfti það sérstaklega.
    Þegar slys eru skráð hjá fleirum en einum stað getur til að myndast skapast misræmi milli gagnagrunna. Ef heilbrigðisgögn væru hluti af slysaskrá Samgöngustofu má t.d. ganga að því vísu að slysatilvikum myndi fjölga. Einnig fengist betri greining á alvarleika meiðsla í þeim slysum sem skráð eru í gagnagrunni Samgöngustofu. Dæmi um þetta eru tilvik þegar meiðsli gera vart við sig nokkru eftir slys. Þau tilvik eru þar af leiðandi eingöngu skráð sem óhöpp í slysaskrám Samgöngustofu en sem slys í gögnum heilbrigðisstofnana.
    Helsti vandinn við slysaskráningu heilbrigðiskerfisins er að umferðarslys eru ekki nægilega afmörkuð. Þannig eru slys á hjólandi og gangandi vegfarendum aðeins skráð ef vélknúið ökutæki á hlut að máli. Því er orsakagreining og lýsing á slysi, aðstæðum, staðsetningu að einhverju leyti ábótavant ef samræma á gögn úr slysaskrám.
    Ferðavenjur landsmanna hafa breyst talsvert á undanförnum árum. Fleiri nota almenningssamgöngur, reiðhjól og rafknúin hjól eða hlaupahjól. Slys á hjólreiðafólki eru eingöngu skráð ef lögregla er kölluð til og oftast aðeins ef vélknúið ökutæki á hlut að slysi. Sama gildir um skráningu slysa á gangandi vegfarendum og slysa við árekstur milli gangandi vegfarenda og þeirra sem hjóla. Meiðist fólk í þessum slysum og leiti aðhlynningar á heilbrigðisstofnunum eru þau oft eingöngu skráð í gagnagrunna heilbrigðiskerfisins en sjaldnast sem samgönguslys. Því er mikilvægt að tryggja að slys á göngu- og hjólastígum séu skráð og flokkuð sem samgönguslys með staðsetningu hjá heilbrigðisstofunum þannig að upplýsingar um þau nýtist til að bæta öryggi vegfarenda.
    Rannsóknarnefnd Samgönguslysa rannsakaði misræmi í skráningum hjólreiðaslysa og gaf út skýrslu 3 árið 2014. Þar kemur fram að á árunum 2005–2010 leituðu að meðaltali 558 manns á ári til Landspítalans vegna hjólreiðaslysa. Á sama tíma voru aðeins skráð 60 tilvik í slysaskrá Samgöngustofu þar sem hjólreiðamenn áttu í hlut eða einungis að jafnaði rúm 10% af þeim sem skráðir voru af Landspítalanum.
    Rétt er að taka fram að hjólreiðaslys eru ekki alltaf skilgreind sem samgönguslys. Sum þeirra teljast vera frístundaslys, t.d. ef hjólreiðamaður fellur af hjóli á skólalóð. Megnið af slysum eiga sér þó stað á gangstétt, stígum eða vegum en þau teljast öll vera umferðarslys. Gögn um slík slys eru í sumum tilfellum hjá tryggingafélögum í samræmi við tryggingar viðkomandi.
    Í tillögu samráðshóps um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar (skipaður fulltrúum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Vegagerðinni, Samgöngustofu og ríkislögreglustjóra) að stefnu í umferðaröryggi fyrir tímabilið 2020–2034 (fylgirit með samgönguáætlun 2020–2034) segir:
    „Mikilvægt er að umferðarslys séu rannsökuð, þróun greind og að viðeigandi viðbrögð séu sem fyrst til að bregðast við slæmri þróun. Tölfræði umferðarslysa verður höfð að leiðarljósi þegar umferðaröryggisverkefni eru ákveðin. Leitast þarf við að bæta skráningu slysa, sérstaklega vanskráningu sem og að auka gæði gagnanna. Eins þarf að skoða möguleika á því að tengja slysagögnin gögnum úr heilbrigðiskerfinu til að bæta skráningu og auka gæði mats á alvarleika slysa.“
    Niðurstaðan er því sú að mikill ávinningur felst í því ef hægt væri að koma upp samræmdri slysaskrá með samhæfðri innskráningu gagna hagsmunaaðila. Æskilegt væri að slík skrá væri í vörslu Samgöngustofu sem myndi sjá um að samræma verklagið við skráningar þannig að allir aðilar skrái sömu grunnupplýsingar. Þá myndi Samgöngustofa annast úrvinnslu og miðla upplýsingum til þess að bæta öryggi allra vegfarenda.

     3.      Má ætla að upplýsingar um slys skili sér með sama hætti af öllum gerðum vega og úr öllum landshlutum?
    Umfang skráningar utan höfuðborgarsvæðisins byggist að mestu leyti á því hvernig lögreglan skráir slys í sitt kerfi. Ekkert bendir til þess að slys séu frekar tilkynnt í ákveðnum landshlutum en öðrum. Sömuleiðis bendir ekkert til þess að slys séu skráð með mismunandi hætti eftir því á hvaða tegund vegar þau verða.
    Fólk sem lendir í umferðaróhöppum tilkynnir þau oft beint til tryggingafélags með tjónaskýrslu og þá án aðkomu lögreglu. Þau gögn berast ekki í slysaskrá Samgöngustofu. Skráning slíkra óhappa væri mikilvæg vísbending um hættulega staði í samgöngukerfinu og mikilvægt að hægt sér að nýta þau gögn.

     4.      Telur ráðherra ástæðu til að innleiða einhvers konar atvikaskráningar til að auka öryggisvitund í umferðinni?
    Vegagerðin hefur aðgang að slysaskráningu Samgöngustofu og notar gögnin til að greina alvarlega slysastaði, svokallaða svartbletti. Verði vart við óvenju mikla tíðni óhappa á tilteknum stöðum eru þeir og sambærilegir staðir rannsakaðir og viðeigandi umbætur gerðar. Sérstaklega á það við í dreifbýli þar sem færri tilvik verða. Við þær aðstæður getur verið erfitt að átta sig á hvar hætturnar liggja.
    Í flugi er rík hefð fyrir að skrá atvik sem hefðu getað leitt til slyss. Flugatvik eru skilgreind sem rekstrartruflun, galli, bilun eða önnur atvik sem hafa eða kunna að hafa áhrif á flugöryggi en leiða ekki til slyss. Atvikin eru síðan greind til að meta hvort úrbóta sé þörf. Atvikaskráning í flugi er í föstu formi, ferlar mótaðir og skráðir.
    Enn hefur ekki verið hægt að safna sambærilegum gögnum fyrir umferð til að byggja á þeim ályktanir og aðgerðir um bætt umferðaröryggi. Þó gæti sjálfvirk ferilskráning bifreiða nýst í framtíðinni til að greina slys og næstum slys ökutækja. Þó má á vissan hátt segja að skráning óhappa í slysaskrá án meiðsla sé nokkurs konar atvikaskráning. Ef gagnagrunnurinn innihéldi einungis slys með meiðslum yrði hann mun takmarkaðri og óáreiðanlegri. Þessi notkun á gögnunum er helsta ástæðan fyrir því að umferðaróhöpp eru skráð.

1     www.samgongustofa.is/umferd/tolfraedi/slysatolur/arsskyrslur-slysaskraningar/
2     www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item14964/Slysaskra_Islands
3     www.rnsa.is/media/1139/hjolreidaslys-a-islandi-lokaskyrsla-2014.pdf