Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 550  —  1. mál.
Töflur.

3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


Breytingartillögur fluttar að nýju í breyttri mynd.
    Miðflokkurinn lagði fram við 2. umræðu fjárlaga vel ígrundaðar og fullfjármagnaðar breytingartillögur. Tillögurnar juku ekki á halla ríkissjóðs. Þær voru því miður allar felldar af meiri hlutanum. 2. minni hluti leggur þær fram að nýju í breyttri mynd. Má þar nefna framlag upp á 790 millj. kr. til hjúkrunarheimila á landsvísu. Með því að styrkja hjúkrunarheimilin geta þau losað um erfiða biðlista á Landspítala. Eldra fólk og langveikt sem lagt er inn á spítalann og á ekki afturkvæmt til síns heima hefur engan stað að fara á af því að öldrunarheimili og aðrar stofnanir eru fullar. Því festast sjúklingar á legudeild spítalans og taka upp rúm sem annars væru nýtt undir sjúklinga sem þurfa að leggjast inn í styttri tíma. Auk þess mundu skurðstofur og önnur þjónusta spítalans nýtast öðrum og draga mjög úr svokölluðum fráflæðisvanda. Ljóst er að stjórnvöld skortir heildarsýn í þessum málaflokki. Þrátt fyrir að fjárlaganefnd hafi við síðustu fjárlagagerð samþykkt fjármuni í þessu skyni hefur heilbrigðisráðherra ekki nýtt þá í þágu heimilismanna á hjúkrunarheimilum, en geymir féð þess í stað á biðreikningi þar sem það nýtist engum. Þar með hefur skýr vilji fjárlaganefndar til að draga úr vandanum ekki náð fram að ganga. 276 millj. kr. var bætt við rekstrarfé hjúkrunarheimila að frumkvæði fjárlaganefndar við 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2019. Ári síðar verður ekki betur séð en ráðherra telji fjármunina betur geymda á biðreikningi, þrátt fyrir skýran vilja fjárlaganefndar.
    Í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu kemur fram að fjárveitingar til hjúkrunarheimila séu, miðað við gjaldskrá 2019, miðaðar við eldri RUG-stuðla fyrir þjónustu sem veitt var á árunum 2016–2017 og giltu fyrir árið 2018. Með hliðsjón af því benda samtökin á að ekki sé ætlunin að uppfæra greiðslu til heimilanna með hliðsjón af nýjustu RUG-stöðlum eins og gert var ráð fyrir í þjónustusamningi aðila frá 2016. Þetta gerir það að verkum að hjúkrunarheimilin geta ekki veitt þjónustu í samræmi við núverandi þjónustuþyngd.
    Einnig má nefna að meiri hlutinn felldi tillögu Miðflokksins um að styrkja geðheilbrigðismál á Landspítalanum. Fyrir liggur að vandinn á þessu sviði hefur farið vaxandi ár frá ári, á sama tíma halda fjárveitingar ekki í við þörfina. Fram hefur komið opinberlega að fé sem veitt er til málaflokksins skilar sér margfalt til baka í bættri líðan þegnanna og minna álagi á heilbrigðisstofnanir. Þess vegna telur 2. minni hluti sig knúinn til að fylgja þessari tillögu eftir öðru sinni við afgreiðslu sömu fjárlaga.
    Að lokum mætti nefna tvær tillögur um að bæta hag öryrkja með því að skapa störf með stuðningi og hækka frítekjumark. Öryrkjar hafa lagt mjög mikla áherslu á þessi mál. Annars vegar að atvinnulífið komi til móts við öryrkja með því að skapa störf við hæfi og hins vegar að launin fyrir þau störf sæti ekki ósanngjörnum skerðingum. Verður ekki annað ætlað en stjórnvöld hafi ekki áhuga á að bæta stöðu öryrkja sem er öllum til hagsbóta.
    Hér á eftir er tafla sem sýnir breytingartillögur Miðflokksins við 3. umræðu. Fyrri tillögur eru lagðar fram að nýju í breyttri mynd eins og áður segir en að auki eru lagðar fram þrjár nýjar tillögur: Fyrsta tillagan lýtur að sérstöku framlagi upp á 200 millj. kr. til að semja við einkaaðila í heilbrigðisþjónustu um liðskiptaaðgerðir svo stytta megi biðlista eftir slíkum aðgerðum. Önnur tillagan hljóðar upp á sérstaka fjárveitingu upp á 50 millj. kr. til SÁÁ svo stytta megi biðlista eftir innlögn en hátt í 700 manns bíða nú eftir því að fá aðstoð. Þriðja tillagan felur í sér fjárveitingu upp á 10 millj. kr. til Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna (SFH) og systursamtakanna KVENN, eða Félagi kvenna í nýsköpun.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Samið verði við einkaaðila í heilbrigðisþjónustu – liðskiptaaðgerðir.
    Mikið hefur verið fjallað um liðskiptaaðgerðir undanfarin ár en vegna langra biðlista hafa sjúklingar leitað utan landsteina í slíkar aðgerðir hafi þeir beðið í meira en þrjá mánuði. Aðgerðir erlendis hafa í för með sér meiri kostnað fyrir ríkissjóð en ef slíkar aðgerðir væru gerðar hér á landi, auk þess sem það er ávallt óhagræði fyrir sjúklinga að leita sér lækninga erlendis. Svokallað biðlistaátak sem ráðist var í á árunum 2016–2018 hefur ekki skilað sér í styttri biðtíma eftir liðskiptaaðgerðum en raun ber vitni. Hluti af vandanum er sá að á Landspítalanum ríkir skortur á legurými vegna fyrrnefnds fráflæðisvanda.
    Niðurstaða nýrrar greiningar landlæknisembættisins á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum sýnir að þó að biðtími hafi styst á átakstímabili sé biðtími enn langt umfram viðmið. Helsta ástæða þess er að eftirspurn eftir slíkum aðgerðum hefur vaxið hraðar en reiknað var með. Mörg dæmi eru þess að biðtími sjúklings eftir því að verða settur á biðlista eftir aðgerð geti verið allt að eitt ár. Þegar á biðlistann er komið tekur við önnur bið í a.m.k. sex mánuði og upp í eitt ár. Sá tími sem sjúklingur þarf að bíða frá því að hann fer í mat til bæknunarskurðlæknis og þar til hann fer í aðgerð getur því numið allt að tveimur árum. Í febrúar 2019 var 331 á biðlista eftir gerviliðaaðgerð á mjöðm og 695 á biðlista eftir gerviliðaaðgerð á hné.
    Í minnisblaði frá embætti landlæknis um liðskiptaaðgerðir frá því í maí á þessu ári kemur fram það álit landlæknis að auka þurfi afköst í liðskiptaaðgerðum enn frekar og að sama skapi þurfi að stytta bið eftir mati bæklunarskurðlæknis. Embættið telur brýnt að bæta þjónustuna við þennan sjúklingahóp.
    Greining landlæknis á vandanum hefur ótvírætt leitt í ljós að skortur á legurými á Landspítalanum stendur fjölgun liðskiptaaðgerða fyrir þrifum, eins og áður var nefnt. Enn fremur er ákveðinn mönnunarvandi hjá svæfingarlæknum og hjúkrunarfræðingum. Ekki er því svigrúm til að fjölga liðskiptaaðgerðum á Landspítala eins og sakir standa.
    Liðskiptaaðgerðir eru mikilvægar, bæði fyrir einstaklinga sem í þær fara sem og samfélagið í heild. Langur biðtími dregur úr hagkvæmni aðgerðanna og hefur áhrif á lífsgæði sjúklinga.
    Í breytingartillögu 2. minni hluta er lagt til að Sjúkratryggingar Íslands fái 200 millj. kr. aukalega gagngert til þess að semja við einkaaðila í heilbrigðisþjónustu um liðskiptaaðgerðir. Með því er hægt að stytta áðurnefndan biðtíma.
    Kostir þess að útvista heilbrigðisþjónustu til einkaaðila eru augljóslega þeir að afköst aukast og aðgengi batnar, það léttir álagi af opinberum stofnunum og eykur valfrelsi sjúklinga sem og starfsfólks.
    
Sérstakt aukaframlag til SÁÁ.
    SÁÁ sinnir sérhæfðri heilbrigðisþjónustu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga með afeitrunarmeðferð og meðferð sem miðar að því að stöðva eða draga úr áfengis- og vímuefnaneyslu. Starfsemi SÁÁ er samfélaginu öllu mjög mikilvæg. Síðustu 2–3 árin hefur biðlistinn eftir innlögn á stofnanir SÁÁ lengst mjög og nú bíða vel á sjöunda hundrað eftir meðferð. Sumir þurfa að bíða í meira en hálft ár eftir að komast í meðferð sem getur haft erfiðar afleiðingar fyrir þann sem bíður og fjölskyldu hans. SÁÁ léttir álagi af heilbrigðiskerfinu með því að sinna þeim sem eru veikir af fíknsjúkdómum og fækka með því innlögnum og álagi á aðrar stofnanir. Hér er um að ræða einstaklinga sem koma mikið á bráðaþjónustu, valda þar álagi og glíma við alls konar fylgikvilla sem valda álagi á heilbrigðisþjónustuna. Það er augljóst að þessi málaflokkur er mjög margþættur og kemur á margan ólíkan hátt að heilbrigðiskerfinu. Miðflokkurinn telur að líta beri á Vog sem hluta af vistunarkeðju sem er í senn hluti af þeirri bráðaþjónustu, meðferðarþjónustu og eftirmeðferð sem íslenska heilbrigðiskerfið veitir. Fáar fjölskyldur eiga ekki einhvern ættingja eða vin sem hefur glímt við áfengis- eða fíkniefnavandamál.
    
Hagræðing í ríkisrekstri nauðsynleg.
    Miðflokkurinn leggur áherslu á hagræðingu í ríkisrekstri og að dregið verði úr ríkisbákninu, sem hefur vaxið hratt í tíð þessarar ríkisstjórnar. 2. minni hluti flytur hér aftur breytingartillögu um hagræðingu í öllum ráðuneytum. Tillagan er lækkuð um 100 millj. kr. frá fyrri tillögu og hljóðar nú upp á 1.000 millj. kr. Kröfu um hagræðingu á hvert ráðuneyti má sjá í eftirfarandi töflu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og Félag kvenna í nýsköpun.
    Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna (SFH) og Félag kvenna í nýsköpun (KVENN) eru einu almennu hagsmunafélög frumkvöðla og hugvitsfólks hér á landi. Félögin starfa náið saman og á félagaskrá þeirra eru núna 316 einstaklingar. Félagsaðild er opin og ekki eru innheimt félagsgjöld. Ástæða þess er m.a. að félögin álíta það frumskyldu sína að ná til sem flestra í viðleitni sinni til að efla áhuga á nýsköpun. Þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnarinnar um nýsköpun er stuðningur við þessi mikilvægu félög enginn. Félögin sóttu um framlag til fjárlaganefndar á fjárlögum ársins 2020 með það fyrir augum að framlög fáist einnig á síðari árum og þannig verði stutt við starfsemi hagsmunasamtaka hugvitsmanna og frumkvöðla í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda. Meiri hlutinn hafnaði erindinu.
    SFH fékk á þessu ári skriflega staðfestingu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á því að þar séu ekki í boði neinir styrkir til starfsemi hagsmunasamtaka frumkvöðla og hugvitsfólks. Verður það að teljast með ólíkindum í ljósi þess að heilt ráðuneyti fer með þennan mikilvæga málaflokk og sífellt er rætt um að efla nýsköpun.
    Með þessu er ljóst að ráðuneytið úthýsir einu hagsmunasamtökum frumkvöðla og hugvitsfólks þrátt fyrir þá miklu áherslu sem stjórnvöld leggja nú á aukna nýsköpun og nýtingu hugvits. Sáttmáli núverandi ríkisstjórnar veitir samt ótvíræða leiðsögn um vilja stjórnvalda, en þar segir m.a.:
    „Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða … Ríkisstjórnin mun vinna að því að skilyrði hér á landi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki verði framúrskarandi … Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki á fjölbreyttum málasviðum sem mikilvægt er að styðja við.“
    Þar sem SFH og KVENN eru einu almennu hagsmunafélög frumkvöðla og hugvitsfólks má ljóst vera af þessu að orðum fylgja ekki athafnir hjá ríkisstjórninni.
    Félag kvenna í nýsköpun hefur verið starfrækt síðan árið 2007. Félagið er í nánu norrænu og alþjóðlegu samstarfi með það að markmiði að vekja athygli á nýsköpun kvenna og búa til jákvæðar kvenkyns fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir.
    Félagið hefur tilnefnt 61 íslenska konu til alþjóðlegrar viðurkenningar sem kallast GWIIN. Tvær þeirra hafa hlotið aðalverðlaunin. Árið 2017 fékk dr. Sara Mjöll Jónsdóttir verðlaun fyrir að nota blóðvökva sem fellur til í Blóðbankanum til að rækta í stofnfrumur. Í ár hlaut Margrét V. Bjarnadóttir aðalverðlaun GWIIN, en nýsköpun Margrétar heitir „PayAnalytics“ sem er hugbúnaðarlausn sem gerir launagreiningar. Hugbúnaðarlausnin felst í að skoða áhrif launaákvarðana og ráðast á launabil kynjanna með aðgerðaáætlun og kostnaðargreiningu. Hátíð kvenna í nýsköpun er haldin annað hvert ár og stefnir félagið að því að halda hana hér á landi árið 2021.
    Miðflokkurinn leggur fram breytingartillögu við frumvarpið upp á 10 millj. kr. framlag til SFH og KVENN. Lagt er til að upphæðin verði nýtt í eftirtalda liði: rekstur skrifstofu, ráðgjafarstarf og frumkvöðlafræðslu, fyrirlestra og ráðstefnur innan lands, aðild að IFIA og sýningar erlendis. Auk þess gerir fjárveitingin félögunum kleift að veita viðurkenningar til þess að vinna áfram með áhugaverðar hugmyndir á sviði uppfinninga. Með því að veita viðurkenningar og gera fólk sem er uppfinningasamt sýnilegt verður eftirsóknarverðara að virkja hugvitið. Uppfinning byrjar með hugmynd um að leysa tiltekið vandamál eða að gera hlutina öðruvísi, að hugsa út fyrir rammann. Uppfinningasemi fer ekki eftir menntun, aldri, kyni eða útliti. Framtakssemi eða áræðni ræður því hvort eitthvað verður úr hugmynd og með því að veita viðurkenningar er fólk hvatt áfram. Hvatning og hrós er nauðsynlegt, enda krefjast nýjungar mikillar þolinmæðisvinnu.
    Eðlilegast er að þessi félög séu styrkt með árvissu framlagi á fjárlögum, líkt og verið hefur um ýmis landssamtök sem starfa með opinni aðild og í þjóðarþágu að ýmiss konar uppbyggingarstarfi. 2. minni hluti telur að gera ætti sérstakan samstarfssamning milli félaganna og ríkisins.
    Félögin gegna mikilvæga hlutverki fyrir þau sem vinna að nýsköpun og standa höllum fæti í stuðningskerfinu. Stjórnvöldum hættir iðulega til að gleyma þessum stóra og mikilvæga hópi þegar kemur að reglusetningu og stefnumótun á sviði nýsköpunar. Um það eru fjöldamörg dæmi, gömul og ný. Ráðherra nýsköpunarmála skipaði nýlega starfshóp um mótun nýsköpunarstefnu og sniðgekk einu hagsmunasamtök frumkvöðla og hugvitsfólks. Eitt helsta baráttumál SFH er að þessum mikilvæga þjóðfélagshópi verði fenginn réttur til að hafa áhrif á stefnumótun á þeim sviðum sem varða þeirra eigin hagsmuni. Fögur fyrirheit stjórnvalda, eins og vitnað var til í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, verða að vera annað og meira en orðin tóm.
    
Innleiðing markaðsleigu fyrir fasteignir í eigu ríkisins.
    Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að við 3. umræðu um frumvarpið verði markaðsleiga innleidd hjá nokkrum stofnunum til viðbótar við þær sem gerð var tillaga um við 2. umræðu um frumvarpið. Að mati 2. minni hluta hefði farið betur á því að innleiðingaráætlun hefði legið fyrir við framlagningu frumvarpsins þannig að ekki hefði þurft tæknibreytingu í breytingartilögu við 3. umræðu.
    Í kynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á fundi fjárlaganefndar kom fram að ráðuneytið leggur mikla áherslu á að ríkissjóður tryggi sér yfirráð yfir fyrirtækinu Auðkenni þar sem það sé mikilvægt fyrir innviði ríkisins. 2. minni hluti telur í ljósi þessa viðhorfs ráðuneytisins að þessi tillaga hefði því átt að liggja fyrir í allra síðasta lagi við 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið því að ekki varð þetta fyrirtæki svona mikilvægt á einni viku.

Alþingi, 25. nóvember 2019.

Birgir Þórarinsson.