Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 586  —  333. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um aðgerðir til að stuðla að aukinni framleiðslu á íslensku grænmeti.


     1.      Hvaða aðgerðum hyggst ráðherra beita sér fyrir til að skapa grænmetisrækt á Íslandi betri rekstrar- og vaxtarskilyrði?
    Markmið samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða er að efla í hvívetna íslenska garðyrkju með heilnæmi, gæði og áreiðanleika afurða að leiðarljósi, ásamt vandaðri umgengni við samfélag og umhverfi. Samningnum er jafnframt ætlað að auka framboð og neyslu á garðyrkjuafurðum í samræmi við lýðheilsustefnu stjórnvalda og aukna vitun almennings um hollustu og heilbrigðara líferni. Þá er samningnum ætlað að stuðla að fjölbreyttu framboði garðyrkjuafurða árið um kring á sanngjörnu verði fyrir neytendur og auka fagmennsku, hagkvæmni og samkeppnishæfni innlendrar garðyrkjuframleiðslu. Jafnframt er það markmið samningsins að treysta tekju- og starfsgrundvöll framleiðenda garðyrkjuafurða og stuðla að framleiðslu- og markaðsmöguleika innlendrar framleiðslu.
    Í núgildandi samningi felst stuðningur í beingreiðslum og í niðurgreiðslu á flutningi og dreifingu rafmagns. Einnig er hægt að sækja um jarðræktarstyrki vegna útiræktunar samkvæmt rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins.
    Endurskoðun búvörusamninga fer fram að mestu leyti árið 2019 og er áætlað að samningaviðræður hefjist vegna endurskoðunar samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða fyrir árslok. Samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga skilaði tillögum til ráðherra varðandi endurskoðun samningsins í júní 2019. Í samningaviðræðum verður litið til tillagna samráðshópsins um hvernig megi styrkja rekstrar- og vaxtarskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða. Í því samhengi er sérstaklega mikilvægt að mati ráðherra að horfa til endurskoðunar á fyrirkomulagi beingreiðslna og fyrirkomulagi raforkumála. Ráðherra er sannfærður um að með þeim hætti megi nýta enn betur þau miklu sóknarfæri sem blasa við íslenskri grænmetisrækt.
    Mikilvægt er að hlúa að rekstrarskilyrðum garðyrkjuframleiðenda á Íslandi sem sinna mikilvægu hlutverki í landbúnaðarframleiðslu. Hvaða leiðir verða farnar í þeim efnum fer eftir framgangi samningaviðræðna. Áherslur ríkisins verða í samræmi við markmið samningsins og áherslur sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um heilnæmi, sjálfbærni og nýsköpun í landbúnaðarframleiðslu.

     2.      Telur ráðherra koma til greina að styðja sérstaklega við uppbyggingu ylræktar á svæðum víða um land þar sem eru ákjósanleg skilyrði til ylræktar og tækifæri til framleiðslu á grænmeti, bæði til neyslu í héraði og á landsvísu, svo sem í tengslum við aðgerðir til að styrkja byggð? Ef svo er, þá hvernig?
    Í samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða er m.a. kveðið á um stuðning við ylrækt. Framleiðendum er tryggður stuðningur með niðurgreiðslum á dreifingu og flutningi raforku. Við endurskoðun samningsins verða ákvæði þessi tekin til skoðunar með hliðsjón af tillögum samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga. Verður þá tekið til skoðunar hvort unnt sé að ráðstafa fjármunum innan samningsins til frekari eflingar ylræktar.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að Ísland skuli vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Einnig kemur fram að nýta beri tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Forsenda þess að landbúnaður geti nýtt tækifæri til framtíðarinnar er jafnvægi framleiðslu, skilvirkt eftirlit og nýsköpun. Ráðherra hefur skipað verkefnastjórn til að móta matvælastefnu. Tilgangur stefnunnar er að draga fram áherslur stjórnvalda, eins og þær birtast í stjórnarsáttmálanum, ásamt því að móta framtíðarsýn, markmið og tillögur að aðgerðaáætlun til að innleiða í íslenskt atvinnulíf og stjórnkerfi. Gert er ráð fyrir að stefnan liggi fyrir í lok árs 2019.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um stofnun Matvælasjóðs. Sjóðnum er ætlað það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Markmiðið með stofnun sjóðsins er að styrkja íslenska framleiðendur, þar á meðal framleiðendur garðyrkjuafurða, til nýsköpunar og verðmætasköpunar og skapa ný og spennandi tækifæri fyrir bændur um land allt.