Ferill 245. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 587  —  245. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum og fleiri lögum (fyrirkomulag tollafgreiðslu og tollgæslu).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þröst Frey Gylfason og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sigurð Skúla Bergsson settan tollstjóra, Snorra Olsen ríkisskattstjóra og Helgu Valborgu Steinarsdóttur frá embætti ríkisskattstjóra og Jón Gísla Ragnarsson, Elísabetu Ósk Maríusdóttur og Ársæl Ársælsson frá Tollvarðafélagi Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá ríkisskattstjóra og Samtökum atvinnulífsins auk sameiginlegrar umsagnar frá Samtökum ferðaþjónustunnar og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu.
    Með frumvarpinu er lagt til að embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra sameinist og verkefni á sviði embættanna verði starfrækt í einni stofnun sem nefnist Skatturinn og ríkisskattstjóri veitir forstöðu. Embætti tollstjóra verði lagt niður í núverandi mynd en verkefnum á sviði tollgæslu skipaður sérstakur sess í hinu sameinaða embætti undir stjórn tollgæslustjóra sem heyri undir ríkisskattstjóra. Frumvarpið er samið í framhaldi af vinnu nefndar um aukna skilvirkni í skattaframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda sem skipuð er fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis, ríkisskattstjóra og tollstjóra. Á síðasta þingi samþykkti Alþingi frumvarp sem miðaði að því að færa innheimtu opinberra gjalda sem tollstjóri hafði annast til ríkisskattstjóra (302. mál á 149. löggjafarþingi) og var það unnið eftir tillögum sömu nefndar.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að mikil samlegðaráhrif og hagræði geti hlotist af fullri sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra, ekki síst í ljósi örra tækniframfara og aukinnar sjálfvirknivæðingar. Í þeim umsögnum sem nefndinni bárust um málið er lýst stuðningi við framgang frumvarpsins.
    Meiri hlutinn hvetur til að vandað verði til verka við sameininguna og að dreginn verði lærdómur af öðrum viðlíka sameiningum eftir því sem við á. Sérstaklega verði hugað að virðingu og skilningi í garð starfsfólks embættanna. Þá bendir meiri hlutinn á að ákveðinn upphafskostnaður hlýst óhjákvæmilega af því að tryggja að sem mest hagræði náist með sameiningu á borð við þessa til lengri tíma. Hvetur meiri hlutinn til að þetta verði haft hugfast og bendir á að of ströng hagræðingarkrafa í upphafi getur bitnað á hagræði af sameiningu til lengri tíma.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Í 41. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 85. gr. A búvörulaga, nr. 99/1993. Sú lagagrein fellur hins vegar brott úr lögunum 1. janúar 2020 skv. 7. gr. laga um breytingu á búvörulögum, nr. 2019/. Leggur meiri hlutinn því til að 41. gr. frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar falli brott.
    Að auki leggur meiri hlutinn til allnokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og til lagfæringar en er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Silja Dögg Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. nóvember 2019.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson,
frsm.
Þorsteinn Víglundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Smári McCarthy.