Ferill 342. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 589  —  342. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um ýsuveiðar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hyggst ráðherra bregðast við þeirri stöðu að hluti útgerðarmanna hefur minnkað ýsuveiðar upp á síðkastið þar sem aflahlutdeild í ýsu var skert um 30% fyrir fiskveiðiárið 2019–2020 sem hefur leitt til þess að útgerðar- og sjómenn hafa litlar veiðiheimildir og gengur illa að fá ýsu leigða? Ef svo er, hvaða aðgerða má vænta af hálfu ráðherra vegna þessa?

    Ráðuneytið leitaði viðbragða Hafrannsóknastofnunar við fyrirspurninni og byggir svar sitt að hluta á svari stofnunarinnar.
    Verulegur samdráttur varð í heildaraflamarki ýsu milli fiskveiðiáranna 2018/2019 og 2019/2020. Tvær ástæður voru fyrir þessari lækkun heildaraflamarks sem byggðist alfarið á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Annars vegar gekk ekki að fullu eftir spá um vöxt ýsunnar og hins vegar, sem skiptir mestu máli, að aflaregla ýsu var endurskoðuð síðastliðinn vetur og var veiðihlutfall lækkað úr 0,4 í 0.35 í endurskoðaðri aflareglu. Ástæða þessa var fyrst og fremst hækkun á kynþroskaaldri ýsu. Eftir sem áður er heildaraflamark 2019/2020 nær það sama og heildaraflamark 2017/2018.
    Frá aldamótum hefur ýsa veiðst í auknum mæli út af Norðurlandi og er svipaða þróun að sjá úr mælingum Hafrannsóknastofnunar, hvort sem er að vor- eða haustlagi. Ekki er þó hægt að greina marktæka breytingu á dreifingu ýsu út af Norðurlandi á undanförnum þremur árum.
    Ráðherra hefur til þessa leitast við að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem byggist á vísindalegum grunni og mun ekki leggja til að aflareglu fyrir ýsu verði breytt eða hún afnumin á fiskveiðiárinu 2019/2020. Þar af leiðandi kemur ekki til að Hafrannsóknastofnun endurskoði stofnmat sitt og útreikninga um aflamark samkvæmt aflareglu sem kynnt var í júní. Því er einnig við að bæta að öllum aflaheimildum í ýsu hefur þegar verið ráðstafað og þar af leiðandi eru engar aflaheimildir í ýsu til ráðstöfunar.