Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 592  —  344. mál.
Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fjölda og birtingu dóma og úrskurða Félagsdóms.


     1.      Hversu margir dómar og úrskurðir hafa verið kveðnir upp í Félagsdómi frá 2014? Óskað er eftir sundurgreiningu eftir árum.
    Fjölda dóma og úrskurða sem kveðnir hafa verið upp í Félagsdómi frá árinu 2014 og það sem af er árinu 2019 má sjá í eftirfarandi töflu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í töflunni sést að á árinu 2014 voru átta dómar kveðnir upp í Félagsdómi en á árinu 2015 var um að ræða 22 dóma og einn úrskurð. Árið 2016 voru 11 dómar og þrír úrskurðir kveðnir upp í Félagsdómi en á árinu 2017 voru 10 dómar og tveir úrskurðir kveðnir upp af dómstólnum. Árið 2018 voru fjórir dómar kveðnir upp í Félagsdómi og það sem af er ári 2019 hafa níu dómar og tveir úrskurðir verið kveðnir upp af dómstólnum.

     2.      Hver var meðaltími frá uppkvaðningu til birtingar? Hver var stysti tími frá uppkvaðningu til birtingar annars vegar og lengsti tími hins vegar hvert ár? Óskað er eftir sundurgreiningu eftir árum.
    Dómar og úrskurðir Félagsdóms hafa fram til þessa verið birtir á vef Stjórnarráðsins. Nýtt vefumsjónarkerfi Stjórnarráðsins var tekið til notkunar í lok árs 2017 en við yfirfærslu dóma úr eldra kerfi yfir í það nýja fylgdu eingöngu með upplýsingar um hvaða dag dómar Félagsdóms höfðu verið kveðnir upp en ekki upplýsingar um dagsetningar þegar dómarnir höfðu verið birtir og hafa þær upplýsingar því glatast. Frá þeim tíma er dómar Félagsdóms voru birtir í tíð eldra vefumsjónarkerfis Stjórnarráðsins eru því hvorki tiltækar upplýsingar um meðaltíma frá uppkvaðningu dóms Félagsdóms þar til dómurinn hefur verið birtur né upplýsingar um stysta eða lengsta tímann í þessu sambandi. Það sama gildir um úrskurði Félagsdóms frá þessu tímabili. Þegar fyrirspurn þessi barst ráðuneytinu hafði hins vegar einn dómur Félagsdóms verið birtur eftir að nýtt vefumsjónarkerfi Stjórnarráðsins var tekið til notkunar. Var dómurinn kveðinn upp í Félagsdómi 26. febrúar 2019 og var hann birtur á vef Stjórnarráðsins þann sama dag.
    Samkvæmt upplýsingum frá Félagsdómi, sem tók við birtingu dóma og úrskurða dómsins af ráðuneytinu í lok árs 2017, höfðu 17 dómar og úrskurðir ekki verið birtir þegar fyrirspurn þessi barst ráðuneytinu. Um var að ræða þrjá dóma/úrskurði frá árinu 2017, fjóra dóma frá árinu 2018 og 10 dóma/úrskurði frá árinu 2019. Úr þessu hefur nú verið bætt og voru allir þessir dómar og úrskurðir birtir á vef Stjórnarráðsins miðvikudaginn 27. nóvember síðastliðinn. Er því búið að birta alla dóma og úrskurði Félagsdóms frá árinu 2014 og það sem af er árinu 2019.
    Lengsti tími sem leið frá uppkvaðningu til birtingar dóms/úrskurðar Félagsdóms frá árinu 2017 var vegna dóms sem kveðinn var upp 22. júní 2017 en birtur 27. nóvember síðastliðinn. Ekki liggja fyrir upplýsingar um stysta tíma eða meðaltíma í þessu sambandi vegna mála sem kveðin voru upp 2017, sbr. framangreint.
    Meðaltími frá uppkvaðningu til birtingar þeirra fjögurra dóma Félagsdóms sem kveðnir voru upp árið 2018 voru 444 dagar. Lengsti tími var 552 dagar en stysti tími var 341 dagur.
Meðaltími frá uppkvaðningu til birtingar dóma/úrskurða Félagsdóms það sem af er árinu 2019 eru 153 dagar. Lengsti tími var 273 dagar en stysti tími var þegar dómur var birtur samdægurs.

     3.      Hversu margir dómar og úrskurðir eru óbirtir og frá hvaða árum? Hver er ástæða þess að hluti dóma og úrskurða hefur ekki verið birtur?
    Líkt og fram kemur í svari við spurningu númer tvö hafa allir dómar og úrskurðir Félagsdóms frá árinu 2014 verið birtir á vef Stjórnarráðsins.
    Nú stendur yfir vinna við hönnun og forritun nýrrar vefsíðu Félagsdóms og standa vonir til að þeirri vinnu ljúki í desember. Í kjölfarið munu dómar og úrskurðir Félagsdóms ekki lengur verða birtir á vef Stjórnarráðsins heldur eingöngu á vef Félagsdóms en vonir standa til að með því komist birtingar dóma og úrskurða dómstólsins í betri farveg en verið hefur.

     4.      Hvaða reglur og viðmið gilda um birtingu dóma og úrskurða og tímafresti?
    Ekki eru í gildi sérstakar reglur eða viðmið um birtingu dóma og úrskurða Félagsdóms.