Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 594  —  430. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum (launaþróun og gjafsókn).

Flm.: Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland.


1. gr.

    Í stað orðsins „lánskjaravísitölu“ í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: launavísitölu.

2. gr.

    29. gr. laganna orðast svo:
    Fjárhæðir samkvæmt lögum þessum eru miðaðar við launavísitölu eins og hún var 1. júlí 1993 (131,3) og taka þær sömu breytingum og mælt er fyrir um í 15. gr.

3. gr.    

    Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gjafsókn.

    Ríkissjóður skal veita gjafsókn þeim sem höfða mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna líkamstjóns eða höfða mál til að krefjast greiðslu skaðabóta vegna líkamstjóns án þess að skilyrðum 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sé fullnægt.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

Skaðabætur í samræmi við launaþróun.
    Skaðabótalögin miða þróun bótafjárhæða við lánskjaravísitölu. Lánskjaravísitalan telst til þeirra viðmiða sem lítið eru notuð í útreikningi á verðlagi, vísitalan er aðeins notuð til að ákvarða fjárhæðir skaðabóta. Í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið er varðar þau viðmið sem notuð eru til mælinga á verðlagi þá verður að teljast brýn þörf á að lögum um skaðabætur verði breytt svo að fjárhæðir þeirra taki breytingum eftir mælikvörðum sem almennt eru notaðir nú við mat á verðlagi. Þar koma helst tveir mælikvarðar til skoðunar, annars vegar vísitala neysluverðs og hins vegar launavísitala. Skaðabætur miða að því að gera tjónþola eins settan og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og lög miðast við árslaun að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 7. gr. skaðabótalaga. Þegar örorka tjónþola er metin til frambúðar er aðallega horft til þess hvaða áhrif örorka hefur á getu hans til að afla tekna. Því er ástæða til að miða við launavísitölu þegar fjárhæðir skaðabóta eru ákvarðaðar til frambúðar. Þess ber að geta að hætt var að nota lánskjaravísitölu í apríl 1995 til þess að verðtryggja nýjar fjárskuldbindingar, en vísitala neysluverðs til verðtryggingar var notuð í staðinn. Lánskjaravísitalan stóð í 3.282 stigum við gildistöku skaðabótalaga en stendur nú í 9.290 stigum. Fjárhæðir skaðabótalaga hafa því hækkað um 183% frá gildistöku þeirra og núna er lágmarksviðmið árslauna, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna, 3.396.709 kr. og fyrir 74. ára og eldri 1.132.236 kr. Sú fjárhæð er talsvert lægri en lægstu launakjör á almennum vinnumarkaði. Eftir því sem laun hafa hækkað umfram verðlag hefur dregið úr þeirri vernd sem skaðabótalögin veita þeim sem verða fyrir líkamstjóni en hafa ekki stundað fulla atvinnu á síðustu þremur árum fyrir slysdag. Þetta eru m.a. ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar.
    Meðaltal heildartekna árið 1993 var 1.236.000 kr. en 6.641.000. kr. árið 2018. Þessir hópar njóta því ekki sömu verndar og skaðabótalögin tryggðu þeim við gildistöku. Launavísitalan stóð í 131,3 stigum við gildistöku skaðabótalaga en var í 695,2 stig í september 2019 og hefur því hækkað um 529%. Ef fjárhæðir laganna eru miðaðar við núverandi launavísitölu þá mundi lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. hækka fyrir 66 ára og yngri úr 3.396.709 kr. í 6.353.694 kr. Fyrir 74 ára og eldri mundi lágmarksviðmið hækka úr 1.132.927 kr. í 2.117.898 kr. Um er að ræða 87% hækkun þvert á þau lágmarksviðmið sem fram koma í töflu 3. mgr. 7. gr. laganna. Með breytingu þessari yrðu ákvæði skaðabótalaganna til þess fallin að veita þeim sem hafa lágar tekjur sambærilega vernd og þau gerðu við gildistöku þeirra.
    
Gjafsókn.
    Það er einstaklingum oft þung byrði að höfða dómsmál vegna líkamstjóns sem þeir hafa orðið fyrir. Þeir fallast því gjarnan frekar á þær bætur sem tryggingafélög bjóða að fyrra bragði og gefa eftir þann rétt sem þeir þó telja sig eiga. Til þess að stemma stigu við þessu vandamáli sem snýr að tekjulægri einstaklingum og þar með bæta réttaröryggi þeirra sem hafa orðið fyrir líkamstjóni er lagt til að þeir einstaklingar eigi kost á því að höfða mál vegna viðurkenningar á skaðabótaskyldu eða greiðslu skaðabóta sem rekja má til líkamstjóns, óháð fjárhagsstöðu, með því að rýmka rétt þeirra til gjafsóknar. Framangreint samræmist 3. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.