Ferill 433. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 597  —  433. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.1. gr.

    2. og 3. mgr. 53. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    54. gr. laganna orðast svo:
    Öll aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur skulu fara fram á markaði. Þó er heimil tilfærsla greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila og við ábúendaskipti eða breytingu skráningar ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða. Ráðherra skal í reglugerð mæla fyrir um nánari framkvæmd markaðar með greiðslumark, forgang nýliða og frekari skilyrði fyrir tilfærslu eða breytingu skráningar greiðslumarks.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Megintilgangurinn með því er að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sem skrifað var undir hinn 25. október 2019 af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016 og var undirritað með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum og samþykki félagsmanna Landssambands kúabænda og Bændasamtaka Íslands í atkvæðagreiðslu.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar í samræmi við ofangreint samkomulag þar sem fallið var frá niðurfellingu heildargreiðslumarks. Greiðslumark mun því gilda áfram út gildistíma samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Meginmarkmið breytingarinnar er að stuðla að jafnvægi í greininni miðað við ríkjandi markaðsaðstæður.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016, skv. 14. gr. samningsins. Samkvæmt ákvæðinu skyldi við endurskoðun hans árið 2019 tekin afstaða til þess hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu yrði afnumið frá og með 1. janúar 2021. Í samræmi við gr. 14.3 í samningnum létu Bændasamtök Íslands fara fram atkvæðagreiðslu um hvort kvótakerfi skyldi afnumið frá og með 1. janúar 2021. Greiddu 89,4% mjólkurframleiðenda atkvæði með áframhaldandi kvótakerfi. Samkomulagið gerir ráð fyrir því að greiðslumark haldi sér sem kvóti sem tryggir forgang að innanlandsmarkaði og sem viðmiðun fyrir beingreiðslur. Niðurtröppun á beingreiðslum út á greiðslumark samkvæmt samningi um starfsskilyrði í nautgriparækt verður stöðvuð og heldur greiðslumark því hlutfallslegu gildi sínu í 30% af heildarstuðningi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í tvær greinar þar sem lagðar eru til eftirfarandi breytingar:
     1.      Til samræmis við þær breytingar sem koma fram í samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar, dags. 25. október 2019, er lagt til að 2. og 3. mgr. 53. gr. laganna verði felldar brott þar sem ekki verður lengur í gildi innlausn með ríkisábyrgð. Aðilar sem vilja selja greiðslumark gera það í gegnum markað og fer sala fram á jafnvægisverði.
     2.      Lagt er til að viðskipti með greiðslumark verði leyfð að nýju frá og með árinu 2020. Viðskiptin muni byggjast á markaðsfyrirkomulagi því sem gilti á árunum 2011–2016, þ.e. markaði með greiðslumark þar sem óskað er eftir að kaupa greiðslumark mjólkur eða það boðið til sölu. Markaðsverð verður grundvallað á jafnvægisverði, þ.e. því verði sem myndast þegar framboðið magn er jafnt og eftirspurn, eða lægsta verði sem jafnvægismagn getur verið selt og keypt á. Nánara fyrirkomulag markaðar og frekari skilyrði fyrir tilfærslu eða breytingu skráningar greiðslumarks skuli koma fram í reglugerð.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til sérstakrar athugunar á samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst starfsumhverfi bænda. Meginefni þess er að framkvæma nauðsynlegar lagabreytingar til að fyrrnefnt samkomulag frá 25. október 2019 geti tekið gildi. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016 en þar er kveðið á um að samningurinn skuli endurskoðaður í tvígang. Að samkomulaginu koma atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið auk Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda. Um samkomulagið var kosið í Bændasamtökum Íslands og Landssambandi kúabænda. Með vísan til ofangreinds hefur því frumvarpið nokkuð langan aðdraganda og er samningsatriði milli þeirra sem það snertir einna helst. Þá var frumvarpið sett í opið samráð í samráðsgátt stjórnarráðsins dagana 6.–13. nóvember 2019, mál nr. S-279/2019, en engin umsögn barst. Loks má nefna að Landssamband kúabænda hefur kynnt efni samkomulagsins á 14 fundum um allt land.

6. Mat á áhrifum.
    Markmið með frumvarpinu er fyrst og fremst að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sem skrifað var undir 25. október 2019. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar til samræmis við fyrrgreint samkomulag þar sem fallið var frá niðurfellingu heildargreiðslumarks. Greiðslumark mun því gilda áfram út gildistíma samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Þær breytingar sem snúa að samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar hafa áhrif á starfsumhverfi bænda.
    Í fyrrgreindu samkomulagi eru lagðar til breytingar á ráðstöfun fjármuna innan gildandi samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016 sem varða bændur. Verði frumvarpið að lögum kallar það ekki á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð heldur er einungis um að ræða tilfærslur fjármuna innan gildandi samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Til samræmis við þær breytingar sem koma fram í samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar, dags. 25. október 2019, er lagt til að 2. og 3. mgr. 53. gr. laganna verði felldar brott þar sem ekki verður lengur í gildi innlausn með ríkisábyrgð. Framleiðendur sem vilja selja greiðslumark gera það í gegnum markað og fer sala fram á jafnvægisverði. Ef greiðslumarkið selst ekki verður það áfram í eigu framleiðanda sem getur þá reynt að selja það að nýju á næsta markaði. Með vísan til þessara breytinga er ekki þörf á gildandi 2. og 3. mgr. 53. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Lagt er til að stofnsettur verði markaður fyrir greiðslumark mjólkur. Í samkomulagi um breytingu á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar, dags. 25. október 2019, kemur fram að fallið verði frá niðurfellingu heildargreiðslumarks mjólkur sem átti að taka gildi 1. janúar 2021, sbr. 3. gr. samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Greiðslumark muni því gilda áfram út gildistíma samningsins og halda sér sem kvóti sem tryggi forgang að innanlandsmarkaði og sem viðmiðun fyrir beingreiðslur. Viðskipti með greiðslumark verði þannig leyfð að nýju frá og með árinu 2020. Viðskiptin muni byggjast á markaðsfyrirkomulagi því sem gilti á árunum 2011–2016, þ.e. markaði með greiðslumark þar sem óskað er eftir að kaupa greiðslumark mjólkur eða það boðið til sölu, og markaðsverð grundvallast á jafnvægisverði. Ef verðþróun á markaði verður óeðlileg að teknu tilliti til framboðs, eftirspurnar og aðstæðna að öðru leyti er gert ráð fyrir því í samkomulagi dags. 25. október 2019 að ráðherra verði heimilt, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, að setja hámarksverð á greiðslumark. Þá er lagt til að ráðherra skuli í reglugerð mæla fyrir um nánari framkvæmd markaðar með greiðslumark, forgang nýliða og frekari skilyrði fyrir tilfærslu eða breytingu skráningar greiðslumarks.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.