Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 617  —  352. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um umhverfismat vegna framkvæmda í Finnafirði.


     1.      Hefur farið fram umhverfismat á þeirri starfsemi sem verið er að byggja upp í tengslum við hafnarframkvæmdir í Finnafirði, sbr. samstarfssamning sem var undirritaður í apríl sl. um þróun og uppbyggingu hafnarstarfsemi á svæðinu?
    Umhverfismat vegna fyrirhugaðra hafnarframkvæmda í Finnafirði hefur ekki farið fram og er umhverfismatsferli vegna þeirra ekki hafið, en um er að ræða framkvæmdir sem eru háðar umhverfismati samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt ber að leggja mat á umhverfisáhrif við gerð aðal- og deiliskipulags.

     2.      Ef ekki hefur farið fram slíkt umhverfismat, hvenær má búast við því að slíkt mat fari fram og hversu langt geta framkvæmdir við hafnarframkvæmdir í Finnafirði gengið áður en umhverfismat liggur fyrir?
    Það er framkvæmdaraðili sem hefur forræði á því hvenær umhverfismatsferli hefst, en hann skal gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar, sem er fyrsta skref í umhverfismatsferlinu, eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Umhverfismatsferlinu þarf að vera lokið og skipulag svæðisins að vera frágengið áður en unnt er að hefja framkvæmdir.

     3.      Hvaða kröfur til íslensks samfélags leiðir af starfsemi hafnarinnar með tilliti til uppbyggingar mengunarvarna, dráttarskipa, björgunarbúnaðar og ýmiss viðlagabúnaðar?
    Eins og fram kemur í svari við 4. tölul. fyrirspurnarinnar liggja ekki fyrir aðrar upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir í Finnafirði en ráða má af aðalskipulagi Langanesbyggðar. Gera má ráð fyrir að upplýsingar um einstakar framkvæmdir og starfsemi liggi fyrir þegar mat á umhverfisáhrifum fer eftir atvikum fram eða þegar sótt er um viðeigandi leyfi fyrir umræddum framkvæmdum eða starfsemi. Sú löggjöf sem er á málefnasviði umhverfis- og auðlindaráðuneytis og getur hugsanlega varðað einstakar framkvæmdir eru t.d. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og skipulagslög, nr. 123/2010, sem mæla fyrir um leyfisveitingar og eftirlit með tilteknum framkvæmdum og starfsemi, sem og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra laga. Ekki er unnt að segja til um hvaða hugsanlegar kröfur eða skilyrði verða sett fyrir einstökum framkvæmdum eða starfsemi af hálfu leyfisveitenda fyrr en fyrir liggja upplýsingar um einstakar framkvæmdir eða starfsemi. Einnig er vert að benda á ákvæði laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, þar sem m.a. er gerð krafa um mengunarvarnabúnað í höfnum, sbr. nánar 19. gr. laganna. Einnig má nefna að á grundvelli þeirra laga og laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, eru í gildi reglur um varnir gegn mengun frá skipum, sbr. reglugerð nr. 586/2017, og hefur Samgöngustofa það hlutverk að hafa eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna. Þá skal á það bent að hafnamál og samgöngumál eru á málefnasviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og mannvirkjamál á málefnasviði félagsmálaráðuneytis.

     4.      Liggur fyrir hversu víðáttumikið svæði muni fara undir samgöngumannvirki, gámavelli, vöruskemmur, eldsneytisbirgðastöðvar og önnur mannvirki sem munu tilheyra væntanlegri stórskipahöfn? Hefur verið lagt mat á líkleg áhrif slíkra mannvirkja á lífríki og náttúrufar á svæðinu?
    Ekki liggja fyrir aðrar upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir í Finnafirði en ráða má af aðalskipulagi Langanesbyggðar sem staðfest var árið 2013. Í aðalskipulagi Langanesbyggðar er mörkuð stefna um að „byggja upp stórt athafna-, hafnar- og iðnaðarsvæði í Finnafirði“ og skilgreint 1.750 hektara svæði vegna þeirrar uppbyggingar. Í aðalskipulaginu og umhverfismati þess kemur fram að hugmyndir um fyrirhugaða uppbyggingu séu skammt á veg komnar og að ekki sé hægt af þeim sökum að gera nákvæma grein fyrir eðli og umfangi fyrirhugaðrar starfsemi, en fram kemur að á svæðinu sé gert ráð fyrir að geti risið stórskipa- og umskipunarhöfn, olíuhreinsistöð, gasþjöppunarstöð, birgðastöð auk annarrar tengdrar iðnaðar- og athafnastarfsemi. Í aðalskipulaginu er boðað að nánari grein verði gerð fyrir áformaðri uppbyggingu á svæðinu með breytingu á aðalskipulagi og umhverfismati hennar auk þess sem umhverfisáhrif verði metin með nákvæmari hætti á síðari stigum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.