Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 625  —  449. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar).

Frá dómsmálaráðherra.


I. KAFLI
Breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum.
1. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „biskupsembættis“ kemur: biskupsþjónustu.
     b.      Í stað orðsins „prestsembætti“ kemur: prestsþjónustu.

3. gr.

    Í stað orðsins „prestsembættis“ í 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: prestsþjónustu.

4. gr.

    Í stað orðsins „embættisfærslu“ í 3. mgr. 12. gr. laganna kemur: starf.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „embætti sínu“ í fyrri málsl. 1. mgr. kemur: biskupsþjónustu sinni.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Nú fellur biskup Íslands frá eða lætur af biskupsþjónustu sinni og skal þá sá vígslubiskup, sem eldri er að biskupsvígslu, gegna þjónustu hans uns biskupskjör hefur farið fram og nýr biskup Íslands hefur tekið við.

6. gr.

    Orðið „embætta“ í 2. mgr. 23. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    Í stað orðsins „skipa“ í fyrri málsl. 35. gr. laganna kemur: ráða.

8. gr.

    2. málsl. 36. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    37. gr. laganna orðast svo:
    Biskup Íslands ræður í starf sóknarprests sem og í önnur prestsstörf, sbr. 35., 44. og 45. gr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skipunar eða setningar í prestsembætti“ í 1. mgr. kemur: tímabundinnar eða ótímabundinnar ráðningar í prestsstarf.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins“ í 3. mgr. kemur: sem starfsreglur kirkjuþings kunna að mæla fyrir um.

11. gr.

    Fyrirsögn 37. og 38. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

    Í stað orðanna „embættið með fjögurra vikna umsóknarfresti hið skemmsta“ í 1. mgr. 39. gr. laganna kemur: starfið.

13. gr.

    40. og 41. gr. laganna falla brott.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „hlotið skipun eða ráðningu“ í fyrri málsl. 1. mgr. kemur: verið ráðinn.
     b.      Í stað orðsins „embættinu“ í síðari málsl. 1. mgr. kemur: prestsþjónustu.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „aðra starfsmenn þjóðkirkjunnar en þá sem fyrr hafa verið taldir“ í fyrri málsl. 1. mgr. kemur: starfsfólk þjóðkirkjunnar.
     b.      Í stað orðanna „hlutverk starfsmanna“ í síðari málsl. 1. mgr. kemur: réttarstöðu og hlutverk starfsfólks.
     c.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Kirkjuþing setur gjaldskrá um þjónustu kirkjunnar, þ.m.t. vegna prestsþjónustu.

16. gr.

    V. kafli laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.

17. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Um það starfsfólk þjóðkirkjunnar sem tilgreint var í 1. mgr. 61. gr. laganna og var í starfi 31. desember 2019 gilda ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, eins og við getur átt, til og með 31. mars 2020.
    Það starfsfólk þjóðkirkjunnar sem var skipað í embætti í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, við gildistöku laga þessara heldur þeim réttindum og skyldum sem af skipuninni leiða út skipunartíma sinn, en að öðru leyti fer um réttindi þeirra og skyldur samkvæmt starfsreglum settum af kirkjuþingi.
    Gjaldskrá um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar nr. 729/2014, með síðari breytingum, sem sett var með heimild í 3. gr. laga um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36/1931, með síðari breytingum, og var birt í B-deild Stjórnartíðinda, skal halda gildi sínu til 31. mars 2020.

II. KAFLI
Breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.
18. gr.

    4. tölul. 1. mgr. 22. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum.
19. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar sem eiga aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eiga rétt til áframhaldandi aðildar að sjóðnum með óslitinni réttindaávinnslu meðan þeir gegna störfum hjá þjóðkirkjunni.

20. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um laun sóknarpresta, nr. 46/1907, og lög um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36/1931.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Hinn 6. september 2019 undirrituðu fulltrúar íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar viðbótarsamning um endurskoðun á samkomulagi milli sömu aðila um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 (kirkjujarðasamkomulagið) og samningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til Kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar frá 4. september 1998. Áður hafði samningurinn verið samþykktur á aukakirkjuþingi sem haldið var 28. ágúst og 4. september 2019. Með viðbótarsamningnum fellur síðarnefndi samningurinn úr gildi en samkomulagið frá 1997 verður áfram í gildi, sbr. þó þær breytingar sem felast í hinum nýja viðbótarsamningi. Í samningnum felast nýjar viðmiðanir og breytt fyrirkomulag á ýmsum þeim atriðum sem fjallað er um í fyrri samningum aðila. Markmið viðbótarsamningsins er að einfalda framkvæmd fjárhagslegs stuðnings ríkisins við þjóðkirkjuna á grundvelli framangreindra samninga. Með viðbótarsamningnum er einnig stefnt að auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum. Til að ná þeim markmiðum sem viðbótarsamningurinn felur í sér undirrituðu sömu aðilar einnig viljayfirlýsingu þar sem stefnt er að ákveðnum lagabreytingum í þeim tilgangi að einfalda frekar allt lagaumhverfi um fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju og á þeim greiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði. Viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, sem gerður var 6. september 2019, fylgir með frumvarpi þessu, sbr. fylgiskjal I, ásamt viljayfirlýsingu sömu aðila sem gerð var sama dag, sbr. fylgiskjal II.
    Á grundvelli viðbótarsamningsins hefur frumvarp þetta verið unnið í dómsmálaráðuneytinu í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið og þjóðkirkjuna. Samkvæmt 3. gr. samningsins ber þjóðkirkjan fulla ábyrgð á eigin fjármálum og ákveður sjálf fjölda starfsmanna sinna. Þá skal þjóðkirkjan samkvæmt 4. gr. samningsins annast sjálf alla launavinnslu, bókhald og launagreiðslur starfsmanna sinna frá 1. janúar 2020. Endurskoðun reikninga kirkjunnar verður ríkinu óviðkomandi frá sama tímamarki. Til þess að tryggja að efnisatriði 3. og 4. gr. samningsins öðlist lagagildi er dómsmálaráðherra, samkvæmt 7. gr. viðbótarsamningsins, falið að leggja fram frumvarp til laga á Alþingi er feli í sér breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt skal frumvarpið fela í sér tillögu um að ákvæði laga um laun sóknarpresta, nr. 46/1907, og laga um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36/1931, falli niður, auk II. kafla laga um Kristnisjóð o.fl., nr. 35/1970, og II. kafla laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987. Í þessu frumvarpi er ekki lagt til að ákvæði falli úr lögum um Kristnisjóð o.fl. og lögum um sóknargjöld o.fl., en hugað verður að þeim breytingum á næstunni.
    Í nóvember sl. samþykkti kirkjuþing frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar til að tryggja að efnisatriði 3. og 4. gr. viðbótarsamningsins skyldu öðlast gildi. Beindi kirkjuráð þeim tilmælum til dómsmálaráðherra, á grundvelli 3. mgr. 23. gr. sömu laga, að frumvarpið yrði lagt fram á Alþingi í samræmi við þær tillögur sem samþykktar voru á kirkjuþingi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarps þessa er fyrrgreindur viðbótarsamningur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar og viljayfirlýsing sömu aðila sem fylgdi honum. Samkvæmt samningnum skal kirkjan meðal annars annast launagreiðslur til alls starfsfólks síns frá 1. janúar 2020 í stað þess að biskup Íslands, vígslubiskupar, 138 starfandi prestar og prófastar þjóðkirkjunnar og 18 starfsmenn biskupsstofu þiggi laun úr ríkissjóði. Leiðir þetta til þess að þessir starfsmenn þjóðkirkjunnar munu ekki lengur teljast til embættismanna eða starfsmanna ríkisins heldur verði þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar. Samningurinn felur í sér að dómsmálaráðherra skal leggja fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum. Er meðal annars nauðsynlegt að breyta lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, á þann veg að brott falli ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 22. gr. þeirra laga, sem tilgreinir tiltekna starfsmenn þjóðkirkjunnar sem embættismenn í skilningi laganna. Einnig þarf að fella brott lög um laun sóknarpresta, nr. 46/1907, og lög um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36/1931. Til þess að framangreindar breytingar nái fram að ganga og samræmis sé gætt, þarf jafnframt að breyta lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum, einkum V. kafla þeirra laga. Enn fremur er nauðsynlegt að gera breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1//1997, með síðari breytingum. Leitast er við að gera sem minnstar breytingar á þessu stigi og miðar frumvarpið að því að leggja eingöngu til þær breytingar sem teljast nauðsynlegar til að tryggja efndir viðbótarsamningsins. Verði frumvarpið að lögum verður kirkjuþingi falið að skilgreina réttarstöðu starfsfólks kirkjunnar og setja gjaldskrá fyrir þjónustu hennar eins og viðbótarsamningurinn gerir ráð fyrir.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem taldar eru nauðsynlegar svo að efna megi framangreindan viðbótarsamning milli ríkis og kirkju. Þar sem í samningnum felst sú meginbreyting að kirkjan taki sjálf við öllum starfsmönnum sínum og starfsmannamálum, auk launagreiðslna til þeirra, frá 1. janúar 2020, miða breytingarnar fyrst og fremst að því að ná því markmiði.
    Þar sem þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar sem taldir eru upp í 1. mgr. 60. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar munu ekki lengur teljast til embættismanna eða starfsmanna ríkisins heldur verði þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar er lagt til að 4. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, falli brott, en þar segir að biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar teljist vera embættismenn. Í samræmi við það eru lagðar til orðalagsbreytingar á þeim ákvæðum laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, þar sem vísað er til orðsins embættis eða tengdra orða. Er meðal annars lagt til að nota þess í stað orðin starf og þjónusta. Einnig er lagt til að hverfa frá orðalaginu um að setja eða skipa í embætti og taka í staðinn upp orðalagið að ráða til starfa. Þá er lagt til að ákvæði laganna sem vísa til launagreiðslna til starfandi presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar frá ríkinu falli brott, sbr. ákvæði 2. mgr. 3. gr. og V. kafla þeirra, enda mun ríkið framvegis hætta að greiða árleg laun tiltekins fjölda starfsfólks og tiltekið framlag í sjóði kirkjunnar og þess í stað greiða eina fjárhæð árlega til þjóðkirkjunnar vegna skuldbindinga á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins, sbr. viðbótarsamninginn.
    Þar sem viðbótarsamningurinn gerir ráð fyrir því að starfsmenn þjóðkirkjunnar sem nú eiga aðild að A- og B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins haldi þeirri aðild meðan þeir gegna störfum hjá henni er nauðsynlegt að gera breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, til að tryggja að aðild að B-deild lífeyrissjóðsins haldist með óslitinni réttindaávinnslu meðan þeir starfsmenn gegna störfum hjá þjóðkirkjunni.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, segir að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Þær breytingar sem fram koma í frumvarpinu samræmast þessu ákvæði stjórnarskrárinnar. Efni frumvarpsins þykir ekki gefa sérstakt tilefni til skoðunar vegna alþjóðlegra skuldbindinga.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta var unnið af dómsmálaráðuneytinu í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið og þjóðkirkjuna til að efna viðbótarsamninginn milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Breytingar þær sem lagðar eru til á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar eru í samræmi við frumvarp sem kirkjuþing 2019 samþykkti um breytingar á þeim lögum í kjölfar viðbótarsamningsins og lagt var fyrir ráðherra að tilmælum kirkjuþings skv. 3. mgr. 23. gr. laganna.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið er liður í að uppfylla viðbótarsamning milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 6. september 2019, en þar er stefnt að stórauknu fjárhagslegu sjálfstæði þjóðkirkjunnar og einföldun alls lagaumhverfis og fyrirkomulags á þeim greiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði. Frumvarpið er nánari útfærsla á framangreindum samningi en tekur í engu á þeim samningsfjárhæðum sem þar koma fram.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hvorki að sjá að lögfesting þess hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð né sveitarfélögin sem nokkru nemur.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á jafnrétti eða stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Hér er lagt til að 2. mgr. 3. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, falli brott en ákvæðið segir til um hvernig launagreiðslum til presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna hennar skuli hagað og vísað er til 60. gr. laganna í þeim efnum. Sú grein er í V. kafla laganna sem lagt er til að falli brott í heild vegna ákvæða í samningi milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um að færa þjóðkirkjunni stjórn allra starfsmannamála sinna.

Um 2.–7. gr.

    Í 2.–7. gr. eru lagðar til breytingar á 7. gr., 3. mgr. 10. gr., 3. mgr. 12. gr., 15. gr., 2. mgr. 23. gr. og 35. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Leiða þær af ákvæðum í nýjum viðbótarsamningi ríkis og þjóðkirkju um að þjóðkirkjan taki yfir stjórn allra starfsmannamála sinna og að biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar verði ekki lengur embættismenn. Lagt er til, í samræmi við megintilgang þessa frumvarps, að hverfa frá orðinu embætti og nota þess í stað orðin starf og þjónusta. Sömuleiðis er lagt til að nota orðalagið ráða í starf í stað orðalagsins að skipa í starf.

Um 8. gr.

    Frumvarpi þessu er ætlað að færa ábyrgð á stjórn starfsmannamála til kirkjunnar og er því eðlilegt að ákvörðunarvald um þjónustu héraðspresta færist til kirkjunnar sjálfrar og er því lagt til að 2. málsl. 36. gr. falli brott.

Um 9. gr.

    Lögð er til sú breyting á 37. gr. laganna, í samræmi við megintilgang þessa frumvarps, að hverfa frá því að ræða um skipan til embætta og taka í staðinn upp orðalagið að ráða til starfa.

Um 10. gr.

    Lagt er til, í samræmi við megintilgang frumvarpsins, að hverfa frá því að ræða um setningu og skipan til embætta en þess í stað verði tekið upp orðalagið að ráða til starfa.
    Með hliðsjón af því að ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins munu ekki taka til vígðra þjóna og starfsfólks biskupsstofu eftirleiðis er ljóst að vísun til þeirra laga í 3. mgr. 38. gr. verður að falla brott úr þjóðkirkjulögum. Þess í stað verði gert ráð fyrir því að kirkjuþing setji starfsreglur um málefnið.

Um 11. gr.

    Í fyrirsögn 37. og 38. gr. laganna er vísun í embættisgengi presta o.fl. og er því lagt til að fyrirsögnin verði felld brott.

Um 12. gr.

    Í ljósi þess að frumvarpi þessu er ætlað að færa ábyrgð og stjórn starfsmannamála til kirkjunnar er eðlilegt að ákvörðunarvald um lengd umsóknarfrests færist til kirkjunnar sjálfrar eins og lagt er til með þessari grein.

Um 13. gr.

    Frumvarpinu er sem fyrr segir ætlað að færa ábyrgð og stjórn starfsmannamála til kirkjunnar og er því eðlilegt að ákvörðunarvald um þau starfsmannamál kirkjunnar, sem ákvæðin taka til, færist til kirkjunnar sjálfrar. Er því lagt til að 40. og 41. gr. laganna falli brott.

Um 14. gr.

    Lagt er til, í samræmi við megintilgang þessa frumvarps, að hverfa frá því að kveða á um skipun í starf og mæla fremur fyrir um ráðningu í starf. Sömuleiðis að kveða á um að taka við prestsþjónustu í stað embættis.

Um 15. gr.

    Lagt er til að orðalag fyrri málsl. 1. mgr. 59. gr. laganna verði látið ná til alls starfsfólks kirkjunnar í stað þess að ná eingöngu til annars starfsfólks en vígðra þjóna og starfsfólks biskupsstofu. Þar sem 61. gr. laganna fellur brott skv. 16. gr. frumvarpsins er lagt til að í 59. gr. komi fram að kirkjuþing skilgreini réttarstöðu starfsfólks. Jafnframt er lagt til að kirkjuþing setji gjaldskrá um þjónustu kirkjunnar, þ.m.t. prestsþjónustu, í stað þess að ráðherra kirkjumála setji gjaldskrá eins og nú er.

Um 16. gr.

    Í 7. gr. viðbótarsamnings íslenska ríkisins við þjóðkirkjuna er kveðið á um að breyta skuli lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, á þann veg að brott falli ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 22. gr. laganna, sem skilgreinir vígða þjóna kirkjunnar sem embættismenn kirkjunnar. Enn fremur er kveðið á um í samningnum að greidd skuli ein fjárhæð til kirkjunnar á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997 í stað þess að greiða árlega laun tiltekins fjölda starfsmanna og tiltekið framlag í sjóði kirkjunnar. Jafnframt segir í 3. gr. viðbótarsamningsins að kirkjan hafi sjálfstæðan fjárhag, beri fulla ábyrgð á eigin fjármálum og ákveði sjálf fjölda starfsmanna sinna. Auk þess er tekið fram að kirkjan setji nánari starfsreglur um nýtingu greiðslna samkvæmt samningnum. Er því ljóst að ákvæði V. kafla laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, verður að falla brott til að samræma löggjöfina þessum ákvæðum viðbótarsamningsins.

Um 17. gr.

    Ætla verður kirkjuþingi einhvern tíma til að skipa þeim málum með starfsreglum sem felld verða brott úr lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, 1. janúar 2020 samkvæmt frumvarpi þessu. Forsætisnefnd kirkjuþings hefur ákveðið að framhaldsfundur kirkjuþings 2019 verði síðari hluta marsmánaðar 2020. Þrátt fyrir að brottfall ákvæðis 4. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins leiði til þess að prestar og aðrir sem þar eru taldir upp teljist ekki lengur starfsfólk ríkisins, er lagt til að ákvæði starfsmannalaga gildi, eins og við getur átt, í samskiptum þjóðkirkjunnar við það starfsfólk fyrstu þrjá mánuði ársins 2020. Mun kirkjuþing setja starfsreglur um framan-greind málefni, sem gildi frá og með 1. apríl 2020.
    Hið sama á við um gjaldskrá ráðherra kirkjumála. Ætla verður kirkjuþingi tíma til að setja nýja gjaldskrá og er miðað við sömu tímamörk og að framan greinir.
    Lagt er til að það starfsfólk þjóðkirkjunnar sem var skipað í embætti í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, haldi þeim réttindum og skyldum sem leiða af skipuninni út skipunartíma sinn við gildistöku laga þessara. Í ljósi þess að skipunartími starfsfólks er misjafn er gert ráð fyrir því að þegar kirkjuþing hefur samþykkt og birt starfsreglur sínar geti þær átt við um starfskjör viðkomandi það sem eftir lifir skipunartíma hans. Því fólki sem skipað er tímabundið verður boðinn ráðningarsamningur að skipunartíma loknum. Það fólk sem er skipað ótímabundið heldur þeirri skipun uns það lætur af störfum.

Um 18. gr.

    Af viðbótarsamningi íslenska ríkisins við þjóðkirkjuna leiðir að þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar sem getið er um í 4. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996 munu ekki lengur teljast til embættismanna ríkisins heldur munu þeir verða starfsmenn þjóðkirkjunnar. Í greininni eru lagðar til nauðsynlegar breytingar til samræmis við viðbótarsamninginn, en í ákvæðinu segir að til embættismanna teljist biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar.

Um 19. gr.

    Af viðbótarsamningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar leiðir að þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar sem ríkið greiðir laun fyrir, sbr. 60. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, munu ekki lengur teljast til starfsmanna ríkisins heldur til starfsmanna þjóðkirkjunnar. Viðbótarsamningurinn gerir hins vegar ráð fyrir því að starfsmenn þjóðkirkjunnar sem nú eiga aðild að A- og B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins haldi þeirri aðild á meðan þeir gegna störfum hjá henni og er því nauðsynlegt vegna reglna um aðild að sjóðnum að gera breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins svo að þeir fái haldið aðild sinni að B-deild sjóðsins. Hvað A-deildina varðar var skylduaðild að henni afnumin með lögum nr. 127/2016 en skv. d-lið (XI.) í 7. gr. þeirra laga um ákvæði til bráðabirgða er þeim starfsmönnum sem eiga eða hefðu átt skylduaðild að A-deild LSR fyrir 1. júní 2017 veittur réttur til aðildar að A-deild þar til samið hefur verið um lífeyrissjóðsaðild þeirra eða aðildin ákveðin af þar til bærum aðila. Með viðbótarsamningi ríkis og þjóðkirkjunnar er komist að samkomulagi aðila um að aðild starfsmanna þjóðkirkjunnar að A-deild haldist þar til annað verður ákveðið með nýju samkomulagi eða af þjóðkirkjunni.

Um 20. gr.

    Til þess að efnisatriði viðbótarsamnings íslenska ríkisins við þjóðkirkjuna komist í framkvæmd á þeim tíma sem gert er ráð fyrir í samningnum er miðað við að gildistaka laganna verði 1. janúar 2020.
    Í samræmi við ákvæði 7. gr. viðbótarsamningsins er gert ráð fyrir að lög um laun sóknarpresta, nr. 46/1907, og lög um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36/1931, falli brott.


Fylgiskjal I.


Viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar.


www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0625-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Viljayfirlýsing.


www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0625-f_II.pdf