Ferill 238. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 628  —  238. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um hafverndarsvæði.


     1.      Hversu hátt hlutfall strandlengja og hafsvæða við Ísland telst til hafverndarsvæða?
    Ekki er til sérstök skilgreining á „hafverndarsvæði“ í íslenskum lögum, en mörg svæði í hafi og við strendur njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, lögum um vernd Breiðafjarðar og lögum um stjórn fiskveiða. Lög um vernd Breiðafjarðar voru sett árið 1995. Ákvæði laganna taka til allra eyja, hólma og skerja á Breiðafirði ásamt fjörum í innri hluta fjarðarins frá Hrafnanesi á Barðaströnd að Búlandshöfða á Snæfellsnesi.
    Friðlýst svæði samkvæmt náttúruverndarlögum sem taka til hafsvæða að öllu eða að hluta eru um 25 talsins, en engin þeirra ná aðeins til svæða í hafi utan tvö svæði í Eyjafirði, sem eru friðlýst til að vernda hverastrýtur á hafsbotni. Hin svæðin ná til eyja og strandlengju, en hvergi langt út frá strönd.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra skal hafa samráð við ráðherra sjávarútvegsmála varðandi friðlýsingar í hafi sem geta haft áhrif á nýtingu fiskistofna eða annarra lifandi auðlinda hafsins eða hafsbotnsins. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu njóta allmörg svæði innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands verndar fyrir veiðum með einu eða fleiri veiðarfærum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Nokkur þessara svæða eru lokuð ótímabundið allt árið um kring, annaðhvort fyrir öllum veiðum eða tilteknum veiðiaðferðum. Í þennan flokk falla tíu kórallasvæði fyrir sunnan Ísland sem eru friðuð. Í nóvember 2019 var nokkrum stærri hafsvæðum lokað ótímabundið fyrir veiðum með fiskibotnvörpu og/eða línu allt árið. Bann er við notkun ákveðinna veiðarfæra á mörgum svæðum, sbr. lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Einkum gildir það um togveiði innan 12 mílna landhelgi með tímabundnum undanþágum, einkum fyrir Suðurlandi. Í gildi eru einnig margvíslegar umfangsminni svæðalokanir byggðar á reglugerðarákvæðum, flestar ótímabundnar. Að síðustu má nefna heimildir í lögum um tímabundnar lokanir, svokallaðar skyndilokanir, þar sem veiðar með tilteknum veiðarfærum eru bannaðar í allt að 14 daga til verndar smáfiski. Endurteknar skyndilokanir leiða hins vegar oft til ótímabundinna lokana svæða.
    Erfitt er því að segja til um hversu hátt hlutfall hafsvæða nýtur einhvers konar verndar, þar sem sum vernd er tímabundin. Ekki er heldur fyllilega ljóst hvert er heildarflatarmál svæða sem teljast falla undir lög um vernd Breiðafjarðar. Hvað varðar strandlengju Íslands hefur ekki verið tekið saman hversu hátt hlutfall hennar nýtur verndar, en ljóst er að það er verulegt. Í greinargerð með frumvarpi til laga um vernd Breiðafjarðar segir að nær helmingur af öllum fjörum á Íslandi séu á svæðinu sem ákvæði laganna ná yfir.
    Ísland hefur tilkynnt 14 svæði alls sem hafverndarsvæði (e. Marine Protected Area) á skrá OSPAR-samningsins um vernd Norðaustur-Atlantshafsins. Mögulega má skilgreina fleiri svæði sem eru friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum sem hafverndarsvæði sem mætti setja inn í grunn OSPAR. Á meðal svæðanna 14 eru kórallasvæði sem eru friðuð fyrir veiðum, auk nokkurra svæða sem eru friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum. Samanlagt flatarmál þeirra er 556 ferkílómetrar eða innan við 0,1% af efnahagslögsögunni. Alls eru tæplega 500 skráð hafverndarsvæði á OSPAR-svæðinu, sem ná yfir um 6,2% þess. Hlutfallsleg stærð hafverndarsvæða er mjög mismunandi hjá aðildarríkjum OSPAR; innan við 1% hjá Danmörku, Portúgal og Írlandi, en yfir 30% hjá Belgíu og Þýskalandi.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um vernd strandlengja og hafsvæða fyrir lok árs 2020?
    Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er að 10% strandsvæða og hafsvæða njóti verndar árið 2020. Sambærileg markmið hafa verið sett á öðrum vettvangi. Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni eru markmið um að 17% landsvæða og 10% hafsvæða njóti verndar árið 2020. Þetta þýðir ekki endilega að hvert ríki þurfi að ná slíkri tölu innan sinnar lögsögu, en þó ljóst að þarna eru sett viðmið sem taka þarf tillit til.
    Ljóst er að ofangreindum tölulegum markmiðum um vernd hafsvæða verður ekki náð fyrir lok árs 2020. Ljóst er einnig að þeim markmiðum verður ekki náð á heimsvísu, eða hjá mörgum nágrannaríkjum okkar við Norður-Atlantshaf. Ástæða þessa er að hluta til að vernd hafsvæða á sér styttri sögu en vernd svæða á landi, vísindaleg þekking á lífríki og náttúruminjum neðansjávar er takmarkaðri og verndarviðmið síður þróuð. Mikil hreyfing er hins vegar á vinnu nú varðandi verndarsvæði í hafi almennt á heimsvísu.
    Ráðuneytið mun skoða með Umhverfisstofnun á næstunni hvort setja megi fleiri friðlýst svæði samkvæmt náttúruverndarlögum inn á skrá OSPAR um hafverndarsvæði. Aukin vernd hafsvæða verður einnig til skoðunar í vinnu varðandi náttúruminjaskrá og friðlýsingar innan náttúruverndarlaga í framtíðinni. Skoðað verður í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hvort hægt sé að skilgreina fleiri svæði sem njóta friðunar fyrir fiskveiðum að hluta eða öllu leyti sem hafverndarsvæði en mikil umræða fer nú fram um slíkt á alþjóðavettvangi.
    Ljóst er að vinna við vernd hafsvæða á traustum vísindalegum grunni mun taka nokkurn tíma. Brýnt er að bæta þekkingu á hafsbotninum til að styðja við vísindalegan grunn verndar á hafsvæðum og hefur Hafrannsóknastofnunin fengið sérstakar fjárheimildir til að ljúka á tíu ára tímabili kortlagningu hafsbotnsins kringum Ísland. Sú vinna mun veita stofnuninni betri grunnupplýsingar til ráðgjafar, m.a. um vernd viðkvæmra vistkerfa á hafsbotni.

     3.      Ef vernda ætti alla strandlengju Íslands og hafsvæði til þess að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, hversu langt þyrfti það svæði að ná frá landi (námundað) ef landhelgi verndarsvæðis nær frá strandlengju?
    Hafsvæði innan 200 sjómílna efnahagslögsögu Íslands eru tæplega 760.000 ferkílómetrar. Ef 10% af því svæði væru yfirlýst hafverndarsvæði væri flatarmál þeirra því 76.000 ferkílómetrar. Flatarmál hafsvæða innan 12 sjómílna landhelgi Íslands mun vera tæplega 70.000 ferkílómetrar. Því myndi verndun alls hafsvæðis innan landhelginnar fara langt með að ná tíu prósenta markmiðinu ef efnahagslögsagan er höfð sem viðmið.