Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 629  —  452. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Í stað „1. júní“ í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur: 1. mars.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Drög að frumvarpinu voru samin í samvinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og dómsmálaráðuneytis og kynnt ríkisskattstjóra og stýrihópi dómsmálaráðherra um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í frumvarpinu er lagt til að skráningu upplýsinga um raunverulega eigendur lögaðila verði flýtt þannig að skrá skuli upplýsingar um aðila sem þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá eigi síðar en 1. mars 2020 í stað 1. júní.
    Með setningu laga um skráningu raunverulegra eigenda var m.a. brugðist við athugasemdum alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (e. Financial Action Task Force, FATF) en í niðurstöðum úttektar vinnuhópsins á stöðu mála á Íslandi á árinu 2017 komu fram athugasemdir varðandi aðgang tilkynningarskyldra aðila að upplýsingum um raunverulega eigendur.
    Frá og með 30. ágúst 2019 hafa allir lögaðilar sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða skráðir eru í fyrirtækjaskrá orðið að afla upplýsinga um og skrá raunverulega eigendur sína og réttindi þeirra við nýskráningu í fyrirtækjaskrá. Þeir lögaðilar sem þegar voru skráðir í fyrirtækjaskrá hafa samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögunum frest til 1. júní 2020 til að skrá upplýsingarnar. Frá og með 1. desember 2019 hafa lögaðilar getað skráð raunverulega eigendur sína rafrænt á vef RSK.
    Með frumvarpinu er lagt til að aðilar sem þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá skuli veita ríkisskattstjóra upplýsingar um raunverulega eigendur eins og þeir eru skilgreindir í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eigi síðar en 1. mars 2020. Markmiðið með lagasetningunni er að skylda til að skrá upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðila hjá ríkisskattstjóra taki gildi fyrr en gert er ráð fyrir samkvæmt gildandi lögum. Verði frumvarpið samþykkt hafa þegar skráðir lögaðilar þrjá mánuði til að skrá raunverulega eigendur sína eða frá 1. desember 2019 til 1. mars 2020. Með hliðsjón af því verður ekki talið að lagabreytingin sem hér er lögð til hafi verulega íþyngjandi áhrif fyrir lögaðila. Breytingin hefur enn fremur í för með sér aukið gagnsæi þar sem upplýsingar um raunverulega eigendur liggja fyrr fyrir hjá fyrirtækjaskrá en nú er gert ráð fyrir.