Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 631  —  283. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ásgerði K. Gylfadóttur um dvalar- og hvíldarrými.


     1.      Hvernig hefur fjöldi dvalar- og hvíldarrýma þróast sl. fimm ár, sundurliðað eftir heilbrigðisumdæmum?
    Vísað er til svars heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á 149. löggjafarþingi (þskj. 871, 537. mál).

     2.      Hver er staðan á biðlistum eftir dvalarrýmum og hvíldarinnlögnum í október 2019, sundurliðað eftir heilbrigðisumdæmum?
    Aflað var upplýsinga frá færni- og heilsumatsnefndum allra heilbrigðisumdæma um stöðu biðlista í október. Tölur yfir fjölda á hvíldarinnlagnalistum innihalda einnig þá sem eru í reglubundnum hvíldarinnlögnum. Hvíldarinnlagnir eru þjónusta til stuðnings sjálfstæðri búsetu.
    Í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðis voru 267 á biðlista eftir hjúkrunarrými, 4 eftir dvalarrými og 560 voru á hvíldarinnlagnalista.
    Í heilbrigðisumdæmi Vesturlands voru 52 á biðlista eftir hjúkrunarrými, 24 eftir dvalarrými og 70 voru á hvíldarinnlagnalista.
    Í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða voru 17 á biðlista eftir hjúkrunarrými og 8 voru á hvíldarinnlagnalista. Engin dvalarrými eru í heilbrigðisumdæminu.
    Í heilbrigðisumdæmi Norðurlands voru 76 á biðlista eftir hjúkrunarrými, 48 eftir dvalarrými og 290 voru á hvíldarinnlagnalista.
    Í heilbrigðisumdæmi Austurlands voru 20 á biðlista eftir hjúkrunarrými og 43 voru á hvíldarinnlagnalista. Engin dvalarrými eru í heilbrigðisumdæminu.
    Í heilbrigðisumdæmi Suðurlands voru 37 á biðlista eftir hjúkrunarrými, 13 eftir dvalarrými og 82 voru á hvíldarinnlagnalista.
    Í heilbrigðisumdæmi Suðurnesja voru 22 á biðlista eftir hjúkrunarrými og 89 voru á hvíldarinnlagnalista. Engin dvalarrými eru í heilbrigðisumdæminu.

     3.      Hver er tíðni þess að ónýtt dvalarrými hafi verið nýtt til hvíldarinnlagna sl. þrjú ár, sundurliðað eftir heilbrigðisumdæmum?
    Eina dæmið sem færni- og heilsumatsnefndum var kunnugt um þar sem dvalarrými var nýtt til hvíldarinnlagna var á höfuðborgarsvæðinu. Þar voru á tímabili 1–2 dvalarrými nýtt fyrir hvíldarinnlagnir.