Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 632  —  366. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um kynbundið áreiti og ofbeldi við kvensjúkdómaskoðun og fæðingar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur kynbundið áreiti og ofbeldi gagnvart konum við kvensjúkdómaskoðun og fæðingar verið rannsakað hér á landi? Ef svo er, hverjar voru niðurstöður þeirrar rannsóknar og hvað er áætlað að gert sé með þær niðurstöður? Ef svo er ekki, telur ráðherra rétt að slík rannsókn verði gerð?
     2.      Telur ráðherra að þörf sé á að viðurkenna að kynbundið áreiti og ofbeldi geti átt sér stað í tengslum við fæðingar og kvensjúkdómalækningar og herða lög um réttindi sjúklinga, líkt og Evrópuráðsþingið hefur hvatt aðildarríki Evrópuráðsins til að gera?
     3.      Telur ráðherra tilefni til að fara í upplýsinga- og fræðsluátak um kynbundið áreiti og ofbeldi gagnvart konum við kvensjúkdómaskoðun og fæðingar, líkt og Evrópuráðið hefur kallað eftir að aðildarríki geri?


    Markmið laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, er að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi og styrkja þannig réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Heilbrigðisstarfsmaður skal leitast við að koma á traustu sambandi milli sín og sjúklings, sbr. 2. mgr. 3. gr., og koma fram við sjúkling af virðingu, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna. Þá segir í 4. gr. að heilbrigðisráðuneytið skuli sjá til þess að til séu upplýsingar um réttindi sjúklinga, sjúklingafélög og sjúkratryggingar og skulu þessar upplýsingar aðgengilegar sjúklingum í húsakynnum heilbrigðisstarfsmanna og á starfsstofum.
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um að kynbundið áreiti eða ofbeldi gagnvart konum við kvensjúkdómaskoðun og fæðingar hafi verið rannsakað hér á landi. Við undirbúning svarsins var leitað til Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og embættis landlæknis og höfðu stofnanirnar engar upplýsingar um að slíkar rannsóknir hefðu verið gerðar hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala er sjaldgæft að kona tilkynni spítalanum um að hún telji sig hafa orðið fyrir áreiti eða kynbundnu ofbeldi við kvensjúkdómaskoðun eða fæðingu. Ekki liggur fyrir nákvæm skráning um þessi atvik. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri var eitt slíkt atvik tilkynnt á síðastliðnum 20 árum og fór málið í hefðbundinn kvörtunarferil hjá embætti landlæknis.
    Ráðherra telur mikilvægt að viðurkenna að kynbundið áreiti og ofbeldi geti átt sér stað í tengslum við fæðingar og kvensjúkdómalækningar. Þá telur ráðherra enn fremur mikilvægt í ljósi þeirra réttinda sem sjúklingum eiga að vera tryggð með lögum um réttindi sjúklinga, en einnig í ljósi ályktunar Evrópuráðsins nr. 2306 frá 2019, að öll atvik þar sem sjúklingur telur sig hafa orðið fyrir áreiti eða ofbeldi við veitingu heilbrigðisþjónustu séu skráð á heilbrigðisstofnunum og hjá öðrum veitendum heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega þarf að huga að skráningu atvika í tengslum við kvensjúkdómaskoðanir og fæðingar í ljósi þess hve viðkvæmri stöðu konur geta verið í þegar þær sækja þessa tegund heilbrigðisþjónustu. Með nákvæmri atvikaskráningu yrði ljóst hvort þörf væri á laga- eða reglugerðarbreytingum með það að markmiði að tryggja að kynbundið áreiti eða ofbeldi eigi sér ekki stað við veitingu umræddrar heilbrigðisþjónustu. Auk þessa gæti nákvæmari skráning gefið betri mynd af því hvort tilefni sé til að fara í upplýsinga- og fræðsluátak um kynbundið áreiti og ofbeldi gagnvart konum við kvensjúkdómaskoðun og fæðingar, líkt og Evrópuráðið hefur kallað eftir að aðildarríki geri.
    Upplýsingabæklingur um réttindi sjúklinga var gefinn út árið 1999 og bæklingur um lög um réttindi sjúklinga fyrir heilbrigðisstarfsmenn gefinn út ári síðar. Bæklingarnir hafa ekki verið uppfærðir og ekki liggur fyrir hve aðgengilegur hann er sjúklingum á heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna en þeir eru aðgengilegir á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins og heimasíðu embættis landlæknis auk þess sem upplýsingar um réttindi sjúklinga má finna á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands og á island.is.
    Ráðherra telur mikilvægt að virkt eftirlit sé viðhaft með allri heilbrigðisþjónustu í samræmi við lög nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, en einnig að atvik séu skráð til að hægt sé að meta hvort sjúklingar njóti þeirra réttinda sem þeim eiga að vera tryggð samkvæmt lögum.