Ferill 455. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 642  —  455. mál.
Flutningsmenn. Breyttur texti.
Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um úttekt á starfsemi Lindarhvols ehf.

Frá Ingu Sæland, Guðmundi Inga Kristinssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Helga Hrafni Gunnarssyni, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Jóni Þór Ólafssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Guðjóni S. Brjánssyni og Þorsteini Víglundssyni.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi geri úttekt á starfsemi Lindarhvols ehf. og taki saman skýrslu um starfsemina.
    Í úttektinni verði m.a. athugað:
          hvort félagið hafi efnt skyldur sínar samkvæmt samningi við ríkissjóð um umsýslu, fullnustu og sölu stöðugleikaframlagseigna,
          hvort starfsemi félagsins og stjórnar hafi fylgt samþykktum starfsreglum,
          hvaða verkferlum stjórn og starfsmenn félagsins fylgdu í störfum sínum,
          á hvaða forsendum starfskjör stjórnar og starfsmanna félagsins voru ákveðin,
          hvaða eignum félaginu var falið að ráðstafa,
          hvernig verðmat eigna félagsins fór fram,
          hvernig söluferli eigna félagsins fór fram,
          hvað var greitt fyrir eignir sem félagið seldi,
          hvort söluverð eigna félagsins hafi verið hærra eða lægra en verðmat þeirra,
          hverjir keyptu eignir félagsins,
          hvaða ráðgjöf og þjónustu félagið keypti,
          á hvaða grundvelli félagið keypti ráðgjöf og þjónustu,
          hvaða sjónarmið réðu för við mat á því hvort kaupa ætti ráðgjöf og þjónustu,
          hvaða sjónarmið réðu för við val á því af hverjum ráðgjöf og þjónusta var keypt og á hvaða verði,
          hvort sú ráðgjöf og þjónusta hafi skilað tilætluðum árangri.

Greinargerð.

    Með beiðni þessari er lagt til að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu sem varpi ljósi á starfsemi félagsins Lindarhvols ehf. sem stofnað var til að annast umsýslu, fullnustu og sölu á stöðugleikaeignum sem ríkissjóður fékk í sinn hlut í tengslum við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja.
    Í 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga er kveðið á um að stjórnsýsluendurskoðun feli í sér mat á frammistöðu þeirra aðila sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með. Markmið stjórnsýsluendurskoðunar er að stuðla að úrbótum þar sem einkum er horft til eftirfarandi atriða:
     a.      meðferðar og nýtingar ríkisfjár,
     b.      hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins,
     c.      hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt.
    Við mat á frammistöðu skal m.a. líta til þess hvort starfsemi sé í samræmi við fjárheimildir, þá löggjöf sem gildir um hana og góða og viðurkennda starfshætti. Þá vísast jafnframt til 4. gr. laganna og lögð áhersla á að ríkisendurskoðandi skoði starfsemi og árangur sem og framkvæmd samninga, sbr. d- og g-lið 1. mgr.
    Lindarhvoll ehf. lauk starfsemi í byrjun febrúar 2018. Þótt félagið hafi starfað sem einkahlutafélag var það í eigu ríkisins og hlutverk þess opinbers eðlis. Eignir ríkisins sem félaginu var falið að koma í verð voru umtalsverðar. Við stofnun var verðmæti þeirra metið um 60 milljarðar kr. Það skiptir miklu máli að vanda til verka við meðferð og sölu ríkiseigna. Félagið keypti einnig þjónustu af einkaaðilum fyrir háar fjárhæðir í tengslum við verkefni sín. Það er mikilvægt að almenningur geti treyst því að ríkið verji fjármunum sínum á skynsamlegan hátt og að samningar við einkaaðila séu gerðir á málefnalegum grundvelli. Því er tilefni til að ríkisendurskoðandi geri úttekt á starfsemi félagsins. Almenningur á rétt á því að vita hvort opinberra hagsmuna hafi verið gætt í starfsemi Lindarhvols.