Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 643  —  456. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (mannvirki).

Flm.: Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland.


1. gr.

    Orðin „að því leyti sem það verður talið nauðsynlegt vegna afnota þess eða af tæknilegum ástæðum“ í 1. mgr. 13. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Hönnuður mannvirkis nýtur verndar á hönnun sinni og um þá vernd gilda ákvæði höfundalaga. Þess þarf þó að gæta að ekki sé gengið svo langt í þeirri vernd að réttur eiganda mannvirkis skerðist um of. Núgildandi reglur setja miklar skorður við heimild húseigenda til að gera breytingar á eigin húsum. Í 13. gr. höfundalaga er vísað til þess að aðeins sé heimilt að gera breytingar án samþykkis höfundar ef þær eru nauðsynlegar vegna afnota eða af tæknilegum ástæðum. Þegar mannvirki eru hönnuð á hugverkarétturinn að gilda um hönnunina en ekki um mannvirkið sjálft. Það er hægt að virða þann hugverkarétt án þess að takmarka verulega umráðaheimildir eiganda mannvirkis. Hægt er að varðveita myndir, teikningar og tölvugögn um hönnunina og tryggja að þau glatist ekki. Þá er hægt að fylgjast með því að hönnunin sé ekki nýtt í leyfisleysi. Það er hins vegar ekki þörf á því þegar sú hönnun er nýtt að þá leggist á það tiltekna mannvirki ýmsar kvaðir. Ekki er gert að skilyrði þegar tónverk er flutt að aðeins megi flytja það með þeim hljóðfærum sem höfundur þess tilgreinir eða í þeirri tóntegund.
    Hér er því lagt til að ekki þurfi lengur að leita samþykkis höfundar ef breyta á mannvirki. Þannig geta eigendur mannvirkja breytt þeim án þess að þurfa að leita samþykkis annarra. Eftir sem áður er vernd höfundaréttarins til staðar, enda er hin upprunalega hönnun enn þá vernduð. Þannig er slakað á þeim miklu takmörkunum sem lög leggja á umráðarétt eigenda mannvirkja án þess að gengið verði of langt á höfundarétt þeirra sem hanna mannvirkin.