Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 651  —  276. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um sviðslistir.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson, Arnfríði Sólrúnu Valdimarsdóttur og Jóhann Þorvarðarson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Orra Hugin Ágústsson og Friðrik Friðriksson frá Bandalagi íslenskra leikara, Hörð Sigurðarson frá Bandalagi íslenskra leikfélaga, Erling Jóhannesson frá Bandalagi íslenskra listamanna, Hrafnhildi Theódórsdóttur frá Félagi íslenskra leikara og Birnu Hafstein frá Sviðslistasambandi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bandalagi íslenskra leikfélaga, Bandalagi íslenskra listamanna, Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa, Félagi íslenskra leikara, Félagi leikstjóra á Íslandi, Klassíska listdansskólanum, Samtökum um Danshús – Dansverkstæði og Sviðslistasambandi Íslands.
    Frumvarp þetta felur í sér heildarlög sem er ætlað að ná yfir allar sviðslistir og kemur í stað leiklistarlaga, nr. 138/1998. Með því er ætlunin að búa til heildstæða löggjöf um sviðslistir í samræmi við löggjöf um tengdar atvinnugreinar og einfalda stjórnsýslu í kringum sviðslistir.

Hlutverk og verkefni Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins og sviðslistaráðs.
    Við meðferð málsins í nefndinni var aðallega fjallað um efni 17. og 18. gr. frumvarpsins auk þess sem tillögur bárust frá nokkrum umsagnaraðilum að breyttu orðalagi ákvæða til áhersluauka og skýringar. Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir gagnvart tilkomu heildarlaga um sviðslistir og um efni frumvarpsins.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að betur færi á því að orðaröð í 2. og 9. gr. frumvarpsins, þar sem fjallað er um hlutverk Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins, yrði breytt á þann veg að fyrst yrði tíunduð starfsemi leikhússins og dansflokksins og síðan yrði hlutverk þeirra um að glæða áhuga landsmanna tiltekið. Nefndin tekur undir þessar tillögur og telur eðlilegt að meiri áhersla verði lögð á listrænt hlutverk þeirra. Nefndin leggur jafnframt til að sambærilegar breytingar verði gerðar á 19. gr. þar sem fjallað er um óperustarfsemi.
    Þá kom fram í umsögnum nokkurra aðila að orðalag 3. gr. frumvarpsins varðandi leikferðir sem Þjóðleikhúsið stendur að hefði verið betra í sambærilegu ákvæði í leiklistarlögum. Í því ákvæði væri skýrt kveðið á um að með leikferðunum væri bæði átt við ferðir erlendis sem og komu erlendra listamanna hingað til lands. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að orðalag eldra ákvæðis henti betur til að tryggja framgöngu íslenskra sviðslista í alþjóðasamfélaginu og leggur til að ákvæðinu verði breytt á þann veg.
    Í umsögnum um frumvarpið var bent á að nauðsynlegt væri að þjóðleikhúsráð hefði heimild til að funda án þjóðleikhússtjóra, t.d. þegar farið væri yfir umsóknir um það embætti. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til að síðasta málslið 2. mgr. 4. gr. verði breytt á þann veg að Þjóðleikhússtjóri sitji að jafnaði fundi þjóðleikhúsráðs.
    Í 4. gr. frumvarpsins um þjóðleikhússtjóra og 11. gr. um listdansstjóra kemur fram að í þau embætti skuli skipað til fimm ára í senn en þó megi ekki gegna embætti lengur en í tvö tímabil. Þá er lagt til að auglýsa skuli embættin laus til umsóknar í lok hvers skipunartímabils. Fyrir nefndinni hafa komið fram sjónarmið þess efnis að í þeim tilvikum þegar ákveðið hefur verið að endurnýja ráðningu þjóðleikhús- eða listdansstjóra sé ekki tilefni til að auglýsa embættið. Það hafi í för með sér tímafrekt og kostnaðarsamt ferli sem hafi mikil áhrif á starfsemina. Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og leggur til að sú fortakslausa skylda til að auglýsa við lok skipunartíma sem lögð er til í frumvarpinu verði felld brott.
    Við meðferð málsins var töluvert fjallað um skipanir og tilnefningar í þjóðleikhúsráð, sviðslistaráð og listdansráð. Ýmis sjónarmið komu fram um hverjir ættu að fara með framangreindar tilnefningar. Meiri hluti umsagnaraðila var þó hlynntur því að fagfélög innan Sviðslistasamband Íslands færu með tilnefningar á móti ráðherra. Nefndin telur að gæta þurfi skýrleika og samræmis á milli orðalags ákvæðanna og leggur til að í 5. gr. og 12. gr. frumvarpsins verði kveðið á um að fagfélög innan Sviðslistasambands Íslands fari með tilnefningar í stað fagfélaga sviðslistafólks. Enn fremur leggur nefndin til að sama orðalag verði tekið upp í 15. gr. í stað Sviðslistasambands Íslands. Sviðslistasamband Íslands eru heildarsamtök sviðslista á Íslandi og er því eðlilegt að það fari ekki sjálft með tilnefningarvaldið heldur hafi það hlutverk að ákveða hvaða fagfélög innan sambandsins séu best til þess fallin hverju sinni að standa að tilnefningu í ráðin.
    Þá var við meðferð málsins nokkuð fjallað um hlutverk sviðslistaráðs sem skilgreint er í 16. gr. frumvarpsins. Nefndin telur efni ákvæðisins nokkuð skýrt og í samræmi við hlutverk sambærilegra ráða en vekur þó athygli á efni b-liðar 16. gr. og svo lokamálslið 1. mgr. 17. gr. þar sem lagt er til að kveðið verði á um að sviðslistaráð geri tillögu til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sviðslistasjóðs til þriggja ára. Nefndin telur eðlilegt að gerð sé tillaga um stefnu og ákveðnar áherslur, til að mynda að við úthlutanir verði höfð hliðsjón af skiptingu kynja og listgreina. Hins vegar telur nefndin mikilvægt að halda ákveðinni fjarlægð á milli stjórnvalda og lista og því skuli ekki setja ákveðna stefnu eða áherslur um viðfangsefni þeirrar listar sem hljóta skuli úthlutun úr sjóðnum né annað sem er til þess fallið að draga úr listrænu frelsi.
    Í 6. og 13. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um að Þjóðleikhúsið og Íslenski dansflokkurinn skuli kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra viðeigandi aðila með listrænan ávinning og fjölbreytni að markmiði. Við meðferð málsins kom fram gagnrýni þess efnis að ákvæðin væru of almennt orðuð og að betra væri að setja skýran ramma utan um samstarf leikhússins og dansflokksins við aðra aðila. Nefndin leggur til breytingar þannig að kveðið verði á um að Þjóðleikhúsið og Íslenski dansflokkurinn skuli auglýsa eftir samstarfsaðilum ár hvert og gera formlega samstarfssamninga berist þeim umsókn um samstarf sem falli að markmiðum ákvæðanna.

Sviðslistasjóður.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað um hlutverk sviðslistasjóðs en í 17. gr. frumvarpsins er lagt til að sjóðnum verði skipt í tvær deildir, deild atvinnuhópa og deild áhugahópa í sviðslistum. Fyrir nefndinni kom fram að mikill einhugur ríkir meðal umsagnaraðila um að skilja áfram á milli styrkveitinga til atvinnu- og áhugahópa þvert á efni frumvarpsins þar sem hagsmunum beggja hópa væri betur farið í núverandi kerfi. Þannig væru gjörólíkar forsendur fyrir úthlutun til hópanna. Bandalag íslenskra leikfélaga, sem í greinargerð er ranglega nefnt Félag íslenskra leikfélaga, er hópur áhugafólks sem telur núverandi fyrirkomulag hafa gefist vel en það felst í því að félagið fær umsóknir frá félagsmönnum sínum og gerir tillögur um styrkveitingar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Félagið telur að breytt fyrirkomulag mundi hafa skerðingar á styrkjum í för með sér, m.a. þar sem það er ekki aðili að Sviðslistasambandi Íslands og hafi því hvorki ítök í sviðslistaráði né sviðslistasjóði. Nefndin telur í því ljósi að báðir hóparnir sem hafi hagsmuni af efni ákvæðisins séu ósamþykkir því sé rétt að leggja til að greininni verði breytt á þann veg að aðeins atvinnuhópar fái styrkveitingar úr Sviðslistasjóði og núverandi fyrirkomulag við úthlutanir til áhugahópa verði óbreytt.
    Fyrir nefndinni var einnig samhljómur um að aukið fjármagn vantaði í sviðslistasjóð svo að hann gæti orðið sambærilegum öðrum sjóðum á borð við Kvikmyndasjóð. Athugasemdir voru gerðar við að verkefnum sjóðsins væri fjölgað án þess að gert væri ráð fyrir meira fjármagni. Þá var í umsögnum lögð áhersla á að kostnaður við rekstur sjóðsins greiddist úr ríkissjóði en ekki sjóðnum sjálfum. Nefndin bendir á að samkvæmt leiklistarlögum er þóknun fulltrúa í leiklistarráði, sem er sambærilegt sviðslistaráði, og annar kostnaður við störf ráðsins greidd úr ríkissjóði. Nefndin leggur til að sami háttur verði hafður á varðandi sviðslistasjóð.

Kynningarmiðstöð sviðslista.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað um 18. gr. frumvarpsins en þar er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista. Umsagnaraðilar voru sammála um mikilvægi þess að koma upp kynningarmiðstöð sviðslista en gagnrýnt var að ekki væri kveðið á um skyldu til að setja slíka miðstöð á fót heldur ráðherra einungis fengin heimild til þess. Mörg sjónarmið voru reifuð mikilvægi slíkrar miðstöðvar til stuðnings en sérstaklega var lögð áhersla á þau alþjóðlegu tækifæri sem sviðslistafólk hefði farið á mis við vegna skorts á stuðningi við kynningarstarf og útrás sviðslista. Nefndin tekur undir að tímabært sé að setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista, ekki síst í ljósi þess menningarlega og fjárhagslega ávinnings sem slíkt starf hefur. Nefndin leggur til að kveðið verði á um stofnun miðstöðvarinnar með formlegum hætti og leggur jafnframt áherslu á að tryggja skuli fjármagn til reksturs slíkrar miðstöðvar. Mikilvægt sé að gera sviðslistafólki kleift að iðka alþjóðlegt samstarf, bæði til að auðga list hérlendis og til að auka veg og virðingu íslenskrar sviðslistar á alþjóðavísu.

    Til viðbótar við þær breytingar sem hafa verið útskýrðar í nefndaráliti þessu eru gerðar nokkrar breytingar lagatæknilegs eðlis. Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Guðmundur Andri Thorsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 5. desember 2019.

Páll Magnússon,
form.
Þórarinn Ingi Pétursson,
frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir.
Birgir Ármannsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Guðmundur Andri Thorsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Jón Steindór Valdimarsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.