Ferill 431. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 661  —  431. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2018.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin fékk fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins á fund sinn til að kynna frumvarpið. Þeir voru Kristinn H. Jónasson, Viðar Helgason, Kjartan D. Baldursson auk Ingþórs K. Eiríkssonar frá Fjársýslu ríkisins. Einnig komu fulltrúar Ríkisendurskoðunar, Skúli Eggert Þórðarson og Ingi K. Magnússon, á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir umsögn sinni um frumvarpið.
    Um árabil var ríkisreikningur ekki staðfestur með beinum hætti af Alþingi, heldur óbeint með samþykkt lokafjárlaga, þar sem veittar voru heimildir til þess að færa rekstrarafgang og umframgjöld milli ára fyrir einstaka ríkisaðila.
    Lög um staðfestingu ríkisreiknings tóku við af lokafjárlögum í fyrsta sinn fyrir árið 2017 og byggist breytingin á lögum um opinber fjármál. Frumvarpið eins og það liggur fyrir er mun einfaldara heldur en vegna ársins 2017. Frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2017 innihélt stofnefnahagsreikning ríkissjóðs 1. janúar 2017 og því þótti ástæða til að vekja sérstaklega athygli á ýmsum reikningsfærslum sem tengdust nýjum stofnefnahagsreikningi. Nú felst frumvarpið eingöngu í því að vísa til útgefins reiknings í heild sinni og óska eftir því að reikningurinn sé staðfestur af Alþingi.
    Ríkisendurskoðandi hefur endurskoðað reikninginn samkvæmt lögum nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, og í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla fyrir opinbera aðila (IPSAS). Ríkisendurskoðandi hefur jafnframt áritað reikninginn, án fyrirfara, með vísan til þess að ráðherra og fjársýslustjóri telja að innleiðingu verði að fullu lokið í árslok 2019. Þá er það álit ríkisendurskoðanda að reikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu ríkissjóðs í árslok 2018, afkomu ársins og breytingu á handbæru fé í samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015.

Reikningsskilareglur ríkisreiknings.
    Breytingin í ríkisreikningi 2017 sem staðfestur var á Alþingi 6. maí sl. fól í sér umfangsmiklar breytingar á efnahagsreikningi ríkissjóðs með alveg nýjum stofnefnahagsreikningi og var um tímamótareikning að ræða. Varanlegir rekstrarfjármunir voru í fyrsta sinn eignfærðir og afskrifaðir í samræmi við endingartíma í stað þess að gjaldfærast að fullu á kaupári. Einnig voru eignir ríkissjóðs í félögum metin með hlutdeildaraðferð, þ.e. ríkið eignfærir hlutdeild sína í eigið fé þeirra. Margvíslegar aðrar breytingar urðu á reikningsskilunum í fyrsta sinn með ríkisreikningi ársins 2017. Ríkisreikningur byggist á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IPSAS) en innleiðingunni er ekki enn lokið. Samkvæmt sérstakri innleiðingaráætlun er miðað við að ljúka innleiðingu með ríkisreikningi ársins 2019. Í skýringum 2 með ríkisreikningi er að finna umfjöllun um innleiðingu einstakra staðla.
    Í 1. gr. fjárlaga fyrir árið 2020 eru gjöld og tekjur sett fram á svokölluðum alþjóðlegum GFS-hagskýrslustaðli og afkoman er ekki sambærileg við reikningsskilastaðal ríkisreikningsins.

Niðurstöðutölur ríkisreiknings 2018.
    Rekstrarafkoman reyndist jákvæð um 84 milljarða kr. Tekjur námu 850 milljörðum kr. og heildargjöldin 856,7 milljörðum kr. en jákvæð hækkun hlutdeildar í afkomu félaga og samrekstrar var 91,4 milljarðar kr. og færist hún til tekna.
    Eignir ríkissjóðs voru samtals metnar á 2.224 milljarða kr., skuldir og skuldbindingar nema 1.610 milljörðum kr. og eigið fé er því jákvætt um 613 milljarða kr. Það er hækkun um 117 milljarða kr. milli ára. Aðrar helstu niðurstöður reikningsins eru skýrðar í greinargerð með frumvarpinu. Samandregið afkomuyfirlit er í eftirfarandi töflu:

Í milljörðum kr. 2018 2017 Breyting
Heildartekjur 849,6 802,4 47,2
Heildargjöld -856,7 -804,4 -52,5
Hlutdeild í afkomu félaga 91,4 40,9 50,5
Afkoma ársins 84,3 39,1 45,2

    Eins og þar kemur fram er afkoman nú 45 milljörðum kr. jákvæðari heldur en hún var í fyrra og munar þar mestu um 50 milljarða kr. hækkun hlutdeildar í afkomu félaga. Langþyngst vegur hlutdeild í afkomu Seðlabanka Íslands og Landsvirkjunar sem samtals skýra rúma 70 milljarða kr. af 91,4 milljarða kr. tekjufærslu hlutdeildar í félögum.

Mismunur reikningsskilastaðla, afkoma miðað við fjárlög.
    Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað allnokkuð um mismun reikningsskilastaðla og bent á að í séryfirliti 9 sem fylgir ríkisreikningi er afkoman sett fram á GFS-hagskýrslustaðli í stað IPSAS og því sambærileg við 1. gr. fjárlaga fyrir árið 2020. Samkvæmt þessu yfirliti er afkoma ríkissjóðs jákvæð um 38 milljarða kr. eða tæpum 5,5 milljörðum kr. jákvæðari heldur en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins. Sjá nánari sundurliðun í eftirfarandi töflu:

Í milljörðum kr. 2018 Fjárlög Breyting Hlutfall
Frumtekjur 831,4 827,2 4,2 0,5%
Frumgjöld -737,5 -736,1 -1,4 0,2%
Frumjöfnuður 93,9 91,1 2,8 3,1%
Vaxtajöfnuður -55,6 -58,3 2,7 -4,6%
Heildarjöfnuður 38,3 32,8 5,5 16,8%

    Eins og fram kemur eru heildarfrávik frá fjárlögum ársins tiltölulega lítil á mælikvarða GFS-staðalsins. Tekjur eru um 4 milljörðum kr. hærri en áætlað var og gjöldin rúmum milljarði kr. hærri. Vaxtagjöldin voru innan áætlunar og samtals er afkoman 5,5 milljörðum kr. betri heldur en áætlað var í fjárlögum.
    Niðurstöðutölur reikningsins sýna að staða ríkissjóðs er mjög sterk. Eigið fé er jákvætt og eykst milli ára enda afkoman jákvæð. Skuldbindingar lækka í heild sinni þrátt fyrir hækkun lífeyrisskuldbindinga því á móti vegur lækkun langtímalána. Nú þegar áætlað er að hagvöxtur verði heldur lægri á næstu árum en verið hefur undanfarin ár þá kemur styrk fjárhagstaða ríkissjóðs til góða og gefur færi á því að vega upp á móti hagsveiflunni án þess að víkja frá grunngildum um sjálfbærni og varfærni í ríkisfjármálum.

Ábendingar meiri hluta fjárlaganefndar.
    Brugðist hefur verið við nokkrum ábendingum fjárlaganefndar vegna ríkisreiknings 2017:
    Í fyrsta lagi með því að eingöngu er vísað til reikningsins og ekki er óskað heimilda vegna stofnefnahagsreiknings eða flutnings heimilda og umframgjalda milli ára.
    Í öðru lagi er sérstakt yfirlit, nr. 9, sem nú fylgir ríkisreikningi sem sýnir tekjur, gjöld og afkomu miðað við GFS-hagskýrslustaðalinn sem er sambærilegt við 1. gr. fjárlaga.
    Í þriðja lagi áritar ríkisendurskoðandi reikninginn með áliti og án fyrirvara, en það var ekki gert vegna reikningsins fyrir 2017.
    Ábending þess efnis að nauðsynlegt sé að reikningurinn sjálfur, frumvarp til staðfestingar hans og endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar komi út því sem næst á sama tíma og fyrr heldur en verið hefur fram til þessa gekk ekki eftir að þessu sinni.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að framvegis væri stefnt að því að frumvarpið verði tilbúið um leið og Alþingi kemur saman að hausti og mundi nefndin fylgja því eftir að svo yrði.
    Meiri hlutinn ítrekar ábendingu nefndarinnar frá því í fyrra um nauðsyn þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið gefi út reglugerð um flutning fjárheimilda milli ára áður en kemur að samþykkt næsta ríkisreiknings.
    Meiri hlutinn telur að heildstætt yfirlit um uppruna fjárheimilda, ráðstöfun ársins, heildarniðurstöðu, niðurfellingar og fluttar fjárheimildir milli ára fyrir málaflokka væri mjög gagnlegt og yfirferð á því yfirliti ætti að eiga sér stað áður en kemur að frumvarpi um staðfestingu ríkisreiknings hverju sinni. Með þessu er meiri hlutinn að taka undir ábendingu Ríkisendurskoðunar sem hefur í tvígang bent á að yfirlit af þessu tagi væri til bóta.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 6. desember 2019.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Inga Sæland, með fyrirvara.
Ágúst Ólafur Ágústsson, með fyrirvara. Birgir Þórarinsson, með fyrirvara. Njáll Trausti Friðbertsson.
Ásmundur Friðriksson. Steinunn Þóra Árnadóttir.