Ferill 461. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 666  —  461. mál.
Flutningsmaður. Viðbót.




Tillaga til þingsályktunar


um mótun stefnu Íslands um málefni hafsins.


Flm.: Guðmundur Andri Thorsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, María Hjálmarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Jón Steindór Valdimarsson, Björn Leví Gunnarsson, Olga Margrét Cilia, Andrés Ingi Jónsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og utanríkisráðherra að setja á fót starfshóp um mótun stefnu Íslands um málefni hafsins, með það að leiðarljósi að Ísland marki sér stöðu sem framsækið ríki þegar kemur að loftslagsbreytingum og verndun og sjálfbærri nýtingu líffræðilegs fjölbreytileika sjávar, bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 15. apríl 2020.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að forsætisráðherra í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og utanríkisráðherra verði falið að setja á fót starfshóp um mótun stefnu Íslands um málefni hafsins.
    Það er trú flutningsmanna að nú sé brýnt að mótuð sé heildarstefna um málefni hafsins sem taki til loftslagsbreytinga, sjálfbærrar nýtingar og verndunar líffræðilegs fjölbreytileika.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi sjávarútvegs hér á landi en samt er það svo að heildstæð stefna um málefni hafsins hefur ekki verið mótuð með markvissum hætti, en að henni hefur verið unnið í einstökum ráðuneytum.
    Frá því að Íslendingar fengu yfirráð yfir eigin fiskimiðum byggðist hafréttarstefna þjóðarinnar um árabil á hugmyndinni um rétt strandríkja til að stjórna nýtingu auðlinda innan eigin lögsögu á grundvelli hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Það markmið náðist þegar samningurinn var undirritaður í Jamaíku árið 1982 og hann varð að alþjóðalögum árið 1994, þegar tilskilinn fjöldi aðildarríkja hafði fullgilt samninginn. Hann tók gildi hér á landi þegar Alþingi fullgilti hann árið 1985 fyrst vestrænna ríkja. Á þeim árum sem liðin eru síðan hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna var gerður hafa bæst við gríðarlegar nýjar áskoranir í umhverfismálum. Árið 1982 voru loftslagsbreytingar óþekkt hugtak og einungis ríflega áratugur er frá því að súrnun sjávar varð þekkt.
    Íslenskar útgerðir, og útgerðarfyrirtæki í eigu íslenskra aðila, hafa frá árinu 1993 sótt á fiskimið á alþjóðlegum hafsvæðum eða innan efnahagslögsögu ríkja í þriðja heiminum. Einnig fara fram veiðar á karfa skammt undan efnahagslögsögu Íslands þrátt fyrir að NEAFC hafi ítrekað varað við afleiðingum slíkra veiða fyrir karfastofninn en Rússland hafnar niðurstöðum vísindamanna. Enn fremur hafa íslenskir útgerðarmenn í meira en 10 ár veitt makríl í vaxandi mæli innan efnahagslögsögu Íslands og á alþjóðlegum hafsvæðum án þess að fyrir liggi samkomulag á grundvelli úthafsveiðisáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Ísland hefur í auknum mæli verið þátttakandi í svæðisbundnum samningum sem snerta verndun og nýtingu sjávar, m.a. NEAFC, NAFO og OSPAR. Síðastliðið vor fullgilti Alþingi samning um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins. Þar að auki eru fleiri svæðisbundnir samningar sunnar á hnettinum og víða eru svæði sem njóta engrar verndar; sjóræningjaveiðar eru enn stundaðar víða á þeim svæðum.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Meginforsenda loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. Hvergi í heiminum hefur hitastigshækkun orðið jafnmikil og á norðurslóðum. Þannig á Ísland að efla rannsóknir á súrnun sjávar í samráði við vísindasamfélagið og sjávarútveginn.“
    Með stefnuyfirlýsingunni er mörkuð sú stefna að grípa þurfi til aðgerða í loftslagsmálum til að vernda lífríki hafsins, enda sé hér um að ræða tvær greinar af sama meiði. Hvor tveggja tengist verndun líffræðilegs fjölbreytileika hafsins. Verndun hafsins er alþjóðlegt úrlausnarefni og á þeim vettvangi verður Ísland að tala fyrir þeim málstað. Ísland verður að vera í fremstu röð í þessum málum.
    Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um verndun líffræðilegs fjölbreytileika var undirritaður í Rio de Janeiro árið 1992 og tók hann gildi hér á landi árið 1994. Hliðstæðar samþykktir aðildarríkja hans um verndun líffræðilegs fjölbreytileika sjávar hafa enn ekki komið til framkvæmda. Samningurinn er mikilvægasta verkfærið til að varðveita líffræðilega fjölbreytni jarðar og náið samstarf og samráð er um framkvæmd hans og annarra alþjóðlegra náttúruverndarsamninga. Samningurinn hefur í för með sér viðamiklar alþjóðlegar skuldbindingar fyrir Ísland, sem m.a. lúta að verndun og sjálfbærri nýtingu lífríkisins, auk ákvæða um sanngjarna skiptingu hagnaðar af nýtingu erfðaauðlinda. Samningurinn kveður skýrt á um óskoraðan rétt hvers aðildarríkis varðandi verndun og nýtingu eigin lífríkis. Þess má geta að árið 2008 kom þó út stefnumörkun Íslands um framkvæmd samningsins.
    Áhrif loftslagsbreytinga á hafið komust fyrst á formlega dagskrá aðildarríkjafundar loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna árið 2017. Hópur ríkja og samtaka hefur allt frá Parísarráðstefnunni árið 2015 unnið að því að hafið verði hluti loftslagssamningsins. Íslandi ber að styðja þá viðleitni, en í september sl. var gefin út skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar um áhrif loftslagsbreytinga á haf, ís og freðhvolf.
    Meðal þeirra brýnu vandamála sem snerta verndun hafsins eru rányrkja, brottkast um 1/ 3 alls fisks sem aflað er í heiminum, sjóræningjaveiðar, mengun, súrefnisskortur, offrjóvgun hafsvæða, plast og annað sorp sem ógnar lífríki sjávar.
    Enn fremur má nefna rányrkju sem felst í því að valdamikil ríki og/eða stórfyrirtæki nýti sér veikleika stjórnkerfis þjóða í þriðja heiminum, skort á eftirliti og tækniþekkingu og ræni þær þannig réttmætum tekjum af eigin auðlindum. Þessu hefur Ísland unnið gegn með því að halda sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi og þannig styrkt færni einstaklinga og styrk stofnana í þriðja heiminum, og að auki aðstoðað veikburða samfélög til sjálfshjálpar í þessum efnum. En betur má ef duga skal, eins og nýleg dæmi sanna, og mikilvægt er að Ísland skipi sér í fremstu röð og standi hvarvetna vörð um rétt strandþjóða, smárra sem stórra, til að nýta auðlindir sínar landsmönnum til heilla.