Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 669  —  132. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um stuðning við nýsköpun.


     1.      Hver hefur verið þróun framlaga til stoðkerfis nýsköpunar síðustu 10 ár? Hvernig hafa þau framlög skipst eftir landshlutum?
    Opinberu stuðningsumhverfi nýsköpunar sem heyrir undir ráðuneyti ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar má í grunninn skipta í fernt, þ.e.:
     a.      Samkeppnis- og styrktarsjóðir, af þeim er Tækniþróunarsjóður stærstur og veitti hann samtals 730 styrki fyrir alls 13.481.349 þús. kr. á árabilinu 2009–2018. Yfirlit yfir styrki og sjóði á vegum ráðuneytisins má sjá á vefsíðunni:
         www.stjornarradid.is/default.aspx?PageID=511b979b-3866-11e6-80c7-005056bc217f
     b.      Endurgreiðslur kostnaðar vegna rannsókna og þróunar samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, en markmið laganna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Lögin heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneyti en framkvæmd er á vegum ýmissa aðila, m.a. Tækniþróunarsjóðs.
     c.      Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ), en fjölþætt starfsemi hennar felst í að miðla þekkingu og veita stuðningsþjónustu fyrir frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki, stunda tæknirannsóknir, þróun, greiningar, prófanir, mælingar og vottanir.
     d.      Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, en hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
    Nýverið voru kynnt áform um stofnun Kríu frumkvöðlasjóðs sem hefur þann tilgang að vera hvati vísifjárfestinga (e. Venture Capital). Kría frumkvöðlasjóður er hugsaður sem hvatasjóður sem fjárfestir í vísisjóðum sem mun auka aðgengi að fjármagni og tryggja samfellu í fjármögnunarumhverfi frumkvöðla og nýsköpunar.
    Að auki koma stofnanir og stuðningskerfi á vegum annarra ráðuneyta að nýsköpun og má þar nefna Byggðastofnun og Íslandsstofu.
    Hér á eftir er farið yfir þróun framlaga eftir landshlutum eftir því sem unnt er.

a. Tækniþróunarsjóður.
    Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Á tímabilinu 2009–2018 voru greiddir styrkir að fjárhæð alls 13.481.349 þús. kr. og má sjá skiptingu eftir landshlutum í töflu 1. Flestar umsóknir í sjóðinn eru af höfuðborgarsvæðinu, en árangurshlutfall er breytilegt milli landshluta og Vestfirðir skora hæst.


Tafla 1. Fjöldi og hlutfall umsókna og styrkja eftir landshlutum 2009–2018.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Til viðbótar má nefna að tveir samkeppnissjóðir, AVS-rannsóknasjóður í sjávarútvegi (aukið virði sjávarfangs) og Framleiðnisjóður landbúnaðarins, heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en stór hluti styrkja úr þeim sjóðum er nýttur til nýsköpunar. Hér má vísa til úttektar Daða Más Kristóferssonar á dreifingu styrkja eftir landshlutum á árunum 2014–2018 sem aðgengileg er á vefslóðinni: www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=31b33f62-e5d8-11e9-944d-005056bc4d74     Myndin hér á eftir sýnir skiptingu framlaga úr sjóðunum tveimur eftir landshlutum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


b. Styrkir til nýsköpunarfyrirtækja (R&Þ).
    Lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, með endurgreiðslum skatta tóku gildi í janúar 2010 og fyrstu endurgreiðslur voru árið 2011 vegna kostnaðar sem féll til 2010. Engar framhaldsumsóknir voru leyfðar fyrsta árið. Lögum samkvæmt er lögð inn umsókn fyrir hvert verkefni þannig að fjöldi umsókna endurspeglar ekki fjölda lögaðila. Þrátt fyrir að Rannís hafi samþykkt umsókn endurgreiðslu R&Þ er ekki víst að endurgreiðsla fáist greidd. Endurskoðendur staðfesta kostnað og fylla út sérstakt eyðublað í skattskýrslu eftir að Rannís hefur tilkynnt RSK að verkefni félagsins geti notið endurgreiðslunnar. Endurgreiðslur eru greiddar af ríkisskattstjóra. Tafla 2 sýnir fjölda umsókna og endurgreiðslna á tímabilinu 2011–2018 og hlutfall umsókna sem fengu endurgreiðslu en í töflu 3 má sjá yfirlit yfir fjárhæðir endurgreiðslna í krónum.

Tafla 2. Fjöldi umsókna (S) og endurgreiðslna (E) vegna R&Þ á tímabilinu 2011–2018 í mismunandi landshlutum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Tafla 3. Endurgreiðslur vegna R&Þ eftir landshlutum (upphæðir í kr.).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Endurgreiðslur vegna R&Þ má skilgreina sem réttindasjóð þar sem þeir lögaðilar sem telja sig stunda rannsóknir og þróun og falla undir lög 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sækja um endurgreiðslu. Eins og kemur fram í töflunni eru flestar umsóknir um endurgreiðslur af höfuðborgarsvæðinu. Í öllum landshlutum gildir hins vegar að yfir 80% þeirra sem sækja um endurgreiðslur hafa erindi sem erfiði.

c. Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
    Um þróun framlaga til hennar vísast til svars við 2. tölul. fyrirspurnarinnar um fjölda stöðugilda hjá stofnuninni eftir landshlutum.

d. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.
    Sjóðurinn nýtur ekki framlaga frá ríkissjóði og ekki liggja fyrir upplýsingar um fjárfestingar hans eftir landshlutum á síðustu 10 árum.

     2.      Hver hefur verið þróunin á fjölda stöðugilda hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands síðustu 10 ár eftir landshlutum?
    Meðfylgjandi mynd sýnir fjölda stöðugilda hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á árunum 2010–2019. Stofnunin er með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akureyri, á Sauðárkróki, á Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Efsta línan sýnir heildarfjölda stöðugilda, miðlínan sýnir stöðugildi í Reykjavík og neðsta línan sýnir stöðugildi á landsbyggðinni. Heildarfjöldi stöðugilda á árabilinu 2010–2019 hefur þróast frá því að vera 99,03 stöðugildi í 78,31. Stöðugildi í Reykjavík þróuðust á sama tíma úr 86,83 stöðugildum í 72,81 og á landsbyggðinni úr 12,2 stöðugildum í 5,5 stöðugildi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     3.      Hver hefur þróunin verið utan höfuðborgarsvæðisins á fjölda stöðugilda hjá öðrum stoðstofnunum nýsköpunar, til að mynda hjá atvinnuþróunarfélögum og/eða landshlutasamtökum þar sem það á við, eða öðrum þeim sem styðja við nýsköpun?
    Atvinnuþróunarfélög og landshlutasamtök falla undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og eru því ekki á forræði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Benda má þó á „Mat á framkvæmd sóknaráætlana landshluta 2015–2019“ sem unnið var af Evris fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í maí 2019. Þar má m.a. í töflu 10 á bls. 20 skoða árangurshlutfall styrkumsækjenda eftir landshlutum, sjá vefslóðina:
www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4ca231b1-765b-11e9-943c-005056bc530c ">www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4ca231b1-765b-11e9-943c-005056bc530c
    Einnig má hér vísa í áðurnefnda úttekt Daða Más Kristóferssonar um framlag til rannsókna og nýsköpunar eftir landshlutum 2014–2018.