Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 680  —  467. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (hlutverk loftslagsráðs).

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Andri Thorsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, María Hjálmarsdóttir, Olga Margrét Cilia, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir.


1. gr.

    Í stað orðsins „fjögurra“ í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: tveggja.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. b laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: leggja fram álitsgerð um það hvort aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum uppfylli yfirlýst markmið stjórnvalda og alþjóðlegar skuldbindingar.
     b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Álitsgerð loftslagsráðs skv. g-lið 2. mgr. skal lögð fram eigi síðar en fjórum vikum eftir að aðgerðaáætlun stjórnvalda hefur verið lögð fram. Álitsgerðir loftslagsráðs skal birta opinberlega.

3. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til aukið aðhaldshlutverk loftslagsráðs gagnvart aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Jafnframt er lagt til að aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum skuli endurskoðuð eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti í stað fjögurra til að endurspegla þá brýnu þörf sem er á stigvaxandi eflingu aðgerða gegn loftslagsbreytingum.
    Samkvæmt 5. gr. b laga um loftslagsmál hefur loftslagsráð það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum. Þegar kemur að beinni aðkomu að stærri áætlunum stjórnvalda er hins vegar ekki nægjanlega skýrt hvernig það aðhald fer fram, en einna helst má þar líta til c-liðar 2. mgr. greinarinnar, þar sem segir að meðal verkefna loftslagsráðs sé að rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál. Með þessu frumvarpi er lagt til að aukið verði við verkefni ráðsins. Lagt er til að ráðið skuli rýna aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum þegar hún hefur verið lögð fram innan fjögurra vikna frá framlagningu hennar. Er þetta verklag að mörgu leyti hliðstætt því hlutverki sem fjármálaráði er falið skv. 13. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. Fjármálaráð skal meta hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi þeim grunngildum og skilyrðum sem talin eru í 2. mgr. 6. gr. og 7. gr. laga um opinber fjármál, en nýtur að öðru leyti sjálfstæðis í því hvernig staðið skuli að því mati. Með opinberri birtingu á álitsgerð fjármálaráðs er stuðlað að almennri og hlutlægri umræðu um stefnu stjórnvalda um opinber fjármál. Flutningsmenn telja að sjálfstæð og hlutlæg rýni á fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum sé mikilvægt grundvallaratriði í stefnumörkun hins opinbera og opinberri umræðu þar um.