Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 687  —  471. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á vegalögum, nr. 80/2007, með síðari breytingum (framlenging).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


1. gr.

    Í stað ártalsins „2019“ í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur: 2020.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Samkvæmt vegalögum skal Vegagerðin sjá um gerð og viðhald þjóðvega sem eru ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar. Sveitarfélög skulu hafa umsjón með sveitarfélagsvegum en það eru vegir sem teljast ekki þjóðvegir skv. 8. gr. laganna. Þegar vegalögin voru sett 2007 hófust samningaviðræður milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga um yfirfærslu vega sem ekki flokkast sem þjóðvegir samkvæmt skilgreiningu laganna til viðkomandi sveitarfélaga en þær báru ekki árangur. Í kjölfar endurskoðunar á vegalögum árið 2014 var samþykkt bráðabirgðaákvæði þar sem tilgreint er að Vegagerðinni sé heimilt að semja við sveitarfélögin um yfirfærslu vega sem færðust frá Vegagerðinni til sveitarfélaga við gildistöku laganna. Samkvæmt ákvæðinu er Vegagerðinni heimilt að annast veghald þessara vega til ársloka 2019. Vegagerðin og sveitarfélögin hafa ekki gert samning um veghaldið en Vegagerðin hefur annast veghaldið frá því að lögin voru sett.
    Með frumvarpinu er lagt til að framlengdur verði sá tími sem Vegagerðin hefur samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu til að semja við sveitarfélögin um yfirfærslu veganna frá Vegagerðinni til sveitarfélaga. Lagt er til að gildistími heimildarinnar verði lengdur um eitt ár, til ársloka 2020. Stefnt er að því að ráðuneytið, Vegagerðin, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samband íslenskra sveitarfélaga undirriti viljayfirlýsingu fyrir næstu áramót þar sem fram kemur sá vilji aðila að ljúka yfirfærslu veganna.
    Verði frumvarpið að lögum mun Vegagerðin áfram um sinn standa straum af kostnaði við veghald vega sem færðust úr flokki stofnvega þegar lögin tóku gildi þar til yfirfærslunni er lokið, þó ekki lengur en til ársloka 2020.