Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 697  —  382. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og tollalögum (úthlutun tollkvóta).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Þórhildi Þórðardóttur, Arnar Frey Einarsson og Elísabetu Önnu Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökum Íslands, Ólaf Stephensen og Pál Rúnar M. Kristjánsson, Henný Hinz og Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Breka Karlsson frá Neytendasamtökunum, Jón Magnús Jónsson, Guðmund Svavarsson og Sigmar Vilhjálmsson frá Félagi kjúklingabænda, Hörð Davíð Harðarson og Steinþór Þorsteinsson frá tollstjóra, Þorstein Sigmundsson frá Félagi eggjabænda, Gunnlaug Karlsson og Georg Ottósson frá Sölufélagi garðyrkjumanna, Gunnar Þorgeirsson og Katrínu Maríu Andrésdóttur frá Sambandi garðyrkjubænda, Geir G. Geirsson frá Svínaræktarfélagi Íslands, Sigmar Vilhjálmsson frá Félagi eggja-, svína- og kjúklingabænda, Andrés Magnússon og Benedikt S. Benediktsson frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Gunnar Dofra Ólafsson frá Viðskiptaráði Íslands, Gunnar Sigurðarson og Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum iðnaðarins, Benedikt S. Benediktsson og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Steinþór Skúlason frá Samtökum mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Félagi svínabænda, FESK – Félagi eggjabænda, svínabænda og kjúklingabænda, Landssambandi kúabænda, Landssamtökum sauðfjárbænda, Sambandi garðyrkjubænda og Sölufélagi garðyrkjumanna, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, Samtökum mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem miða að því að breyta aðferðafræði úthlutunar á tollkvótum þannig að dregið verði umtalsvert úr kostnaði þeirra sem fá úthlutað tollkvóta og koma með því ávinningi til neytenda í formi lægra vöruverðs. Þannig er lagt til að útboðsferli tollkvóta verði breytt þegar sótt er um meira magn en er í boði. Meginreglan hefur verið sú að tollkvótum er úthlutað með útboði, þar sem fyrst er úthlutað til hæstbjóðanda og svo koll af kolli þar til tollkvóta hefur verið úthlutað að fullu. Grundvallarbreytingin sem felst í frumvarpinu er sú að lægsta samþykkta verð útboðs ákvarðar verð allra annarra samþykktra og hærri tilboða. Það fyrirkomulag er nefnt jafnvægisútboð. Samhliða framangreindum breytingum er lagt til að ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara verði lögð niður.
    Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að einfalda og skýra reglur varðandi úthlutun á tollkvóta og stuðla þannig að auknu gagnsæi og fyrirsjáanleika við úthlutun tollkvóta.

Fyrirsjáanleiki fyrir framleiðendur og innflytjendur.
    Ein veigamesta breytingin sem lögð er til í frumvarpinu er að fastsetja árlega úthlutun tollkvóta. Eru tímabilin sem lögð eru til byggð á sögulegri úthlutun síðustu tíu ára. Þannig verður horfið frá því að meta hvort framboð viðkomandi vöru á innanlandsmarkaði sé nægjanlegt hverju sinni. Samhliða þessari breytingu er lagt til að ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning verði lögð niður þar sem ekki er þörf á að nefndin meti og rannsaki markaðsaðstæður hverju sinni með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Nefndinni var bent á að ráðgjafarnefndinni hefði reynst erfitt að sannreyna hvenær framboð vöru teldist ekki nægjanlegt á innanlandsmarkaði þar sem fullnægjandi upplýsingar væru vandfundnar. Í sumum tilfellum hefðu nefndinni borist misvísandi upplýsingar og erfitt væri að sannreyna að markaðsaðstæður væru þannig að skilyrði fyrir úthlutun tollkvóta væru uppfyllt.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að þó að föst úthlutun hefði í för með sér fyrirsjáanleika og skýrar reglur tæki hún ekki tillit til breytinga sem kynnu að verða á eftirspurn neytenda eða breytinga á framleiðslu eða framleiðsluháttum hérlendis. Var bent á að forsendur til fastrar tollkvótaopnunar sem byggðust á sögulegum upplýsingum mundu á endanum bresta. Því gæti festing árstíðabundinnar tollkvótaúthlutunar ekki verið óbreytanleg eða varanleg lausn. Nauðsynlegt væri að hafa áfram sveigjanleika til að bregðast við óvæntum atvikum og því væri með niðurlagningu ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning verið að fjarlægja mikilvægan varnagla.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að ganga ætti lengra varðandi tollkvóta sem ekki eru nýttir innan úthlutunartímabils og gera skylt að endurúthluta vannýttum kvótum. Þannig yrði komið í veg fyrir að úthlutun væri nýtt til að stuðla að háu verði innan lands.
    Fyrir nefndinni var lýst yfir ánægju með að ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning yrði lögð niður og bent á að markaðslögmál ættu að gilda í landbúnaði líkt og á öðrum mörkuðum. Komu jafnframt fram sjónarmið um að draga ætti úr tollvernd til að auka samkeppnisaðhald landbúnaðargreina.
    Meiri hlutinn bendir á að nauðsynlegt er fyrir bændur að markaðurinn sé fyrirsjáanlegur. Tekur meiri hlutinn þó undir að nauðsynlegt er að til staðar sé ákveðinn sveigjanleiki til að bregðast við óvæntum aðstæðum á markaði. Nauðsynlegt sé að unnt verði að bregðast við skorti og leggur meiri hlutinn áherslu á að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bregðist skjótt og örugglega við með lagasetningu í slíkum tilfellum. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að lögfesting tímabila úthlutunar sem byggist á fyrri úthlutunum geti staðið í vegi fyrir nýsköpun og taki augljóslega ekki mið af þróun á markaði og tækniþróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, t.d. fullkomnari geymsluaðferðum á grænmeti. Leggur meiri hlutinn því til þá breytingu að ráðherra skuli endurskoða bæði vörur og tímabil úthlutunar á tveggja ára fresti.

Ávinningur skili sér til neytenda.
    Eitt meginmarkmiða frumvarpsins er að sá ávinningur sem skapast með þeim takmörkuðu gæðum sem felast í tollkvótum skili sér til neytenda í formi lægra vöruverðs.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að lækkun útboðskostnaðar og svigrúm til verðlækkana væri ekki sjálfkrafa neytendum til hagsbóta. Var bent á að frjáls álagning væri á bæði heildsölu- og smásölustigi og því þyrfti meira að koma til til að tryggja að lækkunin skilaði sér.
    Meiri hlutinn bendir á að í tillögum starfshóps um endurskoðun á regluverki um úthlutun tollkvóta landbúnaðarvara hafi í þessu tilliti verið bent á að nauðsynlegt gæti reynst að hafa sérstakt eftirlit með markaðnum þegar svo umfangsmiklar breytingar eigi sér stað og nauðsynlegt sé að fylgst verði með þróun á markaði á komandi árum. Beindi starfshópurinn því m.a. til ráðherra að hann beitti sér fyrir því að fylgst yrði sérstaklega með samkeppni og verðþróun á dagvörumarkaði til að tryggja hag almennings.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að lækkun útboðskostnaðar skili sér til neytenda. Bendir meiri hlutinn á að við umfjöllun málsins hafi komið fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé að vinna að samningi við Alþýðusamband Íslands um að sinna verðlagseftirliti í kjölfar þeirra breytinga sem lagðar eru til. Beinir meiri hlutinn því til ráðherra að taka til skoðunar að fá Neytendasamtökin með í slíka vinnu.

Aukinn tollkvóti á svínasíðum.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að talið er að auknir tollkvótar mæti þörf á innanlandsmarkaði fyrir allar kjöttegundir að undanskildu svínakjöti og því sé ekki lagt til að fastsett verði tímabil fyrir aðrar kjöttegundir á lægri tollum. Með frumvarpinu er því lagt til að lögfest verði heimild ráðherra til að úthluta 400 tonna viðbótartollkvóta á svínasíðum til að mæta þörf á innanlandsmarkaði.
    Fyrir nefndinni var lýst mikilli óánægju með að lögfesta ætti 400 tonna tollkvóta á svínasíðum. Var bent á að nýlega hefði innflutningur á kjöti og unnum kjötvörum verið aukinn vegna alþjóðlegra skuldbindinga og nú væri lagt til að lögfesta enn meiri aukningu áður en að lagt hefði verið mat á þau áhrif sem hin fyrri aukning hefði haft á rekstrarumhverfi innlendra framleiðslufyrirtækja. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að óljóst væri hvort það stæðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að búa til sérstakan viðbótarkvóta fyrir svínasíður.
    Meiri hlutinn bendir á að mikilvægt er að gæta að starfsskilyrðum svínabænda í ljósi yfirvofandi breytinga á starfsumhverfi þeirra. Telur meiri hlutinn rétt að fylgst verði með þróun starfsumhverfis þeirra í ljósi breytinganna sem lagðar eru til og svínabændum gefið tækifæri til að aðlaga starfsemi sína og skapa svigrúm til vaxtar til að mæta þörfum neytenda á innanlandsmarkaði. Meiri hlutinn bendir á að í haust var tollskrárnúmeri, sem svínasíður heyrðu undir, skipt frekar upp og eru svínasíður nú á sérstöku númeri. Því kunni að vera að innflutningstölur síðustu ára gefi ekki rétta mynd af raunverulegri þörf innanlandsmarkaðar á svínasíðum þar sem þær hafi ekki verið sundurliðaðar með nákvæmum hætti. Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að viðbótartollkvóti fyrir svínasíður verði felldur brott.

Tímabil árstíðabundinna landbúnaðarvara.
    Fyrir nefndinni var lýst yfir mikilli óánægju með þau tímabil sem árstíðabundnar landbúnaðarvörur verða á lægri tollum eða án tolla. Var bent á að starfsskilyrði þeirra sem eru í framleiðslu á útiræktuðu grænmeti væru erfið enda hefði markaðshlutdeild þeirra minnkað á undanförnum árum. Fyrir nefndinni komu jafnframt fram þau sjónarmið að innlend framleiðsla gæti annað eftirspurn á markaði utan þeirra tímabila sem lögð eru til í frumvarpinu.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að taka tillit til framangreindra sjónarmiða og leggur því til breytt tímabil opnunar á blómkáli, hvítkáli, gulrótum, næpum, rauðkáli, kínakáli, selju og spergilkáli. Er jafnframt lagt til að opnun vegna kartaflna með tollskrárnúmeri 0701.9009 og gulrófna með tollskrárnúmeri 0706.9001 verði felld brott.

Eftirfarandi tafla sýnir þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar leggur til á tímabilum í árstíðabundnum landbúnaðarvörum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Endurskoðun á tímabilum og magni.
    Með frumvarpinu eru gerðar umtalsverðar breytingar á úthlutun og fyrirkomulagi tollkvóta.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að langtímainnkaup á íslenskum matvælum gengju ekki upp í ljósi takmarkaðs eða óstöðugs framboðs og því væru fyrirtæki tilneydd að beina sjónum sínum að innfluttum matvælum. Var bent á að hætt væri við að háir tollar sköðuðu innlenda framleiðslu með óbeinum hætti. Sé innflutt vara of dýr í innkaupum verður eftirspurn eftir henni takmörkuð og getur með tíð og tíma útrýmt áhuga veitingamanna á að bjóða slíkar vörur. Því sé nauðsynlegt að tryggja vöruframboð.
    Meiri hlutinn bendir á að óljóst er hvernig þau tímabil sem lögð eru til varðandi árstíðabundnar landbúnaðarvörur reynist. Hið sama gildi um þróun innanlandsneyslu á svínakjöti, nautakjöti og alifuglakjöti. Ljóst er að um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir framleiðendur, innflytjendur og neytendur. Telur meiri hlutinn því nauðsynlegt að í upphafi árs 2021 verði tímabilin endurskoðuð með hliðsjón af reynslu af hinu nýja fyrirkomulagi. Beinir meiri hlutinn því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hlutast til um slíka endurskoðun.
    Meiri hlutinn ítrekar breytingartillögu sína um að ráðherra skuli endurskoða vörur og tímabil úthlutunar á tveggja ára fresti og leggur áherslu á að við það endurmat verði m.a. litið til þróunar á innlendri framleiðslu og innanlandsneyslu.

Þróun tollverndar.
    Í frumvarpinu eru gerðar umfangsmiklar breytingar og horfið frá núverandi fyrirkomulagi við úthlutun tollkvóta. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að fylgst verði náið með áhrifum breytinganna á tollvernd, sem ætlað er að vernda innlenda framleiðslu og jafna aðstöðumun innlendra framleiðenda gagnvart erlendum framleiðendum.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að ráðherra skuli skipa starfshóp sem falið verði að fylgjast með þróun tollverndar vegna framangreindra breytinga. Starfshópurinn skili af sér skýrslu í ársbyrjun 2022.

Samráð við hagsmunaaðila um markaðsaðstæður.
    Nefndinni var bent á að tekið hefði verið til sérstakrar athugunar hvort unnt væri að mæla fyrir um heimild ráðherra, í stað skyldu til að úthluta framangreindum tollkvóta í svínasíðum þegar markaðsaðstæður væru með þeim hætti. Sú athugun hefði leitt í ljós að slíkt fyrirkomulag stæðist líklega ekki kröfur stjórnarskrár þar sem ráðherra væri í raun falið vald til að lækka skatta við tilteknar aðstæður sem yrðu að teljast matskenndar.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að virkt og öflugt samráð sé milli stjórnvalda og hagaðila um markaðsaðstæður hverju sinni. Beinir meiri hlutinn því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að koma á fót samráðsvettvangi stjórnvalda og fulltrúum innflytjenda, framleiðenda, verslunar og neytenda í því skyni að unnt verði að bregðast fljótt við, t.d. ef útlit er fyrir að skortur verði á tilteknum vörum. Bendir nefndin á að gagnasöfnun Matvælastofnunar hefur tekið breytingum til batnaðar á síðastliðnum árum sem auðveldar hagaðilum að greina markaðsaðstæður tímanlega svo að unnt sé að bregðast við breyttum aðstæðum.
    Með vísan til alls framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. gr. orðist svo:
                      65. gr. A laganna orðast svo:
                      Eftirtaldar vörur sem falla undir viðauka IVA, IVB og V við tollalög bera toll skv. 3. mgr. 12. gr. tollalaga, nr. 88/2005, á þeim tímabilum sem kveðið er á um í eftirfarandi upptalningu:
                  1.      Vörur með tollskrárnúmerunum 0208.9003, 0208.9007, 0208.9008, 0208.9009, 0407.1100, 0407.1900, 0603.1202, 0603.1905, 0701.9001, 0703.9001, 0706.9002 og 0709.5100 frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.
                  2.      Vörur með tollskrárnúmerunum 0704.1000 og 0709.4000 frá 1. janúar til 15. ágúst og 15. október til 31. desember ár hvert.
                  3.      Vörur með tollskrárnúmerinu 0704.9001 frá 1. janúar til 31. júlí ár hvert.
                  4.      Vörur með tollskrárnúmerinu 0706.1000 frá 15. apríl til 30. júní ár hvert.
                  5.      Vörur með tollskrárnúmerinu 0704.9002 frá 1. janúar til 31. júlí og 1. til 31. desember ár hvert.
                  6.      Vörur með tollskrárnúmerunum 0704.9003 og 0704.9004 frá 1. janúar til 30. júní og 15. október til 31. desember ár hvert.
                      Ráðherra skal á tveggja ára fresti endurmeta framangreindar vörur og tímabil og eftir atvikum leggja til breytingar.
     2.      Við 4. gr. bætist nýr liður sem orðist svo: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Ráðherra skal skipa starfshóp sem falið verði að fylgjast með þróun tollverndar í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru á framkvæmd úthlutunar tollkvóta og tóku gildi 1. janúar 2020 og meta áhrif þeirra breytinga. Starfshópurinn skili ráðherra skýrslu í ársbyrjun 2022.

Alþingi, 10. desember 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Njáll Trausti Friðbertsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.