Ferill 316. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 703  —  316. mál.
Leiðrétting, áheyrnarfulltrúi.

2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007, með síðari breytingum (smáskipaviðmið og mönnunarkröfur).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eggert Ólafsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Heiðmar Guðmundsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Guðmund Guðmundsson frá Samtökum atvinnulífsins, Einar K. Guðfinnsson frá Samtökum fiskeldisstöðva, Árna Bjarnason frá Félagi skipstjórnarmanna, Guðmund Helga Þórarinsson frá Félagi vélstjóra og málmiðnaðarmanna og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Félagi skipstjórnarmanna, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómannasambandi Íslands.

Almennt.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á skilgreiningu hugtaksins „smáskip“ í lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa þannig að til smáskipa teljist skip sem eru 15 metrar að skráningarlengd eða styttri í stað 12 metra áður. Samhliða er lögð til breyting á 12. gr. laganna er kveður á um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum, með það að markmiði að einfalda reglur um mönnun, þannig að þær taki einungis mið af lengd skips. Verði frumvarpið að lögum þarf því að huga að breytingum á menntunarkröfum til þeirra sem hafa réttindi á 12 metra skip til að brúa bilið að 15 metra skipum með endurskoðun á reglugerð nr. 175/2008 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi og því er í frumvarpinu lagt til að breytingarnar taki ekki gildi fyrr en 1. september 2020 svo að unnt sé að undirbúa þær.

Öryggi áhafna og réttindi.
    Á fundum nefndarinnar komu fram skiptar skoðanir á efni frumvarpsins. Var þar aðallega lýst áhyggjum af öryggi í tengslum við fækkun í áhöfn smáskipa sem og því að vélavarsla skipa frá 12 metrum og upp í 15 metra skráningarlengd væri færð í land á grundvelli þjónustusamninga. Einnig komu fram sjónarmið um að það væri vart gerlegt að gera við bilanir um borð í nýrri skipum vegna flókins vélbúnaðar þeirra. Fram kom að þeim sem hafa réttindi á 12 metra skip er heimilt að starfa á vinnuskipum sjókvíaeldis allt að 15 metrum, eftir að hafa setið viðbótarnámskeið, sbr. reglugerð nr. 175/2008 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi. Mikilvægt væri að skýra að þau námskeið væru ekki nægileg til réttinda á önnur 15 metra skip. Jafnframt var bent á að afmarka mætti breytingu upp í 15 metra við dagróðrabáta í skilningi laga um stjórn fiskveiða, þannig að þau skip sem féllu undir breytinguna væru aldrei lengur úti en 24 tíma í einu.
    Nefndin áréttar að óháð breytingum sem leiðir af lögfestingu þessa frumvarps þurfi að tryggja að fjöldi í hverri áhöfn smáskipa samræmist vinnuálagi í hverjum róðri og hvíldartímaákvæði séu virt í hvívetna, sbr. ákvæði kjarasamninga og 5. mgr. 12. gr. laganna sem segir að við mönnun, vinnu- og hvíldartíma skuli m.a. tekið mið af 64. gr. sjómannalaga. Nefndin telur mikilvægt að við endurskoðun reglugerðarinnar verði vandað til breytinga á þeim kröfum sem gerðar verða um menntun og reynslu.

Starfshópur.
    Nefndin beinir því til ráðherra að skipa starfshóp um útfærslu þeirra breytinga sem gera þurfi á reglugerðinni og í hann verði m.a. skipaðir fulltrúar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Samgöngustofu, Tækniskólanum og Slysavarnaskóla sjómanna. Nefndin áréttar að öryggismál áhafna skuli höfð í fyrirrúmi við þær breytingar.
    Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Hanna Katrín Friðriksson og Jón Gunnarsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.


Alþingi, 12. desember 2019.

Bergþór Ólason,
form.
Jón Gunnarsson,
frsm., með fyrirvara.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson,
með fyrirvara.
Karl Gauti Hjaltason.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason. Orri Páll Jóhannsson.