Ferill 304. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 704  —  304. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um viðbrögð við aðvörun Evrópska kerfisáhætturáðsins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa á hinum verðtryggða hluta íbúðalánamarkaðarins til að bregðast við aðvörun Evrópska kerfisáhætturáðsins (ESRB) frá 27. júní sl. um veikleika á íslenskum íbúðalánamarkaði sem taldir eru geta ógnað fjármálastöðugleika, sem er einkum há skuldsetning íslenskra heimila í hlutfalli við tekjur vegna mikillar útbreiðslu verðtryggðra jafngreiðslulána til langs tíma?

    Evrópska kerfisáhætturáðið (ESRB) birti nýlega ítarlega skýrslu um veikleika á húsnæðismarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu. Á grundvelli hennar sendi ráðið viðvörun til Íslands í september sl. Fjögur önnur lönd, þ.e. Frakkland, Noregur, Tékkland og Þýskaland, fengu sams konar viðvörun og sex lönd fengu ábendingar byggðar á skýrslunni. Stjórnvöldum var boðið að bregðast við viðvöruninni og birtist svar fjármála- og efnahagsráðherra í stjórnartíðindum Evrópusambandsins samhliða viðvöruninni.
    Viðvörunin beinist að veikleikum á markaði með íbúðarhúsnæði hér á landi sem kunni, til meðallangs tíma, að valda fjármálalegum óstöðugleika með tilheyrandi áhrifum á raunhagkerfið. Frá sjónarhóli þjóðhagsvarúðar telur ESRB helstu veikleikana vera mikil skuldsetning íslenskra heimila í hlutfalli við tekjur þeirra og mögulegt ofmat á fasteignaverði.
    Í viðvöruninni er mikil skuldsetning íslenskra heimila m.a. útskýrð með útbreiðslu verðtryggðra jafngreiðslulána og þar fjallað um kosti og galla þeirra, sjá t.d. lið 8.b í viðvöruninni. Þar segir að verðtryggð jafngreiðslulán geti bæði aukið og dregið úr viðnámsþrótti heimila. Þegar verðbólga er mikil eru áhrif á greiðslubyrði heimila til skamms tíma minni hjá þeim sem skulda verðtryggð jafngreiðslulán en þeirra sem skulda óverðtryggð lán. Til lengri tíma gætu heimili sem skulda verðtryggð jafngreiðslulán hins vegar þurft að draga meira úr neyslu en heimili með óverðtryggð lán. ESRB leggur til í viðvöruninni að íslensk stjórnvöld skoði hvort tilefni og aðstæður séu til þess að setja reglur um hámark skuldahlutfalls heimila, þ.e. hlutfalls skulda af tekjum. Fjármálaeftirlitið hefur í hyggju að senda út umræðuskjal um viðvörunina og tillögu ESRB til þeirra sem málið varðar.
    Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við viðvöruninni er rakið til hvaða aðgerða stjórnvöld hafa þegar gripið til að draga úr áhættu á fasteignamarkaði. Má þar nefna hámark veðsetningarhlutfalls og heimildir til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á fasteignalán, sem dregur úr þeirri eiginfjáráhættu sem fylgir löngum verðtryggðum jafngreiðslulánum. Þá er bent á að reglur um greiðslumat og lánshæfismat lántaka sem gilda hér á landi séu mildar takmarkanir sem þjóni svipuðum tilgangi og reglur um hámark skuldahlutfalls. Í svarinu var einnig fjallað um frumvarp ríkisstjórnarinnar þar sem fram koma þrjár fyrstu aðgerðirnar í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um markviss skref til afnáms verðtryggingar frá 3. apríl 2019. Meðal þeirra aðgerða er einmitt að stytta hámarkstíma verðtryggðra jafngreiðslulána í 25 ár og draga þannig úr útbreiðslu þessarar tegundar lána með löngum lánstíma.
    Í þessu sambandi er einnig ástæða til að benda á styrkleika íslensks húsnæðismarkaðar og efnahagsreikninga heimila sem hefur farið vaxandi undanfarin misseri. Um þessar mundir er skuldahlutfall íslenskra heimila í sögulegu lágmarki, sparnaðarstigið það hæsta sem hefur mælst og efnahagsreikningar þeirra hafa þar af leiðandi aldrei verið jafn sterkir. Skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafa lækkað töluvert frá hápunkti sínum árið 2010 og voru rétt rúmlega 150% í lok árs 2018. Sama hlutfall fyrir eingöngu þann hóp sem skuldar vegna íbúðahúsnæðis hefur fallið úr tæplega 400% í rétt rúm 250% frá 2010 til 2018. Í lok júní 2019 voru skuldir heimila 76% af landsframleiðslu og var raunárvöxtur skulda 4,1% á þeim tíma. Veðsetningarhlutföll á skattframtölum einstaklinga hafa farið lækkandi og vanskil hafa ekki aukist að ráði þrátt fyrir versnandi horfur. Vinsældir óverðtryggðra lána hafa aukist nokkuð síðastliðin misseri og er nú svo komið að um fjórðungur af öllum skuldum heimilanna er óverðtryggður. Á fyrstu átta mánuðum ársins var hlutfall óverðtryggðra útlána um 76% af hreinum nýjum lánum heimilanna, en voru 67% á árinu 2018. Hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum hér á landi er lágt í samanburði við hin Norðurlöndin, Þýskaland og Bretland, þrátt fyrir að íbúðaeign sé almennt útbreiddari hér.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.