Ferill 319. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 721  —  319. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Arnar Þór Sævarsson, Ástu Margréti Sigurðardóttur, Áslaugu Árnadóttur, Bjarnheiði Gautadóttur, Gissur Pétursson, Gunnhildi Gunnarsdóttur, Lísu Margréti Sigurðardóttur og Rún Knútsdóttur frá félagsmálaráðuneytinu, Björn Karlsson, Jóhann Ólafsson og Ragnhildi Sif Hafstein frá Mannvirkjastofnun, Hermann Jónasson, Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur, Þorstein Arnalds og Sigrúnu Þorleifsdóttur frá Íbúðalánasjóði, Steinþór Darra Þorsteinsson og Hermann Sigurðsson frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Björk Sigurgísladóttur og Andrés Þorleifsson frá Fjármálaeftirlitinu, Tryggva Þórhallsson og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrannar Má Gunnarsson frá BSRB og Magnús M. Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands.
    Umsagnir bárust frá Ajour Íslandi ehf., Akraneskaupstað, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bjargi íbúðafélagi, Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, BSRB, Félagi slökkviliðsstjóra á Íslandi, Fjármálaeftirlitinu, Hagstofu Íslands, Inspectionem ehf., Íbúðalánasjóði, Íslenska byggingavettvanginum, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Mosfellsbæ, Norðurþingi, OneSystem Íslandi ehf, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum rafverktaka, Seðlabanka Íslands, Stefáni Ómari Jónssyni, Sveitarfélaginu Skagafirði, Verkfræðingafélagi Íslands og Viðskiptaráði Íslands.

Efni og markmið frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að Íbúðalánasjóði verði skipt upp og að verkefni sem snúa að útgáfu skuldabréfa Íbúðalánasjóðs (HFF-bréfa), eldri lánastarfsemi og fjárstýringu eigna utan lánasafns verði í höndum sjóðsins sem fái nafnið ÍL-sjóður. Komið verði á fót nýrri stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, og til hennar flytjist verkefni Mannvirkjastofnunar og verkefni þess hluta Íbúðalánasjóðs sem skilinn verður frá ÍL-sjóði.
    Þá er lagt til að settur verði á fót Húsnæðissjóður sem taki við þeim eignum og réttindum Íbúðalánasjóðs sem ekki verða eftir í ÍL-sjóði. Hlutverk Húsnæðissjóðs verði að fjármagna lánveitingar og þann hluta af rekstri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem varða verkefni sem mælt er fyrir um í lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998. Húsnæðissjóður verði í umsýslu nýrrar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
    Markmiðið með uppskiptingu verkefna Íbúðalánasjóðs er m.a. að draga úr áhættu ríkisins vegna aukinna uppgreiðslna hjá Íbúðalánasjóði og gera stofnuninni kleift að sinna betur lögbundnum verkefnum sínum með því að skilja aðra starfsemi sjóðsins að fullu frá fjárstýringu og eignaumsýslu.
    Markmiðið með sameiningu stofnananna er m.a. að efla stjórnsýslu, stefnumótun og framkvæmd húsnæðis- og mannvirkjamála hér á landi, skerpa á stjórnsýslu byggingarframkvæmda og hagræða í rekstri hins opinbera með samþættingu verkefna og fækkun stofnana sem og að auka samstarf við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila á sviði húsnæðismála.
    Samhliða frumvarpinu lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs (381. mál) sem er til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd.

Aukin skilvirkni og heildarsýn yfir málaflokkinn.
    Meðal sjónarmiða sem búa að baki sameiningu stofnananna er að ein stofnun hafi heildarsýn yfir málaflokk húsnæðis- og mannvirkjamála. Stofnunin mun fást við mörg ólík verkefni, eftirlitshlutverk Mannvirkjastofnunar á sviði á byggingarmála, rafmagnsöryggismála og brunavarna auk stjórnar og framkvæmdar húsnæðismála og laga um húsnæðisbætur.
    Líkt og rakið er í samráðskafla greinargerðar komu við samningu frumvarpsins fram áhyggjur af því að sameining stofnananna mundi leiða til þess að minni áhersla yrði lögð á brunavarnir og eftirlit með byggingariðnaði og rafmagnsöryggi. Þær áhyggjur komu einnig fram við umfjöllun nefndarinnar. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að starfshópur sem falið var að kanna fýsileika sameiningar stofnananna leit m.a. til þess hvort ástæða væri til þess að skipta Mannvirkjastofnun upp og færa tiltekna eftirlitsþætti yfir til annarra stofnana sem heyra undir félagsmálaráðuneytið. Var í því sambandi sérstaklega horft til Vinnueftirlitsins. Niðurstaða starfshópsins var sú að skynsamlegast væri að öll lögbundin verkefni Mannvirkjastofnunar yrðu flutt í sameinaða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
    Meiri hlutinn tekur undir það að með sameinaðri stofnun megi stefna að aukinni skilvirkni í stjórnsýslu framangreindra málaflokka. Heildarsýn yfir málaflokkinn auðveldar stjórnvöldum að móta stefnu til framtíðar, vinna áætlanir og samræma stjórnsýslu húsnæðis- og mannvirkjamála. Með þeim húsnæðisgrunni og rafrænni byggingargátt er einnig stigið mikilvægt skref í miðlægri upplýsingaöflun og byggingarfulltrúum gefið færi á að samræma verklag sitt með skilvirkari leiðum en áður.

Öryggis- og eftirlitshlutverk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
    Til þess að þau samlegðaráhrif sem stefnt er að með sameiningunni náist er mikilvægt að vandað verði til verka við sameininguna. Leggja þarf áherslu á að sú þekking sem er til staðar innan Mannvirkjastofnunar flytjist inn í nýja stofnun og að hagræðið sem hlýst af sameiningunni verði ekki á kostnað öryggis.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom m.a. fram að aukin verkefni slökkviliðsins, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna, hefðu kallað á aukið eldvarnaeftirlit og aukin viðbrögð við stórbrunum, bílslysum, umfangsmeiri gróðureldum og auknum kröfum í reglugerð um starfsemi slökkviliða. Þá var bent á að mörg sveitarfélög hefðu ekki sett sér brunavarnaáætlanir. Meiri hlutinn leggur áherslu á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi burði til að knýja á um að það verði gert.
    Þá telur meiri hlutinn ástæðu til að bregðast við þeirri athugasemd í umsögn Mannvirkjastofnunar að í ákvæðum um hlutverk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, eins og það er afmarkað í 2. mgr. 1. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 2. gr., sé þess ekki getið að stofnunin eigi að sinna stjórnsýsluverkefnum á sviði rafmagnsöryggis. Leggur meiri hlutinn því til að þess verði sérstaklega getið að stofnunin sinni þeim verkefnum. Þá fellst meiri hlutinn einnig á þær breytingar sem Mannvirkjastofnun leggur til á 3. gr. frumvarpsins, nánar tiltekið að vísað verði til laga um timburvörur og laga um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum. Telur meiri hlutinn það einnig rétt, sem Mannvirkjastofnun bendir á, að fella megi brott vísun til reglugerðar um starfsemi slökkviliða, enda eigi hún stoð í lögum um brunavarnir.
    Þá bendir meiri hlutinn á að 2. mgr. 1. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins eru samhljóða. Leggur meiri hlutinn því til að 2. mgr. 1. gr. falli brott.

Húsnæðisgrunnur og byggingagátt.
    Í 15. gr. frumvarpsins er fjallað um húsnæðisgrunn og byggingagátt. Í húsnæðisgrunni er lagt til að haldið verði utan um gögn og upplýsingar um húsnæðismál. Þá segir að stofnunin skuli starfrækja rafræna byggingagátt sem sveitarfélög skuli nota við útgáfu byggingarleyfa og framkvæmd stjórnsýslu byggingarmála, auk þess að halda utan um upplýsingar um mannvirki og mannvirkjagerð um land allt.
    Á fundum nefndarinnar og í umsögnum var lýst sjónarmiðum þess efnis að lögbundin skylda til þess að nota rafræna byggingagátt kynni að vera íþyngjandi fyrir sveitarfélög, sem og fyrirtæki sem hannað hafa skjalakerfi fyrir byggingarfulltrúa. Aðrir umsagnaraðilar lýstu því að ekki hefði náðst fullnægjandi árangur í því að samræma verklag byggingarfulltrúa og að upplýsingar um stöðu byggingarmála væru ekki aðgengilegar á einum stað. Með rafrænni byggingagátt gæti stofnunin betur samræmt verklag, sinnt samstarfi við sveitarfélög og haft samráð við hagsmunaaðila á fagsviðum stofnunarinnar.
    Meiri hlutinn hvetur félagsmálaráðuneytið og sameinaða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til að huga vel að innleiðingu byggingagáttarinnar, m.a. með viðeigandi aðstoð til sveitarfélaga við innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu.
    Í umsögn Hagstofunnar bendir stofnunin á að skv. 1. mgr. 6. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007, skuli stjórnvöld sem afla gagna og halda skrár eða gagnasöfn vegna starfsemi sinnar veita Hagstofunni upplýsingar úr þeim sem hún óskar eftir vegna hagskýrslugerðar sinnar og án þess að gjald komi fyrir. Leggur stofnunin til að hnykkt verði á því í frumvarpinu að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skuli láta Hagstofunni í té gögn og upplýsingar úr gagnagrunnunum án þess að gjald komi fyrir. Meiri hlutinn bendir á að ákvæði laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð eru skýr um að Hagstofunni skuli veittar þær upplýsingar sem hún óskar eftir vegna hagskýrslugerðar án endurgjalds, þar á meðal upplýsingar úr húsnæðisgrunni og byggingagátt. Telur meiri hlutinn því ekki ástæðu til þess að tilgreint verði sérstaklega að þær upplýsingar skuli veita án endurgjalds í lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Skilvirkni kæruleiða á sviði húsnæðis- og mannvirkjamála.
    Í umsögn Samtaka iðnaðarins koma fram áhyggjur af því að við sameiningu stofnananna kunni að skapast vafi um kæruleiðir þeirra stjórnvaldsákvarðana sem hin nýja stofnun tekur. Meiri hlutinn bendir í því sambandi á að ekki eru lagðar til neinar breytingar á þeim kæruleiðum sem gildandi lög mæla fyrir um. Í því sambandi vísar meiri hlutinn til 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem segir m.a. að við birtingu stjórnvaldsákvörðunar skuli veita leiðbeiningar um kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld, svo og hvert skuli beina kæru. Sinni Húsnæðis- og mannvirkjastofnun því hlutverki ættu þeir sem eiga aðild að kærumáli ekki að vera í vafa um kæruheimildir sínar.
    Að auki leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

    Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 11. desember 2019.

Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson. Ásmundur Friðriksson.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Vilhjálmur Árnason.