Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 731  —  449. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Guðmundsson ráðuneytisstjóra og Fanneyju Óskarsdóttur frá dómsmálaráðuneyti og Guðmund Þór Guðmundsson frá Biskupsstofu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
    Forsaga málsins er að 6. september sl. undirrituðu fulltrúar íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar viðbótarsamning um endurskoðun á kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997 og samningi frá 1998 um nánari útfærslu á kirkjujarðasamkomulaginu. Með viðbótarsamningnum fellur samningurinn frá 1998 brott en kirkjujarðasamkomulagið heldur gildi sínu með þeim breytingum sem felast í viðbótarsamningnum.
    Viðbótarsamningurinn er liður í að auka sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum. Samningurinn gerir m.a. ráð fyrir því að þjóðkirkjan beri fulla ábyrgð á eigin fjármálum og ákveði sjálf fjölda starfsmanna sinna og annist alla launavinnslu, bókhald og launagreiðslur. Í samningnum er miðað við að þjóðkirkjan taki yfir launamál allra sinna starfsmanna frá 1. janúar 2020. Það er því ljóst að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru nauðsynleg forsenda fyrir framkvæmd samningsins.
    Að mati meiri hluta nefndarinnar er mikilvægt að tryggja að ákvæði samningsins komist til framkvæmda. Í kjölfarið geti farið fram vinna við að einfalda og uppfæra lagaumhverfi þjóðkirkjunnar sem endurspegli þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa á undanförnum árum.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að viðbótarsamningurinn felur ekki í sér nýjar skuldbindingar af hálfu ríkisins. Samningurinn felur í sér að gagngjaldið sem kirkjujarðasamkomulagið kveður á um er skilgreint með öðrum hætti en áður en ekki til lækkunar eða hækkunar.
    Meiri hlutinn hefur að öðru leyti engar efnislegar athugasemdir við frumvarpið en leggur til smávægilegar breytingar tæknilegs eðlis.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Í stað orðanna „I. kafla laga um trúfélög, nr. 18/1975“ í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: ákvæðum laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999.
     2.      Á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Í stað orðanna „prests- og predikunarembætti“ í 2. málsl. 34. gr. laganna kemur: prests- og predikunarstarfi.

Alþingi, 13. desember 2019.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Birgir Ármannsson. Steinunn Þóra Árnadóttir. Þórarinn Ingi Pétursson.