Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 739  —  17. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um 300 þús. kr. lágmarksframfærslu almannatrygginga.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands og Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp.
    Umsagnir bárust frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að félags- og barnamálaráðherra verði falið að undirbúa og leggja fram frumvarp þess efnis að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi 300 þús. kr. lágmarksframfærslu á mánuði, skatta- og skerðingarlaust.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að yfir stendur endurskoðun á almannatryggingakerfinu og eru vonir bundnar við að afurðir þeirrar vinnu líti bráðum dagsins ljós. Þess utan má nefna að settir hafa verið til hliðar fjármunir í kerfisbreytingar í bæði fjárlögum og fjármálaáætlun til að draga úr skerðingum á örorkulífeyri. Munu fjórir milljarðar kr. renna í það verkefni á komandi ári. Meðal annarra breytinga sem gerðar hafa verið undanfarin ár er að dregið hefur verið úr hinni svokölluðu krónu á móti krónu skerðingu. Þá hafa komugjöld aldraðra og öryrkja á heilsugæslu verið felld niður og vegna nýtilkominna breytinga er tannlæknaþjónusta við langveika aldraða og öryrkja á stofnunum þeim nú að kostnaðarlausu.
    Bendir meiri hlutinn á að tillögunni fylgir ekkert kostnaðarmat en miðað hefur verið við að kostnaðurinn vegna slíkrar breytingar gæti hlaupið á tugum milljarða kr. Ljóst er að ekki er svigrúm til slíkrar útgjaldaaukningar í fjármálaáætlun.
    Á fundi nefndarinnar kom fram það sjónarmið að með tillögunni væri verið að mismuna launafólki annars vegar og öryrkjum og öldruðum hins vegar. Þá kom einnig fram að atvinnuleitendur og námsmenn væru oft og tíðum í svipaðri stöðu og þeir sem tillagan ætti að ná til og því væri ómögulegt að fara þá leið sem lögð er til í tillögunni.
    Í öllum kerfisbreytingum sem innleiddar hafa verið síðustu ár hefur það verið haft að leiðarljósi að þær nýtist þeim tekjulægstu best. Þannig má nefna að þegar nýsamþykktar tekjuskattsbreytingar verða að fullu komnar til framkvæmda mun tekjuskattur einstaklings með lágmarkstekjutryggingu lækka um rúmar 90 þús. kr. á ári.
    Þingsályktunartillagan tekur einungis til örorku-, endurhæfingar- og ellilífeyrisþega en ekki annarra hópa eins og atvinnulausra, fólks í fæðingarorlofi eða vinnandi fólks. Þannig eru miklar efasemdir um að umrædd tillaga standist jafnræðisregluna. Ekki hafa verið færð rök fyrir því að taka skuli þessa hópa út fyrir sviga með svo sértækum aðgerðum.
    Þegar allt er vegið og metið er það mat meiri hlutans að ekki séu forsendur til að ráðast í þær breytingar sem lagðar eru til.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði ekki samþykkt.
    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 13. desember 2019.

Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Vilhjálmur Árnason.