Ferill 391. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 746  —  391. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum (forsendur úthlutana úr Jöfnunarsjóði).

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar gagnrýnir harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við framlagningu frumvarpsins og telur að þingleg meðferð hafi verið óviðunandi.
    Minni hlutinn bendir á að málið var opið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu 20. júní 2019 til 5. júlí 2019 og niðurstöður þess samráðs síðan birtar 29. júlí sl. Fjórum mánuðum síðar var mælt fyrir málinu á Alþingi þar sem það gekk til umhverfis- og samgöngunefndar 28. nóvember sl. Í ljósi þess skamma tíma sem þá var fram að áætlaðri þingfrestun fyrir jól var eingöngu veittur umsagnarfrestur til 9. desember. Alls bárust átta umsagnir, þar af tvær eftir tilkynntan umsagnarfrest eða 13. desember. Einu gestirnir sem boðaðir voru á fund nefndarinnar voru frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Að öðru leyti hafði nefndin ekki tök á því að bregðast við með fullnægjandi hætti og kalla alla þá fyrir nefndina sem tilefni var til.
    Minni hlutinn getur fallist á að það hafi verið mikilvægt að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar frá 14. maí 2019 í máli nr. 34/2018 þar sem íslenska ríkið var dæmt til greiðslu bóta, á grundvelli óheimils framsals löggjafarvaldsins til framkvæmdarvaldsins. Það breytir því ekki að einfalt hefði átt að vera að gefa umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis ásættanlegan tíma til að fjalla um málið. Þá styður minni hlutinn að þeim þáttum frumvarpsins er varða fjármögnun í tengslum við sameiningarmál sveitarstjórna sé frestað til næsta árs. Minni hlutinn áréttar að það sé að finna í frumvarpinu aðra þætti sem krefjast meiri umfjöllunar en þeirrar sem hér er lagt upp með og vísar þar m.a. til þess sem er lagt til um fasteignaskatta.
    Minni hlutinn ítrekar að það sé óásættanlegt að nefndir þingsins fái þingmál um mikilvæg málefni frá ríkisstjórninni til umfjöllunar með svo skömmum fyrirvara að ekki sé nægur tími til að tryggja viðunandi málsmeðferð.
    Með vísan til framangreinds getur minni hlutinn því ekki stutt framgang þessa frumvarps.

Alþingi, 16. desember 2019.

Hanna Katrín Friðriksson.