Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 748  —  449. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingar á lögum stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar).

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar var undirritaður 6. september sl. og er í frumvarpinu lagðar til lagabreytingar til að styðja við markmið samningsins, þ.e. að einfalda lagaumhverfi um fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju og fyrirkomulag á þeim greiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði.
    Viðbótarsamningurinn var undirritaður af þremur ráðherrum, biskup Íslands og forseta kirkjuþings og var hvorki borinn undir Alþingi til samþykktar né synjunar. Alþingi er þannig ekki ætluð önnur aðkoma að gerð viðbótarsamningsins en að tryggja að þær lagabreytingar sem leiði af samningnum nái fram ganga. Hins vegar bendir 1. minni hluti á að verði frumvarpið ekki að lögum væru forsendur samningsins brostnar og hann tæki ekki gildi. Enn fremur telur 1. minni hluti tilefni til að árétta að það er Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið og verður því að telja afar óheppilegt að þingið hafi ekki fengið tækifæri til að koma að tilurð samnings sem varðar svo mikla fjárhagslega hagsmuni til svo langs tíma.
    Á fundum nefndarinnar og í greinargerð með frumvarpinu koma fram sjónarmið þess efnis að með samningnum sé ekki verið að stofna til nýrra skuldbindinga af hálfu ríkisins heldur sé einungis verið að skilgreina gagngjald á annan hátt á grundvelli svonefnds kirkjujarðasamkomulags. 1. minni hluti bendir hins vegar á að í viðbótarsamningnum er kveðið á um grundvallarbreytingar frá fyrra samkomulagi. Fallið er frá því, m.a. að miða framlag ríkisins við fjölda biskupa, prófasta, presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar og auk þess er afnumin tenging framlags ríkisins við fjölgun eða fækkun meðlima þjóðkirkjunnar. Í ljósi þess að meðlimum þjóðkirkjunnar hefur fækkað stöðugt á undanförnum áratug og útlit er fyrir að sú þróun muni halda áfram og starfsmönnum muni fækka samhliða hlýtur að teljast líklegt að afnám tengingar framlags við fjölda meðlima og starfsmanna feli í sér breytingar sem að öllum líkindum muni leiða til hærri útgjalda ríkissjóðs en ella.
    Fyrsti minni hluti bendir á að fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar frá 11 þingmönnum úr fjórum þingflokkum um fullan aðskilnað ríkis og kirkju og nýja heildarlöggjöf um starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga. 1. minni hluti styður fullan aðskilnað ríkis og kirkju, þ.e. fjárhagslegan og lagalegan, og telur að margt í frumvarpinu og viljayfirlýsingu viðbótarsamningsins stuðli að slíkum aðskilnaði en telur framangreinda ágalla á viðbótarsamningnum svo veigamikla að 1. minni hluti geti ekki stutt frumvarpið og þar með á óbeinan hátt viðbótarsamning íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar.
    Að framangreindu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði ekki samþykkt.

Alþingi, 16. desember 2019.

Jón Steindór Valdimarsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.