Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 750  —  449. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar).

Frá 2. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar sem var undirritaður 6. september sl. felur í sér endurskoðun á kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997 og samningi frá 1998 um nánari útfærslu á kirkjujarðasamkomulaginu. Með viðbótarsamningnum fellur samningurinn frá 1998 brott en kirkjujarðasamkomulagið heldur gildi sínu með þeim breytingum sem felast í viðbótarsamningnum.
    Það er mat 2. minni hluta að með undirritun viðbótarsamningsins sé ríkisstjórnin að gæta hagsmuna þjóðkirkjunnar fremur en skattgreiðenda en eðlilegra væri að samningsmarkmið hennar væri að gera greiðslurnar sem samið var um með kirkjujarðarsamkomulaginu endanlegar. Það skýtur skökku við að ríkið skuli þurfa standa straum af gagngjaldi um ófyrirséða framtíð fyrir eignir sem ríkið hefur þegar fengið afhentar og greitt gjald fyrir í rúma tvo áratugi. Þá telur 2. minni hluti kirkjujarðasamkomulagið einstaklega sérkennilegt samningsfyrirkomulag og einkennilegt að stjórnvöld vilji viðhalda því.
    Standi vilji ríkisstjórnarinnar til raunverulegs aðskilnaðar ríkis og kirkju verður að ganga lengra, en slíkum aðskilnaði verður aðeins náð með afnámi stjórnarskrárverndar þjóðkirkjunnar sem og afnámi laga sem tryggja þjóðkirkjunni sérstaka stöðu umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Þá tekur 2. minni hluti fram að hann styður slíkan aðskilnað.
    Þá bendir 2. minni hluti á að takmörkuð aðkoma Alþingis að málinu skjóti skökku við. Hér er um að ræða samning sem varðar verulega hagsmuni ríkisins og skattgreiðenda. Þrátt fyrir það er Alþingi aðeins ætluð formleg aðkoma að málinu, þ.e. að staðfesta lagabreytingar sem leiðir af viðbótarsamningnum, og má færa rök fyrir því að samþykki kirkjuþings vegi að mati ríkisstjórnarinnar þyngra en samþykki Alþingis. Þinglegri meðferð málsins hafa verið settar þröngar skorður þar sem málið er seint fram komið, tími gafst ekki til að senda það í umsagnarferli og takmarkaðir möguleikar á gestakomu. Þessi vinnubrögð endurspegla að mati 2. minni hluta sérkennilegt viðhorf ríkisstjórnarinnar til málefna kirkjunnar.
    Annar minni hluti telur að einstök atriði frumvarpsins séu í sjálfu sér ágæt en í ljósi þess að frumvarpið er grundvallað á kirkjujarðasamkomulaginu sem 2. minni hluti telur bæði ómálefnalegt og ósanngjarnt sér 2. minni hluti sér ekki fært að styðja málið.
    Að öllu framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að málið verði ekki samþykkt.

Alþingi, 16. desember 2019.

Helgi Hrafn Gunnarsson.